132. löggjafarþing — 46. fundur,  19. jan. 2006.

Bílaleigur.

379. mál
[14:03]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um bílaleigur, nr. 64/2000, með síðari breytingum.

Með frumvarpi þessu er lagt til að leyfisveitingar til að reka bílaleigur færist frá samgönguráðuneytinu til Vegagerðarinnar. Samkvæmt frumvarpinu er því gert ráð fyrir að þeir sem vilja reka bílaleigur hafi starfsleyfi frá Vegagerðinni en ekki samgönguráðuneytinu. Þetta er í samræmi við grundvallarhugsun stjórnsýslulaga þar sem kveðið er á um þann rétt borgaranna að þeir geti skotið stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds. Með því að veita undirstofnun ráðuneyta heimild til þess að ákvarða um rétt og skyldur manna, svo sem um veitingu leyfa, eftirlit með því að skilyrðum fyrir þeim sé fullnægt o.s.frv., verður þessu við komið. Þessi skipan mála er jafnframt í samræmi við þróun sem verið hefur og við þekkjum og snýr að annarri flutningastarfsemi.

Virðulegi forseti. Í frumvarpinu er jafnframt lagt til að gjald fyrir útgáfu starfsleyfa hækki úr 10 þús. kr. í 25 þús. kr. Ástæða þessarar hækkunar er að reiknaður hefur verið út kostnaður við útgáfu starfsleyfa og aðra umsjón með bílaleigum og er gert ráð fyrir því í frumvarpinu að gjaldið hækki þannig að það geti staðið undir þeim kostnaði enda er ekki gert ráð fyrir því í fjárlögum að Vegagerðin fái fjármuni til þess að takast á við þessi verkefni.

Önnur helstu efnisatriði frumvarpsins eru að kveðið er á um að bílaleiga skuli rekin á fastri starfsstöð sem opin skal almenningi á tilgreindum tímum. Þá er einnig lögð sú skylda á bílaleigur að þær auglýsi opnunartíma á skýran og ótvíræðan hátt og skulu standa við hann. Ástæða þess er sú að talið er mikilvægt að viðskiptavinir geti náð persónulegu sambandi við þann sem skipt er við. Þá er áréttað að bílaleigu er bannað að leigja út ökutæki sem ekki er sérstaklega skráð hjá Umferðarstofu sem ökutæki sem leigt er í atvinnuskyni án ökumanns. Ástæðan fyrir þessari breytingu er að ríkara eftirlit er með ökutækjum sem leigð eru út en ökutækjum til einkanota.

Loks er í frumvarpinu kveðið á um heimild fyrir bílaleigur til að leigja til lengri tíma ökutæki sem ekki hefur notið lægri vörugjalda og ökutæki þar sem 15 mánuðir eru liðnir frá nýskráningu ökutækis sem notið hefur lægri vörugjalda. Í gildandi lögum er leigutími takmarkaður við þrjá vikur að jafnaði. Talið er nauðsynlegt að breyta þessu þar sem aukin eftirspurn hefur verið eftir ökutækjum til leigu til lengri tíma en þriggja vikna og ekki er talið óeðlilegt að slíkt sé heimilað með þessu frumvarpi.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. samgöngunefndar.