132. löggjafarþing — 46. fundur,  19. jan. 2006.

Staðbundnir fjölmiðlar.

138. mál
[17:27]
Hlusta

Flm. (Dagný Jónsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég flyt hér tillögu til þingsályktunar um staðbundna fjölmiðla.

Meðflutningsmenn mínir eru hv. þingmenn Birkir J. Jónsson, Björgvin G. Sigurðsson, Drífa Hjartardóttir, Hjálmar Árnason, Magnús Stefánsson, Sigurjón Þórðarson og Hlynur Hallsson.

Tillagan hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að skipa nefnd er athugi stöðu staðbundinna fjölmiðla og rekstrarumhverfi þeirra og skili skýrslu. Í skýrslunni verði gerð grein fyrir þróun markaðarins undanfarin ár og, ef þurfa þykir, komið með tillögur um beinar eða óbeinar aðgerðir sem ríkisstjórn og Alþingi gætu gripið til í því skyni að efla rekstrargrundvöll staðbundinna fjölmiðla.“

Tillaga þessi var áður flutt á síðasta löggjafarþingi og í umræðum þá fékk málið mjög góðar undirtektir allra hv. þingmanna sem tóku þátt í þeirri umræðu. Markmiðið hennar er að gerð verði úttekt á þeirri stöðu sem nú er á markaði svæðisbundinna fjölmiðla og getur slík úttekt lagt grundvöll að umræðum um aðgerðir til að efla þessa gerð fjölmiðlunar. Við vitum að svæðisbundnir fjölmiðlar gegna nú þegar og munu í framtíðinni gegna vaxandi hlutverki fyrir lýðræðislega umræðu.

Vegna tímaskorts ætla ég ekki að fara mjög nákvæmt í greinargerðina. Tillagan var rædd á síðasta löggjafarþingi og við eigum umsagnir um þetta mál í hv. menntamálanefnd. Ég vil leggja áherslu á að mér finnst mjög réttlætanlegt að ríkisvaldið komi að uppbyggingu og rekstri slíkra fjölmiðla vegna þess að þeir eiga mjög undir högg að sækja í því rekstrarumhverfi sem þeir búa við. Ljóst er að í því umhverfi sem við búum við þar sem sameining sveitarfélaga er staðreynd eykst þörf íbúanna fyrir staðbundna fjölmiðlun, hún veitir í senn upplýsingar um verkefni stjórnvalda og er vettvangur opinberrar umræðu um málefni hvers sveitarfélags.Við vitum að stóru fjölmiðlarnir eru kannski ekki mjög reiðubúnir að sinna öllum málefnum smærri sveitarfélaga þannig að þetta er mjög góður vettvangur.

Eins og ég sagði áðan hefur tillagan fengið mjög jákvæðar undirtektir hv. þingmanna úr öllum flokkum á hinu háa Alþingi og ég vona sannarlega að við náum að koma þessu máli í gegnum hv. menntamálanefnd og vísa ég því þangað.