132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[22:45]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki rétt að ekki eigi að opna neina gátt gagnvart stjórnarandstöðunni. En þegar eftir samráði hefur verið leitað hefur ekki verið mikill vilji fyrir því. Ég nefni sem dæmi nýja uppákomu varðandi skipun nefndar um samningu frumvarps um fjölmiðlalög á grundvelli fjölmiðlaskýrslu. Óskað var eftir því af hálfu hæstv. menntamálaráðherra að stjórnarandstaðan kæmi að þeirri vinnu að semja frumvarpið en ég gat ekki skilið málflutning stjórnarandstöðunnar á annan veg en þann að fengi hún ekki að ráða efni frumvarpsins slægi hún á útrétta sáttarhönd. Hún neitaði að taka þátt í því samráði og samstarfi.

Hv. þingmaður nefndi sjálfseignarstofnanirnar. Ég er þeirrar skoðunar að það rekstrarfyrirkomulag — þó svo að það þekkist þá er það náttúrlega ekki jafn vel þekkt og hlutafélagaformið — sé á undanhaldi. Ég nefni sem dæmi að Háskólinn í Reykjavík hefur tekið upp hlutafélagaformið eftir sameiningu við Tækniháskóla Íslands. Fyrir því voru færð rök af hálfu rekstraraðila þess háskóla, þau rök að betra væri að starfa innan hlutafélagaformsins.

Þegar hv. þingmaður segir að sjálfseignarstofnunarformið skapi meira sjálfstæði velti ég því fyrir mér hvað þingmaðurinn eigi við. Tökum sem dæmi skipan í stjórn slíkrar sjálfseignarstofnunar: Hvernig sér hv. þingmaður það fyrir sér að slík stjórn yrði skipuð? Yrði hún skipuð af hálfu eigandans, þ.e. ríkisins, (Forseti hringir.) og þess sem ábyrgð ber, þ.e. ráðherrans, eða af einhverjum öðrum? (Forseti hringir.) Hverjir sætu í slíkri stjórn og hversu (Forseti hringir.) sjálfstæðari væru þeir en stjórnarmenn í hlutafélagi?

(Forseti (BÁ): Forseti vekur athygli á tímamörkum í þessum umræðum.)