132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Umferðaröryggismál.

[15:35]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að gefa mér færi á að svara þessari spurningu. Eins og fram kom hjá hv. þingmanni var á síðasta ári í gildi samningur á milli Umferðarstofu, lögreglunnar og Vegagerðar, um sérstakar aðgerðir á sviði umferðaröryggismála. Sá samningur var gerður á grundvelli umferðaröryggisáætlunarinnar sem er hluti af samgönguáætlun.

Skemmst er frá því að segja að þessi samningur bar mjög góðan árangur. Samstarf Vegagerðar og Umferðarstofu annars vegar og lögreglunnar hins vegar leiddi í ljós að ástæða er til að þessir aðilar hafi áfram með sér samstarf á þeim nótum sem gert var. Núna er unnið að endurskoðun á þessum samningi, sem var tilraunasamningur. Ég geri ráð fyrir því að hann verði endurnýjaður strax og búið er að meta aðstæður, árangurinn af þessu starfi og hvar menn telji mikilvægast að bera niður í aðgerðum á vegunum.

Sjónum var sérstaklega beint að hertu eftirliti með hraðakstri, ölvunarakstri og því að tryggja að ökumenn og farþegar væru með öryggisbelti. Ég geri ráð fyrir því að á næstunni verði þessi samningur endurnýjaður og þá til alls ársins þannig að sem mestur árangur náist. Við munum nýta fjármuni sem við höfum í umferðaröryggisáætlun samgönguáætlunar til þeirra samstarfsverkefna.