132. löggjafarþing — 53. fundur,  26. jan. 2006.

Breytingar á skattbyrði.

[15:22]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Alþjóðastofnanir og hv. stjórnarandstæðingar vöruðu við skattalækkunum og hafa gert undanfarin ár. Núna tala þeir um skattahækkanir. Hvort meina þeir skattalækkun eða skattahækkun?

Í umræddri grein prófessors Stefáns Ólafssonar er hann að bera saman tíundir í skattkerfinu og það er ágætisaðferð til að bera saman skattbreytingar ef aðstæður eru óbreyttar en þær eru aldeilis ekki óbreyttar. Atvinnuleysi hefur minnkað úr 5–6% niður í hálft prósent, atvinnulausir eru flestir í lægsta hópnum. Námsmönnum hefur fjölgað úr 5 þúsund í 9 þúsund. Þeir eru líka í lægsta hópnum og fá lánað fyrir framfærslunni. Útlendingum fjölgaði á síðasta ári um 3.500, það eru sennilega um 7.000 útlendingar sem eru að mati verkalýðshreyfingarinnar með lægstu launin og þeir voru ekki með áður. Aldraðir á hjúkrunarheimilum sem fá niðurfelldar allar tekjur eru líka í þessum hópi og þeim hefur fjölgað mjög verulega vegna fjölgunar þjóðarinnar. Það eru því miklar breytingar.

Árið 1997 tókum við upp 10% fjármagnstekjuskatt sem breytti öllu. Vextir voru skattfrjálsir áður og ekki einu sinni taldir fram. Allar forsendur eru því breyttar og það breytir niðurstöðunni í hæsta hópnum sem nú borgar 10% af stórum hluta teknanna. (Gripið fram í: … launatekjur.) Fjármagnstekjur eru líka inni í þessu. Iðgjald í lífeyrissjóði er frádráttarbært sem ekki var áður. En veigamesta atriðið sem hefur breyst er stórkostleg hækkun launa, um 50% umfram verðlag almennt, og miklu meiri hækkun lægstu launa og lægstu launa elli- og örorkulífeyrisþega. Það er aðalbreytingin. Og af því að skattkerfið er þannig að þeir sem eru með hærri laun borga hærri skatta þá hefur skattbyrðin að sjálfsögðu hækkað og það er ánægjulegt.