132. löggjafarþing — 52. fundur,  25. jan. 2006.

Nýting stofnfrumna úr fósturvísum til rannsókna og lækninga.

64. mál
[15:53]
Hlusta

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að koma í þessa umræðu. Ég held að það mundi styðja framgang málsins, af því að málið þarf náttúrlega að koma fyrir þingið ef verið er að kalla eftir breytingum á lögum, að þessi tillaga fari til umfjöllunar í heilbrigðis- og trygginganefnd og hún afgreiði málið frá sér og þingið en ég tel að það geti átt erindi við nefndina og þannig komi leiðsögn frá þinginu um hvernig það vilji sjá að farið verði í þessi mál af hálfu framkvæmdarvaldsins. Ég tel að það væri betra fyrir framgang málsins að það gerðist fyrst.

Ég tók eftir því hjá hæstv. ráðherra að gert er ráð fyrir að nefndin ljúki störfum í mars en nú er aðeins dregið í land með það hvort sett verði lög eða ekki. Þetta er auðvitað mjög umfangsmikið verkefni sem hér er ferðinni, en ég tel brýnt að sú afstaða ráðherra liggi fyrir að hann telji það styðja framgang málsins að það fari til nefndar og nefndin afgreiði það frá sér, og að nefndin á vegum hæstv. ráðherra fái leiðsögn frá þinginu eftir að það hefur fjallað um þetta mikilvæga mál. Ég held að það hljóti að styðja það að meiri, betri og breiðari samstaða náist um þetta mál en ella gæti stefnt í miðað við hvernig málið var stöðvað í þinginu á lokadögum þess í vor.