132. löggjafarþing — 32. fundur,  29. nóv. 2005.

Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

363. mál
[17:19]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Það er rétt að segja það strax í byrjun að ég lýsi yfir stuðningi mínum við það frumvarp sem hæstv. fjármálaráðherra flytur hér um að framlengja afslátt eða lækkun á svokölluðu olíugjaldi úr 45 kr. í 41 kr. frá næstu áramótum til 1. júlí nk. Það geri ég vegna þess að ég er hlynntur öllum þeim lækkunum sem hægt er að koma fram með í tengslum við olíugjaldið og þá miklu skattheimtu sem á sér stað af umferð í landinu. Ég kem kannski að því síðar. Það þarf að skoða hver þróunin á heimsmarkaðsverði á olíu hefur orðið gagnvart bensíni og öðru, sem m.a. gerði það að verkum að fyrrverandi hæstv. fjármálaráðherra, Geir H. Haarde, neyddist til þess á síðustu dögum þingsins í vor að leggja fram frumvarp þar sem þessi lækkun úr 45 kr. í 41 kr. var sett fram. Og hér leggur sem sagt núverandi hæstv. fjármálaráðherra fram frumvarp um að Alþingi samþykki framlengingu á því til 1. júlí nk. Ég endurtek að ég styð það sem hér kemur fram.

Hins vegar vil ég, virðulegi forseti, gera að umtalsefni það sem kemur fram í þessari greinargerð og hefur komið fram síðan olíugjaldsfrumvarpið var samþykkt og gert að lögum — þ.e. síðan við breyttum úr þungaskattskerfinu yfir í þetta kerfi — þá verðmyndun sem hefur verið gagnvart olíu og bensíni. Olían er orðin jafndýr og bensínið og hefur stundum verið dýrari hér á landi. Það er þveröfugt við það sem spáð var þegar við breyttum þungaskattskerfinu og tókum olíugjaldið upp. Þar var alltaf talað um að olían yrði 10–15 kr. ódýrari en bensínið. Það var talinn nauðsynlegur hvati til að auka notkun lítilla dísilbifreiða hér á landi og samræma þetta í raun og veru. Það var talið nauðsynlegt að olíulítrinn væri ódýrari vegna þess að í flestöllum tilfellum eru dísilbílar dýrari í innkaupum en bensínbílar og þeir geta líka verið dýrari í viðhaldi. Þannig að sá munur sem þar var á og leit út fyrir að yrði með upptöku olíugjaldsins hefur horfið. Eins og verðið er í dag, ég veit náttúrlega ekki hvernig verðið hefur verið í dag — en síðustu daga hefur dísillítrinn verið örfáum aurum dýrari en bensínlítrinn og þykir okkur þó nóg um núna. Heimsmarkaðsverðið er hátt og við sáum dísillítrann fara upp í 112 kr. í sumar. En þó er staða krónunnar jafnsterk og raun ber vitni, það hefur auðvitað áhrif til lækkunar. Guð hjálpi okkur, virðulegi forseti, ef krónan væri 25–30% hærri.

Það sem talið var aðalatriði í þessu máli hefur ekki gengið eftir. Þess vegna ítreka ég það sem ég hef áður sagt, ég tel að það hefði verið betra að fara þá leið sem Samfylkingin lagði til þegar þungaskattskerfinu var breytt, þ.e. að búa til lægri þungaskattsflokka fyrir minni bíla og stuðla þar með að fjölgun lítilla dísilbíla í landinu og þar með hagkvæmari fyrir bæði eigendur og þjóðarbúið.

En það varð ekki því miður. Olíugjaldið er orðið að veruleika og þá er að reyna að sníða alla þá agnúa af því sem eru. Það hefur hæstv. fjármálaráðherra m.a. lagt til með frumvarpi sem hann flutti fyrir nokkrum dögum og er nú til umræðu og meðferðar í hv. efnahags- og viðskiptanefnd. Þar eru hlutir, eins og ég ræddi þá, sem orka mjög tvímælis gagnvart jafnræðisreglu og gagnvart jafnræði ökutækja og atvinnurekenda, hvað varðar að nota tæki í sams konar vinnu ef svo má að orði komast.

Þegar við tókum olíugjaldið upp var m.a. ákveðið að strætisvagnarekstur yrði áfram með þeim afslætti sem sá rekstur hafði frá þungaskatti, sem var eitthvað í kringum 80%. Nú hefur það gerst, virðulegi forseti, að strætisvagnarekstur hefur fengið á sig mikinn kostnaðarauka. Til dæmis er talað um að Strætó bs. hafi fengið upp undir 40 millj. kr. kostnaðarauka vegna þessarar upptöku, vegna þess að ekki er allt endurgreitt eins og gert var í þungaskattskerfinu. Strætisvagnar fengu 80% af þungaskattsgreiðslunni endurgreidd á sínum tíma. Núna fá þeir 80% af olíugjaldinu endurgreidd fyrir utan virðisaukaskattinn. Þar kemur það fram sem við höfum talað um að ríkisstjórnin notar virðisaukaskatt af olíugjaldi til að auka tekjur ríkissjóðs. Virðisaukaskatturinn í olíugjaldinu, virðulegi forseti, er ekki endurgreiddur til strætisvagnafyrirtækja í landinu eins og ég held að allir þingmenn hafi haldið þegar breytingin var samþykkt. Það var ekki meiningin þá að hækka rekstrarkostnað strætisvagna. Því vil ég nota tækifærið og spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort sú hafi verið meiningin, eða hvort kerfið virkar ekki eins og það á að virka — menn nota virðisaukaskattinn til að leggja hann ofan á olíugjaldið en endurgreiða hann ekki hvað strætisvagnana snertir.

Jafnframt vil ég, virðulegi forseti, af því við erum að ræða um tímabundna lækkun olíugjalds úr 45 kr. í 41 kr., minna á frumvarp sem við, nokkrir þingmenn jafnaðarmanna, fluttum hér í upphafi þings, frumvarp til laga um breytingu lagaákvæða sem varða bensín- og olíugjald. Ég er flutningsmaður ásamt fjórum öðrum þingmönnum jafnaðarmanna en hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir er fyrsti flutningsmaður. Það frumvarp var annars vegar um lækkun á bensíngjaldi og hins vegar um frekari lækkun á olíugjaldi, þ.e. úr 41 kr. niður í 37 kr., og stóð til að hafa það tímabundið með sólarlagsákvæðum til loka mars árið 2006, eins og það var orðað. Þessi tillaga hefur verið flutt hér á Alþingi og liggur væntanlega hjá efnahags- og viðskiptanefnd til umfjöllunar. Þar var gert ráð fyrir að bæði bensín- og olíulítrinn lækki tímabundið um 5 kr., þ.e. olíugjaldið færi úr 41 kr. niður í 37 kr., og svo kæmu virðisaukaáhrifin þar inn. Tekjutap ríkissjóðs var áætlað í þessum tölum um hálfur milljarður kr. en á móti komu, sem var kannski aðaltilgangurinn, þau jákvæðu áhrif sem þetta hefði á vísitölu neysluverðs. Ég vildi geta þess að í þessu frumvarpi erum við bæði með bensín- og olíugjald inni. Það er rétt að taka fram að tekjur ríkissjóðs eru náttúrlega að aukast töluvert vegna þess háa verðs sem er á bensíni og olíu um þessar mundir, vegna virðisaukaskattsins sem kemur inn. Að auki eigum við eftir að fá endanlegar tölur, sem verður kannski deiluefni eitthvað fram á næsta ár, um það út frá hve mörgum seldum lítrum af olíu á að reikna olíugjaldið inn til ríkissjóðs. Hverjar verða heildartekjurnar til Vegagerðarinnar? Hvað kemur umfram í virðisaukaskatti til ríkisins? Við jafnaðarmenn bentum einmitt á að þar væri nýr tekjustofn og ný skattheimta ríkisins, eins og ég nefndi í sambandi við strætisvagnana — olíugjald og álagður virðisaukaskattur er ekki endurgreiddur, rennur beint í ríkiskassann og eykur þar með skattheimtu af umræddri starfsemi.

Það er líka rétt að geta þess, virðulegi forseti, til að færa rök fyrir þeirri tillögu sem við jafnaðarmenn fluttum hér á þinginu — og má eiginlega segja að sé einnig rökstuðningur fyrir því sem hæstv. fjármálaráðherra er hér að gera — að leggja til að olíugjaldið verði áfram lækkað um 5 kr. til 1. júlí nk. Það er vegna hinna miklu tekna sem renna inn í ríkissjóð af umferð og bílainnflutningi í landinu. Ég sagði hér við síðustu umræðu um þetta mál að áætlaðar tekjur ríkissjóðs væru 31 milljarður kr., en það eru gamlar tölur. Að mati FÍB, félags íslenskra bifreiðaeigenda, eru heildarskatttekjur ríkissjóðs af bílum og umferð, virðulegur forseti, um 40 milljarðar kr. á þessu ári en voru 31 milljarður kr. á síðasta ári. Þannig að heildarskatttekjurnar aukast um 9 milljarða kr. á einu ári.

Og má ég líka, virðulegi forseti, minna á að aðeins 13 milljarðar af þessum 40 renna til þeirra framkvæmda sem Vegagerðinni er skylt að standa fyrir, til nýframkvæmda, reksturs, vetrarþjónustu og annarrar þjónustu. Tekjur af notkun bíla eru helmingur þessara 40 milljarða og um helmingur vegna bílakaupa. Það skal engan undra að þessir 9 milljarðar sem koma í ríkissjóð á þessu ári, skv. mati FÍB, eru auðvitað að stórum hluta vegna mikillar aukningar á bílainnflutningi landsmanna og miklu meiri notkunar. Það er líka ástæða til, virðulegi forseti, að nefna að um 60% af verði hvers bensínlítra fara beint í skatt, þ.e. þetta almenna vörugjald, sérstaka vörugjald, sem við köllum oft bensíngjald, og virðisaukaskatt.

Virðulegi forseti. Það sem ég hef hér sagt um heildarskatttekjur ríkissjóðs og nýja skatta hæstv. ríkisstjórnar af umferð — þetta eru háar tölur og því getur maður lýst yfir stuðningi við þá tímabundnu lækkun sem hæstv. fjármálaráðherra boðar nú, og er áætlað að kosti eitthvað um 160 millj. kr. Ég vil einnig benda á það tímamótafrumvarp, vil ég segja, sem lagt var fram af þingmönnum jafnaðarmanna sem átti þó ekki að kosta nema hálfan milljarð á þeim tíma sem um er að ræða.

Virðulegi forseti. Ég ítreka spurningu mína til hæstv. fjármálaráðherra um virðisaukaskatt af olíugjaldinu, eins og það dæmi kemur út í strætisvagnarekstri. Það kann vel að vera að það séu fleiri dæmi úr öðrum atvinnurekstri. Ég geri mér ekki alveg grein fyrir því. En þetta dæmi er borðleggjandi og mig langar að heyra útlistun hæstv. fjármálaráðherra á hinni auknu skattheimtu af almenningsumferð í landinu.