132. löggjafarþing — 50. fundur,  24. jan. 2006.

Matvælarannsóknir hf.

387. mál
[15:52]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Hér er verið að ræða um að sameina stofnanir og búa til hlutafélag. Ég hefði talið að þegar farið væri út í slíka vinnu yrði litið yfir farinn veg og skoðað hvernig tekist hefur til með sameiningu stofnana áður og hvað hefur vantað upp á. Ég rakti það í andsvari við hæstv. forsætisráðherra að ekki hefði alltaf tekist vel upp. Ég vitnaði þar til sameiningar Ríkisspítalanna. Ég var hlynntur þeirri sameiningu og studdi hana en eftir sem áður er það staðreynd, sem kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá árinu 2003, þar sem árangurinn var metinn, að ákveðna hluti skorti. Í skýrslunni segir, á bls. 20, að við upphaf sameiningarinnar hafi ekki legið fyrir nein heildarstefnumörkun. Á næstu blaðsíðu segir að ekki hafi legið fyrir nein mælanleg markmið. Ég hefði talið að þegar reynslan af því að hafa enga heildarstefnumótun og engin mælanleg markmið liggur fyrir yrði það haft að leiðarljósi þegar verið væri að sameina þessar rannsóknastofnanir og búa til hlutafélag. Ég hefði haldið að menn mundu spyrja hver hin mælanlegu markmið með þessu frumvarpi ættu að vera til að geta metið árangurinn? Ég hefði talið að það ætti að vera meginmálið.

Í öðru lagi eiga menn að líta til þess hvað hefur vantað upp á — nú er verið að búa til hlutafélag í eigu ríkisins — hjá þeim fyrirtækjum sem eiga í samkeppni við hlutafélög í eigu ríkisins? Það hefur komið fram að meðan Síminn var hlutafélag var mjög erfitt að fá upplýsingar um rekstur hans og hvort hann færi að samkeppnislögum. Ég hefði talið að þau atriði hefði átt að skoða og hafa að leiðarljósi í greinargerðinni. Í svari hæstv. forsætisráðherra kom fram að ný lög lægju fyrir sem ættu að hafa það að markmiði að tryggja upplýsingaskyldu. Ég hef rennt í gegnum það frumvarp. Það er mjög veikt og ég tel að það haldi varla. Það er svona málamyndafrumvarp. Samfylkingin hefur kynnt annað frumvarp hér sem er að mínu mati miklu öflugra. Ef forsætisráðherra hefði virkilega hug á að tryggja að upplýsingar um rekstur hlutafélaga í eigu ríkisins lægju fyrir þá væri miklu nær að samþykkja það, frekar en það málamyndafrumvarp sem Framsóknarflokkurinn stendur fyrir.

En hvert er vandamálið í þessu? Vandamálið er að samkeppnis- og hlutafélagarekstur er svolítið snúinn í þessum geira. Það þarf að vera ákveðinn viðbúnaður hjá rannsóknastofnunum sem er ekkert mjög arðbær. Síðan er hið nýja hlutafélag í eigu ríkisins jafnframt í samkeppni við einkahlutafélög. Það er svolítið snúið að vera með hlutafélag í eigu ríkisins, sem hefur beinar sértekjur af því að vera með viðbúnað — þurfa að sinna ákveðnum verkefnum, vera t.d. í stakk búið til að rannsaka sjúkdómsvaldandi bakteríur eins og kampýlobakter og salmonellu — og vera jafnframt í samkeppni við einkaaðila sem eru í því að rannsaka ákveðnar bendibakteríur sem eru svona rútínurannsóknir. Ef þær bakteríur fara of hátt þarf að fá aðstoð stofnunar sem hefur yfir viðbúnaði að ráða.

Að mínu mati hefðu meginmarkmið frumvarpsins átt að vera þessi: Í fyrsta lagi að taka á hinum mælanlegu markmiðum og í öðru lagi að taka á samkeppnisþættinum sem verður gífurlega snúinn fyrir þau einkafyrirtæki sem eru í samkeppni við hlutafélag í eigu ríkisins.

Í frumvarpinu kemur fram að allt á að verða betra. Það á að auka nýsköpun, auka bolmagn, taka aukinn þátt í alþjóðlegu samstarfi og bæta þjónustu við háskólann. Það er eins og allt verði betra við það eitt að frumvarpið fari í gegn. En svo segir mér hugur að sú verði ekki endilega raunin, sérstaklega ekki í ljósi reynslunnar. Þegar menn hafa farið af stað með sameiningar, svo sem á sjúkrahúsunum, án nokkurra mælanlegra markmiða getur þetta verið snúið. Að ekki sé talað um þegar menn eru í bland með samkeppnisrekstur og ákveðinn viðbúnað og hafa bein fjárframlög frá ríkinu.

Það er annað sem hræðir. Mun þetta verða til þess að verkefni færist út á land? Á Ísafirði væri hægt að koma upp, ef vilji væri fyrir hendi, ákveðinni þjónustu á rannsóknarsviði. En við breytingar, sameiningu stofnana, er eins og verkefnin sogist frekar suður. Ég hef því miður dæmi um það á Norðurlandi vestra. Þar var starfsmaður sem heyrði undir eina umhverfisstofnunina, eina þeirra stofnana sem gekk inn í Umhverfisstofnun. Það starf færðist suður. Síðan koma menn á dagpeningum norður. Þetta á landsbyggðin við að etja og þetta hefur verið viðhorf stjórnvalda á síðustu 10 árum — það hefur verið mjög erfitt að fá verkefnin út á landsbyggðina þó að þar sé bæði starfsfólk og geta til að sinna þeim og þó að það sé miklu ódýrara. En það hefur verið nefnt að þetta mál snúist um þjónustu við atvinnuvegina. Það er vissulega rétt. Það snýst upp að ákveðnu marki um þjónustu við atvinnuvegina, þjónustu við sjávarútveginn og landbúnaðinn. En það verður að huga að fleiri þáttum. Þetta snýst einnig um neytendur í landinu. Það þarf líka að horfa til þess þáttar. Þetta er ekki eingöngu einhver rekstur heldur líka ákveðin neytendavernd.

Í þriðja lagi, og það skiptir ekki minna máli fyrir bæði neytendur og atvinnuvegina, snýst þetta mál einnig um stjórnsýslu. Það þarf að safna upplýsingum um ástand — aðskotaefni, örverur — matvöru og það þarf að miðla ákveðnum upplýsingum, jafnvel út í heim. Hér er því um mikilvæga starfsemi að ræða og ég hefði talið að menn hefðu átt, eins og ég sagði hér, að líta til þeirra þátta sem skipta hvað mestu máli hér. Það er annars vegar hvernig það fer með samkeppni — hlutafélag sem er í eigu ríkisins, sem verður þá í samkeppni við hlutafélög sem eru á einkamarkaði og verður þá með fastar greiðslur frá ríkinu og það er verið að efla það þannig að það mun miklu frekar þrengja að þeim sem eru fyrir á markaðnum. Áður en farið er af stað með svona stofnun þurfa menn líka að hafa hugsað út í það, sérstaklega í ljósi fyrri ádrepu frá Ríkisendurskoðun, að hafa einhver mælanleg markmið. Mér finnst skorta á það í þessu máli.