132. löggjafarþing — 37. fundur,  7. des. 2005.

Fyrirspurnir á dagskrá.

[15:40]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil ekki vega svona ómaklega að hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni. Hann er að sinna mjög brýnum skyldustörfum á vegum þingsins. Það er rétt að það komi fram og að allir hafi það á hreinu.

Síðan er rétt að draga fram þau athyglisverðu ummæli sem hafa fallið hér, ekki bara frá stjórnarþingmönnum. Allir þingmenn eru sammála um að fyrirspurnir eru mjög mikilvægt tæki til að huga að lýðræðislegri umræðu og afla upplýsinga sem alla jafna er erfitt að fá. Þess vegna spyr maður eftir ágæta ræðu hv. þm. Jóns Gunnarssonar: Ef svarið er svona einfalt, af hverju þá að spyrja? Það hefði ekki verið neitt mál fyrir ráðuneyti menntamála að koma fram með svarið við spurningunni ef það hefði verið svona einfalt en það er rétt að taka fram að ýmsar breytingar hafa t.d. orðið á bókhaldi ríkisins síðan grunnskólinn færðist yfir til sveitarfélaganna. Ríkið færði til að mynda rekstrargrunn árið 1998. Sveitarfélögin hafa líka reyndar fylgt nýrri reglugerð um bókhald og ársreikninga frá árinu 2002. Einnig skilst mér að verkaskipting hafi breyst, t.d. varðandi stofnkostnað sem hefur verið færður til. Auðvitað gerir þetta allt það að verkum að við þurfum að kalla eftir upplýsingum. Eru þingmenn e.t.v. að kalla eftir því að við vöndum ekki til verka, að við svörum ekki skýrt og skilmerkilega? Eru þingmenn að biðja um það? (Gripið fram í.) Að sjálfsögðu viljum við að þau svör sem við veitum öllum hv. þingmönnum séu skýr og rétt. Þess vegna tel ég réttara að tefja aðeins þótt mér þyki það leitt, og ég er búin að segja það áður að þessi fyrirspurn hafi tafist en það voru réttmætar forsendur fyrir því að sú töf varð eins og hún varð.