132. löggjafarþing — 36. fundur,  7. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[14:44]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ferðaþjónustan, einkum úti um land, er grundvallaratvinnuvegur á mörgum svæðum og vonir um vöxt hennar eru miklar. Þetta er einn stærsti atvinnuvegur þjóðarinnar. Framlög til hans eru hins vegar í algeru lágmarki miðað við það. Hér er lagt til að fjármagn í markaðssókn í íslenskri ferðaþjónustu verði aukið um 250 millj. kr. til að sinna almennu og auknu markaðsstarfi.

Einnig verði 25 millj. kr. lagðar í að byggja upp sérstaka áningarstaði úti um land en það er einnig afar brýnt. Síðast en ekki síst leggjum við til aukið fjármagn, 50 millj. kr., til upplýsingamiðstöðva á landsbyggðinni en þær hafa grundvallarþýðingu, frú forseti, fyrir ferðaþjónustuna úti um land.