132. löggjafarþing — 47. fundur,  20. jan. 2006.

Kjaradómur og kjaranefnd.

417. mál
[13:58]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni, ég hætti afskiptum af kjaramálum 1992, lauk þá herskyldu minni á þeim vettvangi og vonast ég til þess að koma aldrei nálægt því aftur.

Samningarnir 1997 og 2001 hjá ríkinu voru eflaust vel meintir og góð meining þar á bak við. Þeir voru óundirbúnir að öllu leyti varðandi stofnanasamningana. Það gleymdist og hafði ekki verið undirbúið þannig að forstöðumenn stofnananna hefðu vald á málinu. Niðurstaða beggja varð sú að launaþróunin varð hærri í heild en gert hafði verið ráð fyrir og menn töldu að samið yrði um þegar samningarnir voru tilkynntir. Þeir urðu hærri. Ég hef margsinnis farið yfir það hér á þinginu að í reyndina voru kauphækkanir ríkisstarfsmanna meiri en menn töldu sig hafa samið um. Það voru mistökin. Ég kalla það mistök.

Í kjarasamningunum núna í vor er einmitt gengið frá stofnanasamningum á miklu tryggari hátt að mínum dómi. Þar er alveg skýrt og undirritaður skilningur allra hvað það sé og það sé innan ákveðinna ramma. Þess vegna tel ég þá ábyrgari. Rammarnir fyrir stofnanasamningana eru inni í heildarupphæðinni sem við tilkynntum og settum fram þegar við tilkynntum hvað samningarnir hefðu í för með sér. Við fórum yfir það, ég fór yfir það ásamt Magnúsi Stefánssyni, við sátum yfir þessu fyrir hönd fjárlaganefndar. Auðvitað ber ég ábyrgð á því.

Aðilar vinnumarkaðarins skoðuðu þetta líka gaumgæfilega. Forustumenn Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands lýstu hinu sama yfir. Það lá fyrir að menn voru sammála um þessa samninga, þó að þeir væru alveg á mörkunum að vera innan þess efnahagsramma sem við ætluðum okkur, þá voru þeir aðeins innan hans. Þess vegna voru þeir ábyrgir.