132. löggjafarþing — 46. fundur,  19. jan. 2006.

Heimild Fjármálaeftirlitsins til að beita dagsektum.

[13:41]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Nú er það svo að margir stóðu í þeirri trú að Fjármálaeftirlitið hefði traust lög til að styðjast við til að sinna lögbundnum skyldum sínum. Í haust kom á daginn að svo er ekki. Nú hefur stofnunin óskað eftir því að ríkisstjórnin og Alþingi beiti sér fyrir lagabreytingum til að fá nauðsynlegar lagastoðir til að sinna hlutverki sínu. Ég verð að lýsa furðu yfir viðbrögðum hæstv. viðskiptaráðherra, að verða ekki við þeirri beiðni.

Um er að ræða mjög alvarlegt mál, yfirtöku á sparisjóði sem grunur leikur á að sé saknæm. Málinu hefur verið vísað til lögreglu til umfjöllunar þar. Ég vil taka undir þær áskoranir sem hér hafa komið fram, um að ríkisstjórnin og Alþingi beiti sér hið allra fyrsta fyrir því að nauðsynlegar lagabreytingar verði gerðar.