132. löggjafarþing — 49. fundur,  24. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[00:16]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ekki ætla ég nú að fara að vanda um við mér yngri og örugglega miklu vitrari menn, en heldur fannst mér þessi ræða bera vott um fullmikinn þótta og stærilæti af hálfu hv. formanns menntamálanefndar. Gott og vel, ég get tekið í sjálfu sér undir allt sem hv. þingmaður sagði. Við þurfum ekkert að fara eftir Evrópuráðinu. Við þurfum ekkert heilbrigðisvottorð. En má ég rifja upp fyrir hv. þingmanni af hverju ég nefndi þetta? Það var vegna þess að hæstv. menntamálaráðherra sagði að þetta stæðist tilmæli Evrópuráðsins í einu og öllu. Ég leyfi mér að efast um það og það er því sem ég segi: Látum skoða það.

Nú tel ég að Evrópuráðið hafi skipt gríðarlega miklu máli varðandi ýmsa þætti í uppbyggingu lýðræðis í Austur-Evrópu eftir að kalda stríðinu lauk og m.a. hefur ágætur Íslendingur, sem nú starfar í forsætisráðuneytinu komið að því að leiðbeina þeim um slíkt. En nú veit ég, af því að ég hef einmitt starfað þar, hvaða möguleikar eru opnir og færir þar. Það er ekki langt síðan það var þjóðaratkvæðagreiðsla í Slóveníu um fjölmiðlalög, mjög svipuð þeim og tekist var á um hér um árið. Þá var beint til ríkisstjórnarinnar að sækjast eftir slíkum álitum. Því var hafnað. En þeir þingmenn slóvenskir sem áttu sæti í Evrópuráðinu óskuðu þá skriflega eftir því við fjölmiðlaskrifstofuna að fá slíkt álit. Ef hæstv. ríkisstjórn skirrist við að verða við þessari sjálfsögðu beiðni má íhuga slíkt.

Að öðru leyti verð ég að segja að ég veit að hv. þingmaður er einarðlegur í málflutningi sínum og skoðunum og það er akkúrat það sem ég óttast. Ég óttast að hv. þingmaður standi við það sem hann segi. Hv. þingmaður hefur sagt að hann vilji selja RÚV og það er einmitt það sem ég hræðist.

Svona breytingar eru eins og breytingar á jarðskorpunni. Þar færast flekar til. Í stjórnmálunum færast kynslóðir til. Það gerist skyndilega. Og sú kynslóð innan flokksins sem hv. þingmaður tilheyrir mun, óttast ég, fyrr en seinna reyna að beita sér fyrir því (Forseti hringir.) að það hlutafélag sem hér er verið að búa til verði selt.