132. löggjafarþing — 37. fundur,  7. des. 2005.

Fræðsla í Kennaraháskóla Íslands um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum.

215. mál
[16:23]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf):

Frú forseti. Það hefur sem betur fer verið mikil vitundarvakning um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum hér á landi og hafa margs konar félagasamtök gegnt lykilhlutverki í því sambandi. Má þar nefna átaksverkefnið Blátt áfram og starf Stígamóta. Lengi vel var þessi málaflokkur í þagnargildi og eru jafnvel til dæmi þar sem ekki var brugðist við rökstuddum grunsemdum um slíkt ofbeldi. Það er vonandi að slíkir dagar séu liðnir.

Það er skýr lagaskylda á öllum þegnum landsins að bregðast við sé grunur um ofbeldi eða vanrækslu á barni. Þessi lagaskylda trompar öll þagnarskylduákvæði sem einstakar stéttir eða einstaklingar búa við. Að mínu mati er fræðsla um kynferðislegt ofbeldi eitt mikilvægasta vopnið gegn þeim viðbjóði sem það er. Í þessu sambandi gegna ákveðnar stéttir mikilvægu hlutverki, það á ekki síst við kennara. Skólakerfið þarf að vera í stakk búið að takast á við svona mál. Það er einmitt á þeim heimilum þar sem börnum er misboðið eða eru misnotuð þar sem börn fá ekki fræðslu um slíkt ofbeldi. Reynslan sýnir einnig að gerendur í þessum málum eru í langflestum tilvikum einstaklingar sem eru á heimili barnsins eða mjög nákomnir fjölskyldunni. Í þessu tilviki þurfa kennararnir að grípa inn í.

Í umræðu um þessi mál undanfarnar vikur hefur komið í ljós að fræðslu í Kennaraháskóla Íslands um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum sé ábótavant og ætti að vera mun víðtækari en hún er í dag. Talað hefur verið um að einungis leikskólakennarar fái einhverja skyldumenntun á þessu sviði en grunnskólakennarar fái hana t.d. ekki. Kennarar hafa sjálfir sagt að þeir vilji læra meira um þessi mál. Það þarf að kenna verðandi kennurum að þekkja einkenni kynferðislegs ofbeldis gegn börnum og þá lagalegu skyldu sem þeir hafa að tilkynna grunsemdir sínar um brot gegn börnum til barnaverndaryfirvalda. Það þarf einnig að fræða kennaranemendur um þau nauðsynlegu viðbrögð sem þarf e.t.v. að sýna og uppfræða verðandi kennara um þær leiðir sem eru til staðar í kerfinu og þetta á ekki síst við grunnskólakennara.

Því vil ég spyrja hæstv. menntamálaráðherra hvort hún muni beita sér fyrir því að fullnægjandi fræðsla um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum verði tekin upp í námskrá Kennaraháskóla Íslands. Ég tel að hún geti vel gert það sem æðsti yfirmaður menntamála í landinu þótt ábyrgð námskrár Kennaraháskólans sé á vegum deildanna sjálfra, en það er t.d. ólíkt námskrám grunn- og framhaldsskóla en þau málefni munum við ræða í annarri fyrirspurn sem ég hef lagt fram á þinginu.