132. löggjafarþing — 50. fundur,  24. jan. 2006.

Verkefnasjóður sjávarútvegsins.

382. mál
[19:11]
Hlusta

Jón Kr. Óskarsson (Sf):

Hæstv. forseti. 60–70% af útflutningsverðmæti Íslendinga eru sjávarútvegur. Það hlýtur að segja eitthvað hvers virði sjávarútvegur er fyrir okkar þjóð. Hjálmar Vilhjálmsson fiskifræðingur hefur sagt hvað eftir annað undanfarin ár að allt of litlu fé hafi verið varið til fiskirannsókna, samanber loðnurannsóknir undanfarið.

Í framhaldi af því vil ég spyrja hæstv. sjávarútvegsráðherra: Er ekki og hefur ekki allt of litlu fé verið varið til fiskirannsókna? Hvað hafa rannsóknarskipin haft mikið úthald undanfarna mánuði til fiskirannsókna? Það hefur komið hér fram að á þessu ári, árið 2006, mun Árni Friðriksson vera með úthald ráðgert upp á fimm mánuði eða 155 daga. Er kjarninn ekki sá að skortur er á fjármagni til Hafró?