132. löggjafarþing — 46. fundur,  19. jan. 2006.

Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

86. mál
[16:35]
Hlusta

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Viðfangsefnið sem hv. þingmaður og flutningsmaður frumvarpsins, Magnús Þór Hafsteinsson, velti hér upp er í sjálfu sér athyglisvert. Hann flutti ágæt rök fyrir því sem er nú líka, að ég tel, augljóst, þ.e. að þegar svona aðstæður koma upp eins og í Vestmannaeyjum þá er sjálfsagt og eðlilegt að reyna að bregðast við þeim. Í þessu tilfelli er um að ræða kanínuna sem er alla jafna er talin frekar vænt dýr, ef þannig mætti að orði komast. Hún bragðast meira að segja alveg ágætlega. Ég smakkaði slíkt einhvern tímann á Spáni og fór vel í mig. Eðli málsins samkvæmt þegar svona aðstæður koma upp eins og í Heimaey þá verða menn að bregðast við þeim.

Þetta er nú misjafnt. Hérna í Öskjuhlíðinni held ég að menn hafi ekki séð sama vanda og í Vestmannaeyjum. Ég sá einhvers staðar í blöðum að einhverjir höfðu hugmyndir um að kanínur gætu orðið nytjabúskapur hér á landi því þær gætu verið ágætisviðfangsefni fyrir veiðimenn að eltast við. En hvað sem því líður þá skil ég alveg inntakið í máli flutningsmanns og er alveg sammála því að taka verði á vandamálum eins og hann nefndi. En ég vildi spyrja hann hvort hann telji þetta nauðsynlegt til að svo mætti vera. Ef ég skil málið rétt þá hafa Vestmanneyingar nú þegar gripið til aðgerða af þessum ástæðum sem hv. þingmaður og flutningsmaður rakti svo ágætlega og vonandi gengur þeim vel í þeirri baráttu. Ég vil spyrja hv. þingmann: Er þetta nauðsynlegt til að menn geti gengið í málið af fullum krafti?