132. löggjafarþing — 37. fundur,  7. des. 2005.

Réttarstaða sjómanna.

282. mál
[16:57]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt hjá hæstv. félagsmálaráðherra að málefni sjómanna heyra undir marga ráðherra. Við búum svo vel að tveir ráðherrar ríkisstjórnarinnar eru í salnum núna, þ.e. hæstv. félagsmálaráðherra og síðan hæstv. samgönguráðherra, og málefni sjómanna heyra að hluta til undir báða þessa hæstv. ráðherra.

Nú er það svo að við sem vinnum hér í þessum sal, þessir 63 þingmenn, förum með löggjafarvaldið í þessu landi í umboði þjóðarinnar. Ég held að full ástæða sé til að skoða þessi mál mjög vandlega og athuga hvort löggjafarvaldið geti einmitt ekki komið að lausn þessa máls, til að mynda með lagasetningu. Það yrði hreinlega færð inn lagaskylda þess efnis að kjarasamningar skuli gilda á smábátum hér við land. Mér er kunnugt um að formaður Frjálslynda flokksins, Guðjón Arnar Kristjánsson, hefur verið að skoða þetta mál mjög ítarlega á undanförnum vikum. Hann hefur verið í sambandi við marga sjómenn og ég vona að það sem hann er að vinna að fái góðar undirtektir, bæði hjá ráðherrum og einnig þingmönnum. Mér finnst ekki sæmandi á Íslandi árið 2005 að hér sé heil stétt manna án samninga.