132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Eldsneytisflutningar til Keflavíkurflugvallar.

261. mál
[12:24]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég kem upp til að bera fram fyrirspurn til hæstv. samgönguráðherra um eldsneytisflutninga til Keflavíkurflugvallar. Þetta mál hefur oft komið til umræðu áður en það er kannski ástæða til að taka það aðeins upp á hinu háa Alþingi, sérstaklega í ljósi umræðu sem átti sér stað rétt fyrir áramótin í kjölfar þess að mikið slys varð í Englandi þar sem kviknaði í Buncefield-olíubirgðastöðinni við Hemel Hempstead rétt norðan við London. Þar varð stórslys, margir slösuðust og mikið tjón, milljónir lítra af eldsneyti urðu þar eldi að bráð. Ég hygg að það mál hafi vakið marga til umhugsunar enda var það augljóst á umræðum m.a. í borgarstjórn Reykjavíkur að athygli manna beindist þá mjög að olíubirgðastöðinni í Örfirisey. Það hefur áður komið til tals að hugsanlega stafaði hætta af þeirri olíubirgðastöð því að hún er aðeins örfáa kílómetra frá okkur þar sem við erum nú, á hinu háa Alþingi í miðborg Reykjavíkur. Þar er skipað upp miklu af olíu árlega en síðan er stór hluti af þeirri olíu keyrður í gegnum höfuðborgina og síðan um Reykjanesbrautina til Keflavíkur. Þar eru náttúrlega stórir viðskiptavinir, til að mynda á Keflavíkurflugvelli. Mér skilst að um sé að ræða u.þ.b. 80 þúsund tonn af eldsneyti árlega sem fara um Reykjanesbrautina. Ég vil því bera fram eftirfarandi spurningar til hæstv. samgönguráðherra:

1. Hefur ráðherra einhver áform um að beita sér fyrir því að hætt verði að flytja um 80.000 tonn af eldsneyti með tankbílum frá Reykjavík um Reykjanesbraut til Keflavíkurflugvallar?

2. Mun ráðherra beita sér fyrir því að þessu eldsneyti verði frekar skipað upp í Helguvíkurhöfn?

3. Hefur farið fram áhættugreining á þessum miklu eldsneytisflutningum um byggð á höfuðborgarsvæðinu, eftir Reykjanesbraut til Keflavíkurflugvallar?

4. Ef fyrirhugaðar eru aðgerðir af hálfu ráðherra, hverjar eru þær og hvenær er þeirra að vænta?