132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Viðhald vegarins á milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur.

275. mál
[12:59]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Það er misskilningur að þrýstingur hafi leitt til þess að verið sé að taka ákvarðanir um úrbætur á Óshlíðinni. Það sem veldur því er það ástand sem blasir við okkur öllum, þ.e. að mjög mikið grjóthrun hefur verið í Óshlíðinni og að mati heimamanna og þeirra sem best þekkja til meira en áður hefur verið, sérstaklega þarna á Skriðunum. Þess vegna var tekin ákvörðun um að fara í þær aðgerðir sem verið er að rannsaka og undirbúa.

Hv. þm. Jón Bjarnason talaði um að óöryggi hefði fylgt yfirlýsingu um þessar framkvæmdir. Ég held að ekki geti hafa fylgt því neitt óöryggi. Fyrst og fremst fylgdi öryggistilfinning þeim ákvörðunum sem voru teknar, hlýtur að vera, þ.e. að við sjáum fyrir okkur framkvæmdir á þessum kafla, Óshlíðinni.

Hv. fyrirspyrjandi Anna Kristín Gunnarsdóttir kvartaði undan því að tímasetningar hafi vantað. Hv. þingmaður spyr einungis um það hér hver hafi verið kostnaður við að viðhalda þessum vegi milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur þannig að hér eru því ekki til umræðu neinar tímasetningar um framkvæmdir. Það er misskilningur. Hins vegar skil ég að hv. þingmenn séu áhugasamir um að vita hvernig framvindan verður og ég er alveg sannfærður um að við þingmenn Norðvesturkjördæmisins munum koma okkur saman um að taka rækilega á þessu máli þegar rétti tíminn er kominn og að (Forseti hringir.) þá muni tímasetningar væntanlega liggja fyrir þegar búið er að undirbúa verkið.