132. löggjafarþing — 50. fundur,  24. jan. 2006.

Verkefnasjóður sjávarútvegsins.

382. mál
[19:49]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er hjartanlega sammála hæstv. sjávarútvegsráðherra að það er ekki vansalaust í því góðæri sem ríkir og ríkt hefur undanfarin ár að okkur skuli ekki hafa tekist að finna fjármuni til þess að stunda grunnrannsóknir með þeim tækjum og tólum og þeim hafrannsóknaskipum sem við höfum yfir að ráða þrátt fyrir að þessi iðnaður eigi mjög í vök að verjast og þrátt fyrir að ýmislegt sé að gerast í lífríkinu sem við skiljum ekki, þegar metinnkoma er hjá ríkissjóði, skatthlutfallið sem hlutfall af vergri landframleiðslu aldrei verið hærra, hækkar stöðugt, að þá skuli ekki vera hægt að nýta fjármuni beint af fjárlögum til að bæta við þessar rannsóknir.

Hæstv. ráðherra sagði áðan að um leikrit hefði verið að ræða hjá þeim sem hér stendur þegar ég fór yfir þau umskipti sem orðið hafa á afstöðu manna í þessu efni. Ef um leikrit er að ræða verður hver að meta það fyrir sig. Það eina sem ég reyndi að gera í ræðu minni þar sem ég fór yfir þetta var að draga tjöldin frá sviðinu eins og það stóð á vordögum, fara yfir hverjir leikendur voru þar, hvað þeir sögðu í hlutverkum sínum og hvernig leikritið endaði eða hvernig það endaði á sviðinu og klappað var fyrir í sölum Alþingis með atkvæðagreiðslu. En svo virðist eins og menn hafi bara gleymt því og vilji gera eitthvað allt annað núna. Þetta er umsnúningur eins og ég hef verið að nefna og það verður bara að hafa það þótt hæstv. ráðherra sé ekki sammála mér í því. Ég held að hver sem er sem skoðar málflutning manna í vor sem leið á þinginu, í sjávarútvegsnefnd sjái að sá sem hér stendur er einfaldlega að fara með staðreyndir. Viðsnúningurinn er algjör.