132. löggjafarþing — 44. fundur,  17. jan. 2006.

Kjaradómur og kjaranefnd.

417. mál
[14:12]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Það er mikið vandræðamál sem við erum með hér til umfjöllunar, sem er úrskurður Kjaradóms, sem kallar nú á frumvarp til laga um breytingu á lögum um Kjaradóm og kjaranefnd. Eru þingmenn komnir í þá aðstöðu að véla hér um sín eigin laun og það hafa þeir líklega ekki gert síðan 1992 eða í tæp 14 ár.

Það er dálítið merkilegt að litast hér um bekki í þingsalnum og sjá það að hér er aðeins einn ráðherra mættur, hæstv. fjármálaráðherra Árni Mathiesen, en engir aðrir ráðherrar og afskaplega fáir þingmenn. Ég vek athygli á þessu, virðulegur forseti, vegna þess að ég tel að það mál sem hér er á ferðinni og upphaf þess megi rekja til aðgerða ríkisstjórnarinnar og málið sé á hennar ábyrgð og það sé á ábyrgð þingmanna stjórnarliðsins, m.a. hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar sem oft hefur haft hátt um laun þegar þau hafa verið hækkuð hjá láglaunafólki í landinu. Það sem hefur verið að gerast í Kjaradómi er á þeirra ábyrgð vegna þess að það endurspeglar þróun sem hefur átt sér stað inni í ráðuneytum og stofnunum ríkisins. Ég mun koma að því síðar, virðulegi forseti. En ég vil segja það svo að ég gæti nú alls réttlætis af því að ég kallaði hér eftir stjórnarliðum og nefndi þingmanninn Einar Odd Kristjánsson í því sambandi að hann situr hér í hliðarsal þannig að því sé nú til skila haldið. (Gripið fram í: Og hægra megin við þig.) Og hægra megin við mig.

Kjaradómur kvað upp umdeildan úrskurð 1992, eins og ég kom inn á áðan. Það eru því orðin 13 ár síðan þingmenn voru síðast að véla um kjör sín. Þá voru sett bráðabirgðalög á þann úrskurð Kjaradóms, það er viss samsvörun þarna á milli. Núna stendur til að setja lög á þingi en þá voru sett bráðabirgðalög á úrskurðinn. Í kjölfar þess úrskurðar var skipuð nefnd og síðan samþykkt ný lög um Kjaradóm og kjaranefnd á Alþingi. Nú er sagan sem sagt að endurtaka sig þó að í aðeins breyttri mynd sé.

Mig langar aðeins að fara lítillega yfir lögin um Kjaradóm og kjaranefnd og þær forsendur sem lágu þeirri lagasetningu til grundvallar árið 1992 vegna þess að ég tel að það skipti máli fyrir umræðuna. Fyrirkomulagið sem haft er á þessum hlutum er um margt ágætt. Lögin sem sett voru 1992 voru um margt ágæt. Að vísu var það gagnrýnt við þá lagasetningu að þessu skyldi vera tvískipt. Annars vegar sé Kjaradómur og hins vegar kjaranefnd. Það var gagnrýnt og talið að þetta ætti að vera ein og sama stofnunin en fyrir þessari tvískiptingu voru ákveðin rök. Kjaradómur úrskurðar nefnilega án samráðs eða málflutnings. Hann fellir einfaldlega úrskurð um kjör þeirra sem undir hann heyra. Í kjaranefnd hins vegar getur farið fram málflutningur að vissu leyti. Einstaklingar og stéttir geta lagt fram sjónarmið sín hjá kjaranefnd og sótt til kjaranefndar leiðréttingu á kjörum sínum. Þarna er munurinn, að Kjaradómur úrskurðar einhliða en í hinu tilvikinu er hægt að sækja og flytja sitt mál.

Í því felst væntanlega líka það að undir Kjaradómi á að vera miklu takmarkaðri hópur. Hugmyndin upphaflega 1992 var sú að þarna væru bara þingmenn og þar af leiðandi ráðherrar, sem eru jafnframt þingmenn, hæstaréttardómarar og héraðsdómarar og aðrir ekki. Það væru einvörðungu þessir aðilar sem heyrðu undir Kjaradóm, þeir sem ekki væri viðunandi að sæktu kjör sín til framkvæmdarvaldsins, til ríkisstjórnar eða ráðuneyta. Þessu var hins vegar breytt í meðförum þingsins og hópurinn stækkaður. Kannski voru það mistök af hálfu þingsins á sínum tíma þegar lögin voru sett.

Fróðlegt er að skoða ræðu þáverandi hæstv. fjármálaráðherra um þetta mál. Í ræðu ráðherrans kemur m.a. fram þessi munur sem er á ákvæðunum um Kjaradóm og kjaranefnd. Í ræðu þáverandi hæstv. fjármálaráðherra, Friðriks Sophussonar, kemur einnig fram að þrengja eigi þann hóp sem Kjaradómur taki til og hann skuli aðeins vera einhverjir sem ekki geta heyrt beint undir framkvæmdarvaldið.

Í ræðu hæstv. þáverandi fjármálaráðherra kemur líka fram að viðmiðunin sem Kjaradómi er þá sett er breytt á þann veg að í stað afkomuhorfa þjóðarbúsins skuli Kjaradómur taka tillit til almennrar launaþróunar á vinnumarkaði. Viðmiðuninni var sem sagt breytt og hún ætti að vera um almenna launaþróun á vinnumarkaði en ekki afkomuhorfur í þjóðarbúinu.

Þegar grannt er skoðað kemur einnig fram að munur er á ákvæðum um Kjaradóm og kjaranefnd hvað það varðar að Kjaradómur á að taka tillit til þróunar kjara á vinnumarkaði en kjaranefnd ekki. Ekki eru sömu skilyrði varðandi kjaranefndina. Þetta er auðvitað mikilvægt að hafa í huga þegar verið er að fjalla um þetta mál.

Í 5. gr. laganna segir, með leyfi forseta.

„Við úrlausn mála skal Kjaradómur gæta innbyrðis samræmis í starfskjörum þeim sem hann ákveður og að þau séu á hverjum tíma í samræmi við laun í þjóðfélaginu hjá þeim sem sambærilegir geta talist með tilliti til starfa og ábyrgðar. Enn fremur skal Kjaradómur taka tillit til þróunar kjaramála á vinnumarkaði.“

En kjaranefnd er ekki með þetta ákvæði. Þar segir að kjaranefnd skuli gæta þess að laun þeirra sem undir hana heyra séu á hverjum tíma í samræmi við laun í þjóðfélaginu hjá þeim sem sambærilegir geta talist með tilliti til starfa og ábyrgðar og samræmi sé milli þeirra og þeirra launa hjá ríkinu sem greidd eru á grundvelli kjarasamninga eða Kjaradóms. Sem sagt, þar er ekki sama viðmiðun við vinnumarkaðinn og er hjá Kjaradómi. Þetta er mikilvægt að haft sé í huga vegna þess að segja má að með þessu sé Kjaradómi ætlað ákveðið pólitískt tillit, honum sé ætlað að sýna vissa aðgát. Það má því að vissu leyti gagnrýna Kjaradóm fyrir að gera það ekki í því máli sem hér er til umfjöllunar því að Kjaradómur hefur stundum gert það. Í a.m.k. einu tilviki sem vitað er hefur hann gert það, tekið ákveðið pólitískt tillit sem orkar tvímælis. Það var í janúar 2004 þegar hann hefði með réttu átt að úrskurða 3% hækkun en gerði það ekki vegna þess að umræða sem fór fram í desember í þinginu um eftirlaunamál þingmanna vakti mikinn óróa og óánægju í samfélaginu. Það var ákveðið pólitískt tillit sem Kjaradómur tók þá þegar hann úrskurðaði ekki um þau 3%. Þau 3% tekur hann hins vegar inn núna í úrskurði sínum sem mér finnst orka tvímælis fyrst það var ekki gert á þeim tíma, þá hafi það bara átt að vera niður fallið. Hins vegar hefur Kjaradómur sagt að honum beri ekki að taka slíkt pólitískt tillit og eigi að úrskurða í samræmi við forsendurnar eins og þær eru í lögunum.

Það sem bæði Kjaradómur og kjaranefnd eiga að gera er að gæta innbyrðis samræmis í launakjörum við þá viðmiðunarhópa sem þar er eðlilegt að séu. Kjaradómur skoðar hvað kjaranefnd hefur verið að gera og kjaranefnd skoðar aftur hvað hefur verið að gerast í ráðuneytum og stofnunum sem undir ráðherrana heyra og síðan úrskurðar kjaranefnd í samræmi við þá þróun eins og henni ber og Kjaradómur úrskurðar líka í samræmi við þá þróun eins og Kjaradómi ber. Einbjörn togar í Tvíbjörn sem togar í Þríbjörn og allt í einu verður lýðum ljóst hvað þarna er á ferðinni, hvað þarna var að gerast í ríkisstofnunum og ráðuneytum og allt springur í loft upp. Það er ekki við Kjaradóm sem slíkan að sakast. Hann er í rauninni boðberi tíðinda og tíðindin eiga rót sína að rekja í ráðuneytunum sem eru auðvitað á forræði ráðherranna og á þeirra ábyrgð.

En þegar það gerist og þetta springur í loft upp og verður lýðum ljóst þá heyrist óp að vestan. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson kemur fram og krefst þess að boðberi hinna válegu tíðinda, svo ég taki mér skáldaleyfi, verði hengdur fyrir það sem hann bar á borð fyrir þjóðina. Og það er stundum að þegar stigið er fast til jarðar í Reykjavík og ekki síst í ráðhúsinu þá heyrist óp að vestan. Stigið er fast til jarðar í Reykjavík og óhljóð heyrist frá Flateyri. Það var náttúrlega þannig þegar Reykjavíkurborg og borgarstjórnin í Reykjavík reið á vaðið og hækkaði laun hinna lægst launuðu í kjarasamningum, kom til móts við þá hópa, þá heyrðust mikil hljóð úr því horni.

Það sem borgarstjórinn í Reykjavík gerði var að gera kjarasamninga við lægst launaða starfsfólk borgarinnar algerlega opinskátt, það var allt uppi á borðinu, lá allt ljóst fyrir. Það sem hefur hins vegar verið að gerast í stofnunum ríkisins og ráðuneytum er að þar hefur verið vílað og dílað um kaup og kjör og það er allt meira og minna undir yfirborðinu sýnist manni á því sem hér er á ferðinni. Að samningar hafi verið gerðir milli forstöðumanna og starfsmanna með vitund og vilja ráðherra og þess vegna eru það ráðherrarnir sem bera ábyrgð á málinu en ekki Kjaradómur og þeir ættu auðvitað að sitja hér og taka þátt í þessari umræðu og segja okkur hvað þeir hafa verið að gera í ráðuneytunum.

Nú má ekki líta þannig á orð mín að ég telji að þeir starfsmenn ráðuneytanna sem hafa verið að fá kjarabætur í gegnum einhverjar slíkar aðgerðir séu ekki vel að sínum launum komnir, því að verður er verkamaðurinn launanna og það á jafnt við um ófaglærða starfsfólkið á leikskólum Reykjavíkurborgar og þar gilda sanngirnissjónarmið fyllilega eins og það á við um fólk í ráðuneytum ríkisins. En launastefna ríkisins verður að vera skýr. Um hvað ætlum við að sameinast í launamálum? Hver er stefnan í kjarasamningum? Með hvaða boðskap fer ríkið inn í kjarasamninga? Hverju vill það ná fram í kjarasamningum við þá sem það stendur í samningum við? Hvernig er framkvæmdin í launamálum? Hvernig lítur launastefna ríkisins út? Það þarf auðvitað að vera uppi á yfirborðinu þannig að hægt sé að gegnumlýsa þau laun sem samið er um. Hvernig sem um þau er samið þá þarf það að vera uppi á borðinu.

Ríkisstjórnin hefur kallað eftir ábyrgð almenns launafólks og hún hefur kallað eftir ábyrgð verkalýðshreyfingarinnar vegna þess efnahagsástands sem núna er. En síðan fara menn heim í ráðuneyti sín og aðhafast eitthvað allt annað og vísa frá sér ábyrgð þegar þeir eru í raun staðnir að verki. Það eru þeir sem eru staðnir að verki en ekki Kjaradómur.

Það hefur verið þannig hjá ríkisstjórninni að hún hefur oft talað í þá átt að hún hafi sýnt skilning á kjörum hinna lægst launuðu en það er bara í orði en ekki á borði. Það er viðvarandi gliðnun í samfélaginu og hún heldur áfram. Hægt er að fara yfir það m.a. hvernig það birtist okkur í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur um hvernig skattbyrðin hefur verið að þróast á undanförnum árum þar sem skattbyrðin er að þyngjast á hinum lægst launuðu og þeim sem eru með meðallaunin og léttast á þeim sem eru með hæstu launin. Þar kemur líka fram að ekki bara að raungildi heldur í krónum talið hafa framlög til barnabóta og vaxtabóta til þeirra sem eru með mestu framfærslubyrðina verið að minnka. Það er því víða hægt að bera niður í þessu sambandi. Hægt er að bera niður í launastefnunni, skattstefnunni, byggðastefnunni og allt ber að sama brunni, það dregur í sundur með fólki í landinu. Við getum líka talað um aldraða og öryrkja því ég þykist vita að allir þingmenn í salnum hafi fengið ótal bréf frá öldruðum og öryrkjum að undanförnu, ótal símhringingar yfir því hvernig málum er fyrir komið í þjóðfélaginu. Við þurfum ekki annað en lesa öll lesendabréfin í blöðunum núna. Ég hef sjaldan upplifað eins mikla óánægju og eins mikla reiði hjá þessum hópum og núna kraumar undir yfirborðinu.

Það er auðvitað spurning hvenær þjóðinni verður nóg boðið. Stundum er þjóðinni nóg boðið og þá grípur hún til sinna ráða. Ég minni í því sambandi á þegar þjóðinni fannst að það væri aðför að lýðræðisvitund hennar í gangi 2004, þá greip hún til sinna ráða og stöðvaði það sem þar var að gerast.

Þjóðin upplifði líka aðför gegn sómatilfinningu sinni, gegn siðferðiskennd sinni í fréttaflutningi DV núna á dögunum og þjóðin greip til sinna ráða. Spurningin er hvenær þjóðinni finnst að aðförin að réttlætiskenndinni hafi gengið of langt og grípi þá til sinna ráða. Mætti segja mér að ekki væri mjög langt í það miðað við hvernig þetta birtist okkur og hlýtur að birtast öllum þingmönnum hvort sem þeir eru í stjórnarandstöðu eða stjórnarliði þessa dagana. Ríkisstjórnin ber ábyrgð á þessari gliðnun, ríkisstjórnin ber ábyrgð á því hvernig hefur dregið sundur með fólki. Ríkisstjórnin ber ábyrgð á úrskurðinum, ríkisstjórnin ber líka ábyrgð á því klúðri sem þessi úrskurður lenti í því stjórnarandstaðan bauð upp á það að þing kæmi saman fyrir áramót og við þyrftum ekki nema 1–2 klukkutíma til að fresta þessu máli þannig að hækkunin kæmi aldrei til framkvæmda. Það er miklu verra að eiga við málið þegar hækkunin hefur orðið og þurfa að taka hana til baka heldur en ef hún hefði aldrei komið til framkvæmda. Þá hefði mönnum gefist meira tóm til að fara yfir þetta og gaumgæfa hvernig við gætum tekið á þessu, með hvaða hætti við gætum breytt lögunum um Kjaradóm og kjaranefnd og látið Kjaradóm úrskurða að nýju um þessa hluti. En ríkisstjórnin kaus að hafa ekki samráð við stjórnarandstöðuna, kaus að fara sínar eigin leiðir í þessu efni. Að vísu sagði forsætisráðherra að hann hefði skrifað bréf til Kjaradóms, haft samráð um það við stjórnarandstöðuna og formenn stjórnarandstöðuflokkanna og formenn þingflokka stjórnarandstöðunnar. Það samráð fólst í símhringingu þar sem tilkynnt var að ríkisstjórnin hygðist fara þessa leið og mundi segja ASÍ og Samtökum atvinnulífsins það á fundi þann sama dag. Það kalla ég ekki samráð vegna þess að samráð felst í því að menn setjist yfir málið, átti sig á hvaða leiðir er hægt að fara í því og komist að sameiginlegri niðurstöðu. Það er samráð. Hitt er bara tilkynning um hvernig menn hyggist standa að verki.

Virðulegur forseti. Þetta mál allt saman er á ábyrgð ríkisstjórnarinnar. Hún hefur haldið klúðurslega á málinu eftir að það kom fram og það sem manni sýnist vera að endurspeglast í úrskurði Kjaradóms eru einfaldlega launaákvarðanir og launabreytingar sem hafa átt sér stað í ráðuneytum og stofnunum ríkisins sem kjaranefnd og Kjaradómur voru einfaldlega að fylgja eftir í samræmi við þau lög sem um þetta gilda þó að á hitt megi svo aftur fallast að vissulega beri Kjaradómi að sýna vissa aðgát í þessum efnum eins og lagaákvæði um hann ber vott um.