132. löggjafarþing — 52. fundur,  25. jan. 2006.

Lögreglulög.

46. mál
[15:22]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Þetta mál er nú orðið svolítið gamalt. Ég verð að segja það eins og er. Mig rekur minni til að örfáum vikum eftir síðustu alþingiskosningar sumarið 2003 sendi þingflokkur Frjálslynda flokksins frá sér áskorun sem var dagsett 5. ágúst 2003, um verslunarmannahelgi. Þar fór þingflokkurinn fram á að reglur um innheimtukostnað vegna löggæslu yrðu endurskoðaðar. Yfirlýsingin var send til allra fjölmiðla og birt í fjölmiðlum, að því ég best veit. Þarna skoruðum við á hæstv. dómsmálaráðherra að taka nú þegar til endurskoðunar reglur um þessa innheimtu, löggæslukostnað fyrir íþróttaviðburði og skemmtanir úti á landi. Við bentum á augljósa mismunun sem þá hafði átt sér stað en þá höfðu Skagstrendingar, eins og minnst var á hér áðan, haldið útitónleika og guðsþjónustu og voru rukkaðir um eina millj. kr. í löggæslukostnað af hæstv. dómsmálaráðherra eða embættismönnum hans. Á sama tíma voru miklu stærri samkomur haldnar, til að mynda á Akureyri og í Reykjavík. En þá splæsti hæstv. dómsmálaráðherra með mikilli ánægju á teitið og þar fengu menn enga reikninga fyrir löggæslukostnað.

Við sáum líka á sama tíma hvernig lögregluyfirvöld eða sýslumenn, sennilega var það sýslumaðurinn á Ísafirði sem rukkaði fyrir löggæslukostnað á íþróttamóti sem haldið var fyrir börn og unglinga á Ísafirði. Allt réttsýnt fólk sér það í hendi sér að þetta er tómt bull og vitleysa og óskiljanlegt af hverju hæstv. dómsmálaráðherra þarf að vera leggja þennan kross á embættismenn sína og sýslumenn. Ég hygg að margt af því ágætis fólki sem gegnir stöðu sýslumanna allt í kringum landið þyki frekar leiðinlegt að þurfa að standa í svona pexi. Yfirvöld ættu frekar að sjá til þess að sýslumannsembættin hefðu yfir að ráða fjármunum svo þau gætu greitt þennan kostnað sem ég hygg að sé yfirleitt ekki mjög stór þegar svona skemmtanir eru haldnar. Það sjá allir óréttlætið í þessu þegar við berum saman skemmtanir sem haldnar eru í þéttbýlisstöðum eins og á Akureyri eða í Reykjavík, menningarnótt eða hvað þetta heitir nú allt saman, þar sem ekkert er rukkað fyrir slíka löggæslu. En síðan er rukkað fyrir löggæslu á litlum fjölskyldumótum sem yfirleitt fara fram með mikilli ró og spekt, þar sem fólk fer út á land með börnin sín til að eiga þar góða daga. Tala nú ekki um íþróttamótin. Þetta er mjög ósanngjarnt og fálmkennd vinnubrögð. Ég hygg í raun og veru að þetta hljóti hreinlega að stangast á við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar að þetta sé gert með þessum hætti.

Ég hef ávallt furðað mig á þessu máli. Ætli það sé ekki verið að mæla fyrir þessu frumvarpi nú í þriðja sinn? Það hefur alltaf verið svæft í nefnd. Ég hef furðað mig því hvers vegna í ósköpunum hæstv. dómsmálaráðherra og ríkisstjórnarflokkarnir vilja ekki endurskoða þessi lögreglulög og breyta þeim. Í 34. gr. lögreglulaga segir svo, með leyfi forseta:

„Lögreglustjóra er heimilt“ — tökum eftir því, heimilt — „að binda skemmtanaleyfi því skilyrði að lögreglumenn verði á skemmtistað og jafnframt að leyfishafi greiði kostnað af þeirri löggæslu samkvæmt reglum sem dómsmálaráðherra setur.“

Þetta er með öðrum orðum, virðulegi forseti, heimildarákvæði í lögunum. Hér er jafnframt talað um að það sé sjálfur hæstv. dómsmálaráðherra sem í raun og veru setji þessar reglur. Ég vil leyfa mér að segja að það er hann sem ber skömmina af því að staðið sé að innheimtu þessarar óréttlátu skattlagningar af fógetum hans allt í kringum landið. Hans er skömmin því það er hann sem ber ábyrgðina. Mér finnst að hæstv. ráðherra ætti að beita sér fyrir að þetta verði lagað. Um leið vil ég líka harma að hæstv. dómsmálaráðherra skuli ekki sjá sér fært að vera hér við þessa umræðu. Hann hefur aldrei látið svo lítið að láta sjá sig hér í þingsal þegar þetta mál hefur verið til umræðu. Það verður að segjast eins og er að það er honum til vansa. Við höfum vitað í nokkra daga að málið yrði tekið fyrir nú í þriðja sinn en samt lætur hæstv. dómsmálaráðherra ekki sjá sig í þingsal. Mér finnst það ámælisvert.

Ég hélt ræðu um þetta mál hér í fyrra og reifaði það þá með svipuðum hætti og núna. Ég veit til þess að á einum stað hafa menn því miður kosið að krjúpa og kyssa vöndinn hjá hæstv. ráðherra og gangast undir samkomulag um innheimtuna á þessu gjaldi. Það er í Vestmannaeyjum. Nú nýverið gerði sýslumannsembættið í Vestmannaeyjum og ÍBV, íþróttafélagið, samkomulag um þennan löggæslukostnað á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Þetta hefur í mörg ár verið mjög umdeilt mál eins og fyrri ræðumaður kom að áðan. Núna segja menn að búið sé að setja niður ágreining vegna þessa. Það er ítrekað hér í yfirlýsingu sem ég er með fyrir framan mig að það hafi ávallt verið mikil og góð samvinna milli sýslumannsembættisins og ÍBV, m.a. vegna þjóðhátíðarinnar í Vestmannaeyjum og þetta hafi tryggt góða og örugga framkvæmd hátíðarinnar. Í sjálfu sér efast ég ekkert um að það hafi verið gott samkomulag þarna á milli. Enda er ekki við sýslumenn eða löggæslumenn að sakast. Þeir eru bara að vinna vinnuna sína eins og ég kom að hér áðan. Þeir fara bara eftir fyrirmælum sem koma úr ráðuneytinu. Það er ekkert við þá að sakast. Ábyrgðin er fyrst og fremst ráðherrans.

Í Vestmannaeyjum gengust menn undir samkomulag um að sýslumannsembættinu, eða réttara sagt dómsmálaráðuneytinu, skyldu greiddar 2,2 millj. kr. vegna löggæslukostnaðar á síðasta ári. En ekki tæpar 3,4 millj. eins og rukkað hafði verið um. Og síðan á ÍBV að borga 1,4 millj. kr. fyrir löggæslukostnað á ári næstu tvö árin. Þetta er samkomulagið. Mér finnst þetta í raun ekki vera neitt samkomulag. Þarna er verið að taka peninga frá íþróttafélagi, peninga sem íþróttafélagið gæti notað til góðra verka í heimabyggð sinni til íþróttastarfs fyrir börn og unglinga sem við vitum öll að er mjög mikilvægt forvarnastarf. Þarna er verið að taka þessa peninga frá börnunum og frá unga fólkinu og færa þá inn á einhverja reikninga sem eflaust verða undir valdi dómsmálaráðuneytisins. Þetta er ósanngjörn skattheimta. Mér er alveg sama þótt fólk hafi gert eitthvert samkomulag til að reyna að lækka þessa reikninga. Það á að sjálfsögðu að fara í þessi lögreglulög og lagfæra þetta og síðan á að hætta þessari skattheimtu til þess að litlu íþróttafélögin úti á landi geti notað peningana í farsælt starf fyrir fólkið sem þar býr. Nóg er samt af félagslegum vandamálum víða úti á landi þótt menn séu ekki að bæta gráu ofan á svart með því að arðræna æskulýðsstarfið með ósanngjarnri skattheimtu af þessum tagi.

Ég vona svo sannarlega að þótt hæstv. dómsmálaráðherra hafi ekki séð sér fært að koma hingað í þingsalinn og vera við umræðuna að hann sitji inni á skrifstofu sinni og fylgist með í gegnum sjónvarpið. Ég vona að hann hlusti á okkur þingmenn sem höfum talað í þessari umræðu og að hann sjái til þess sem valdamikill ráðherra í öðrum ríkisstjórnarflokknum með ítök til að mynda í þeirri nefnd sem mun fjalla um þetta mál, að það nái nú loks fram að ganga. Þá væri hann maður að meiri.