132. löggjafarþing — 50. fundur,  24. jan. 2006.

Matvælarannsóknir hf.

387. mál
[14:34]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég vil segja það strax í upphafi máls míns að almennt er ég frekar jákvæður gagnvart þessu máli. Ég tel fróðlegt að bera saman það frumvarp sem hér liggur fyrir annars vegar og hins vegar frumvarp sem við ræddum í gær þar sem hæstv. ríkisstjórn lagði til að Ríkisútvarpið yrði gert að hlutafélagi.

Það eru sérstök rök sem hægt er að færa fyrir því að mun meiri slægur sé í því fyrir borgara landsins, eigendur þessara rannsóknastofnana og -stofa sem hér er lagt til að verði steypt saman, að gera þær að hlutafélagi en Ríkisútvarpið. Það er hins vegar fróðlegt að fylgjast með viðhorfi ríkisstjórnarinnar til þessara tveggja þátta.

Það verður að segjast alveg eins og er að sú stofnun sem hér er lagt til að verði búin til gegnir, a.m.k. í vitund þjóðarinnar, snöggtum minni stöðu og lægri en Ríkisútvarpið hefur til þessa haft. Ég hjó eftir því að hæstv. forsætisráðherra talaði um að nauðsynlegt væri að leggja þessari nýju stofnun, Matvælarannsóknum hf., til 300–400 millj. í stofnhlutafé. Hæstv. menntamálaráðherra talaði um að það væri nægilegt að leggja Ríkisútvarpinu hf. til 5 millj. Það er alveg ótrúlegt að sjá muninn á afstöðunni til Matvælarannsókna hf. og til Ríkisútvarpsins.

Ég hef hins vegar lengi verið þeirrar skoðunar, herra forseti, að í vaxandi mæli eigi að opna aðganginn að þeim rannsóknum sem ríkið kaupir, þ.e. ég er meira og meira þeirrar skoðunar að það eigi að gera öðrum sjálfstætt starfandi vísindamönnum kleift að komast að þeim fjármunum sem ríkið hefur látið renna eftir sínum eigin lokuðu farvegum frá ríkissjóði til ýmissa rannsóknastofa. Ég tel að umhverfið allt sé breytt að þessu leyti til. Við sjáum fram á töluverðan fjölda af vel menntuðum ungum vísindamönnum sem hafa farið til útlanda til að verða sér úti um mikla menntun og líka bergt af innlendum vísindabrunnum. Þetta fólk er fært og þjálfað. Það hefur frumkvæði og mikinn þrótt, og margt af því langar til og hefur burði til þess að sinna hvers kyns rannsóknum, bæði grunnrannsóknum og þjónusturannsóknum sem í dag er mjög erfitt að koma af stað vegna þess að það er lokað innan ríkisvébanda.

Ég tel að með frumvarpi af þessu tagi sé stigið töluvert stórt skref í áttina að því að opna þetta upp án þess að nokkur hætta sé á því að hagsmunir ríkisins beri nokkurn skaða af. Ég tel þess vegna að með þeim hætti sem hér er lagður til sé í reynd stigið skref að því að opna upp samkeppni og búa til markað fyrir rannsóknir á ýmsum sviðum sem hingað til hefur verið ákaflega lokaður og þröngur og einokaður af hálfu ríkisins. Þetta hef ég margsinnis túlkað í þessum stól. Ég er þessarar skoðunar og mun reyndar geta þessa síðar í dag í umræðum um einmitt frumvarp sem stígur skref í átt að þessu þar sem fjallað verður um breytingar á Verkefnasjóði sjávarútvegsins.

Ég rifja það upp að svipuð viðhorf og ég greini hér frá komu fram þegar umræður áttu sér stað opinberlega fyrir síðustu kosningar um tilhögun þjónusturannsókna og eftirlits á vegum ríkisins. Þær umræður spruttu í tilefni af því að þáverandi forsætisráðherra lagði fram frumvarp um Matvælastofnun ríkisins. Það frumvarp var lagt fram einhvern tíma rétt fyrir kosningar og ég minnist þess ekki að það hafi verið rætt í þinginu, a.m.k. tók ég ekki þátt í þeirri umræðu. Í því frumvarpi var gert ráð fyrir því að saman yrði stefnt í eina stofnun mörgum einingum innan ríkisins sem starfa á þessu sviði en ég gagnrýndi harkalega þá hugmynd vegna þess að þar var ætlunin sú að steypa saman bæði rannsóknunum og eftirlitinu. Það átti sem sagt bæði að sinna stjórnsýslu og verkefnum á vegum hins opinbera, m.a. áttu Rannsóknastofa fiskiðnaðarins og Hollustuvernd ríkisins að vera þar inni.

Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar, a.m.k. hin síðari ár eftir að ég skoðaði þetta rækilega, að rannsóknirnar og eftirlitið þyrftu að vera hvort á sinni hendinni. Ég er þeirrar skoðunar að ekki sé hægt að flytja eftirlitið út á markað eins og sums staðar hefur verið gert. Ég tel að sú stjórnsýsla hljóti alltaf að vera í höndum ríkisins en ég er hins vegar þeirrar skoðunar að vel sé hægt að koma rannsóknunum fyrir á markaði. Ég er þess vegna þeirrar skoðunar að margt jákvætt sé við það frumvarp sem hér er sett fram.

Ég tek eftir því þegar maður ber t.d. þetta frumvarp saman við það sem ég nefndi og var rætt hér í gær, frumvarp til laga um Ríkisútvarpið hf., að þar var tekið skýrt fram að ekki ætti að selja RÚV. Ég gaf lítið fyrir það eins og menn muna sem hlustuðu á ræður mínar í gær. Ekkert slíkt er í þessu frumvarpi og ég geng því út frá því að það sé ætlun ríkisstjórnarinnar til langs tíma, a.m.k. með einhverjum hætti, að koma þessu á markað. Ég er ekki að óska neitt sérstaklega eftir því en ég tel að umræðunnsar vegna þurfi það að vera á hreinu. Ég spyr þess vegna hæstv. forsætisráðherra hvort ætlunin sé sú að selja þetta fyrirtæki að hluta eða öllu leyti. Ég tel að ríkið þurfi að hafa undirtök í fyrirtæki af þessu tagi. Hitt vil ég segja alveg skýrt að ég er þeirrar skoðunar að það komi fyllilega til greina af hálfu ríkisins að hleypa utanaðkomandi aðilum inn í rannsóknafyrirtæki af þessu tagi, og þess vegna tel ég að hlutafélagsformið á þessu sé jákvæðara en sjálfseignarformið, en það gegnir öðru máli um Ríkisútvarpið.

Hv. þm. Hlynur Hallsson deildi áðan á hæstv. forsætisráðherra fyrir að sýna ekki lit varðandi það að staðsetja fyrirtækið annars staðar en í Reykjavík. Nú er það svo að við sem höfum komið að því að flytja stofnanir út á land vitum hvað það getur verið erfitt og ég mæli ekki endilega með því að fyrirtæki af þessu tagi verði flutt út á land. Hins vegar er ég þeirrar skoðunar að eitt af því sem komi til greina í framtíðinni sé að háskólastofnanir sem sérhæfa sig á sviði matvælaþróunar og -rannsókna eigi að hafa kost á því að kaupa sig inn í fyrirtæki af þessu tagi. Það væri miklu erfiðara ef um væri að ræða sjálfseignarstofnun. Þess vegna tel ég að hlutafélagsformið henti þessu andstætt því sem átti við um Ríkisútvarpið í umræðunni í gær vegna þess að ég tel ekki að þar eigi að hleypa neinum öðrum inn.

Ég tel t.d. rétt að í því jákvæða og framsækna umhverfi sem ríkir í háskólasamfélaginu þar sem eru að verða til háskólar, stórir og smáir, sem sérhæfa sig gæti það sem best gerst væri það einhver háskólanna eða hluti þessara háskóla sem skilgreindi sig sem matvælarannsóknaháskóla. Mér fyndist t.d. ekkert óeðlilegt að Háskólinn á Akureyri mundi feta þá slóð. Þá fyndist mér heldur ekkert óeðlilegt að hann sæktist eftir því að verða þungur aðili í stofnun af þessu tagi, bæði til að geta skapað tengslin milli framhaldsnáms, rannsóknarnáms sem verður alltaf grunnur að burðugum sérhæfðum háskóla, og slíks fyrirtækis. Ég hef auðvitað, eins og aðrir, fylgst með því að á Akureyri er stórt og öflugt fyrirtæki sem hefur yfir miklu fjármagni að ráða sem það beinlínis vill nota til að afla byggðarlaginu nýrra starfstækifæra. Ég er að tala um KEA. Ég nefni þetta bara vegna þess að hv. þm. Hlynur Hallsson talaði um að hann vildi fá fyrirtæki af þessu tagi að byggðarlagi eins og Akureyri og ég tel að stofnun eins og þessi ætti ákaflega vel heima í skjóli rannsóknaháskóla sem þar er að þróast. Það væri vel hugsanlegt að þetta gæfi þeim háskóla ákveðin sóknarfæri.

Ég vil samt taka mönnum vara við að það sé auðvelt, jafnvel með því að sveifla til stórum hlunkum og fjármagni, að taka ákvarðanir um að flytja svona fyrirtæki með manni og mús fjarri þeim stöðvum þar sem starfsstöðvarnar eru í dag. Það er þó hugsanlegt að það sé hægt að leggja langtímastefnu sem gæti leitt til slíkrar þróunar. Þetta finnst mér jákvætt og þetta er ástæðan fyrir því að ég tel að um svona fyrirtæki eða stofnun sé betra að hafa umbúnað hlutafélags en sjálfseignarstofnunar. Það eru mín rök fyrir því. Ég sé — en heyri ekki — að ákveðinn hv. þingmaður hafnar því með höfuðhristingu. Það kann vel að vera en ég ítreka það sem ég sagði í umræðunni í gær að ég er í prinsippinu ekkert á móti hlutafélagsforminu. Ég vil bara ekki að gert verði hlutafélag úr Ríkisútvarpinu af því að ég treysti ekki Sjálfstæðisflokknum í því máli. Ég ætla ekki að fara frekar út í það hér og nú.

Það er ýmislegt sem þarf hins vegar að huga að ef menn fara út á þessa braut. Það er aðallega tvennt sem mér kemur strax til hugar. Mér sýnist að samkvæmt þessu sé í reynd verið að skapa aðstöðu þar sem ríkið er að létta af, má segja, einokun sinni á vissum tegundum rannsókna. Þegar ég segi einokun á ég við það að ríkið hefur látið peninga sína innan tiltekins rannsóknargeira renna í ákveðnar stofnanir. En þeir sem ég hef leyft mér að kalla frjálsa vísindamenn eða sjálfstætt starfandi vísindamenn, og þeim fjölgar, hafa átt mjög erfitt með að komast að þeim sjóðum og ég hef talið það miður. Það viðhorf mitt hefur komið fram. Þetta hlýtur þá að þýða að samhliða skoðar ríkisstjórnin það að sjálfstætt starfandi vísindamenn eigi auðveldara með að keppa við stofnun eins og þessa um samninga við stofnanir ríkisins. Þá finnst mér að það sé nauðsynlegt að ríkið sé líka reiðubúið til að örva þau litlu sprotafyrirtæki sem eru orðin til á þessu sviði, þjónustufyrirtæki, með því að bjóða smærri samninga sem henta slíkum fyrirtækjum. Eðli markaðarins er bara slíkt í okkar litla landi. Þetta þarf að skoða vel. Þetta má ekki verða til þess, ef við á annað borð tökum þetta skref, að það séu áfram eldmúrar á milli þessara litlu fyrirtækja annars vegar og hins vegar verkefnanna sem ríkið þarf að kaupa.

Í öðru lagi þarf að huga mjög vel að því hvernig eigi áfram að örva ákveðna nýsköpun sem hefur átt sér stað innan sumra þessara stofnana þegar aðskilnaðurinn er orðinn. Það sem ég á við er að það verður vandasamt fyrir ríkið að skilgreina þá þjónustu og þau verkefni sem það vill kaupa frá fyrirtæki af þessu tagi. Ég nefni aftur Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins og möguleika sem tengjast starfsmöguleikum norðan lands.

Ég kastaði inn í umræðu á síðasta sumri, þegar KEA var að velta fyrir sér möguleikum á að búa til störf fyrir norðan, að innan Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins væru lofandi verkefni sem gætu með fjármagni orðið ansi burðug og leitt til þess að við gætum nýtt til manneldis gríðarlegt magn af matvælum sem við notum í dag í dýrafóður, þ.e. mjöl úr uppsjávarfiski. Þingmenn þekkja kannski þetta tiltekna verkefni sem ég hef oft haft uppi ræður um í þinginu en ég tel að ein af hættunum við þann búnað málsins sem hér liggur fyrir sé að það verður kannski erfitt að slíta upp það frumkvæði sem hefur verið að finna í þessu tiltölulega lausbeislaða og frjálsa rannsóknarumhverfi sem er hið jákvæða við rannsóknastofnanir í umsjá ríkisins. Um leið og fyrirtæki þarf m.a. að sinna arðskröfunni, einbeita sér mjög rækilega að tilteknum þjónustuverkefnum, er hætta á að grunnrannsóknir, eins og sú sem ég er hér að ræða, sitji á hakanum. Ég held þess vegna að samhliða þessu verði ríkið, og það er töluvert vandasamt líka, að örva þær rannsóknastofur sem ekki eru í þessu en eru í hinu frjálsa umhverfi, þ.e. innan háskólanna, til að sinna grunnrannsóknum sem tengjast þessum hefðbundnu matvælaframleiðslugreinum okkar í ríkari mæli en hingað til. Það verður töluvert erfitt vegna þess að rannsóknirnar hafa bundist þessum þremur, eftir atvikum fjórum, rannsóknastofum sem þarna er verið að hnýta saman í eina. Því segi ég það af því að ég er þeirrar skoðunar, eins og hefur komið fram í ræðu minni, að háskóli eins og Háskólinn á Akureyri á að sérhæfa sig. Mér kemur það í sjálfu sér ekkert við en mér finnst að hann eigi að sérhæfa sig í matvælarannsóknum og hann hefur stigið skref til þess í gegnum sín ágætu afskipti af sjávarútvegi.

Ég tel að ríkið þurfi t.d. að ýta undir það að þar verði með fjárframlögum líka ýtt undir grunnrannsóknir samhliða því að rannsóknir verða innan svona fyrirtækis sem eðli máls samkvæmt lúta frekar að eftirliti og þjónustu.

Herra forseti. Eins og hefur komið fram í máli mínu er ég tiltölulega jákvæður á eðli þessa máls. Mér finnst að þar sé verið að stíga skref í rétta átt en það er auðvitað alltaf svo að þegar menn gera breytingar af þessu tagi kemur það með nokkrum hætti við þá starfsmenn sem starfa á þeim stofum sem fyrir eru. Ég legg því ríka áherslu á það, eins og jafnan þegar við ræðum breytingar af þessum toga, að öll skref sem stigin verða verði gerð í eins miklu samráði við starfsmenn og hægt er og að þess verði gætt í hvívetna að með engu móti verði réttindi á þeim brotin eða þau tök höfð á málinu að hægt sé að halda slíku fram.

Herra forseti. Ég segi það líka í lokin að hér hefur málið aðeins verið til 1. umr. og ég hef ekki skoðað það neitt til hlítar. Eins og ég hlustaði hins vegar á mál hæstv. ráðherra og hef svona getað skimað gegnum það held ég frekar að það sé jákvætt að því leyti til að það er líklegt til að ýta undir frekari rannsóknargrósku. Það er það sem við viljum gera, og ég fæ heldur ekki betur séð en að það sé líklegt að þetta muni a.m.k. ekki fara verr með þá peninga ríkisins sem í þessa tegund rannsókna hafa farið hingað til.