132. löggjafarþing — 31. fundur,  28. nóv. 2005.

Faggilding o.fl.

361. mál
[18:33]
Hlusta

Margrét Frímannsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég er ekki hissa á því að hæstv. ráðherra hafi veigrað sér við að rekja frekar en hún gerði í framsögu sinni efni frumvarpsins. Stundum hafa komið inn á borð til okkar frumvörp sem eru gjörsamlega óskiljanleg. Þetta frumvarp er eitt af þeim sem ég held, með tilliti til þess sem ræða á hér á eftir, að íslensk málnefnd ætti að taka sérstaklega fyrir. Það hlýtur að vera skilyrði fyrir góðum lögum að þeir sem eftir þeim eiga að vinna og þeir sem lögin ná til, sem verða býsna margir aðilar miðað við það frumvarp sem hér er til umfjöllunar og þróunina eins og hún hefur orðið og má ætla að hún verði á næstu árum, skilji það. Æ fleiri aðilar þurfa að vinna eða a.m.k. sækja rétt sinn eftir þessu frumvarpi ef það verður að lögum.

Mig langar aðeins að grípa niður í frumvarpið, t.d. í 2. gr. þar sem talað er um skilgreiningar. Það hlýtur að vera tilgangurinn að skilgreina orðin til þess að auka skilning hv. þingmanna, hæstv. ráðherra og ég tala nú ekki um þeirra sem eiga að vinna eftir frumvarpinu, ef það verður að lögum. Þetta eru tiltölulega einföld orð, orð sem ég hefði haldið að væru til í íslensku máli og ekki þyrfti að flækja á nokkurn hátt. Í 2. gr. segir, með leyfi forseta, að prófun merki:

,,… ákvörðun eins eða fleiri eiginleika viðfangs samræmismats samkvæmt verklagsreglu.

Skoðun merkir athugun á hönnun vöru, vöru, ferli eða uppsetningu búnaðar og ákvörðun á samræmi þess við tilgreindar kröfur, eða almennar kröfur, og skal þá byggt á faglegum úrskurði.

Tilnefning merkir heimild stjórnvalds til samræmismatsaðila til að stunda tiltekna samræmismatsstarfsemi.

Tilnefndur aðili merkir aðila sem stjórnvald hefur heimilað að stunda tiltekna samræmismatsstarfsemi.

Tilkynntur aðili merkir aðila sem stjórnvöld hafa tilkynnt til Eftirlitsstofnunar EFTA, framkvæmdastjórnar ESB og annarra aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins að uppfylli viðeigandi kröfur til þess að framkvæma samræmismat og stunda samræmismatsstarfsemi samkvæmt tiltekinni tæknilegri reglugerð.

Góðar starfsvenjur við rannsóknir merkir gæðakerfi sem varðar skipulagsferlið og skilyrðin fyrir áætlun, framkvæmd, eftirlit, skráningu, gagnageymslu og skýrslugjöf að því er varðar heilbrigðis- og umhverfisöryggisrannsóknir sem eru ekki klínískar.“

Faggilding í 4. gr.:

,,Faggildingarsvið veitir faggildingu fyrir skoðunarstofur, prófunarstofur, kvörðunarstofur og vottunarstofur og annast mat á tilnefndum aðilum, þ.e. hæfni þeirra og hæfi til að starfa samkvæmt þeim lögum og reglum sem gilda á því sviði sem starfsemi hins tilnefnda aðila tekur til. Faggildingarsvið annast einnig mat á góðum starfsvenjum við rannsóknir og önnur verkefni sem kveðið er á um í lögum þessum.“

Síðan kemur í 8. gr. gjaldskráin fyrir hina flóknu þjónustu sem á að fara að veita. Þar segir, með leyfi forseta:

,,1. Umsóknar- og skráningargjald. Umsóknar- og skráningargjald er gjald fyrir upplýsingar fyrir umsókn, móttöku, skráningu, yfirferð umsóknar og fylgiskjala og stutta álitsgerð um niðurstöður fyrstu yfirferðar, svo og undirbúningsheimsókn til umsækjanda þegar það á við.

2. Faggildingargjald. Faggildingargjald er gjald fyrir mat á tilnefndum aðilum sem í er fólgið val á matsmönnum, gerð verk- og tímaáætlunar, mat á gæðakerfi og tæknilegri starfsemi umsækjanda, skýrslugerð, ákvörðun um faggildingu eða niðurstöðu mats og stjórn faggildingar eða mats á tilnefndum aðila.

3. Eftirlitsgjald. Eftirlitsgjald er gjald fyrir umsýslu við eftirlit með faggildum eða tilnefndum aðila, val á matsmönnum, gerð verk- og tímaáætlunar, mat á gæðakerfi og tæknilegri starfsemi, skýrslugerð, ákvörðun eða álitsgerð um niðurstöður og stjórn eftirlitsins.“

Í fjórða lagi á að taka gjald fyrir mat á góðum starfsvenjum við rannsóknir.

Tilkynntur aðili í 9. gr.:

,,Faggildingarsvið annast mat á hæfni og hæfi þess sem vill öðlast réttindi til þess að framkvæma samræmismat sem skylt er að framkvæma á vöru, ferli eða þjónustu í samræmi við lög og reglur sem innleiða nýaðferðartilskipanir í íslenskan rétt og gilda um hlutaðeigandi vöru, þjónustu eða ferli.“

Virðulegi forseti. Það er algjörlega með ólíkindum að hægt sé að setja fram á Alþingi lagafrumvarp sem virðist vera nánast bein þýðing og nýyrðasmíð og gera mál sem er í sjálfu sér ekkert mjög flókið þannig úr garði að það verði okkur nánast óskiljanlegt.

Ég lagði töluverða vinnu í að lesa mig í gegnum frumvarpið og greinargerðina. Vinnan á þessu er á þann veg að ég tel að nefndin sem fær það til umfjöllunar þurfi í fyrsta lagi að koma því yfir á skiljanlegt íslenskt mál og gera það þannig úr garði að allir þeir aðilar sem málið snertir geti unnið eftir því og sótt rétt sinn eftir því. Það er ekki síður þörf á því að menn geti sótt rétt sinn eftir að slík tilskipun verður leidd í lög á Íslandi — sem ég reikna með að þingflokkar stjórnarliða hafi þegar fjallað um því það er dálítið langt síðan fyrstu ákvæðin um faggildingu voru sett í íslensk lög og töluverð þróun hefur orðið í löggjöf hérlendis á sviði Evrópuréttar síðan. Stjórnvöld jafnt sem viðskiptalífið hafa notað faggildinguna. Það er að færast í vöxt. Það er nauðsynlegt fyrir okkur, ekki síst með tilliti til þess þegar við sækjum fram með vöru okkar á markað erlendis, að þarna séu samræmdar reglur, vel skiljanlegar og sem menn geta auðveldlega leitað til. Sú er ekki raunin með þetta frumvarp, virðulegi forseti. Ég furða mig á því að þessu frumvarpi skuli vera hleypt í gegnum yfirlestur á Alþingi, lestur sem hlýtur að eiga sér stað á frumvörpum eins og þessum, inn í þingsal til umfjöllunar. Þetta virkar á mann eins og verið sé að gera einfalda hluti mjög flókna.

Ég er með spurningar til hæstv. ráðherra hvað varðar sjálfstæði faggildingarstofu og þá stefnu að það beri að tryggja sjálfstæði hennar. Faggildingarstofa á samt sem áður að vera á ábyrgð íslenskra stjórnvalda. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort svo sé t.d. annars staðar á Norðurlöndunum. Ég veit að það er aðeins annað fyrirkomulag í Danmörku en spyr hvernig fyrirkomulagið er annars staðar á Norðurlöndunum. Ég vil líka spyrja um faglegt og fjárhagslegt sjálfstæði, sem á að vera tryggt fyrir faggildingarstofu, þegar u.þ.b. helmingur af fjárveitingum til hennar á að koma frá íslenska ríkinu þar til öll gjaldtakan sem ég fór yfir áðan er farin að skila sér og starfsemin að standa undir sér. Þangað til er gert ráð fyrir því, verði frumvarpið óbreytt að lögum, að 25,6 millj. kr. verði veittar til faggildingarstofu á árunum 2006–2010. Eftir þann tíma er áætlað að þessi litla stofnun, sem er með einn mann í starfi að ég held núna, og verður tveggja manna stofnun, eigi að standa undir sér. Það kemur m.a. fram einhvers staðar í greinargerð með þessu sérkennilega frumvarpi að nauðsynlegt sé að hafa tvo starfsmenn en frá 1992 hafi einn maður verið að störfum, haustið 1998 hafi annar starfsmaður verið ráðinn en þá hafi sá sem fyrir var horfið frá störfum. Þá var bara einn eftir og kemur fram í greinargerðinni að nauðsynlegt sé að ráða annan (Gripið fram í.) þar sem ekki væri talið nógu gott að hafa einn starfsmann. Til að tryggja stöðugleika í starfseminni og trúverðugleika á faggildingarsviði þurfi að starfa þar a.m.k. tveir starfsmenn. Þá er gert ráð fyrir að helmingurinn af rekstrarkostnaðinum sem reiknað er með — núna komi úr ríkissjóði um 4,1 millj. kr., ekki kemur fram hverjar sértekjur stofnunarinnar eru í dag en reiknað er með því að þær aukist. Sérstaklega held ég að það verði fróðlegt að sjá hverju gjald fyrir mat á góðum starfsvenjum við rannsóknir eigi eftir að skila þessari stofnun. Ég held að það hljóti að verða mjög fróðlegt fyrir okkur að fylgjast með því hvernig þeir tveir einstaklingar sem starfa eiga á faggildingarstofu taka að sér að skoða og meta sérstaklega góðar starfsvenjur við rannsóknir og taka fyrir það gjald.

Þetta er afar sérkennilegt frumvarp svo ekki sé meira sagt. Fyrst og fremst vegna orðalagsins og nýyrðasmíðar sem einhver hefur tekið að sér við samningu þess. Ég beini því til nefndarinnar að leggja fyrst vinnu í að breyta einstökum greinum, setja frumvarpið yfir á íslenskt mál áður en farið verður að skoða verksvið stofnunarinnar. Eins og þetta er, hér eru setningar upp á nálægt hálfa síðu, er þetta illskiljanlegt og útilokað fyrir þá sem eiga að starfa eftir frumvarpinu í framtíðinni að gera það.