132. löggjafarþing — 47. fundur,  20. jan. 2006.

Kjaradómur og kjaranefnd.

417. mál
[13:21]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Við erum í 2. umr. um Kjaradóm og úrskurð hans og þau frumvörp sem eru lögð hér fram. Það er rétt sem hefur komið fram að þegar þessi úrskurður féll 19. desember sl. þá olli hann töluverðum úlfaþyt. Ástæðurnar fyrir því taldi ég alveg augljósar. Ég tek það fram í upphafi að ég gerði skýra grein fyrir því að ég taldi heppilegra að Alþingi tæki þetta fyrir strax og afgreiddi þetta fyrir áramót. Það varð ekki niðurstaðan. Það er kannski ekkert aðalatriði en ég er eindregið þeirrar skoðunar að það hefði verið heppilegra og ítreka það nú.

Formaður kjararáðs og formaður kjaranefndar hafa báðir komið fyrir efnahags- og viðskiptanefnd í umræðunum og reynt að færa rök fyrir þessari gjörð, þessari hækkun. Ég tel þau rök ekki standast. Í gær var lagt fyrir efnahags- og viðskiptanefnd plagg frá Hagstofu Íslands, dagsett 19. janúar, sem sýndi launaþróun eins og Hagstofan reiknar hana út miðað við fjórða ársfjórðung árið 1999. Það má alltaf deila um þann tíma ársins sem menn setja upp í svona samanburði. Það er alveg rétt. En fjórði ársfjórðungur 1999 er ekkert vitlausari viðmiðun en hvað annað. Og þar kom mjög skýrt fram að sú launaþróun sem verið hefur er þannig að hinn almenni launamarkaður hefur hækkað minnst. Næst koma ríkisstarfsmenn og bankastarfsmenn og hæstu launin og mestu hækkanir hafa tekið þeir sem taka laun samkvæmt úrskurði kjaranefndar og kjararáðs. Þetta eru tölur Hagstofunnar. Þær voru lagðar fram í gær. Að þeir sem um þetta véla geti fundið sér rök fyrir því að hækka enn frekar, eins og kom fram 19. desember, það er út af fyrir sig þeirra mál. Það er nú þannig, virðulegi forseti, að þeir sem vilja finna sér viðmiðun til hækkunar þeim tekst það oftast. Það þekkjum við bara úr hinni almennu kjarabaráttu, mönnum tekst það yfirleitt alltaf. Þannig er hún knúin áfram frá ári til árs með því að finna nýjar viðmiðanir sem réttlæta kröfurnar. Ég tel hins vegar og sagði strax að þetta stenst ekki. Það er ekki staða í þjóðfélaginu til þess á nokkurn hátt að réttlæta það að þessar hækkanir gangi fram. Ástæðan er mjög skýr að mínum dómi, virðulegi forseti. Hún er það atriði sem skiptir öllu máli varðandi gerð kjarasamninga. Það er rauði þráðurinn sem heldur saman kjarasamningum og er aðalatriðið í kjarasamningum. En það er friðarskyldan sem fylgir samningunum sem er jú aðalatriðið á hverjum tíma.

Þess vegna taldi ég skýrt og ljóst að það mætti ekki gerast að þetta næði fram að ganga. Í þeim umræðum sem urðu í gær í efnahags- og viðskiptanefnd þar sem ég sat þá komu fram ýmsir lögskýrendur og hlutverk lögskýrenda er að sumu leyti mjög skiljanlegt þegar þeir koma fyrir slíkar nefndir og eiga að fjalla um mál eins og þessi sem við erum nú að fara í gegnum. Þeir tala stundum eins og véfréttir og ekkert skrýtið við það í sjálfu sér. Hins vegar hjó ég eftir því, virðulegi forseti, og það kom fram í framsöguræðum stjórnarandstöðunnar, bæði hjá hv. þingmanni Lúðvík Bergvinssyni og hv. þingmanni Ögmundi Jónassyni, að þeir sögðu mjög rangt frá. Þeir sögðu mjög rangt frá því sem kom fram hjá þeim lögskýrendum sem hér voru að tala (Gripið fram í: Lögskýrendum?) og frá því sem kom fram í nefndinni. (Gripið fram í: Viltu skýra það nánar?)

Virðulegi forseti. Þingmaðurinn getur vænst þess að ég haldi áfram ræðunni og þar kemur skýringin, hann getur verið alveg rólegur. Eins og kom fram áðan taldi ég að það væri heppilegra að gera þetta fyrir áramót og sagði það mjög skýrt opinberlega. Það hafa eflaust komið fram einhver vafaatriði og einhver vandræði við að gera þetta eftir á. Það eru allir sammála um að eftirvirk lög séu til vandræða. Þarna komu fram ýmsir þættir sem menn töldu að þyrfti að athuga mjög gaumgæfilega, t.d. varðandi ákvæði í stjórnarskrá um laun forseta. Varðandi það atriði var sá sem kvað einna fastast að orði um það, sá ágæti lögfræðingur og prófessor, Eiríkur Tómasson. Ég legg heiður minn að veði að ég man það orðrétt hvað hann sagði. Hann sagði við nefndina: Ég hallast frekar að því að þetta fái ekki staðist. En inntakið í því sem þeir sögðu við okkur eins og ég gat skilið það var að fara þyrfti afar varlega í þessu máli og þegar svo væri komið að við værum að fjalla um lög sem virkuðu afturvirkt, þá væri það aðalatriði málsins að það væri sýnt fram á hver sú þjóðarnauðsyn væri að þau lög væru sett. Það var (Gripið fram í: Við hvern sagði hann þetta?) megininntak í ræðu Eiríks Tómassonar og Sigurðar Líndal. Það var megininntak í ræðu þeirra. (Gripið fram í: Ha?) Því skýrar og því ákveðnara sem það kæmi fram með rökum hvaða þjóðarnauðsyn krefji að þetta verði gert þeim mun líklegra væri ef málið kæmi til kasta dómstóla að dómstólar staðfestu ákvörðun þingsins. Þetta var meginniðurstaða í ræðu þeirra og tali.

Ég tel að hv. þingmenn hafi farið mjög rangt með þetta þegar þeir kveða á um annað. (Gripið fram í: Hef ég verið sofandi?) Ég er alveg sammála þessum hv. lögskýrendum. Ég tel að þetta sé meginmálið. Það er verið að flytja þetta frumvarp vegna þess að það er þjóðarnauðsyn að gera það. Það er tilgangurinn og það helgar að það sé gert. Auðvitað er ekkert gamanmál að fara ofan í niðurstöður Kjaradóms. Menn gera það af því að það er mjög brýn þjóðhagsleg nauðsyn á því að það verði gert. Þess vegna er þetta frumvarp flutt. Ég fæ nú ekki betur heyrt, virðulegi forseti, en að allir séu nokkurn veginn sammála því. Stjórnarandstaðan jafnt sem stjórnarsinnar. Ég ætla minnsta kosti að ég hafi skilið það þannig þó þeir velji þann kostinn að segja að önnur aðferðafræði hafi verið heppilegri. Þeir velja þann kost. (Gripið fram í.) Þá skil ég það þannig að þeir séu efnislega, og það kom mjög skýrt fram í ræðu hv. þingmanns Ögmundar Jónassonar áðan, að hann teldi mjög brýnt þjóðhagslega að þetta fengi ekki fram að ganga. Ég skildi ræðu hans þannig. Þannig að ég held að menn séu ekki efnislega ósammála um þetta þó það sé eflaust rétt að deila megi nokkuð um það hvaða málsmeðferð hafi verið heppilegust.

En hvað er það þá, virðulegi forseti, sem gerir þetta svo brýnt? (Gripið fram í: Já, núna kemur það sem við höfum beðið eftir.) Það er rétt að fara yfir það nokkrum orðum. Það er rétt að fara yfir það hvað gerir þetta mál svo brýnt og hvað er í húfi fyrir þetta þjóðfélag. (Gripið fram í.) Við skulum aðeins rifja upp hvernig við höfum staðið að launamálum. Við lentum í þeirri ógæfu, þessi þjóð í nærri tvo áratugi, á síðustu öld, á 8. og 9. áratugnum, að hér ríkti meiri óðaverðbólga og meiri óstjórn efnahagsmála en aðrar Evrópuþjóðir máttu búa við. Það hefti allt, það eyðilagði efnahagslífið, það dró úr öllum möguleikum til hagvaxtar. Við vorum fastir í þessari gildru. Allir vildu losna úr henni en enginn gat komist úr henni. Hvað gerðist á þessum tíma mikillar verðbólgu? Stöðugir kjarasamningar, kjarasamningar aftur og aftur. Alltaf knúnir fram, af hverju? Knúnir fram af réttlætinu, virðulegi forseti, vegna þess að verðbólgan var alltaf að skekkja ráðstöfunartekjur fólksins. Knúnir fram af réttlætinu, nýir og nýir kjarasamningar, og ekkert gekk.

Hvernig skyldi svo hafa verið umhorfs hér eftir kannski 20 ára stöðugar hækkanir, allt í nafni réttlætisins? Menn hækkuðu hér laun um mörg þúsund prósent. Allt í nafni réttlætisins. Hvernig var þá umhorfs? Varla þverfótað fyrir réttlæti eða hvað? Nei, ætli það, virðulegi forseti. Ætli það hafi verið þannig. Það var sko aldeilis ekki þannig. Okkur tókst að komast út úr þessu volæði. Okkur tókst, sem betur fer, að komast út úr þessu, þessari þjóð til mikillar blessunar. Það hafa margir, þó nokkrir, séð ástæðu til að skrifa jafnvel bækur um það sem menn hafa kallað þjóðarsátt 1990. Ég hef aðeins gjóað augunum að þessum skrifum, aðeins litið á þetta. Fæ ekki séð að þeir sem hafa mest um þetta sagt og skrifað hafi stækkað mikið af þeirri frásögn. En það var mjög einfalt, virðulegi forseti, hvers vegna tókst að búa til þessa þjóðarsáttarsamninga. Það var mjög einfalt. Það var verkalýðsforusta Íslands sem stóð að þessum samningum, knúin áfram af einmitt forustumönnum hinna lægst launuðu. Hvernig skyldi standa á því, virðulegi forseti? Það stóð þannig á því að fólkið í landinu, sérstaklega það lægst launaða, sá og hafði uppskorið að það var dæmt til að tapa í þessu verðbólgustríði. Það fór alltaf verst út úr þessu. Undir öllum kringumstæðum tapaði það. Það var þess vegna sem það vildi knýja á um að reyna nýjar leiðir. Vegna þess að það vissi að með verðbólgunni var það dæmt til að tapa. Það voru engin önnur dularfull rök sem lágu til þess að við komumst út úr þessu. Það var nákvæmlega þetta og ekkert annað.

Það hefur verið okkur til ótrúlegrar blessunar að við skyldum komast út úr verðbólgunni og að hér hafi verið þokkalegt efnahagsumhverfi í núna á annan áratug. Hér hefur verið mesta framfaraskeið í sögu Íslands og allir hafa notið gríðarlegra ávaxta af því.

Það er ástæða til að fara í gegnum þessa launasamninga. Alþýðusamband Íslands hefur allan tímann verið í forystu hvað þá ábyrgð varðar. Það er rétt, sem margsinnis hefur verið bent á, að ríkinu gekk illa lengi vel að hemja laun starfsmanna sinna. Þar munar mestu um mistök sem urðu við kjarasamninga 1997 sem voru kannski vel hugsaðir en illa undirbúnir. Það var aftur sem það mistókst 2001. Ég vil taka það fram sérstaklega, virðulegi forseti, að ég álít, og tel mig hafa skoðað það allrækilega, að þeir kjarasamningar sem ríkistarfsmenn gerðu á síðasta ári eða vorið 2005 séu að flestu leyti mjög ábyrgir. Þeir eru innan þess ramma sem við ætluðum okkur að lifa við og þar inni í eru líka þær hækkanir sem nú er verið að ræða, þ.e. rammarnir sem eru ætlaðir til stofnanasamninganna. Það er rangt að þeir séu einhver ný viðbót þar í. Það lá fyrir við gerð kjarasamninganna hverjir þeir væru og hvert vægi þeirra væri. Þannig að ég er mjög ósammála því sem menn segja nú að sá þáttur, sem á að koma til framkvæmda 1. maí nk., hafi verið ný rök til að hækka laun hjá þeim sem taka laun samkvæmt kjaranefnd og Kjaradómi. Það er rangt.

Menn skulu hafa þetta í huga jafnframt því að við höfum verið að hækka hér raunlaun meira en aðrar þjóðir og erum á ystu nöf. Ég hef margsinnis farið í gegnum það. Ég hef margsinnis gert það, virðulegi forseti, að vara menn við hversu tæpt við stöndum og hversu hættulegt það sé fyrir eina þjóð að ganga svo óvarlega fram sem raun ber vitni.

Það má vera alveg ljóst að hefði Kjaradómur fengið að vera hér óáreittur með þeim kauphækkunum sem hann ætlaði til alþingismanna og annarra embættismanna sem fylgja þeim dómi hefðum við átt á hættu að sú friðarskylda sem heldur samningunum saman hefði verið rofin. Friðarskyldan sem heldur þeim saman. Það var því lífsnauðsyn að grípa inn í. Það á ekkert skylt við það, virðulegi forseti, hver laun alþingismanna ættu að vera. Ekkert skylt við það. Það er eflaust hægt að færa fyrir því ýmis rök að alþingismenn ættu að hafa helmingi hærri laun eða jafnvel helmingi lægri laun, það skiptir ekki máli. Það geta allir flutt svoleiðis ræður. Það má líka segja að það væri betra að þeir hefðu enn þá meiri laun. Það gæti líka vel verið. Þó held ég nú, virðulegi forseti, að það sé ekkert til bóta ef það væri svo að það væri ferð til fjár að setjast á Alþingi. Ég held að það væri nú ekkert til bóta. En hitt er annað mál að laun alþingismanna, eins og annarra Íslendinga, hafa sannarlega batnað mjög, þ.e. ráðstöfunartekjur þeirra. Þeir hafa ekki undan neinu að kvarta.

Það getur enginn nema Alþingi gengið fram undir þessum kringumstæðum til að reyna að stoppa þá hættu sem er til staðar í þjóðfélaginu, stoppa þessar hækkanir, ekki í nafni réttlætisins heldur í nafni þjóðarnauðsynjar. Það getur enginn gengið fram nema Alþingi sjálft. Alþingi getur ekki verið ábyrgt í tali sínu og gjörðum nema það þori að byrja á sjálfu sér. Það var það sem knúði á um að það frumvarp sem hér liggur fyrir yrði flutt og samþykkt á Alþingi.

Það er mjög varasamt hvernig menn tala oft um laun og launaþróun. Menn fara mjög óvarlega. Á hátíðisdögum lýðskrumaranna er hrópað þetta venjulega: Allt skal jafnt, allt skal jafnt. Það getur verið fallegt og gott. En það er það ekki í framkvæmd. (Gripið fram í.) Við búum í þjóðfélagi þar sem það er eðlilegt og ekkert við það athuga að ýmis reynsla, menntun og kunnátta skapar mönnum mismunandi kjör. Þú getur gengið fram og samið við trésmiðinn einn daginn og hann getur verið ánægður með kaupið sitt þann daginn. En daginn eftir, þegar þú semur um enn þá hærra kaup við handlangarann hans, þá gerir trésmiðurinn hvað? Hann segir upp. Hann er farinn. Það er ekki hægt að ganga svona um þennan garð. Menn verða að fara varlega. (Gripið fram í.)

Kjaramálaráðstefna sveitarfélaganna stendur nú yfir og það er sannarlega ástæða til að senda þær óskir þangað að forustumönnum sveitarfélaga takist að slökkva þá elda sem loga. Það er mikil þörf á því. (Gripið fram í: Hverjir kveiktu þá elda?) Það er stundum sagt að það sé hættulegt þegar börn fá byssur. Börn með byssur séu hættuleg. Það er mjög hættulegt þegar óvitar fara með hluti sem þeir þekkja ekki. Það er mjög slæmt.

Í gærkvöldi var sagt frá því í fréttum — öllum til undrunar, eða hvað? — að einir 50 leikskólakennarar væru búnir að segja upp í Reykjavík. Hvernig stóð á því að þeir fóru að segja upp? Voru þeir ekki með kjarasamninga? Höfðu þeir ekki samþykkt kjarasamningana sína? Hvernig í ósköpunum skyldi hafa staðið á því? Hvað var það sem rak þá áfram? Menn eiga að þekkja þessa hluti. Menn eiga að vita hvernig þessir hlutir eru. Það þýðir ekkert að ganga fram í barnaskapnum. Við höfum farið í gegnum kjarasamninga áratugum saman. Sjálfur eyddi ég upp undir 20 árum ævi minnar í að taka þátt í þessu. Menn eiga að vita að það þarf að fara varlega. Það verður að gera það. Þetta eru nú einu sinni mannheimar og menn verða að gæta sín. Það er líka rétt sem kom hér fram hjá hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni að það er ástæða til að hafa áhyggjur af launamarkaðnum. Það er ástæða til þess. Hann benti á það réttilega að hinn almenni launamarkaður væri að dragast aftur úr og hann sagði líka réttilega að það væri rangt ef ríkið ætlaði að draga vagninn varðandi þróun launamála. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni. Það er ákveðin hætta á ferðum, sérstaklega gagnvart þeirri peningastefnu sem hér er í gangi sem dregur niður mátt framleiðslunnar og verðmætasköpunarinnar en eykur þjónustuna og verslunina — þar sem við erum að kaupa vörur á niðursettum gjaldeyri sem er hafður á útsölu eins og viðskiptahallinn sýnir.

Það er því rétt, virðulegi forseti, að hafa það í huga sem lögspekingarnir ágætu, þeir Eiríkur Tómasson og Sigurður Líndal, lögðu alla áherslu á í máli sínu við efnahags- og viðskiptanefnd, að það er þjóðarnauðsyn sem krefst þess (Gripið fram í: Þeir sögðu ekkert um það.) að þessi dómur fái ekki fram að ganga. Það er sú þjóðarnauðsyn sem krefst þess að við gerum þetta. Þess vegna erum við að (Gripið fram í.) því og það er niðurstaða þessa máls. Það er aðalatriðið og ég vona að það komi fram að enginn hv. þingmaður hér verði á móti þessu máli þó þeir kannski telji það sér til einhvers framdráttar að segja að önnur málsmeðferð hefði verið heppilegri og því ætli þeir að sitja hjá. Það kann að vera en allt um hitt, þetta er gjört til að sýna að Alþingi hefur miklar áhyggjur af þeirri launaþróun sem er á Íslandi. Alþingi verður á næstu dögum, vikum, mánuðum og missirum að sýna ábyrgð í öllu sínu starfi. Við höfum þanið efnahagslífið mjög óvarlega og nú verður hver maður að vera á vaktinni, reyna að gæta sín af fremsta megni þannig að við fáum mjúka lendingu út úr þessari miklu uppsveiflu. Annað væri óbærilegt, sérstaklega fyrir hina lægst launuðu í þessu þjóðfélagi.