132. löggjafarþing — 46. fundur,  19. jan. 2006.

Samkeppnisstaða fyrirtækja í eigu ríkis og sveitarfélaga.

66. mál
[17:25]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Því miður er það staðreynd sem ég fór með hér að hlutur hins opinbera hefur vaxið og það er náttúrlega sárt fyrir sjálfstæðismenn að kyngja því. Og það er áhyggjuefni að þetta gerist á tímum þenslu.

Hvað varðar þessi góðu verkefni, t.d. hátæknisjúkrahúsið svonefnda á höfuðborgarsvæðinu, þá er ég á því, frú forseti, að það að tengja það sölu Símans geti orðið byggingu nútímalegs sjúkrahúss til trafala. Ég óska eftir því að við ræðum byggingu sjúkrahúss sér en ekki í sambandi við sölu Símans. Ég held að það verði til framdráttar fyrir byggingu sjúkrahússins að rugla þessu ekki öllu saman, vegna þess að við þetta orðagjálfur um hátæknisjúkrahús er komin upp viss andstaða í samfélaginu vegna þess að fólk er farið að halda að þetta sé eitthvert bruðl og setur það í samband við sölu á Símanum sem var mjög óvinsæl, sérstaklega á landsbyggðinni vegna aðgerða stjórnenda Símans sem urðu strax í kjölfar sölunnar. Ég vona að menn taki tillit til þessa og það verði til framdráttar fyrir byggingu sjúkrahúss á höfuðborgarsvæðinu.