132. löggjafarþing — 43. fundur,  17. jan. 2006.

Kveðjur til Steingríms J. Sigfússonar.

[13:35]
Hlusta

Forseti (Sólveig Pétursdóttir):

Í morgun barst sú fregn að einn úr hópi okkar alþingismanna, hv. 5. þm. Norðaust., Steingrímur J. Sigfússon, hefði slasast alvarlega í bílveltu norður í landi í gærkvöldi. Hann var að koma af fundi og var á leið til þings á ný í Reykjavík en veður var slæmt.

Starf alþingismanna er fjölþætt og fer ekki einvörðungu fram hér í þingsalnum. Þvert á móti eru þingmenn, einkum þingmenn landsbyggðarinnar, sífellt á ferðalögum til margs konar fundarhalda. Þau ferðalög geta verið erfið í vetrarveðrum. Við þekkjum því miður mörg dæmi óhappa í slíkum ferðum þingmanna þar sem hurð hefur skollið nærri hælum.

Samkvæmt upplýsingum sem við höfum fengið nú undir hádegi eru okkur gefnar góðar vonir um að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon komist fljótt til heilsu á ný. Sú er líka ósk og bæn okkar samþingmanna hans. Héðan frá Alþingi eru honum sendar kveðjur með ósk um góðan og skjótan bata.