132. löggjafarþing — 44. fundur,  17. jan. 2006.

Kjaradómur og kjaranefnd.

417. mál
[17:37]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég spurði hæstv. ráðherra í ræðu minni fyrr í dag hvort það væri réttur skilningur hjá mér að verðmæti þeirra eininga sem kjaranefnd ákvarðar sínu fólki mundi minnka í samræmi við þá lækkun sem kemur fram með frumvarpinu varðandi Kjaradóm. Ráðherra hefur svarað því að sá skilningur sé ekki réttur. Ég þakka honum fyrir það. Við höfum þannig umræðuna á hreinu og byggjum hana ekki á misskilningi. Einingar milli Kjaradóms og kjaranefndar hafa hingað til verið jafnsettar en nú verður það ekki svo lengur heldur mun ekki einungis gliðna á milli föstu launa þessa tveggja hópa heldur mun líka gliðna á milli annarra launa í formi eininga.

Ég mundi vilja spyrja hæstv. ráðherra hvort hann sé ekki sammála mér um að eftir sem áður hafi þetta frumvarp talsverð áhrif fyrir þann stóra hóp sem heyrir undir kjaranefnd. Á ég þá við seinni málsgrein 1. gr. þar sem settar eru hömlur á kjaranefnd við að ákvarða laun á þessu ári. Gæti það ekki haft talsverð áhrif á kjaranefndarfólkið ef um launaskrið verður að ræða á árinu?