132. löggjafarþing — 46. fundur,  19. jan. 2006.

Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

86. mál
[16:40]
Hlusta

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Án þess að fara að diskútera það neitt sérstaklega þá er, held ég, alveg rétt hjá hv. þingmanni að það hafi nú ekki verið mönnum kærkomið að fá minkinn í íslenska náttúru. En það er nú voðalega erfitt að loka landamærunum fyrir dýrum. Það vill nú svo til að hinir og þessir fuglar lenda hérna án lendingarleyfis og jafnvel koma sér fyrir eins og við þekkjum. Við munum búa við að einhver ný dýr muni koma sér fyrir í íslenskri náttúru.

Ég er svona bara að reyna að fá upplýsingar hjá hv. þingmanni um þetta mál af því ég tók því þannig að þetta tengdist fyrst og fremst heimildum stjórnvalda til að taka á vandanum. En ef ég skil hv. þingmann rétt þá er hann hér að tala um víðtækari heimild varðandi það að fólk geti þá ekki haft dýr eins og þessi og önnur sem gæludýr. Ég vil fá að vita hjá hv. þingmanni hvort ég skil hann rétt í því. Þar sem menn geta nú sett reglur hjá sveitarfélögum t.d. um hundahald og kattahald og ýmislegt annað þá stóð ég einhvern veginn í þeirri meiningu að allar þær heimildir væru til staðar í lögum. Það eru nú oft og tíðum ansi fjörlegar umræður í sveitarstjórnum um slík mál. Ég taldi líka að menn hefðu heimildir til að ráða niðurlögum stofna eins og kanínustofnsins samanber það sem gert hefur verið í Vestmannaeyjum, ef ég skil málið rétt. En það væri ágætt að fá útlistun hjá hv. þingmanni hvort þetta sé misskilningur hjá mér og þá til hvers við þurfum þá að setja þessi lög sem sannarlega hafa góða meiningu, og ég get alveg tekið undir vilja þingmannsins.