132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Jafnstöðuafli.

316. mál
[13:38]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi þakka þessa ágætu umræðu. Mér hefur fundist hún bæði fróðleg og málefnaleg. Menn hafa auðvitað verið að glíma við spurningu sem er gríðarlega stór og skiptir okkur öllu máli, þ.e. hvernig við getum tryggt okkur hámarksafrakstur af fiskstofnunum við landið. Auðvitað hafa menn mismunandi sjónarmið í þeim efnum. Það er ekkert óeðlilegt við það. Þess vegna tel ég að umræðan sé af hinu góða og það sé hluti af því að við komumst að niðurstöðu, að við reynum að ræða þessi mál bæði við leikmenn á hinum pólitíska vettvangi og líka vísindamenn og ég tala nú ekki um við þá sem starfa í greininni.

Þess vegna hygg ég að það hafi verið mjög eðlilegt á sínum tíma að menn settu fram hugmyndir um jafnstöðuaflann af ástæðum sem ég nefndi áðan, bæði vegna þess að menn teldu að upplýsingar sem menn hefðu um lífríkið væru takmarkaðar og líka hitt sem skiptir mjög miklu máli og menn lögðu á þeim tíma mikla áherslu á og það var að reyna að ná utan um þetta, fá einhverja heildarmynd og menn gætu unnið betur og skipulagt sig betur í greininni og komist þannig að skynsamlegri niðurstöðu og náð meiri árangri m.a. á mörkuðum. Þetta eru auðvitað allt saman mjög eðlileg rök og þegar við erum að ræða um skipulag sjávarútvegs okkar þá verðum við auðvitað að hafa alla þessa þætti undir, bæði hinn líffræðilega þátt sem er til grundvallar en síðan auðvitað líka þessa hagfræðilegu efnahagslegu þætti og það sem snýr að mörkuðunum okkar. Ég tel því að þessi umræða sé mjög eðlileg.

Við höfum hins vegar kosið að styðjast við það sem kallað er aflaregla við þorskveiðar. Sú aflaregla sem núna er notuð til að ákveða kvótann gerir ráð fyrir að aflinn sé takmarkaður við 25% af meðalstærð veiðistofns í upphafi árs og áætlar stærð veiðistofns í upphafi næsta árs. En það er hins vegar athyglisvert að við höfum síðan bætt við þessa almennu reglu nýju ákvæði sem í raun og veru er á vissan hátt tilraun til að koma til móts við hugmyndir um jafnstöðuaflann, þ.e. að gert er ráð fyrir því að aflamarkið, kvótinn, breytist ekki meira en um 30 þúsund tonn á ári, alveg sama hvernig þróunin í lífríkinu er. Þessi 30 þúsund tonna stuðari er þarna til staðar þannig að það er athyglisvert að hugmyndafræðin á bak við jafnstöðu aflans hefur þannig ratað inn í þetta með vissum hætti þó að það sé ekki að fullu eða öllu leyti.