132. löggjafarþing — 32. fundur,  29. nóv. 2005.

Fjáraukalög 2005.

144. mál
[13:44]
Hlusta

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil í upphafi andsvars míns fagna því að hæstv. heilbrigðisráðherra hafi látið undan þrýstingi og fellt úr gildi reglugerð um skerðingu bótagreiðslna til öryrkja og ellilífeyrisþega sem hefur verið mjög umdeild upp á síðkastið og að málið verði sett í nefnd þannig að skerðingin sem fyrirhugað var komi ekki til framkvæmda á þessu ári. En ég spyr hv. formann fjárlaganefndar hvort ekki þurfi að gera ráð fyrir því í fjáraukalögum þessa árs þannig að hægt sé að standa við ákvörðun heilbrigðisráðherra, sem ástæða er til að fagna.

Í öðru lagi vil ég spyrja hv. formann fjárlaganefndar að því hvað líði skoðun á stöðu elli- og hjúkrunarheimila. Ef nefna ætti málaflokk sem verður kerfisbundið út undan og safnar halla þá eru það einmitt elli- og hjúkrunarheimili. Það er sama hvort hallinn safnast upp hjá heimilunum sjálfum eða hjá hlutaðeigandi sveitarfélögum sem standa á bak við slík heimili. Öllum ætti að vera ljóst, það hefur a.m.k. verið rækilega kynnt fyrir okkur í fjárlaganefnd, að rekstrargrunnurinn fyrir þessi heimili er rangur og afar brýnt að hann verði leiðréttur. Jafnframt þarf að koma til móts við þann halla sem þessi heimili bera. Ég hefði einmitt talið þetta væri eitt stærsta viðfangsefni fjáraukalaga, að taka á þeim uppsafnaða halla sem elli- og hjúkrunarheimili bera og hamlar þeim í allri starfsemi. Þess sér hvergi stað í þessu áliti. Ég spyr hv. formann fjárlaganefndar: Hvers vegna ekki?