132. löggjafarþing — 44. fundur,  17. jan. 2006.

Kjaradómur og kjaranefnd.

417. mál
[17:24]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Það verður að segjast eins og er að þær umræður sem hér hafa farið fram í dag eru að mörgu leyti mjög skemmtilegar. Þær hafa hins vegar farið um víðan völl. Það kemur ekkert á óvart og er að sjálfsögðu, má segja, eðlilegt þegar þing kemur saman eftir jóla- og áramótahlé. Hins vegar hafa margar rangfærslur verið hafðar hér í frammi og ég held að ég verði eiginlega að segja að það væri of langt mál fyrir mig að fara út í að leiðrétta það allt saman enda held ég að flest af því hafi verið leiðrétt áður. Þær leiðréttingar eiga því að liggja fyrir í Alþingistíðindum.

Málflutningurinn (Gripið fram í: ... fyrirvari.) í meginatriðum hefur eiginlega verið á þá leið að vandamálið sem við erum að glíma við sé allt saman ríkisstjórninni að kenna (Gripið fram í.) og að hæstv. fjármálaráðherrann, hvort heldur þáverandi eða núverandi, hafi hækkað laun opinberra starfsmanna of mikið. En samt sem áður verðskulda opinberir starfsmenn þessi laun sem fjármálaráðherrann hefur samið um við þá. Vandamálið er samt sem áður það að fjármálaráðherrann samdi um of há laun við opinberu starfsmennina. (Gripið fram í: Verður er verkamaður launa sinna.) Verður er verkamaður launa sinna.

Hins vegar er borgarstjóranum í Reykjavík hrósað fyrir að hækka laun sinna opinberu starfsmanna (Gripið fram í.) og er það svo sem ekkert skrýtið miðað við það hverjir hafa haldið uppi málflutningnum. En þetta er auðvitað ekkert sérstaklega trúverðugt heildaryfirbragð á umræðunni þó að það sé, eins og ég sagði áðan um umræðuna, skiljanlegt að því sé haldið fram.

Umræðan hefur hins vegar líka verið á áhugaverðari nótum, þ.e. um launahlutföllin í þjóðfélaginu og um launaþróunina. Um launahlutföllin er það að segja að jafnvel í svo íhaldssömu þjóðfélagi sem við búum í er fátt jafntregbreytanlegt og launahlutföllin. Ég minnist þess einu sinni að hafa heyrt virtan hagfræðing sem ég tek mikið mark á segja að þau launahlutföll sem við búum við hafi upphaflega verið sett fyrir mörg þúsund árum í Mesópótamíu, að þannig sé þessum málum háttað, enda sýnir meira að segja reynsla okkar síðustu áratugina það að jafnvel þegar við höfum reynt að breyta launahlutföllunum til hagsbóta fyrir þá lægst launuðu þá hefur það sjaldnast tekist og ef það hefur tekist þá hefur það jafnan verið tímabundið því þeir sem síðan eru hærra launaðir hafa notað fyrsta tækifæri til að beita þeim tökum sem þeir hafa til að hækka laun sín aftur umfram það sem þeir lægst launuðu höfðu. Með þessu er ég ekki að segja að við eigum ekki að reyna að bæta kjör hinna lægst launuðu og að við eigum ekki að reyna að hafa áhrif á þetta. Ég er bara að benda mönnum á að það er ekki auðvelt verk og það hefur margsinnis verið reynt með þessari niðurstöðu.

Síðan hefur mörgum fundist launaþróunin stefna í öfuga átt við það sem menn hafa verið að reyna og sjálfsagt eru til upplýsingar og tölur um það. Meira að segja hefur umræðan farið út í það að rifja upp gömul frumvörp, frá því fyrir að nálgast 30 árum, um hámarkslaun. Ég verð að segja að ég þakka guði fyrir að þetta frumvarp var ekki samþykkt. Hvar værum við í dag ef þetta frumvarp hefði verið samþykkt og sett hefðu verið á hámarkslaun 1978 eða 1979? Hvar hefði þá verið drifkrafturinn til að koma sjálfum sér áfram og bæta stöðu sína sem er auðvitað drifkrafturinn í því þjóðfélagi sem við búum í? Hver hefði þá farið að leggja það á sig að fjármagna háskólanám til að geta bætt stöðu sína? Hvaðan hefðu peningarnir átt að koma þá til að borga námsskuldirnar, lánin sem menn þurftu að taka (Gripið fram í: Var ekki ...) og skólagjöldin sem menn hafa þurft að borga? Því menn hafa sótt nám sitt víða og það er ekki alls staðar þar sem ekki kostar neitt að vera í háskóla. (Gripið fram í.) Ég þakka guði fyrir það, jafnvel þó mætir menn og skemmtilegir með fagurt málfar hafi flutt þessar tillögur, að þær voru ekki samþykktar.

Hins vegar er það svo, frú forseti, (Gripið fram í.) ef ég fæ að halda áfram að tala fyrir hv. þingmanni, að ríkið hefur takmörkuð áhrif á launaþróun. Þar ræður almenni markaðurinn mestu. Það er jafnframt stefna ríkisins að láta almenna markaðinn leiða í kjarasamningum og þróun launa. Í því sambandi verður að undirstrika að launaþróun hjá hinu opinbera byggist eins og annars staðar í þjóðfélaginu að langmestu leyti á samningum, með þeirri undantekningu sem um er fjallað í frumvarpinu sem er til umræðu. Þeir samningar eru opnir fyrir alla og þar er ekki um neina leynd að ræða. Á undanförnum árum hafa hins vegar verið gerðar breytingar á þeim. Reynt hefur verið að gera þá sveigjanlegri. Það hefur verið gert í samráði, í góðu samstarfi og í samningum við samningsaðila ríkisins. Þar er engin leynd. Það er ekkert verið að fela af því sem gerist í launamálum hjá ríkinu.

Það hefur verið rætt um gagnsæi, að stefna ríkisins í launa- og kjaramálum ætti að vera gagnsæ. Samkvæmt því sem ég hef sagt hljóta menn að draga þá ályktun að svo sé, að launa- og kjarastefnan sé gagnsæ. Í því sambandi hefur verið rætt um einingar hjá Kjaradómi og kjaranefnd, að betur færi á því að þær væru inni í heildarlaununum og þær ákvarðanir sem þar eru teknar yrðu með því gegnsærri. Ég held reyndar að þessar einingar flæki málið ekki meira en svo að a.m.k. þeir blaðamenn sem um þetta fjalla eiga auðvelt með að reikna einingarnar inn í og birta heildarlaun viðkomandi. Öllum þeim sem fylgjast með fréttum af þessu á að vera ljóst hver launin eru í heildina og hvernig þau eru uppbyggð. Einingarnar hafa hins vegar komið til tals í dag af öðrum orsökum. Hv. þingmenn hafa haft áhyggjur af því að tengsl væru milli eininga Kjaradóms, sem þetta frumvarp mundi hafa áhrif á ef samþykkt yrði, og eininga kjaranefndar. Einingarnar hjá þessum aðilum eru algjörlega óháðar hver annarri og þær breytingar sem eru hér lagðar til á einingum Kjaradóms munu þar af leiðandi ekki hafa áhrif á einingar kjaranefndar.

Hér hefur einnig verið fjallað um stöðu dómara og bréf frá dómarafélaginu. Ég get ekki neitað því að ég hef séð það bréf. Þegar samsvarandi mál voru til umræðu árið 1992 voru fengnir lögmenn til að fara í þessi atriði. Það var samhljóða niðurstaða þeirra, og að þeirra mati enginn vafi á því, að það væri algjörlega á valdsviði Alþingis að taka ákvarðanir um laun þessara aðila á þann hátt sem hér um ræðir. Laun þessara aðila hefðu verið ákveðin með launalögum og með þessu væri það raunverulega gert á sama hátt. Löggjafarvaldið hefði falið Kjaradómi, sem væri einhvers konar opinber gerðardómur, að taka ákvarðanir og Alþingi gæti tekið þær ákvarðanir til sín aftur hvenær sem væri.

Varðandi eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar þá eru laun sem eru ákvörðuð á þennan hátt í raun laun framtíðarinnar og ekki undir vernd eignarréttarákvæðisins og hægt að breyta þessum launum með lögum. Það ákvæði ætti við um laun samkvæmt samningum sem væru þá væntanlega tímabundnir samningar. Þá væri hægt væri að bera við eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar.

Því var líka haldið fram í þessu samhengi að gerðar væru breytingar á þessum tiltekna hópi sem í væru fleiri aðilar en dómarar þannig að ákvörðunin beindist ekkert sérstaklega að dómurunum. Þeir falla undir þessi lög á sama hátt og aðrir og hinar almennu forsendur sem eiga við um allan hópinn eiga við um dómarana líka. Þessar skýringar tel ég góðar og gildar í þessu máli enda frá virtum lögmönnum sem vel eru metnir. Þeir hafa jafnvel verið nefndir til sögunnar í umræðunni í dag.

Málefni forsetans voru líka nefnd. Ég fór reyndar yfir það í framsöguræðu minni og vitnaði þá til greinargerðar sem fylgdi þeim nýmælum sem sett voru í stjórnarskrána 1944 hvað það varðar. Ég held að þau lögskýringargögn sem þar er um að ræða séu algjörlega tæmandi hvað þetta varðar og að á því leiki enginn vafi. Ekki ætla ég að neita hv. þingmönnum sem hafa áhyggjur af þessu, sem þurfa að fjalla um málið í nefnd og taka afstöðu til þess bæði í nefnd og í atkvæðagreiðslum, um að þeir leiti af sér allan grun í þeim efnum.

Auðvitað er það svo um mörg lögfræðileg atriði að menn geta haft á þeim mismunandi skoðanir. Enda er það opin heimspekileg spurning, kannski er hún líka praktísk, hvort í lögfræðilegu álitaefni geti einungis verið um eina rétta skoðun að ræða eða hvort tilfellið sé að í einu og sama lögfræðilega álitaefninu geti verið tvær jafnréttháar niðurstöður. Ég hef ekki komist að niðurstöðu í þessu efni sjálfur. Ég veit að bæði virtir og vel menntaðir lögfræðingar og aðrir lögspekingar deila um þessi atriði og munu sjálfsagt deila lengi enn.