132. löggjafarþing — 32. fundur,  29. nóv. 2005.

Greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

381. mál
[18:30]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um greiðslu kostnaðar vegna opinbers eftirlits með fjármálastarfsemi, með síðari breytingum, sem er 381. mál þingsins.

Á árinu 1999 voru samþykkt á Alþingi lög um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Með lögunum var gjald sem eftirlitsskyldir aðilar greiða til að standa straum af rekstri Fjármálaeftirlitsins greitt á þann veg að tryggt væri að það uppfyllti skilyrði stjórnarskrárinnar um skattlagningarheimildir. Þetta þýddi m.a. að festa þurfti álagningarhlutfall í lög í stað þess að kveða einungis á um hámark álagningar. Þessum álagningarhlutföllum þarf að breyta á hverju haustþingi enda ógerlegt að ákveða nákvæmlega hlutföll álagningar á flokka eftirlitsskyldra aðila til lengri tíma en eins árs í senn. Samkvæmt þessu hefur frumvarp til breytinga á þessum lögum verið lagt fram á hverju haustþingi að fenginni skýrslu Fjármálaeftirlitsins um áætlaðan rekstrarkostnað næsta árs, athugun ráðuneytisins á skýrslunni og að fengnu áliti samráðsnefndar eftirlitsskyldra aðila.

Með frumvarpinu er álagningarhlutfalli einstakra tegunda eftirlitsskyldra aðila breytt. Eru álagningarhlutföll á viðskiptabanka, sparisjóði, lánafyrirtæki, verðbréfafyrirtæki og verðbréfamiðlanir lækkuð en álagningarhlutföll vegna annarra eftirlitsskyldra aðila hækkuð. Mismunur á breytingum hvað þetta varðar skýrist af mismunandi þróun álagningarstofna einstakra flokka eftirlitsskyldra aðila en rekstraráætlun Fjármálaeftirlitsins fyrir árið 2006 gerir í meginatriðum ráð fyrir óbreyttri hlutfallslegri skiptingu eftirlitsgjaldsins milli þessara flokka.

Áætlað er að álagt eftirlitsgjald hækki úr 298 millj. kr. vegna yfirstandandi árs í 424 millj. kr. árið 2006 sem er hækkun um 126 millj. kr. eða um 42,3%. Rekstrarkostnaður Fjármálaeftirlitsins samkvæmt upphaflegri áætlun fyrir árið 2005 var 309,5 millj. kr. en áætlaður rekstrarkostnaður á árinu 2006 verður 410,5 millj. kr. sem er hækkun um 101 millj. kr. eða 32,6%. Lætur nærri að launakostnaður sé um ¾ hlutar rekstrarkostnaðar Fjármálaeftirlitsins. Skýrist því meginhluti hækkunar og rekstrarkostnaðar milli ára annars vegar af áætlaðri fjölgun stöðugilda úr rúmlega 35 samkvæmt upphaflegri áætlun fyrir árið 2005 í 39,7 samkvæmt áætlun fyrir árið 2006 og hins vegar af hækkun samkvæmt kjarasamningum og launaskriði.

Fjölgun stöðugilda helst í hendur við aukin verkefni og er þar einkum um að ræða aukin verkefni í tengslum við breytingar á verðbréfaviðskiptalögum, undirbúning að innleiðingu nýrra eiginfjárreglna fyrir fjármálafyrirtæki og aukin verkefni sem tengjast vaxandi umsvifum íslensku viðskiptabankanna á erlendum mörkuðum.

Þá eru í frumvarpinu gerðar tillögur til breytinga á ákvæðum 2. gr. laganna til að gæta betur samræmis við almenna vinnu við fjárlagagerð og ákvæðum 4. og 6. gr. af tæknilegum ástæðum.

Til marks um öra þróun í starfsumhverfi Fjármálaeftirlitsins má nefna að frá því að eftirlitið sendi ráðuneytinu áætlun sína hafa innlendir bankar ráðist í frekari kaup á fjármálafyrirtækjum erlendis og innlent vátryggingafélag hefur keypt ráðandi hlut í bresku vátryggingafélagi. Kaup þessi munu kalla á enn aukin útgjöld vegna eftirlits Fjármálaeftirlitsins með starfsemi innlendra aðila erlendis.

Hæstv. forseti. Í fylgiskjali með frumvarpinu er að finna skýrslu Fjármálaeftirlitsins til viðskiptaráðherra um starfsemi eftirlitsins. Í skýrslunni er fjallað um eftirlit með einstökum sviðum fjármálamarkaðar, lánamarkaðar, verðbréfamarkaðar, vátryggingamarkaðar og lífeyrismarkaðar auk þess sem greint er frá þróun og horfum á íslenskum fjármálamarkaði og áherslum í starfi Fjármálaeftirlitsins næstu missiri.

Hæstv. forseti. Ég mælist til þess að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. efnahags- og viðskiptanefndar.