132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Jafnstöðuafli.

316. mál
[13:33]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Þessi fyrirspurn lýsir í rauninni hvers konar ógöngur við erum komin í með kvótakerfið. Það kerfi sem hefur verið við lýði síðustu árin hefur skilað miklu minni afla en var fyrir daga þess og ég hef miklar efasemdir um jafnstöðuafla til margra ára. Hvers vegna? Ástæðan er fyrst og fremst sú að dýrastofnar og ekki hvað síst fiskstofna sveiflast gífurlega og mönnum hefur reynst mjög erfitt að spá fyrir um stærð fiskstofna og jafnvel hvað hafi verið veitt mikið hlutfallslega úr stofninum og menn hafi ofmetið það jafnvel mörg ár aftur í tímann. Ef menn ætla að fá mikinn afla þegar dýrastofnar eru í uppvexti þá þarf auðvitað að hafa jafna sókn. Og síðan þegar sóknin er jafnmikil, að hafa þá jafnstöðusókn og þegar dýrastofnar eru í lægð þá fá menn einfaldlega minni afla. Þannig er þetta. Og það er miklu betra fyrir dýrastofna og árangursríkara fyrir nýtingu.