132. löggjafarþing — 47. fundur,  20. jan. 2006.

Kjaradómur og kjaranefnd.

417. mál
[13:53]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni, það er ábyrgðarhluti að hafa eftir mönnum og vissulega viljum við hafa það sem satt er í þessum efnum.

Það sem ég ítreka er þetta: Það kom mér á óvart, af því að vísað er í Eirík Tómasson sérstaklega, hversu afdráttarlaus hann var. Ég átti orðastað og orðaskipti við lagaprófessorinn því að ég taldi röksemdafærslu hans ekki vera sannfærandi. Ég veit að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson man eftir þeim orðaskiptum. Ég furðaði mig á því hversu langt lagaprófessorinn gekk í þessu efni því að ég ítreka að ég var ekki sammála því og það hefur komið ítrekað fram af minni hálfu.

Í lokin þetta: Er það rétt skilið hjá mér að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson hafi síður áhyggjur af kjaramisréttinu sem við verðum vitni að núna innan opinbera kerfisins og í þjóðfélaginu almennt en hinu að almenningur og launafólk og sérstaklega láglaunafólk í landinu komi auga á þetta misrétti?