132. löggjafarþing — 37. fundur,  7. des. 2005.

Fyrirspurnir á dagskrá.

[15:36]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þessi umræða hefur að mörgu leyti verið með hreinum ólíkindum. Hérna koma stjórnarþingmenn upp hver á fætur öðrum og gera lítið úr fyrirspurnum þingmanna. (Gripið fram í.) Hér, virðulegi forseti, er um form að ræða þar sem við þingmenn getum sótt upplýsingar frá hæstv. ráðherrum. Það er gríðarlega mikilvægt í störfum þingsins og það er auðvitað óþolandi þegar lítið er gert úr því. Sömuleiðis vil ég taka fram að það heyrir til undantekninga að þingmenn séu fjarverandi og að það sé ástæða þess að fyrirspurnir frestist. Það eru undantekningar og ég vil að það komi skýrt fram að ástæðan fyrir því að ég er búin að bíða eftir svari við þessari fyrirspurn frá því að henni var útbýtt 13. október er ekki sú að ég hafi verið fjarverandi, heldur vegna þess að svarið er ekki enn þá tilbúið. Sá er kjarni málsins.

Eins og hv. þm. Jón Gunnarsson kom inn á áðan spyr ég tveggja spurninga í fyrirspurn minni. Svarið við annarri þeirra er að finna í nýútkominni Árbók sveitarfélaganna. Hin er fyrirspurn um heildarútgjöld ríkisins til grunnskólastigsins síðasta heila árið áður en sveitarfélögin tóku alfarið við rekstri grunnskólanna. Þær upplýsingar eiga að vera til í ráðuneytinu og því á ekki að vera erfitt að taka þessar upplýsingar saman og birta þennan samanburð sem ég var að biðja um í fyrirspurn.

Ég frábið mér, virðulegi forseti, þá umræðu að hingað streymi inn óþarfar fyrirspurnir í stríðum straumum. Slík umræða er með ólíkindum.

Virðulegi forseti. Ég verð að mótmæla þessari frestun og þeirri seinkun sem hefur orðið á svari til mín og biðja hæstv. ráðherra um skriflegt svar við spurningunni um útgjöld ríkisins til grunnskólastigsins.