132. löggjafarþing — 53. fundur,  26. jan. 2006.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[10:56]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Í kjölfar þeirrar umræðu sem fram fór í lok síðasta árs um frumvarp það sem við ræðum nú vil ég að skýrt komi fram í upphafi þessarar umræðu að ætlunin var ekki að tengja útgáfu rannsóknarleyfa vegna vatnsaflsvirkjana við útgáfu nýtingarleyfa þannig að rannsóknarleyfishafi fengi forgang til nýtingar vatnsaflsins. Ætlunin er að leyfi til nýtingar jarðvarma og vatnsafls verði einvörðungu veitt í formi virkjanaleyfa á grundvelli raforkulaga og engin heimild er til að veita fyrirheit um forgang að slíkum leyfum. Þess í stað er ætlunin einungis að tryggja hagsmuni þeirra sem rannsaka auðlindir með möguleika á raforkuframleiðslu í huga með því að kveða á um að sá sem rannsakar fái endurgreiddan kostnað vegna rannsókna sinna ef öðrum er veitt virkjanaleyfið.

Staðan er því sú að forgangur að nýtingarleyfi á jarðhita nær aðeins til beinnar nýtingar jarðvarmans til hitaveitunota en ekki þegar um er að ræða framleiðslu raforku með jarðvarma, hvað þá heldur raforkuframleiðslu með vatnsafli. Ég tel í þessu ljósi óheppilegt að fella niður forgangsréttarákvæði núgildandi laga í ljósi hagsmuna hitaveitna víða um land. Ég tel hins vegar að ekki sé þörf á því að þegar um raforkuframleiðslu er að ræða, hvort heldur úr jarðvarma eða vatnsafli, að rannsóknarleyfishafi fái fyrirheit um forgang að nýtingu á því svæði sem hann rannsakar.

Rétt er að árétta að frumvarp það sem hér er til umræðu gerir ráð fyrir að rannsóknarleyfi til rannsókna á vatnsafli til raforkuframleiðslu veiti handhafa rétt til þess að rannsaka einn eða í félagi við annan á tilteknu rannsóknarsvæði. Jafnframt er kveðið á um að ef sá sem hefur rannsóknarleyfi fær síðar ekki heimild til að nýta það vatnsafl sem hann hefur kostað rannsóknir á verði honum endurgreiddur rannsóknarkostnaðurinn af þeim aðila sem nýtir viðkomandi virkjunarkost. Er það aðeins sanngjarnt með tilliti til hagsmuna þeirra sem leggja í mikinn kostnað vegna rannsókna. Hér er ekki með nokkru móti verið að ráðstafa þeim virkjunarkostum sem til staðar eru eða veita mönnum fyrirheit um forgang að nýtingu. Þessi regla er nauðsynleg að mínu mati til þess að orkufyrirtæki leggi fé í rannsóknir.

Hæstv. forseti. Umræða um mál þetta hefur farið í óheppilegan farveg og ég á minn þátt í því. Við þinglega meðferð málsins hafa komið fram athugasemdir sem ég tel vert að skoða nánar og með þetta í huga óska ég þess að málið verði aftur tekið upp í hv. iðnaðarnefnd og vonast til þess að þar geti orðið gott samstarf um málið.