132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[14:16]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er mjög þakklátur fyrir það þegar sá ágæti hv. þm. Ögmundur Jónasson minnir mig á að vera stilltur í ræðustól. Ég held að það sé mjög gott að fá slíkar ábendingar frá þeim manni. Við reynum þá að hjálpa hvor öðrum og styrkja hvor annan framvegis í ræðuhöldum.

Hann fór rétt með það hvernig lögin eru. Hann sagði að þau hefðu verið brotin, að vísu lítillega. Mér kemur það á óvart en það er þá sjálfsagt að athuga það. Ég held að það hafi alltaf verið farið yfir þetta mjög gaumgæfilega og þetta leiðrétt í hvert skipti. Ég hef aldrei séð rök fyrir því að það hafi ekki verið gert.

Ég ítreka það hér að það var og er meining allra að tryggja að tímabilið 1988–1991 komi aldrei aftur, tímabilið þegar kjör öryrkja rýrnuðu mjög mikið, rýrnuðu meira en kaupmáttur almennra launa.