132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[21:05]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að við þurfum ekkert að vera að rífast um hvort Ríkisútvarpið njóti forskots gagnvart öðrum fjölmiðlum sem starfa á fjölmiðlamarkaði. Ég held að það sé alveg augljóst að þegar eitt fyrirtæki nýtur lögbundinna afnotagjalda sem eru tryggð með lögveði í öllum viðtækjum landsmanna hljóti það fyrirtæki að hafa ákveðið forskot á aðra sem starfa á þessum markaði. Við erum að tala um 2,3 milljarða sem þessu fyrirtæki eru tryggðir með núverandi kerfi. Varðandi það hvort ég telji að Ríkisútvarpið muni gefa upp öndina verði það ekki gert að hlutafélagi þá held ég að það mundi ekki gerast einn, tveir og þrír. Ég held að hlutafélagaformið við rekstur þessa fjölmiðils sé langskynsamlegast og miklu skynsamara en það fyrirkomulag sem hv. þingmaður talar fyrir vegna (Forseti hringir.) þess að það hefur leitt af sér margra ára taprekstur, því miður.