132. löggjafarþing — 53. fundur,  26. jan. 2006.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[18:02]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Þetta mál sem hér er að koma til 2. umr. hefur reynst mikið vandræðamál af hálfu ríkisstjórnarinnar. Enda er þetta mál á vissan hátt tákngervingur fyrir þær áherslur sem núverandi ríkisstjórn hefur í atvinnu- og umhverfismálum. Þess vegna þegar verið er að fjalla á býsna hroðvirkan hátt um breytingartillögur á þessu stóra máli þá sýnir það kannski frekar í hnotskurn afstöðu Alþingis. Afstöðu þeirra sem eru hér ráðherrar eða stjórna för í málefnum Alþingis, hvernig þeir telja eðlilegt og sjálfsagt að vinna.

Þetta mál snýst um ráðstöfun á stórum hluta af, ekki bara orkuauðlindum landsins, heldur náttúru landsins. Hv. þingmenn hafa nánast alfarið talað um þetta frumvarp til laga um breytingar á lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, eins og það lúti bara að orkumálum. Orkuvinnsla er bara einn þáttur sem getur komið til greina við nýtingu þessara náttúruauðlinda. En lýsandi dæmi fyrir stefnu ríkisstjórnarinnar, og sér í lagi hæstv. iðnaðarráðherra er hversu ráðherrann lætur sér í léttu rúmi liggja umhverfismál, náttúruverðmæti og það að náttúran sjálf eigi einhvern rétt. Við upplifum hvað eftir annað hér á Alþingi að innan ríkisstjórnarinnar virðist sama vera uppi á teningnum. Mál og málaflokkar sem ættu með eðlilegum hætti að heyra undir umhverfisráðuneytið, eins og sá málaflokkur sem nú er verið að fjalla um, rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu, ættu að stórum hluta að falla undir verksvið umhverfisráðuneytis ef rétt og eðlilega væri á málum haldið og með virðingu fyrir náttúrunni og ef hér væri metnaðarfullt umhverfisráðuneyti.

Annað frumvarp er hér til meðferðar í þinginu um vatnið. Hæstv. iðnaðarráðherra ríkisstjórnarinnar virðist hafa öðlast rétt til að taka vatnið, vatnsauðlindina, inn sem iðnaðarvöru hvort sem það er í lofti, láði eða legi og hvort sem það er fljótandi, eða í föstu eða gufuformi. Það er þessi vinkill, það er þetta sem við erum hér að fjalla um, frú forseti. Þetta er hið alvarlega í stöðu þessa máls hér á þingi.

Það var og hefur lengi verið metnaðarmál okkar Íslendinga að geta virkjað orkuauðlindir okkar. Geta nýtt og notið þess krafts sem í þeim býr til að koma hér á lýsingu, til iðnaðar og til nýtingar fyrir hina ýmsu nauðsynlegu starfsemi í framsæknu menningarsamfélagi. Það höfum við öll verið sammála um. Þjóðin hefur stofnað og átt fyrirtæki sem hafa haft það hlutverk að annast vinnslu, rannsóknir og síðan þjónustu á raforku til landsmanna. Það eru Landsvirkjun, Rafmagnsveitur ríkisins, Orkuveita Reykjavíkur, Hitaveita Suðurnesja, Orkubú Vestfjarða, Norðurorka svo dæmi séu tekin. En þó fyrst og fremst þau stærstu. Okkur hefur að vísu greint á um margar áherslur þessara fyrirtækja. En engu að síður hafa þau hingað til verið ein á hinum raunverulega markaði. Hafa ein annast þessi viðfangsefni. Þau hafa lotið ákvörðun stjórnvalda á hverjum tíma, hversu sátt sem við höfum svo verið við þær ákvarðanir. En þannig hefur þetta verið. Frá og með síðustu áramótum varð hér breyting á. Þá hefur verið innleitt svokallað samkeppnisumhverfi, markaðsvæðing raforkukerfisins. Þar af leiðandi líka markaðsvæðing á orkuvinnslunni. Þannig að nú eru það ekki lengur bara þessi ríkisfyrirtæki, almannaþjónustufyrirtæki, fyrirtæki í eigu sveitarfélaganna sem ein geta búið að því að á grundvelli ákvörðunar eigenda sinna, þjóðarinnar eða sveitarfélaganna, að geta tekið ákvörðun um í hvaða virkjanir verði ráðist — hvað verði næst undirbúið — heldur fer þetta nú á hinn almenna markað. Og auk þess hefur því verið svo fyrir komið að úthlutun á þessum gæðum, möguleikarnir til orkuvinnslu, þeim hefur verið komið fyrir inni hjá einum ráðherra. Einum hæstv. ráðherra sem fyrst og fremst fer með iðnaðarmál. En hér er að mestu verið að taka náttúruauðlindir landsins, náttúruna, þannig að þegar gripið er inn í og tekin ákvörðun um að fara að kanna eina afmarkaða nýtingu á náttúruauðlindinni eins og að virkja hana til raforkuframleiðslu, er jafnframt verið að fórna eða útiloka annað.

Það er einmitt þessi samanburður, þetta mat, sem er hið viðkvæma í öllu þessu ferli. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum lagt áherslu á að náttúran eigi sinn eigin rétt. Eigi sinn sjálfstæða rétt og þegar gengið er á, eða virkjað sem menn kalla svo, einstakar náttúruauðlindir þá verða menn að gera það með þeim hætti að náttúran eigi sinn rétt og njóti stöðugt vafans um hver framtíðaráhrif viðkomandi inngrips í náttúruna hefur. Flokkurinn er stofnaður um þetta. Þetta er einn af hornsteinum þessa stjórnmálaflokks. Þetta er flokkur náttúrunnar, náttúruverðmætanna, það að þegar við umgöngumst náttúruverðmætin, náttúruna og auðlindir hennar, þá erum við að hugsa til framtíðar á þeim grundvelli að við erum með þetta að láni. Við erum með náttúruna að láni. Við erum með auðlindir hennar að láni frá komandi kynslóðum. Við upplifum hins vegar hér að ríkisstjórnin og hæstv. iðnaðarráðherra líta á það sem meginhlutverk sitt að beisla sem flestar náttúruperlur landsins. Að koma böndum yfir náttúruna. Að knýja hana undir sig. Og hugsa ekkert um afleiðingarnar, rétt svo að hæstv. iðnaðarráðherra hugsi í kjörtímabilum ef það er svo.

Það eru þessi atriði sem við erum hér að takast á um, frú forseti. Það er um meðferð og umgengni á náttúru Íslands. Hvers vegna haldið þið að hér hafi verið haldnir stórtónleikar? Ungt fólk á öllum aldri kom saman í Laugardalshöll skömmu eftir áramótin til að tjá íslenskri náttúru stuðning sinn og hollustu, gegn ágangi, græðgi og grimmd sem náttúra Íslands má nú þola af hálfu stjórnvalda. Þarna komu þúsundir ungs fólks, listamenn, tónskáld, tónlistarfólk, rithöfundar og allur almenningur saman og tjáði íslenskri náttúru hollustu sína. Og hópurinn hafði uppi þau varnaðarorð að stefna ríkisstjórnarinnar, fái hún að ganga ótrauð áfram eins og hún hefur gert nú, verði til þess að hún gæti gert Ísland náttúrulaust, eins og yfirskrift þessara baráttutónleika var.

Á undanförnum árum höfum við tekið slaginn um eina mestu náttúruperlu þjóðarinnar, Þjórsárver. Við höfum orðið vitni að ágengni stjórnvalda, ágengni svokallaðra virkjunaraðila sem horfa til þess eins hvernig megi umbylta þessum náttúruperlum til raforkuframleiðslu. Ekki raforkuframleiðslu til að leysa úr brýnustu nauðsynjum þjóðarinnar. Nei, til að taka þátt í málmbræðslum og álbræðslum. Svo gríðarlega stórar framkvæmdir eiga ekki það erindi inn í íslenskt samfélag eða inn í íslenska náttúru að náttúrunni sé fórnað til þess.

Slagurinn um Þjórsárver hefur verið langur og strangur. Heimamenn hafa ásamt eindregnum hollustuvinum Þjórsárvera, fólki sem hefur barist fyrir tilveru þeirra, barist fyrir vernd þeirra um ókomin ár. Við höfum engan rétt til að ráðast á Þjórsárver, þá einstæðu náttúruperlu. Sem betur fer, frú forseti, hefur Vinstri hreyfingin – grænt framboð staðið vaktina í því máli. Ég minnist þess að hér á Alþingi, meira að segja á Alþingi, stóð þorri þingheims upp og fagnaði því að einungis ætti að skerða þau að einum þriðja eða helmingi — helmingurinn fengi að vera eftir eða einhver ákveðinn hluti. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs gátum ekki sætt okkur við það. Okkur fannst það ekkert samningsatriði hve stórum hluta Þjórsárvera ætti að fórna. Við stóðum ein í þeirri vinnu. Meginþorri annarra þingmanna var fylgjandi því að Þjórsárverum yrði fórnað að stórum hluta til að nýta vatnið og náttúruna til að byggja ný raforkuver, raforku sem síðan átti að renna til álbræðslu hér á landi.

Þess vegna er það sérstaklega gleðilegt fyrir okkur þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að Landsvirkjun, sem farið hefur fram af miklu offorsi gagnvart heimamönnum og gagnvart umræddum náttúruperlum, skuli hafa orðið að beygja sig og játa að hún getur ekki sótt málið áfram. Landsvirkjun hefur nú tilkynnt að hún muni setja málið á ís, sem þeir kalla svo, og fresta því um óákveðinn tíma að berja enn frekar á heimamönnum, á Þjórsárverum. Það er að vísu bara brot úr sigri. Auðvitað eigum við að ná saman um að Þjórsárverum og öðrum slíkum náttúruperlum hér á landi skuli þyrma. Við höfum engan rétt til að ráðast á slíkar náttúruperlur.

Frú forseti. Í fréttum fyrir ekki svo löngu, fyrir tveimur árum eða svo, var sögð saga um stórt tré í Bandaríkjunum. Mig minnir að það tré hafi staðið í ákveðnu þorpi í Oregonfylki, en það skiptir ekki höfuðmáli. Þetta gríðarlega stóra tré var eins konar einkennistákn byggðarlagsins. Það stóð á landi sem bóndi nokkur átti. Bóndinn var reyndar dáinn en hann hafði borið svo mikla umhyggju fyrir trénu að áður en hann dó sá hann til þess að enginn gæti hróflað við því, þessu einkennistákni byggðarinnar. Hann fór á sýsluskrifstofu og lét þinglýsa eignarrétti trésins á sjálfu sér, að tréð ætti sig sjálft og enginn hefði rétt til að raska tilveru þess. Þetta kom í ljós þegar ryðja átti trénu burt og leggja hraðbraut þar sem það stóð. Þá var farið að kanna hver ætti landið og kom þá hið sanna í ljós, tréð átti sig sjálft. Það hafði enginn rétt til þess að höggva það.

Mér verður hugsað til svo margra náttúruperlna á Íslandi. Í rauninni ætti að binda í stjórnarskrá, eða tryggja með lögformlegum hætti, að dýrustu náttúruperlur þjóðarinnar, framtíð þeirra eða staða, verði ekki undirorpnar duttlungum einstakra ráðherra eða ríkisstjórna. Verði ekki undirorpnar öflum sem hugsa um það eitt hvernig þau geti af græðgi og virðingarleysi gengið á náttúruna eins og þeim sýnist, eins og við höfum upplifað á síðustu árum af hálfu ríkisstjórnarinnar undir forustu hæstv. iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins sem hefur sýnt íslenskum náttúruperlum minni virðingu en nokkur annar stjórnmálamaður hér á landi.

Við höfum dæmin: Kárahnjúkavirkjunin. Við höfum dæmin: Þjórsárverin. Og við erum áfram að takast á og áfram er verið að sækja fram. Langisjór liggur undir, Héraðsvötnin; jökulárnar í Skagafirði — kannski er það einmitt þær sem málið snýst um — Skjálfandafljót með Aldeyjarfossi — kannski er það einmitt löngunin til að ná þessum náttúruperlum inn í virkjunaræðið, álæðið, sem rekur þetta mál áfram. Mér kæmi ekki á óvart að svo væri. Maður veltir fyrir sér lagasetningum sem þessi ríkisstjórn hefur beitt fyrir sig að náttúran skulu alfarið verða að lúta kröfunni um að henni sé ráðstafað til einnar notkunar sem er raforkuframleiðsla. Hvers vegna má ekki rannsaka Skagafjarðarvötnin, jökulárnar í Skagafirði, með tilliti til þess að verðmæti þeirra fyrir nútíð og framtíð séu helst fólgin í því að þau séu eins og þau eru nú? Hvers vegna megum við ekki beina rannsóknum okkar að því að kanna það? Hvers vegna verðum við að lúta þeim kröfum að rannsóknir í þágu virkjunar skuli hafa forgang umfram allt annað? Hvers vegna megum við ekki rannsaka mikilvægi Þjórsárvera og vatnasvæðis Skagafjarðarvatna með tilliti til líffræðilegs fjölbreytileika og mikilvægis þess fyrir nútíð og framtíð? Hvers vegna megum við það ekki? Hvers vegna má það ekki vera með? Hvers vegna verður að úthluta leyfum til rannsókna til aðeins eins? Til virkjana.

Þetta er svo gróf aðgerð, þetta er svo gróf lagasetning sem við búum við gagnvart íslenskri náttúru að það er þyngra en tárum taki, frú forseti. Ég mun síðar í ræðu minni vekja athygli á þeim tilfinningum, þeirri stöðu sem m.a. Skagafjarðarvötnin hafa í hugum Skagfirðinga og í hugum landsmanna — Skagafjarðarvötnin sem þetta frumvarp beinist kannski að stórum hluta að eins og komið hefur fram í umræðum um þetta mál.

Lítum hér aðeins fyrst, frú forseti, á Kárahnjúkavirkjunina sem ruðst var áfram með. Við skulum vera minnug þess hér að þegar ákveðið var að fara í Kárahnjúkavirkjun var það ekki gert á þinglegan hátt. Þingið treysti á lög um mat á umhverfisáhrifum. Að þau mundu leiða fram sanngjarnt mat á því hvort fara ætti í þessa virkjun eða ekki, m.a. með tilliti til annarra þátta, annarra verðmæta til framtíðar sem þetta svæði gat haft upp á að bjóða. Skipulagsstofnun var þeirrar skoðunar í umhverfismati sínu að svo væri. Að þetta svæði væri svo mikilvægt frá umhverfis- og náttúrusjónarmiðum að því ætti ekki að fórna. Þingið treysti á að þetta væri vegvísirinn sem mætti treysta á gagnvart stjórnvöldum. En stjórnvöld gerðu sér lítið fyrir og höfðu umhverfismatið að engu, sneru því við og heimiluðu virkjun á svæðinu. Því var snúið við og ekki tekið tillit til margra aðvarana, vísindalegra rannsókna sem bentu til að þetta væri mikið fljótræði tæknilega séð en fyrst og fremst að út frá umhverfissjónarmiðum væri verið að fórna allt of miklu.

Frú forseti. Mér er ekki kunnugt um að verksmiðjan sem verið er að byggja á Reyðarfirði sé enn komin með starfsleyfi. Samt eru byggingarnar og framkvæmdirnar á fullu. Ef lögum væri fylgt væru þær líka stopp. Öll sú framkvæmd er knúin áfram, knúin áfram. Lög, reglur og vilji eru virt að vettugi og verkið keyrt áfram af stjórnvöldum. Hvaða traust getur náttúran borið til stjórnvalda af þessu tagi? Enda höfum við mátt búa við það.

Frú forseti. Það er skoðun okkar þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að nú eigi að staldra við. Það eigi að staldra við í stórvirkjunum. Það eigi að staldra við í stóriðjuframkvæmdum. Ljúka því sem í gangi er og mönnum mun finnast það nógu erfitt. En að öðru leyti setja hitt í bið, bæði af umhverfis- og efnahagsástæðum. Þær ástæður mun ég rekja síðar í ræðu minni, frú forseti.

Ég vil ekki alveg skilja við umræðuna um Kárahnjúkavirkjun því við erum að tala um nákvæmlega sömu aðferðafræði sem á að beita nú gagnvart öllum öðrum vatnasvæðum í landinu. Fólk hélt að átökin um Kárahnjúkavirkjun og vatnasvæði Kárahnjúkavirkjunar hefðu verið svo hörð að ríkisstjórnin mundi nú hægja á sér og reyna að ná sátt í samfélaginu um níðingsstefnu gagnvart náttúru landsins. En svo er ekki.

Í Útvarpi Sögu var viðtal við ágætan ungan mann — það hefur síðan birst víðar — sem var einmitt fyrir austan á þessum tíma. Hann lýsir tilfinningum sínum til virkjunarframkvæmda sem þar voru samþykktar. Ungur maður, Helgi Seljan, var í viðtali á Útvarpi Sögu og síðan hefur frásögn hans birst á prenti á allmörgum stöðum. Yfirskriftin er: „Ég biðst forláts.“ Þar segir sá ungi maður, með leyfi forseta:

„Mig langar að segja ykkur ögn frá samviskubiti sem hefur nagað mig um nokkurra mánaða skeið. Þessum móral sem á sér ekki hliðstæðu í neinu öðru en þeirri líðan sem þeir einir þekkja sem drukkið hafa ótæpilega að kvöldi, misst minnið einhverra hluta vegna, og vaknað án þess að vita yfirleitt nokkuð um sigra eða ósigra kvöldsins áður.

Þetta nefna margir í daglegu tali „þynnku“.

Samt er þetta eitthvað svo miklu meira en höfuðverkur og ógleði, þessu fylgir skömm. Og eins og með svona óútskýrða skömm sem annaðhvort dalar eða eykst þegar minnið kemur aftur, þá jókst þessi nú á dögunum.

Byrjum á byrjuninni.

Ég er alinn upp úti á landi. Bjó raunar í Kópavoginum fram til þrettán ára aldurs eða þar til foreldrum mínum datt í hug að setjast að austur á Reyðarfirði. Þetta var á þeim tíma þegar enginn, sem vildi halda friðinn á Reyðarfirði, nefndi orð eins og stóriðju, ál eða kísilgúr á nafn án þess að fá bágt fyrir.

Þarna stuttu áður höfðu enn ein áform stjórnvalda um stóriðju við Reyðarfjörð nefnilega siglt í strand með tilheyrandi vonbrigðum. Þó var á Reyðfirðingum að heyra að vonbrigðin hefðu verið mest meðal þingmanna kjördæmisins sem reynt höfðu án árangurs að koma málinu á koppinn.

Þrátt fyrir þetta ákváðum við fjölskyldan að flytja austur á Reyðarfjörð, í þetta stóriðjulausa pláss, mitt á sjálfum Austfjörðunum.

Þetta fannst engum sérstakt á þeim tíma og ég man ekki til þess að við höfum fengið bágt fyrir þessa ákvörðun um flutning frá neinum, nema síður væri.

Fólk skildi okkur mætavel. Fjölskylda, sem fram til þessa hafði búið í litlu þriggja herbergja íbúðinni í Ástúninu í Kópavoginum, gat leyft sér að kaupa einbýlishús á tveimur hæðum eystra; ...

Þetta viðhorf átti þó eftir að breytast.

Ég man að fyrstu árin mín fyrir austan voru að mestu laus við stóriðjuþrasið sem síðar átti eftir að heltaka menn og jafnvel dýr heima á Reyðarfirði. Lífið gekk sinn vanagang, — fólk kom og fór. Síðarnefndi hópurinn var þó talsvert fjölmennari.

Fyrirtæki komu líka og fóru. Þannig hafði pabbi minn í félagi við fleiri stórhuga menn keypt bakarí staðarins. Þetta bakarí rak pabbi, milli þess að vinna þar öllum stundum, þar til lánardrottnar sögðu stopp. Fyrirtækið fór á hausinn og pabbi á sjóinn. Fleiri lentu í svipaðri stöðu ...

Á þessum tíma fannst mér fátt fastara í tilverunni en Reyðarfjörður og Reyðfirðingar. Ég man samt eftir því þegar þetta breyttist. Það var á stjórnmálafundi ... sem ég sótti fyrir rælni eina, að ég man eftir þingmanni kjördæmisins númer 1, Halldóri Ásgrímssyni, tala um „aðförina að landsbyggðinni“. Hann sagði nauðsynlegra en nokkru sinni fyrr að stóriðja yrði reist fyrir austan.

Ég man að ég hallaði mér að sessunaut mínum, sem komið hafði á fundinn nokkru áður en ég mætti, og sagði: „Missti ég af einhverju, hvað er að gerast?“ Hann svaraði ekki heldur sussaði á mig og klappaði svo hátt og snjallt með öðrum fundarmönnum.

Ég man að í nokkurn tíma á eftir velti ég þessum orðum Halldórs fyrir mér. Gat þetta staðist? Var Reyðarfjörður á vonarvölinni einni? Eini togari staðarins hafði raunar stuttu áður gengið til liðs við Samherjamennina ...“

Frú forseti. Síðar segir í þessu spjalli, þessu viðtali við þennan unga mann, með leyfi forseta:.

„Nokkrum árum eftir að ég hafði reynt að fá skýringar á bölsýni þingmannsins Halldórs Ásgrímssonar en ekki fengið, þá fóru að berast fréttir af áhuga Norðmanna á því að reisa álver við Reyðarfjörð. Jæja, hugsaði ég og varð að játa að kannski mættum við Reyðfirðingar vel hafa fleiri atvinnutækifæri til að moða úr að loknu námi. Hvers vegna ekki stóriðja?

Fljótlega hófust fundarhöld á Reyðarfirði. Ráðherrar og þingmenn vildu eiga okkur með húð og hári. Ég get svarið að á þessum árum fyrir og um síðustu aldamót, þá sá ég fleiri ráðherra og þingmenn en þegar ég fór á þingpalla síðast og hlustaði á umræður um byggðamál.

Fundirnir voru bjartsýnislegir og jafnan vel mætt. Álverið yrði enda byggt ef marka mátti orð ráðherranna — ég hafði jú engar ástæður til að rengja orð þeirra — en rafmagnið til að knýja verksmiðjuna áfram skyldi fengið á Eyjabökkum. Hvorki ég né aðrir fundarmenn veltum því sérstaklega fyrir okkur þegar þarna var komið sögu enda voru einu Eyjabakkarnir sem ég þekkti blokkarklasi í neðra Breiðholtinu.“

Litlu síðar segir, með leyfi forseta:

„Stuttu seinna fórum við þó að heyra fréttir af því að fyrirhugaðar framkvæmdir ráðherranna okkar væru ekki alveg eins vinsælar alls staðar. Það áttum við erfitt með að skilja. Þetta fólk, ráðherrarnir, voru jú að bjarga okkur ef marka mátti orð þeirra, þó vissulega veltum við því annað slagið fyrir okkur hvort og þá hver hefði komið okkur í slíka stórhættu.

Gleði okkar Reyðfirðinga náði ekki langt miðað við fréttir sem við heyrðum næstu daga á eftir. Hópur fólks reis upp og vildi meina að Eyjabakkarnir, sem ég hafði heyrt í millitíðinni að væru víst á hálendi Íslands en ekki bara í Breiðholtinu, væru ómetanleg náttúruperla sem ekki mætti hrófla við, allra síst með því að ausa þangað vatni.

„Djöfuls heimska pakk,“ hugsaði ég, „veit þetta lið ekki að hér sitjum við Reyðfirðingar í hreinni útrýmingarhættu og eina von okkar er bundin við að rennbleyta þessa blessuðu Eyjabakka?“

Málið hitnaði og hitnaði og skap okkar Reyðfirðinga í fullu samræmi við það. Ekki bara að pakk með bakpoka væri að röfla þessu vitleysu um ómetanleika Eyjabakkanna heldur voru nú tónlistarmennirnir okkar, rithöfundarnir okkar, fréttamennirnir okkar og nær allir sem við höfðum einu sinni talið okkar farnir að taka þátt í þessari aðför gegn björguninni í austri.

Ég man að við félagarnir ákváðum einu sinni vel við skál að halda tónleika á Reyðarfirði. Þangað skyldi stefnt tveimur eðalrokkgrúppum. Einhver vandræðagangur var að gefa tónleikunum nafn þannig að við notfærðum okkur bara heiftina sem nú var orðin krónísk og gáfum tónleikunum nafnið Sökkvum Eyjabökkum.

Fengum í kjölfarið mikla athygli og vandlætingu þeirra sem snúið höfðu við okkur baki. Við, þetta hálfdrukknaða fólk sem nú átti að bjarga; okkur var nú drekkt af fólki sem við töldum vini okkar.

Ég man að Björk Guðmundsdóttir seldi ekki marga geisladiska þennan veturinn á Reyðarfirði. Guðrún Eva Mínervudóttir, sem hafði opinberað illsku sína í garð okkar Reyðfirðinga með því að tjalda á Arnarhóli til að mótmæla álverinu okkar, kom ásamt fleiri skáldum austur til að lesa upp úr nýrri bók sinni. Guðrúnu var gefið sterklega til kynna að enginn kærði sig um hennar bók, hún las því aldrei neitt.

Sama var hægt að segja um Jakob Frímann Magnússon og Stuðmennina hans.“

Frú forseti. Þannig hélt þetta áfram og síðan segir í hinni ágætu grein þessa ágæta manns, Helga Seljans:

„Ég man að orðið náttúra hafði á þessum tíma fengið þá þýðingu eina í mínum eyrum að vera samheiti fyrir mannvonsku og rasisma í garð Reyðfirðinga og annarra Austfirðinga, enda óvinaherinn jafnan merktur Náttúruvernd.

Þetta lið var þó heppið því öllum að óvörum fengu þeir ósk sína uppfyllta þegar norska álfyrirtækið, stærsti hluti björgunarsveitarinnar sem átti að redda okkur, og nefndist Norsk Hydro ákvað að hætta við þá tegund af álveri sem rætt hafði verið um og byggja í staðinn stærra, Eyjabakkar voru því ekki nóg.

Ég man að í kjölfarið hætti þessi rógsherferð gegn okkur Austfirðingum að mestu. Einstaka fáviti lét þó í það skína að hugsanlega hefði bara verið betra að sökkva Eyjabökkum en svæðinu sem nú hafði verið nefnt sem hugsanlegt vatnasvæði vegna álversins okkar, Kárahnjúkar.

„Gat það verið,“ hugsaði ég í réttlátri bræði minni. „Ætlar þetta helvítis lið aldrei að láta okkur í friði? Hvenær skyldu þeir sjá að hér væri um líf og dauða að tefla?“

Ég man að þó flestir kæmust óskaddaðir út úr þessum fyrsta bardaga í álstríðinu þá breyttist eitt: Viðhorfið til okkar Reyðfirðinga varð öðruvísi. Fólk sem áður hafði spurt mig út í búsetu mína og jafnan fylgt svari mínu eftir með því að segja: „Já þú ert þar, er ekki gaman að búa úti á landi?“ — það fór að fussa og sveia áður en það svo leit á mig sömu augum og það virti fyrir sér krabbameinssjúkling á líknardeild. Og spurði hvort ástandið væri ekki hryllilegt hjá okkur.

Ég man líka að stuttu síðar bárust fréttir af því að norsku bjargvættirnir hefðu hætt við að bjarga okkur. Í kjölfarið var boðað til íbúafundar á Reyðarfirði. Fundinum var valinn staður í íþróttahúsi staðarins. Til fundarins mættu þingmenn, ráðherrar og forsvarsmenn bæjarins. Ég var þar líka og allir Reyðfirðingar utan nokkurra sem annaðhvort voru heima rúmfastir úr flensu eða á sjó. ...

Ég gleymi aldrei þegar ég kom inn í íþróttahúsið þetta kvöld. Þá fór að læðast að mér efi.

Á gólfum í flestum hornum salarins var búið að koma fyrir handklæðum til að taka við regnvatni sem hafði litla fyrirstöðu í þaki hússins. Við enda salarins var búið að koma fyrir háborði þar sem sátu ráðherrar og þeir sem máttu sín einhvers í álbjörguninni. Við hin sátum þar fyrir framan og í stúku íþróttahússins. Við biðum.

Þegar fundurinn svo byrjaði tók ég eftir því að jafnvel þó ekkert heyrðist í míkrófóni frummælanda þá gerði enginn athugasemd við það. Við bara biðum þangað til einhverjum datt í hug að reka ráðherrann nær míkrófóninum og láta hana byrja upp á nýtt. Það gerði hún og eyddi svo næstu tveimur klukkutímum ásamt öðrum í sama geira að útskýra fyrir okkur það sem við vissum; að einhver töf yrði á því að hægt væri að bjarga okkur Reyðfirðingum úr þessari bráðu hættu sem að okkur steðjaði.

Þarna gerðist ég svo harður að spyrja fyrrnefndan ráðherra og hennar fólk að því hvort og þá hvenær væri kominn tími til að snúa sér að öðru. Bara einhverju öðru. Fyrst á annað borð eitthvað utanaðkomandi varð að koma til svo við gætum áfram búið á Reyðarfirði; hvenær við fengjum til dæmis bar.

Þessi spurning mín varð ekki tilefni frekari vangaveltna um leið tvö í atvinnumálum okkar ...“

Frú forseti. Síðar í frásögn þessa ágæta unga manns segir, með leyfi forseta:

„Stuttu síðar var gengið frá samningum við ítalskt verktakafyrirtæki um byggingu Kárahnjúkastíflu. Þá var ég orðinn blaðamaður á litlu fréttablaði fyrir austan. Fljótlega fóru að berast tíðindi af því að Íslendingar fengjust ekki í vinnu hjá þeim verktaka. Stuttu síðar bárust fregnir af slæmum aðbúnaði útlendinga á svæðinu.

„Byrjunarörðugleikar,“ var sagt við mig þegar ég hafði staðfest þessar fregnir með því að fara sjálfur upp eftir og líta á aðstæður. Ráðherrar og ráðamenn eystra sögðu mig neikvæðan þegar ég ræddi um hvort ekki væri full mikið lagt í sölurnar til bjargar okkur Reyðfirðingum þegar útlendingar væru farnir að taka sér hlutverk þræla í björgunaraðgerðunum.

„Voðaleg neikvæðni er þetta, Helgi,“ sagði ónefndur ráðherraaðstoðarmaður einu sinni við mig þegar ég falaðist eftir viðtali við ráðherrann vegna ásakana um að ekki væri hlustað á kröfur verkalýðshreyfingarinnar vegna Portúgalanna á Kárahnjúkum.“

Síðar segir, með leyfi forseta:

„Ég hafði líka gert athugasemdir við að tvær risavaxnar raflínur, Fljótsdalslínur, skyldu lagðar þvert yfir botn Reyðarfjarðar, á leið sinni frá Kárahnjúkum að álverinu við Reyðarfjörð, en þá verið of seinn. Leyfið hafði verið gefið áður, þegar Norsk Hydro vildi heim og stóð því enn. Allt tal mitt um hvort ekki mætti milda umhverfisáhrif raflínanna með því að grafa þær í jörð, í stað þess að 30 metra möstur yrðu reist á við og dreif þessa löngu leið, var afgreitt sem kjánaskapur af fulltrúum Landsvirkjunar.“

Frú forseti. Síðar í frásögninni segir þessi ágæti maður, með leyfi forseta:

„Ég hafði ekki komið austur í hálft ár þegar ég heimsótti Austfirðina nú um liðna helgi með kærustunni minni. Ég hafði ætlað mér að sýna henni Austurlandið.

Daginn áður en ég kom austur hafði ég tekið viðtal við tvo hagfræðinga vegna þenslu og uppsagna sem hagfræðingarnir vildu meina að kæmu í beinu framhaldi af stóriðjuframkvæmdum okkar Reyðfirðinga. Ég neitaði hreinlega að trúa því að þenslan og björgunin á Reyðarfirði væru nú þess valdandi að frystihúsið á Reyðarfirði væri að loka ásamt tveimur öðrum frystihúsum, öðru á Stöðvarfirði og hinu í Bíldudal.“

Síðar segir, með leyfi forseta:

„Hvers vegna var þessu ekki haldið á lofti þegar farið var út í þessar framkvæmdir, þar sem ég og fleiri settum allt okkar traust á ráðherrana og þá sem sögðu þetta einu færu leiðina fyrir okkur Austfirðinga til að lifa af?

Hvers vegna var því haldið fram að milli 500 og 600 ný störf væru að verða til í landinu í tengslum við þessa framkvæmd, þegar ljóst var að önnur störf legðust af annars staðar á landsbyggðinni til þess að redda þessari sömu landsbyggð? Hvers vegna þurfti allan þennan hóp af fólki erlendis frá til að byggja bæði virkjunina og álverið ef alla þessa Reyðfirðinga vantaði vinnu?

Ég skildi þetta ekki.

Ég var því hálfringlaður þegar ég kom heim á Reyðarfjörð í þetta skiptið. Ég vissi sem var að margt hafði breyst; hús höfðu risið, verslanir opnað og fólki fjölgað. „Var þetta ekki nóg?“ velti ég fyrir mér milli þess sem ég stikaði nýjar götur heimabyggðarinnar.

Einhvern veginn gat ég samt ekki séð að þetta væri þess virði þegar ég hafði heimsótt Kárahnjúka.

Ég fór ásamt kærustunni í bíltúr upp að Kárahnjúkum á laugardag. Kvöldið áður hafði ég verið á barnum á Reyðarfirði, sem nú er opinn alla daga, allt árið um kring, og ekki heyrt um neitt sem menn vanhagaði um, nema kvenfólk — en það hlyti nú að koma um leið og álverið yrði tilbúið.

Þegar upp á Kárahnjúka var komið var eins og allt þetta gleymdist. Ég áttaði mig á því hvers vegna samviskubitið var tilkomið: ég hafði haft rangt fyrir mér. Ég hafði látið æsa mig upp í að heimta eitthvað sem mig vantaði ekki. Ég hafði gert eins og þegar ég var krakki, heimtað eitthvað bara til að heimta.

Mér og mínum hafði verið att út í forað pólitíkusa sem eiga sér enga ósk heitari en að fá klapp og endurkjör. Ég var fífl, fáviti og drusla. Allt í einu.

Ég sat á barmi gljúfursins sem brátt myndi fyllast. Allt þetta land undir vatn, allt þetta vatn fyrir mig. Mig og álverið sem ég hafði fyrst fengið að heyra að mig vantaði þegar núverandi forsætisráðherra var í vandræðum með að ná endurkjöri.

Góðir hlustendur, ég hafði rangt fyrir mér. Ég lét tilleiðast að taka þátt í einhverri mestu feigðarför sem lagt hefur verið í á Reyðarfirði síðan á annan tug breskra hermanna lagði þar upp í sína seinustu för um Eskifjarðarheiði á stríðsárunum. Líkt og þá vantaði útbúnaðinn og farið var of hratt af stað.

Ég áskil mér hins vegar rétt til að spyrja að leikslokum, hlustendur góðir. Ég vil sjá hvort bjartsýnin, áræðnin og krafturinn sem nú hefur losnað úr læðingi heima á Reyðarfirði endist áfram þegar þenslunni sleppir. Þegar aðrir íbúar landsbyggðarinnar hætta að líða fyrir björgunaraðgerð sem aldrei hefði þurft að fara í, ef þingmenn og ráðherrar hefðu ekki skilgreint fyrir okkur hvað okkur vantaði löngu áður en okkur fór að vanta það.

Þangað til verð ég svartsýnn og ef það er bölmóður spyrjið þá konurnar tuttugu sem nýverið var sagt upp eftir ára og jafnvel áratuga starf í frystihúsinu á Reyðarfirði í nafni góðæris. Þær sjá ekki allar fram á að nýmóðins vinnumarkaðurinn eystra hafi upp á eitthvað betra að bjóða.

Spyrjið Stöðfirðingana sem studdu stóriðjuáformin með ráðum og dáð en missa nú vinnu sína og horfa á eignir sínar lækka í verði …

Góðir hálsar, ég biðst forláts.“

Þetta hefur birst opinberlega, frú forseti, og ég les það til að sýna hversu gríðarleg átök eiga sér stað í hugum hvers og eins og í hverju samfélagi þegar farið er í og gripið er til svo gríðarlegra stórvirkra aðgerða sem þarna var verið að gera. Kárahnjúkavirkjun ásamt álversframkvæmdunum þar sem sumir, eins og hæstv. forsætisráðherra og hæstv. iðnaðarráðherra, hafa verið að monta sig af að væru stærstu framkvæmdir í Evrópu og tínt það til sem eitthvað jákvætt um þetta. Og í rauninni skipt þjóðinni í tvær fylkingar á sínum tíma. Meira að segja hjá því fólki sem taldi sig vera að fylgja þessum miklu hernaðaraðgerðum gegn landinu til að byggja þarna upp vinnustað með miklum fórnum, hefur þetta kostað mikil átök. Því leyfa menn sér að spyrja: Hvers vegna ljúkum við nú ekki því verki sem þarna hefur verið ráðist í í svona mikilli ósátt áður en við förum að ganga í ný hervirki gegn þjóðinni, gegn landinu? Af hverju ljúkum við þessu nú ekki og gerum svo hlé? Þessi frásögn hins unga mann sýnir hversu hörð togstreita, hversu mikil átök eiga sér stað þegar ráðist er fram með þeim hætti eins og gert er með stórvirkjunina fyrir austan.

Samkvæmt nýjustu fregnum er það ætlun ríkisstjórnarinnar og hæstv. iðnaðarráðherra að ráðast nú í enn frekari álversframkvæmdir og enn frekari virkjanaframkvæmdir. Mundi þó margur telja að nóg væri komið. Samkvæmt fréttum síðustu daga hefur verið ákveðið að ganga til viðræðna um stækkun álversins í Straumsvík. Samkvæmt þeim áætlunum sem nú liggja fyrir er gert ráð fyrir þremur nýjum álversframkvæmdum eftir að þeim framkvæmdum sem nú standa yfir fyrir austan og á Grundartanga lýkur árið 2008. Hér er um að ræða stækkun álversins í Straumsvík um 280 þús. tonn og samkvæmt þeim yfirlýsingum sem voru lesnar upp á síðustu dögum er stefnt að því að framkvæmdum við stækkun álversins ljúki eigi síðar en 2010. Reyndar er stækkunin háð samþykki Alcan en þegar hafa verið gerðir skuldbindandi samningar af hálfu Landsvirkjunar um að þeir samningar njóti forgangs í viðræðum fyrirtækisins um orkuöflun.

Í öðru lagi er rætt um byggingu álvers í Helguvík. Nú hafa tillögurnar um umhverfismat verið tilkynntar þar sem gert er ráð fyrir 250 þús. tonna álveri. Einnig er gert ráð fyrir að það álver geti farið að taka til starfa á árinu 2008–2010.

Í þriðja lagi verið að vinna að staðarvali á nýju álveri á Norðurlandi þar sem gert er ráð fyrir 200–250 þús. tonna framleiðslugetu. Allt er þetta nú lagt fram og tilkynnt að þetta sé undir í einu. Gangi þetta eftir verður með þeim framkvæmdum álframleiðsla á Íslandi komin í 1350–1400 þús. tonn og Ísland orðið álrisi á heimsmælikvarða með rúm 6% af heimsframleiðslunni í áli. Við finnum hinn gríðarlega þrýsting sem kemur nú frá stjórnvöldum, álverksmiðjum og þeim aðilum sem trúa á ál. Finnum þann gríðarlega þrýsting sem nú er látinn standa á náttúru Íslands. Það er einmitt sá þrýstingur sem birtist í vinnubrögðum hér á Alþingi gagnvart því frumvarpi sem hér er um að ræða, þ.e. að ráðherra fái að úthluta fleiri rannsóknarleyfum til undirbúnings raforkuvinnslu fyrir þau álver sem ég hef talað um. Það er þessi þrýstingur, það er þetta ofbeldi sem á að kynda undir og beita nú gagnvart íslenskri náttúru.

Í umræðunni um málið hefur komið fram að m.a. er verið að takast á um vötnin á Norðurlandi, Skagafjarðarvötnin, Skjálfandafljót. Þess vegna segi ég: Það er með ólíkindum hvernig lagaramminn hefur verið settur upp á þann hátt að forgangur þess sem vill rannsaka slíkar náttúruauðlindir, stór vatnasvæði, hvort sem þau eru á hálendi eða láglendi til raforkuframleiðslu, skuli hafa svona algeran forgang yfir aðrar forgangsraðanir gagnvart þessum náttúruauðlindum.

Frú forseti. Ég ætla að víkja nokkuð að umræðunni um Skagafjarðarvötnin. Í Skagafirði er mikil andstaða við að það sé einu sinni farið í gang með að veita rannsóknarleyfi á fallvötnum Skagafjarðar, jökulánum í Skagafirði. Vegna þess að Skagfirðingar vilja og telja að vötnin eins og þau eru séu þeirra mesta auðlind, bæði til tekjuöflunar en einnig að þeim beri skylda til þess bæði gagnvart náttúrunni í nútíð og framtíð og gagnvart óbornum kynslóðum skuli Skagafjarðarvötnin fá að falla fram eins og þau hafa gert.

Í ályktun félagsfundar Vinstri hreyfingarinnar — græns framboðs 8. júní árið 2005 segir svo, með leyfi forseta:

„Héraðsvötnin og jökulárnar móta ásýnd og ímynd Skagafjarðar og eru undirstaða hins síkvika lífkerfis héraðsins allt frá jöklum til hafs. Tækifæri framtíðarinnar felast í að nýta þau óspjölluð í tengslum við fjölþætta útivist, veiði, ferðaþjónustu, landbúnað og aðra umhverfisvæna atvinnustarfsemi. Þýðing vatnanna fyrir uppeldi fiskseiða, bæði ferskvatnsfiska og sjávarfiska, er einnig ómetanleg. Atvinnutækifærin felast í fjölbreytni og þekkingariðnaði en ekki einhæfum álbræðslum sem skaða möguleika annarra atvinnugreina eins og skýrt hefur komið í ljós að undanförnu. Félagsfundur Vinstri hreyfingarinnar — græns framboðs í Skagafirði leggst því alfarið gegn hugmyndum, öllum hugmyndum, um virkjanir í jökulánum í Skagafirði.“

Frú forseti. Þess vegna finnst okkur hart að búa við það að hæstv. iðnaðarráðherra, sem sér eitt, geti lagt undir og níðst á íslenskri náttúru í þágu áldrauma sinna. Hvernig hún á að fá leyfi, fái hún stöðu til þess, að úthluta rannsóknarleyfum til virkjana á jökulánum í Skagafirði. Það fer hrollur um okkur að hugsa til þess ef svo færi. Það er sjálfsagt að athuga og rannsaka lífríki jökulánna í Skagafirði til að við vitum um líffræðilegan fjölbreytileika þeirra út frá forsendum um að þau megi vera óröskuð. En þegar rannsóknaraðili fer í rannsóknir á þeim forsendum einum að rannsaka möguleika til virkjana, þá er þeim náttúruauðlindum ógnað.

Frú forseti. Ég mun þess vegna rekja ýmis sjónarmið okkar Skagfirðinga gagnvart þessum virkjanahugmyndum og þeirri ógn sem við teljum að okkur stafi af því ef ráðherra fær þessa heimild. Ýmis skáld hafa ort um Héraðsvötnin, enda eru þau miðlæg í hugum Skagfirðinga. Skín við sólu Skagafjörður, er eitt hátíðarljóð sem Skagfirðingar hafa yfir og syngja á hátíðarstundum og þá er risið úr sætum. Ég segi, frú forseti: Hver mundi vilja standa á Vatnsskarði við Arnarstapa og horfa yfir Skagafjörðinn ef búið væri að stífla hann eða jökulárnar eða taka mjólkurlitinn, framburð Héraðsvatnanna út í Skagafjörðinn, sem litar hann langt út undir Drangey? Þá væri búið að skerða, lama og lemstra þessa náttúruauðlind svo mikið. Hver gæti þá staðið við Vatnsskarðið og sungið: Skín við sólu Skagafjörður? Ég á erfitt með að sjá það fyrir mér, frú forseti.

Þess vegna viljum við einmitt ekki að ráðherra eins og þessum hæstv. iðnaðarráðherra sem hugsar ekkert nema um álbræðslur og virkjanir, verði færðir möguleikar á að úthluta slíkum leyfum. Mörg skagfirsk skáld hafa ort óð og hollustu til Héraðsvatnanna. Í kvæðinu Blönduhlíð endar Stefán Vagnsson frá Hjaltastöðum, sem var uppi á árunum 1889–1963, kvæði sitt þannig, með leyfi forseta:

Meðan „Vötnin“ ólgandi‘ að ósum sínum renna,

iðgrænn breiðist gróður sléttur, hæð og laut,

geislar árdagssólar á bröttum tindum brenna,

blessun Drottins ríkulega falli þér í skaut.

Meðan Héraðsvötnin fá að renna, meðan vötnin, meðan Jökulsárnar í Skagafirði fá að renna ólgandi að ósum sínum þá mun blessun Drottins ríkulega falla þér í skaut, er óður Stefáns Vagnssonar til allra þeirra sem koma og njóta fegurðar náttúrunnar og þeirra auðlinda sem skagfirsku vötnin bjóða upp á. Við viljum ekki að hæstv. iðnaðarráðherra né neinn fái ótakmarkaðar heimildir til að úthluta rannsóknarleyfum á Héraðsvötnunum eða á Jökulslánum til virkjana. Svo einfalt er það.

Í skoðanakönnun sem gerð var meðal Skagfirðinga á nýliðnum vetri kom vilji þeirra afar skýrt fram, þeir vilja ekki fórna Héraðsvötnunum sínum, Jökulsánum. Þeim voru Héraðsvötnin og Jökulsárnar mest virði eins og þau eru nú og geta ekki hugsað sér að á þau verði ráðist eins og hér er verið að fara fram á með frumvarpi hæstv. iðnaðarráðherra sem við höfum verið að fjalla um. Ég ætla nú að nefna nokkrar greinar sem lúta að viðhorfi fólksins til þessara vatna. Því það er nú svo að sem betur fer eru margir Íslendingar, og þeim fjölgar, sem líta á vötnin, á náttúruauðlindir landsins, sem dýrar perlur sem við höfum ekki ótakmarkaðar heimildir til að ráðast á. Ég ætla að lesa hér grein sem Þórarinn Magnússon, bóndi á Frostastöðum í Skagafirði, birti í Feyki 14. september 2005. Með greininni fylgja fallegar myndir sem sýna hóp fólks vera að stikla yfir Jökulsárnar í Skagafirði. Í grein Þórarins segir svo, með leyfi forseta:

„Aðalfundur Norðlenskrar orku ehf. var haldinn í Miðgarði 29. júní sl. Áður en eiginlegur fundur hófst var farið í skoðunar- og kynnisferð til Ævintýraferða Magnúsar Sigmundssonar til að fræðast um siglingar á Jökulsánum, eystri og vestri. Það var „mjög gaman og áhugavert“ eins og fundarritari skráir í fundargerð. Magnús sýndi okkur aðstöðuna og fræddi hópinn um sögu siglinganna, stöðu sína í dag og ekki síst þá miklu möguleika sem hann sér í framtíðinni. Með dálítið meira fjármagni má stórbæta ásýnd og aðstöðu, búa til „heimsklassa afþreyingu“ eins og hann orðaði það. Og hann vitnar í ræðarana sína. Fjölþjóðlegan hóp manna sem hefur það að atvinnu að fara um heiminn og sigla niður ár. „Þið vitið ekki hvað þið eigið,“ hefur hann eftir þeim. Eystri áin er tvímælalaust á meðal 10 bestu siglingaáa í Evrópu en þar er aldursmark 18 ár, vestari áin er tiltölulega auðveld, aldursmark 12 ár, en í stórkostlegu umhverfi. Að ógleymdri þriggja daga ferðinni frá Laugarfelli og niður úr. „Þetta markar Skagafirði algera sérstöðu á landinu sem er afar mikilvægt í ferðaþjónustunni. Ætlið þið að eyðileggja þetta?“ spyr hann“ — náttúruunnandinn og ferðafrömuðurinn Magnús Sigmundsson, sem er með Ævintýraferðir. — „Í fyrsta sinn fannst mér ég skynja í þessum hóp að fólk átti sig á að hér sé eitthvað sem skipti máli.

Gangnamannafélag Austurdals stóð fyrir gönguferð niður Austurdalinn dagana 15.–17. júlí sl. 17 manna hópur hélt af stað frá Varmahlíð um kl. 17 á föstudegi og ók sem leið liggur fram að Laugarfelli. Þar var áð um stund á bökkum fyrirhugaðs lóns Skatastaðavirkjunar.“

En, frú forseti, þær virkjanir sem hefur verið talað um að gera í Jökulsánum í Skagafirði eru annars vegar svokölluð Skatastaðavirkjun og hins vegar svokölluð Villinganesvirkjun.

„Þar var áð um stund á bökkum fyrirhugaðs lóns Skatastaðavirkjunar. En síðan haldið áfram eftir fyrirhuguðum lónsbotni niður að Grána en þar skyldi gist fyrri nóttina. Skálinn stendur á fallegum stað við Geldingsána nokkru áður en hún fellur í Jökulsá eystri. Þar er gott að hvílast í heilnæmu fjallalofti við hægan nið árinnar. Verði af Skatastaðavirkjun er fyrirhugað að stífla Geldingsá nokkru ofar við Grána og veita henni í miðlunarlónið, svokallað Bugslón. Eftir yrði lækjarspræna.

Ferðalangar voru snemma á fótum á laugardagsmorgni enda fram undan 25 km ganga með bakpoka niður í Hildarsel. Tjöldum og öðru sem ekki var nauðsynlegt að hafa með var pakkað niður og það sent til byggða með bílunum. Hópurinn var myndaður í bak og fyrir og síðan haldið af stað í blíðskaparveðri. Stefnan er tekin á Stórahvamm, gróðursælan stað meðfram Jökulsánni. Þar vex birki í mestri hæð á Íslandi, um það bil 630 metrum yfir sjávarmáli. Áfram er haldið niður að Lönguhlíð en þar skiptist hópurinn. Ég held að alla langi niður að Lönguhlíð en flestir ganga heim brúnirnar því dagleiðin er löng og ekki má eyða öllum kröftum í upphafi ferðar. Við erum sex sem förum niður í bratta hlíðina. Og þvílíkt landslag. Meira en mannhæðarhátt víði- og birkikjarr og svo þétt að maður verður víða að ryðja sér braut. Þetta er í 500–550 metra hæð yfir sjó.

Hópurinn sameinast aftur við Hörknána, þá litlu náttúruperlu. Áin er ekki mjög vatnsmikil en brött og hendist áfram hvítfyssandi á milli stórra steina sem allir eru grænir af mosa. Hér þyrfti að gefa sér tíma til að hinkra við um stund í góðu veðri og njóta. En nú er orðið stutt niður að Fossá og þar er fyrirhugað nestisstopp. Sú vitneskja drífur svangt göngufólk áfram svo Hörknáin verður að eiga sína töfra fyrir sig að þessu sinni.

Það er sama blíðan. Að halla sér aftur þarna í góða veðrinu á bökkum Fossár, borða nestið sitt og láta þreytuna líða úr vöðvunum er yndisleg tilfinning. Ekki skal ég hér hafa um þennan stað mörg orð en ég veit að allir sem þarna hafa komið geta sett sig í okkar spor og samglaðst okkur. En hér er ekki til langrar setu boðið því enn er 13 km leið eftir fyrir höndum og Fagrahlíðin er eftir.

Fararstjórarnir bjóða nú aftur upp á útúrdúr fyrir þá sem vilja inn að svokölluðum Væthamarsskeiðum á Fossárdal. Þangað koma fáir aðrir en gangnamenn í fjárleitum. Við förum fjórir, fyrst upp brekku og svo inn dalinn. Og þvílík perla þessi Fossárdalur. Svona algjörlega óvæntur og vel falinn að fæstir ferðalangar vita af honum þó þeir fari oft um Austurdalinn. Stóreflis björg, fossandi vatn og gróður í stórkostlegu samspili milli brattra hlíða. Hingað þyrftu allir sem fara um Austurdalinn að koma. Taka í það að minnsta kosti einn og hálfan til tvo tíma. Ef til vill er vissara að draga það ekki of lengi því ef ráðist verður í Skatastaðavirkjun er fyrirhugað að stífla bæði Fossána og Hörknána. Leiða þær í göngum undir farveg Jökulsár eystri og í önnur veitugöng vestan Jökulsár. Ræna dalinn þessum perlum sínum.

Við þessir fjórir náum hópnum niðri við Fögruhlíð og þá er byrjað að rigna. Regnið ýtir fólki af stað þessa síðustu fimm km niður í Hildarsel svo dvölin í Fögruhlíð verður styttri en til stóð. Bakpokar og föt þyngjast, skór blotna og það verður skreipt í spori. Göngulúið nær fólk að Hildarseli eftir rúmlega 10 tíma ferð. Þetta er of löng dagleið fyrir þá sem ekki eru gönguvanir, jafnvel í góðu veðri. Það fer of mikill tími í að þramma í halarófu, en of lítill tími gefst til að njóta. Það vantar skála við Fossána. Þá væri þarna komin stórkostleg gönguleið með upphafi við annaðhvort Laugarfell eða Grána og endapunkt við Ábæ, Skatastaði, Merkigil eða jafnvel Gilsbakka. Allt eftir því hvernig fólk vill haga ferð sinni. Í góðum ferðahópi er skálalífið kvölds og morgna líka stór hluti af velheppnaðri ferð.

Á sunnudegi var svo þægileg 10 km ganga frá Hildarseli niður að kláfnum við Skatastaði. Þar beið okkar Sigurður Friðriksson sem ók okkur heim til sín að Bakkaflöt. Þar fór hópurinn í sund og heita potta.

Fyrst höfðum við pottana fyrir okkur en áður en langur tími leið fylltist laugin af fólki sem var að koma úr siglingu niður Jökulsá vestari. Þar var m.a. þekkt norsk skáldkona, Margit Sandemo, með hóp af ljósmyndurum og sjónvarpstökufólki. Hún hafði einnig komið árið áður með sams konar hóp. Önnur kona var þarna frá Akureyri. „Ég sigldi ána í fyrra,“ sagði hún, „og það var svo stórkostlegt að núna tók ég með mér hóp og við gistum hér á Bakkaflöt.“ Þessi ummæli eru í takt við ótal önnur sem fallið hafa frá fólki sem siglt hefur árnar.“

Og grein sinni lýkur Þórarinn Magnússon á Frostastöðum þannig, frú forseti:

„Skagfirðingar! Stöndum vörð um Jökulsárnar. Leyfum þeim að renna óbeisluðum frá jökulrótum til sjávar. Það er sannfæring mín að þannig verði þær Skagfirðingum sem og þjóðinni allri til mestra heilla um ókomin ár. Sameinumst hins vegar um að reisa góðan skála við Fossá svo Austurdalsganga verði auðveld sem flestu fólki. Gönguferðir eru ört vaxandi hluti af ferðaþjónustu um allan heim og það geta þær líka orðið í Skagafirði.“

Frú forseti. Þetta er grein sem lýsir gönguferð eins hóps um svæði Jökulsánna í Skagafirði. Verði áform iðnaðarráðherra, ef þau ganga eftir, um að virkja eða stífla Jökulsárnar þá mun þessu landi, þessu svæði, þessum perlum sem hér er lýst, verða tortímt. Það er þess vegna sem við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs krefjumst þess að nú verði stöðvað við þær framkvæmdir sem þegar eru komnar í gang varðandi virkjanir á fallvötnum landsins. Og við spyrjum: Viljum við ganga enn lengra í að fórna þessum náttúruperlum á þágu stórvirkjana eða stóriðju eða viljum við meta hvort þær megi ekki standa eins og þær eru og séu þannig þjóðinni bæði í nútímanum og í framtíðinni best og mest auðlind?

Frú forseti. Það eru fleiri sem hafa skrifað greinar um Skagafjarðarárnar. Ég dreg þetta fram vegna þess að í því fylgiskjali sem hefur verið dreift með frumvarpi hæstv. iðnaðarráðherra um að fá að úthluta rannsóknarleyfum til virkjana kemur fram að það eru einmitt leyfi til rannsókna á virkjunarmöguleikum Skagafjarðarvatnanna sem knýja frumvarpið áfram. Hæstv. ráðherra gat þess hér í ræðum sínum, bæði við 1. og 2. umr., sem hún hefur dregið til baka og sagt að hafi verið takmarkað að marka, að það var einmitt vegna þrýstings þeirra aðila sem vilja fá að fara inn á Skagafjarðarvötnin til virkjana sem þetta frumvarp er keyrt fram. Þá verður ekki svigrúm fyrir þá aðila sem vilja horfa á aðra nýtingu þessara miklu auðlinda.

Valgeir Kárason skrifar grein í Feyki um þetta mál 17. nóvember 2004, sem ég vil leyfa mér að gera að umtalsefni, frú forseti.

Áður en ég kem að greininni, frú forseti, er gott að brjóta upp og rifja upp frekari samþykktir.

Samtök ferðaþjónustunnar álykta 6. október árið 2004 einmitt varðandi virkjunarframkvæmdir í Skagafirði, með leyfi forseta:

„Samtök ferðaþjónustunnar vara alvarlega við þeirri tillögu sem fram hefur komið og er til breytingar á þriðju tillögu að aðalskipulagi Skagafjarðar fyrir árið 2004–2016 en tillaga þessi var kynnt á fundi sveitarstjórnar Skagafjarðar 24. september sl.

Samtökin benda á að efling ferðaþjónustu hefur verið eitt meginmarkmið stjórnvalda á undanförnum árum. Áframhaldandi vöxtur er best tryggður með öflugri þjónustu og fjölbreyttri afþreyingu. Góð afþreying er lykilatriði í að laða ferðamenn til landsins. Jökulár Skagafjarðar eru afar vinsæl afþreying, bæði meðal erlendra og innlendra ferðmanna, enda einhverjar þær bestu og fjölbreyttustu til fljótasiglinga í Evrópu.

Einnig hefur umtalsverð atvinnustarfsemi byggst upp í kringum fljótasiglingarnar sem skapað hefur tekjur í byggðarlaginu. Það er því undarlegt að fórna dýrmætu svæði án þess að fram hafi komið hvers kyns atvinnuuppbyggingu virkjanirnar komi til með að hafa í för með sér.

Með samþykkt þessari [þ.e. að samþykkja virkjunarframkvæmdir í Skagafirði] er verið að stofna áframhaldandi uppbyggingu ferðaþjónustu í voða og auk þess mun sú ímynd sem Skagafjörður hefur aflað sér sem áfangastaður ferðamanna bíða hnekki.“

Þetta er ályktun frá Samtökum ferðaþjónustunnar.

Við erum að takast hér á um sjónarmið, við erum að takast á um virkjunarsjónarmið, um álbræðslusjónarmið hæstv. iðnaðarráðherra og þessarar ríkisstjórnar og okkar hinna sem viljum líka sjá að réttur náttúrunnar til þess að eiga sig sjálf eða til þess að vera notið með öðrum hætti eigi líka að fá að njóta virðingar og hljóta sinn sess.

Sigríður Sigurðardóttir, safnvörður í Glaumbæ í Skagafirði, hefur lagt mikla áherslu á að efla menningarlíf og draga fram menningarlíf og menningarstarf í Skagafirði — Byggðasafnið í Glaumbæ og starf hennar þar er þekkt langt út fyrir landsteinana. Hún skrifar einmitt grein í Feyki 10. nóvember 2004 um Skagafjarðarvötnin og þá sýn sem við erum að takast á um. Greinin ber yfirskriftina „Ólík sjónarmið“.

Þar segir, með leyfi forseta:

„Getur verið að fólk telji almennt að það sem mér finnst vera náttúruspjöll geti verið fyrir þeim lykill að lífshamingju og velmegun? Eða er öðruvísi hægt að útskýra hugmyndir um virkjanir við Villinganes og Skatastaði sem mér finnst óhuggulegar? Frá mínum bæjardyrum séð væri jafnvel hægt að túlka áhuga virkjanasinna sem skemmdarfýsn ef skoðað er hve miklu óhagkvæmari virkjanirnar eru taldar vera miðað við aðra virkjanakosti þar sem viðskipta- og hagkvæmnissjónarmiðin eru notuð sem mælistika. Það má nefnilega ekki tala um fagurfræði, tilfinningar eða vitund yfirleitt í þessu sambandi, bara hagkvæmni, viðskipti, hagvöxt, byggðapólitík.

En hvers vegna erum við ekki að taka mark á skýrslu verkefnisstjórnar um gerð rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma sem mikið var lagt í? Þar kemur fram að það eru fjölmargir aðrir virkjanakostir mun vænlegri fyrir land og þjóð en virkjun fallvatnanna í Skagafirði. Skagafjörður er fögur umgerð um gott mannlíf. Það dró mig hingað aftur eftir að hafa hleypt heimdraganum í öðrum byggðum, ekki vonin um að geta virkjað. Hér eru hvorki víravirki né línuvegir, virkjanir né stórverksmiðjur sem trufla sýn til dala, fjalla, eyja og stranda, og þannig vil ég hafa Skagafjörð áfram. Ég get ekki hugsað mér þau eftirmæli að á mínu stutta skeiði í eilífðinni hafi ég þegjandi tekið þátt í óafturkræfum náttúruspjöllum og þannig misnotað umhverfi mitt vísvitandi. Þess vegna sting ég niður penna. Einnig af því að náttúran sjálf getur ekki varið sig og hefur ekki annað tungumál en náttúruhamfarir. Ég vil biðja jökulánum og þar með Héraðsvötnum vægðar. Þau hafa og eru enn að móta Skagafjörð og skagfirskt mannlíf.

Ég beini orðum mínum fyrst og fremst til kjörinna fulltrúa í sveitarstjórnum sveitarfélagsins Skagafjarðar, hreppsnefnd Akrahrepps, og bið þá að hafna hugmyndum um virkjanir við Villinganes og Skatastaði og þyrma náttúru Skagafjarðar. Ég vil einnig skora á alla þá sem efast um gildi virkjana að biðja þá sem fyrir þeim vilja standa að leiða rök að skoðunum sínum og reyna að skilja þeirra sjónarmið, svo gjörólík sem þau eru þeirra sem sjá fjársjóð í fegurð og sköpunarkrafti náttúrunnar og þeirra sem sjá fjársjóðinn í pundinu, í pyngjunni og sköpunarkrafti vélaraflsins. Það læðist að mér sá óþægilegi grunur að hinn pólitíski vefur þar sem enginn veit hvað öðrum mætir og von um völd og viðskipti hafi dregið fjöður yfir alla samvisku að rökin tækju breytingum eftir því hverra hagsmunir eru í húfi.

Þetta er framþróunin, segja menn, fórnin sem verði að færa til að ná í meiri atvinnu fyrir þetta aumingja fólk sem er að flýja dreifbýlið. Getur verið að ástæðan fyrir því að fólk vill breyta til og búa í öðru umhverfi sé einhver önnur en vöntun á atvinnu í stóriðjuverum sem menn tala fjálglega um í beinu framhaldi af virkjunum eða fengjum við ódýrara rafmagn fyrir héraðsbúa?“ — spyr Sigríður Sigurðardóttir.

„Mig vantar rök fyrir tilgangi umhverfiseyðileggingar og breyttri ásýnd og ímynd Skagafjarðar. Hafa menn hugsað þetta til enda? Hvernig sjá virkjanasinnar Skagafjörð eftir 10 ár, 50 ár, 100 ár? Ritstjóri Feykis benti reyndar á að með virkjunum við Villinganes kæmi brú yfir Héraðsvötn og þar með hringakstur í framhéraðinu. Það væri fínt en því skyldum við þurfa að kosta til þessa 60 metra háa stíflu? Er ekki bara einfaldara að brúa? Mundi þá vöruverð lækka í KS ef allir framhéraðsbúar eða vestan þyrptust í verslunarleiðangur til Akureyrar í stað Varmahlíðar eða Sauðárkróks eða mundi verslunum þá bara fækka? Ef hringaksturinn á að verða að veruleika þarf að breyta hlutverki stíflunnar við Villinganes miðað við kynningu sem ég heyrði fyrir nokkrum árum í Hótel Varmahlíð þar sem spurt var um þetta atriði, og því til svarað að stíflan yrði ekki notuð fyrir almenna umferð nema vegur yrði lagður á annarra kostnað.

Hvað á að gera við þann möguleika sem miðast við að náttúra svæðisins verði óspillt áfram og ef menn eru í alvöru að hugsa um Villinganesvirkjun? Verður þá ekki að gera fleiri rannsóknir og svara þeim fjölmörgu spurningum sem enn er ósvarað um áhrif virkjunarinnar á vallhólminn, eylendið, skógana, Miklavatn, hafstraumana í Skagafirði og fleira sem ekki er alveg á gljúfurbarminum og því ekki inni í mati á umhverfisáhrifum eins og hún var unnin.“ — Verið er að tala þarna um Villinganesvirkjun. — „Hverra breytinga er að vænta við botnfall framburðar framan við virkjun? Við þekkjum það vel sem búum í Blönduhlíðinni hve framburður Héraðsvatna er gríðarlegur, hverju hann skilar og byltir á ferð sinni um hólminn. Á meðan nokkurri spurningu er ósvarað eða vafi leikur á um hvaða eða hvernig áhrif aðgerðir mannanna geta haft á náttúruna á hún að njóta vafans.

Hvað stjórnar gerðum okkar þegar við viljum leggja heilu landsvæðin undir óafturkræfar aðgerðir og höndla og drottna eins og hverjum sýnist? Hagsmunir hverra eru í húfi, hvað rekur menn áfram, stolt, völd, hégómi, skammsýni? Eða skítt með náttúruna ef ég get grætt á henni, skítt með umhverfið ef það er ekki í alfaraleið, skítt með önnur sjónarmið ef það samræmist ekki mínum, skítt með framtíðina ef við getum skemmt okkur í dag?“ — segir Sigríður Sigurðardóttir þegar hún skrifar óð til jökulánna, til Héraðsvatnanna, og skilur ekki í þeim sjónarmiðum sem hafa það eitt að markmiði að vita hvernig megi tortíma þeim náttúruperlum.

Það er einmitt ágætt að rifja hér upp að á síðasta vetri lét iðnaðarráðherra gera skoðanakönnun meðal Norðlendinga á viðhorfum þeirra til virkjana og álverksmiðja, taldi brýnna að verja fjármagni til að gera skoðanakönnun varðandi virkjanir en að veita það fjármagn til atvinnuuppbyggingar eða til að styðja við aðra atvinnustarfsemi í landinu og á Norðurlandi. Það var með ólíkindum að ráðherra skyldi fyrst og fremst verja auknu fjármagni til þess að þóknast iðjukosti sínum. En niðurstöður skoðanakönnunar sem gerð var af Gallup á síðasta vetri fyrir iðnaðarráðuneytið sýndi að mikil andstaða er meðal Skagfirðinga og Norðlendinga gegn þeim virkjunaráformum sem verið er að berjast fyrir í frumvarpi iðnaðarráðherra.

Í ritstjórnargrein föstudaginn 8. apríl árið 2005 segir í Morgunblaðinu, með leyfi forseta:

„Niðurstöður skoðanakönnunar sem IMG Gallup gerði nýlega fyrir iðnaðarráðuneytið varpa fram talsvert ólíkri mynd en þeirri, sem yfirleitt er dregin upp af viðhorfi íbúa á landsbyggðinni til uppbyggingar stóriðju í viðkomandi heimabyggð.

Uppi hafa verið háværar raddir um að álver verði reist á Norðurlandi þegar yfirstandandi stóriðjuframkvæmdum á Austurlandi verði lokið. Gjarnan er gefið í skyn að það sé einlægur og sameiginlegur vilji heimamanna að ráðist sé í stóriðjuframkvæmdir, að þeir álíti stóriðju helstu vonina í atvinnumálum á svæðinu og jafnvel forsendu áframhaldandi byggðar. En samkvæmt könnun IMG Gallup, sem gerð var meðal íbúa í þremur byggðarlögum á Norðurlandi, virðist því fara fjarri að samstaða ríki meðal Norðlendinga um að stóriðja sé lausnin.

Niðurstöðurnar voru á þá leið að rétt rúmlega helmingur íbúa Akureyrar og Eyjafjarðar kvaðst hlynntur því að álver yrði reist í nágrenni bæjarins, eða 51,6%. Rúmlega þriðjungur þeirra, eða 35,3%, kvaðst hins vegar andvígur slíkum hugmyndum og 13,2% tóku ekki afstöðu. Stuðningur við stóriðjuframkvæmdir reyndist mestur meðal Þingeyinga, en 66% þeirra lýstu sig fylgjandi byggingu álvers við Húsavík og 21,9% voru því mótfallin. Talsvert minni áhugi á stóriðju kom fram hjá Skagfirðingum, en aðeins 37,2% þeirra kváðust jákvæð eða mjög jákvæð gagnvart byggingu álvers á Skagafjarðarsvæðinu og 45,7% voru því andvíg eða mjög andvíg. 65,7% Eyfirðinga, 53,8% Skagfirðinga og 54% Húsvíkinga reyndust hlynnt því að álver risi í öðru byggðarlagi á Norðurlandi en þeirra heimabyggð.

Þessar niðurstöður hljóta að vekja helstu formælendur stóriðjuframkvæmda til umhugsunar. Ljóst virðist að stór hluti Norðlendinga líti frekar til annarra kosta en stóriðju hvað varðar uppbyggingu og þróun atvinnulífs í landsfjórðungnum. Enda liggur fyrir að stóriðja skapar fremur einhæf störf og raunar til þessa nær eingöngu fyrir annað kynið, þótt hjá Reyðaráli séu nú uppi metnaðarfull áform um jafnt kynjahlutfall í störfum hjá nýju álveri.

Margir hafa áhyggjur af að hin nýju störf vegi ekki upp á móti þeim miklu og oft óendurkræfu umhverfisáhrifum sem stóriðjan og tilheyrandi ráðstafanir til raforkuöflunar óneitanlega valda. Þá benda talsmenn annarra atvinnugreina á hættuna á neikvæðum áhrifum stóriðju og virkjana á uppbyggingu annarra atvinnugreina á viðkomandi svæði, ekki síst ferðaþjónustu.

Niðurstöður þeirra kannana, sem gerðar hafa verið fyrir iðnaðarráðuneytið, benda því ekki til neinnar samstöðu á Norðurlandi um stóriðjuframkvæmdir. Niðurstöðurnar hljóta raunar að vera hvatning þeim sem vilja kanna vandlega aðra atvinnukosti, sem væru meira í takt við nýja tíma upplýsingasamfélags og hátækniiðnaðar.“

Maður hefði haldið að í kjölfar þessa ætti iðnaðarráðherra að áttað sig á því að fara þyrfti varlega í sakirnar við að fara að koma í Norðlendinga álvershugmyndum, reyna að troða álveri upp á Norðlendinga. Betur hefði farið á að vinna að öðrum atvinnumöguleikum sem eru meira í takt við nýja tíma eins og stungið er upp á í forustugrein Morgunblaðsins. En því miður, frú forseti, hefur sú ekki orðið raunin.

Iðnaðarráðuneytið valdi hinn kostinn, að þrýsta sveitarfélögunum á Norðurlandi inn í samstarfsverkefni með Alcoa, um að fara í staðarvalskannanir á álveri á Norðurlandi og verja til þess stórfé. Sveitarfélögin á Norðurlandi vildu jú fá fjármagn. Þau vilja gjarnan fá fjármagn til að standa að atvinnuuppbyggingu, nýjum atvinnutækifærum. Þau vildu gera það á eigin forsendum en það stóð ekki til boða af hálfu iðnaðarráðherra. Nei, það skyldi vera á forsendum álbræðslu sem er hið algilda hugðarefni iðnaðarráðherra.

Að undanförnu hefur verið að störfum nefnd fulltrúa sveitarfélaga á Norðurlandi og Alcoa og iðnaðarráðuneytisins um staðarval fyrir álbræðslu. Vissulega er atvinnuástand á ýmsum stöðum fyrir norðan erfitt, ekki síst vegna ruðningsáhrifa núverandi stóriðjuframkvæmda sem skilja víða eftir sig djúp sár. Ég held að ef sveitarfélögin á Norðurlandi hefðu staðið frammi fyrir vali um að fá að verja fjármagninu, sem iðnaðarráðuneytið eða aðilar á þess vegum eyða í áróður fyrir álverksmiðjum á Norðurlandi, til annarrar atvinnuuppbyggingar á þeirra eigin forsendum þá hefðu valið þann kostinn. Hvað halda menn t.d. með Skagfirðinga? Ætli þeir hafi viljað fá þá tugi millj. kr. sem nú er varið í álverskannanir í aðra atvinnuuppbyggingu? Rannsóknir á möguleikum á að nýta vötn Skagafjarðar til virkjana munu kosta tugi ef ekki hundruð milljóna króna. Væri ekki líklegt að Skagfirðingar vildu heldur fá þá peninga til að byggja upp atvinnulífið á eigin forsendum í héraði heldur en að verða að lúta þrýstingi og kröfum iðnaðarráðherra um að peningar séu aðeins til reiðu til að fara í stóriðjuframkvæmdir en annars ekki?

Hvað með Húsvíkinga, Þingeyinga? Þeir bera sig illa undan erfiðu atvinnuástandi. Það er sjálfsagt alveg hárrétt að ruðningsáhrif stóriðjuframkvæmda og stefna ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum bitnar hart á Húsvíkingum. En ef Húsvíkingar og Þingeyingar stæðu frammi fyrir vali um að fjármagn sem nú á að verja, gangi áform iðnaðarráðherra eftir, til rannsókna á virkjunarmöguleikum Skjálfandafljóts, til rannsókna og uppbyggingar á álverum, mætti ganga til atvinnuuppbyggingar á þeirra eigin forsendum. Hvort mundu þeir þá velja?

Ég minnist þess þegar við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs vorum á fundum fyrir austan, í aðdraganda Kárahnjúkavirkjunar og álveranna, að þá sögðu íbúarnir hið sama og fram kom í frásögn Helga Seljans, sem ég las upp áðan. Við það sögðu menn: Annaðhvort verðið þið að taka á ykkur þessi náttúruspjöll með Kárahnjúkavirkjun og álveri eða þið fáið engan stuðning til annarrar atvinnuuppbyggingar. Þeim var stillt upp við vegg. Margir vildu nú að þeir hefðu fengið eitthvert val. Nú á að beita Norðlendinga nákvæmlega brögðum og Austfirðinga, stilla þeim upp við vegg og segja: Þið getið fengið álver ef þið fórnið náttúruperlum ykkar. Þá getið þið fengið fjármagnið en annars verður ykkur gert erfitt með fjárútvegun til atvinnuuppbyggingar.

Ég vil enn og aftur vitna í skrif Skagfirðinga gegn því að fórna vatnasvæði Héraðsvatna í virkjanir. Í grein sem birtist 10. desember 2004 í Morgunblaðinu, eftir Eirík St. Eiríksson, er fjallað um virkjanaáform í Skagafirði. Þá stóð einmitt yfir umræða um Villinganesvirkjun en eins og hv. þingmenn vita þá er það önnur virkjunin sem talað hefur verið um í Skagafirði. Hún fór í umhverfismat á mjög takmarkaðan og skringilegan hátt en framkvæmdin strandaði á því að sveitarfélagið hefur ekki gefið framkvæmdaleyfi. En með henni yrði framburður Héraðsvatnanna tepptur. Reyndar mundi það virkjanalón fyllast á einum 40–50 árum þannig að líftími hennar yrði nú ekki langur. Menn sjá hversu sjálfbær slík virkjun yrði sem entist aðeins í nokkra áratugi. En í þessari grein segir, með leyfi forseta:

„Í Skagafirði ganga hugmyndir virkjunarmanna út á að slá Evrópumet í fiskvegagerð og reisa 60 metra háan himnastiga fyrir bleikjuna og laxinn.“ — Þetta var tillaga um aðgerðir ef farið væri í virkjun við Villinganes. — „Hugmyndir um svokallaða Villinganesvirkjun í Skagafirði virðast vera komnar á kreik að nýju þrátt fyrir að sveitarstjórn hafi lýst yfir andstöðu við virkjunaráformin og Samtök ferðaþjónustunnar hafi varað við þeim. Fram að þessu hefur einkum verið horft til þess að virkjunaráformin mundu örugglega binda enda á vinsælar flúðasiglingar um Austari- og Vestari-Jökulsá og skaða hagsmuni ferðaþjónustunnar í héraðinu en fátt hefur verið rætt um áhrif virkjunar þessara miklu jökulvatna á lax- og silungsstofna á vatnasvæði Héraðsvatna.

Undirritaður er áhugamaður um stangaveiðar og á auk þess ættir að rekja í Skagafjörð. Einar mínar fyrstu bernskuminningar tengdar stangaveiði eru frá veiði í Héraðsvötnum fyrir neðan bæinn Sólheima þar sem frændfólk mitt bjó um skeið. Síðar átti ég þess kost að veiða reglulega í Húseyjarkvísl og eitt sumar var ég einn leigutaka Hjaltadalsár og Kolbeinsdalsár og síðar Sæmundarár. Ég hef einnig veitt í Laxá í Skefilsstaðahreppi, Norðurá og Höfðavatni. Sem höfundur Stangaveiðihandbókanna gafst mér færi á að endurnýja kynnin af skagfirskum veiðivötnum en veiðimöguleikum í Skagafirði, sem og annars staðar á Norðurlandi, eru gerð ítarleg skil í þriðja bindi Stangaveiðihandbókarinnar sem út kom nú í sumar.

Ég var þess fullviss, þegar ég réðist í heimildavinnu vegna þriðja bindisins, að áform um Villinganesvirkjun yrðu lyftistöng fyrir stangaveiðar í héraðinu. Byggði ég þá skoðun mína á því að hið sama hlyti að gerast í Héraðsvötnum, en svo heitir vatnsfallið eftir að Austari- og Vestari-Jökulsá hafa komið saman og sameinast Norðurá, og gerðist í Blöndu með tilkomu Blönduvirkjunar. Þar varð reyndar það umhverfisslys að klippt var á gönguleið stórmerkilegs sjóbleikjustofns, sem gat gengið allt upp í Seyðisá eða langleiðina norður undir Hveravelli, en skilyrði til laxveiða stórbötnuðu í Blöndu og hefur áin lengst af verið ein af perlum íslenskra laxveiðiáa síðan. En þótt margt sé líkt með skyldum þá er málið því miður ekki svo einfalt.

Það var ekki fyrr en ég átti viðtal við Jóhannes Jóhannsson, bónda á Silfrastöðum og formann Veiðifélags Skagafjarðar, sem eru heildarsamtök veiðiréttareigenda í héraðinu, að ég komst að því hve skelfileg áhrif Villinganesvirkjun mundi hafa á fiskstofnana á vatnasvæðinu og þá einkum á sjóbleikjustofninn. Honum yrði nánast útrýmt með þessari framkvæmd.

Þannig háttar til á vatnasvæði Héraðsvatnanna að í Vötnunum sjálfum eru hrygningarskilyrði fyrir lax og bleikju ekki góð. Hrygningarstöðvarnar eru í bergvatnsánum, svo sem í Norðurá og Hofsá, sem rennur í Vestari-Jökulsá, og svo í jökulánum sjálfum þar sem fljótasiglingar eru nú stundaðar. Virkjanahugmyndir byggjast á því að reisa gríðarstóra og 60 metra háa stíflu við Villinganes og einnig stíflu fyrir miðjum Norðurárdal þaðan sem vatni yrði veitt um göng yfir í Egilsdal/Egilsá og þaðan áfram í stóra miðlunarlónið fyrir ofan Villinganesstíflu. Nú háttar þannig til að bleikja og jafnvel lax geta gengið allt upp í Hofsá langt upp á Hofsafrétt norðan við Hofsjökul. Þarna er stunduð bleikjuveiði og takmörkuð laxveiði en svæðið er verðmætt sem hrygningarsvæði. Hið sama má segja um Norðurána en hún mundi svo að segja þorna upp neðan við stífluna í dalnum og þar mundu glatast mikilvæg hrygningarsvæði.

Nú er það svo að vart er byggð virkjun hérlendis án þess að gert sé ráð fyrir fiskvegi eða laxastiga þannig að laxfiskar geti gengið upp fyrir hinar manngerðu hindranir. Flestir þessara fiskvega eiga það sammerkt að vera til friðþægingar og fæstir hafa virkað. Í Skagafirði ganga hugmyndir virkjunarmanna út á að slá Evrópumet í fiskvegagerð og reisa 60 metra háan himnastiga fyrir bleikjuna og laxinn. Núverandi Evrópumet mun vera 47 metra hár fiskvegur í Noregi. Himnastigi er réttnefni því að þótt svo ólíklega vildi til að fiskar kæmust upp stigann þá er ljóst að leiðin til baka væri ekki jafngreið. Fiskar og seiði, sem hug hefðu á að ganga til sjávar, yrðu nefnilega að fara í gegnum hverfla virkjunarinnar og vitað er að það væri bein ávísun á bráðan dauða.

Fiskstofnar á vatnasvæði Héraðsvatna eru nú þegar undir miklu álagi. Það er ekki nóg með að verulegar netaveiðar séu stundaðar í Héraðsvötnum, heldur er það á allra vitorði að ólöglegar netaveiðar hafa lengi verið stundaðar í sjónum undan ósum Vatnanna. Fiskur sem gengur í Hofsá til hrygningar ætti e.t.v. að vera friðhelgur á afréttinni eftir að hafa sloppið heilu og höldnu fram hjá netum í sjó og netagirðingum í Héraðsvötnum. Verði Villinganesvirkjun að veruleika þurfa menn hins vegar ekki að taka afstöðu til slíkra mála. Það verður sáralítill fiskur eftir til þess að veiða eða vernda.“

Þetta er grein eftir Eirík Eiríksson en höfundur er blaðamaður og stjórnarmaður í SVFR sem eru samtök fyrir áhugamenn um fiskveiði í ám og vötnum, Stangaveiðifélag Reykjavíkur.

Það eru fleiri sem hafa einnig tjáð sig um áhrif af þessum virkjunarframkvæmdum ef af verða. Ég rek þetta, frú forseti, vegna þess að í ákvörðunum um að fara út í rannsóknir til virkjana er blásið á vilja heimamanna og þá sýn sem ég er að rekja hér. Allt skal leggjast á altari virkjunaræðisins, allt skal leggjast á altari þess að fórna náttúrunni og öllu skal fórna fyrir álæðið.

Fimmtudaginn 23. september árið 2004 var viðtal í Morgunblaðinu við Magnús Sigmundsson framkvæmdastjóra Hestasports – Ævintýraferða sem staðið hafa fyrir vinsælum flúðasiglingum í Vestari- og Austari-Jökulsá í Skagafirði sem eru heimþekktar. Frú forseti. Meira að segja eru flúðasiglingarnar og jökulsárnar í Skagafirði notaðar til að auglýsa hreinleika og fegurð íslenskrar náttúru á alþjóðavettvangi. Og þegar verið er að kynna ferðaþjónustu, þegar verið er að kynna mörg önnur gæði íslenskrar vöru, fisks, lambakjöts og ýmissar annarrar útflutningsvöru, þá er íslensk hrein náttúra notuð, óbeisluð náttúra notuð til að undirstrika hreinleikann, undirstrika hve náttúran er mikilvæg. En verði af virkjuninni í Jökulsánum í Skagafirði hverfur þetta í burt. Auglýsingin okkar, sem gengur út um allan heim, af flúðasiglingum í Jökulsánum í Skagafirði yrði þá lygi, hún yrði ósönn. Það er af þeim ástæðum sem ég held því fram að það eigi ekki að veita ráðherra þá heimild sem er í þessu frumvarpi um heimild til úthlutunar á rannsóknarleyfum til virkjana á Jökulsánum í Skagafirði. Jökulsárnar í Skagafirði og ýmsar fleiri ár og fljót eru hafin yfir það, eru meiri náttúruperlur en svo að við getum bara með einföldum hætti leyft ráðherra að úthluta rannsóknarleyfum á þær til virkjana. Ég vil þá vitna til framangreinds viðtals við Magnús Sigmundsson, framkvæmdastjóra Hestasports – Ævintýraferða, sem birtist í Morgunblaðinu fimmtudaginn 23. september árið 2004, með leyfi forseta:

„Magnús Sigmundsson, framkvæmdastjóri Hestasports – Ævintýraferða, sem staðið hafa fyrir vinsælum flúðasiglingum í Vestari- og Austari-Jökulsá í Skagafirði, segir að verði af áformum um Skatastaðavirkjun þýði það „dauðadóm yfir okkar starfsemi“. Siglingarnar muni leggjast af þar sem úttak virkjunarinnar yrði það neðarlega í Austari-Jökulsá, eða á móts við mynni Merkigils miðað við frumhönnun virkjunarinnar.

Magnús segir að Skatastaðavirkjun muni að óbreyttu eyðileggja eina „flottustu“ ána í Evrópu sem bjóði upp á flúðasiglingar, eða flúðafjör eins og hann vill nefna þessa ferðaþjónustu. Verði af virkjuninni verði aðeins hægt að sigla nokkrar vikur á haustin þegar flæðir yfir á stíflu virkjunarinnar.

Magnús bendir á að þúsundir ferðamanna fari í þessar siglingar í skagfirsku jökulánum og þær séu ekki síður orðnar vinsælar hjá hinum efnameiri ferðamönnum. „Hingað koma milljarðamæringar í þyrlum til okkar, til að komast í siglingu niður ána,“ segir Magnús.

Hestasport – Ævintýraferðir hafa byrjað sínar dagssiglingar í Austari-Jökulsá við bæinn Skatastaði. Magnús segir úttakið koma enn neðar og þar með sé „draumurinn búinn“. Eftirsóttasti kafli leiðarinnar sé frá Skatastöðum og niður fyrir Merkigil, en siglingarnar enda niður undir bænum Stekkjarflötum í Austurdal.“

Hérna kemur millifyrirsögnin „Vita ekki hvað þeir eru að gera.“ Áfram segir í viðtalinu:

„Fram hefur komið í Morgunblaðinu að meiri hluti sveitarstjórnar Skagafjarðar, sem áður var mótfallinn hugmyndum um Villinganesvirkjun, vill setja Skatastaðavirkjun inn á aðalskipulag, með þeim tilgangi að raforka frá virkjuninni nýtist til stóriðju í Skagafirði. „Ætla okkar menn virkilega að setja þetta af stað?“ spyr Magnús, „þá vona ég bara að guð hjálpi þeim því þeir vita ekki hvað þeir eru að gera“.“

Frú forseti. Fulltrúar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í Skagafirði hafa lýst því yfir að þeir styðji ekki að Skatastaðavirkjun fari inn á skipulag. En verði það frumvarp sem við erum með hér til umfjöllunar, sem gefur iðnaðarráðherra víðtækari heimildir til að úthluta rannsóknarleyfum í fallvötnum landsmanna, að veruleika er ekkert því til fyrirstöðu að rannsóknarleyfum verði úthlutað og við vitum að þau leiða síðan áfram mjög auðveldlega til virkjunar. Það sem þeir aðilar sem ég hef verið að vitna hér til vilja er að það sé sett strik í eitt skipti fyrir öll, a.m.k. um ótiltekinn tíma, yfir það að hvorki verði veitt rannsóknar- né virkjunarleyfi í Jökulsánum á Skagafirði, þannig að þeir sem eru að byggja upp atvinnuveg sem byggir á því að nýta þessar náttúruauðlindir í sínu náttúrulega formi fái næði til þess. Það er nógu erfitt í ferðaþjónustunni samt þó að þessir aðilar þurfi ekki stöðugt að búa við að áform séu uppi af hálfu stjórnvalda um að eyðileggja það sem þeir byggja atvinnu sína í kringum. Það yrði ekki auðvelt að sækja lánsfé, fyrirgreiðslu eða stuðning eða byggja upp markaðsstarf ef slíkt er yfirvofandi.

Í Skagafirði eru tveir góðir aðilar, Magnús Sigmundsson sem ég hef áður nefnt og ég hef einnig nefnt Sigurð Friðriksson á Bakkaflöt, sem reka þarna víðtæka starfsemi en sú stöðuga ógn um að veittar verði heimildir til virkjana á þessum svæðum stendur þeim fyrir þrifum. Ég mun koma síðar í ræðu minni að úttekt sem gerð var af hálfu Hagfræðistofnunar Háskólans á mikilvægi þessara áa fyrir ferðaþjónustu í héraðinu.

Víkjum aftur að viðhorfum heimamanna sem gjarnan eru fótumtroðin. Ég efast um að þeir aðilar sem hér eru að véla um hafi farið um náttúruperlur Jökulsánna í Skagafirði.

27. október árið 2004 skrifar Anna Dóra Antonsdóttir, sem er kennari og rithöfundur og býr nú í Reykjavík en bjó um langt árabil á Frostastöðum í Skagafirði, grein í Morgunblaðið sem ég vil leyfa mér að vitna til, með leyfi forseta:

„Anna Dóra Antonsdóttir skrifar um virkjanir: „Hér með er lýst eftir þeim sem séð hefur lækkandi orkureikninga í kjölfar stórvirkjana.““

Ja, það var góð spurning. Hver hefur séð lækkandi orkureikninga í kjölfar stórvirkjana og álbræðslna ná seinni árum? Er ekki einmitt raunin sú að það hefur lent á hinum almenna notanda að greiða fórnarkostnað stórvirkjana og álbræðslna? En áfram segir í grein Önnu Dóru Antonsdóttur, með leyfi forseta:

„Hitti á dögunum ungan Skagfirðing á förnum vegi. Við tókum tal saman um lífið og tilveruna, staðinn, stundina, heimahagana og talið barst óhjákvæmilega að Vötnunum. Hvaða Skagfirðing hittir þú yfirleitt, á heimaslóð eða fjarri heimkynnum, sem ekki talar um Vötnin. Hvernig er veiðin? Er lágt eða hátt í? Eru vötnin komin á, eru þau komin af? Hvernig er liturinn? Syngur hátt í þeim í dag?

Vötnin eru Skagafjörður.

„En ef þeir fíflast til að stífla, hvað verður þá um Eylendið?“ sagði ungi maðurinn og fannst hann komast vel að orði. Mér fannst það líka og varð hugsi, ef þeir fíflast til að stífla. Hvað gerist þá?

Samkvæmt okkar lagabálkum ber að láta fara fram umhverfismat um þýðingu þess að spilla náttúrunni. Við vitum þess nýleg dæmi að einn ráðherra getur umsnúið mati Umhverfisstofnunar sér í hag. Og það er ekki endilega hagur náttúrunnar eða umhverfisins. Ekki endilega.

En friðun Austara-eylendisins í Skagafirði er á borði umhverfisráðherra. Friðun þýðir væntanlega að ekki er hægt að fara í stórvirkjanir á svæðinu. Ekki er hægt að friða með annarri hendi og spilla með hinni.“ — Ég þekki þetta þó úr Kárahnjúkunum að þar er friðað með annarri hendinni og spillt með hinni. — „Friðun merkir ekki takmörkun á eignarrétti, heldur að ekki má lengur eyðileggja, í þessu tilfelli votlendið meðfram Héraðsvötnum og lífríkið sem þar dafnar. Ekki má taka þá áhættu að ósasvæðunum verði stefnt í voða og þar með lífríki sjávar á Skagafirðinum. Friðun er í mínum huga þetta. Það má sem sagt ekki eyðileggja Vötnin.

Hvers verður minnst frá aldamótum 2000 á Íslandi eftir 50 ár eða 100 ár? Munu menn velta fyrir sér fjölmiðlafárinu sem skall á sumarið 2004? Nei, varla nema þá nokkrir rykfallnir sagnfræðingar. En verður munað eftir Kárahnjúkum og Skatastöðum í Skagafirði? Já, því að þar verða bautasteinar um skammsýni og heimsku mannanna. Ef ekki verður af heimskunni látið.

Er svo heimskulegt að vilja græða, spyr einhver. Það eru meginrök ráðamanna að hagnaðurinn sé svo mikill, Ísland verði svo ríkt. Jæja, fyrir þremur árum setti undirrituð fram tölur frá árinu 1999, fengnar úr Morgunblaðsgrein eftir Magnús Thoroddsen. Þær tölur hefur enginn vefengt og verða þær dregnar hér fram að nýju. Stóriðjan notaði 63,5% raforkuframleiðslunnar þá og greiddi 0,90 kr. á kílóvattstund en aðrir notuðu 35,5% heildarorkunnar og greiddu 5,15 kr. fyrir kílóvattstundina (Mbl. 24. júlí 2001). Enda er það svo að fáir sjá þennan mikla gróða sem sífellt er talað um. Hefur Landsvirkjun til dæmis greitt niður erlendar skuldir okkar eins og Norðmenn létu olíuna gera? Nei, þvert á móti, Landsvirkjun safnar erlendum skuldum sem ákafast. Landsvirkjun er sem sagt ekki rekin með hagnaði sem skilar sér í ríkiskassann, okkur skattgreiðendum til góða. Ekki einu sinni eldri virkjanirnar sem ættu að vera afskrifaðar og mala gull, afrakstur þeirra fer í hítina. Í Feyki 28. apríl sl. er vitnað í orð Þórólfs Gíslasonar, kaupfélagsstjóra á Sauðárkróki, þar sem hann ræðir virkjanir við Villinganes og Skatastaði og segir m.a.: „Auk þess sem virkjun mundi lækka orkukostnað til almennings í landinu.“ Hér með er lýst eftir þeim sem séð hefur lækkandi orkureikninga í kjölfar stórvirkjana.

Stórvirkjun á borð við Skatastaðavirkjun kallar að sjálfsögðu á álver. Það er svo sjálfsagt að ráðamönnum finnst varla lengur taka því að segja þetta upphátt. Og iðnaðarráðherra talar við Skagfirðinga eins og lítil börn: „Ykkur var nær, þið hefðuð átt að sýna álveri meiri áhuga.“ Það er þetta með áhugann á álverum, rafskautaverksmiðjum og annarri stóriðju, hann fer þverrandi. Við getum ekki haft áhuga á ferðamennsku og auglýst Ísland sem ferðamannaparadís og á sama tíma eyðilagt hverja náttúruperluna á fætur annarri. Héraðsvötn eru náttúruperla.

Stundum, nú síðast í nýlegum umræðu um lýðræðið á ráðstefnu HÍ og Morgunblaðsins, hefur komið fram sú kenning að stjórnmálamenn séu innilokuð stétt. Þeir sitji í sínum ranni, sínum Babelsturni yfir sínum áhugamálum og heyri alls ekki hvað fólkið segir. Heyri ekki þá umræðu sem fram fer í kringum þá, einangrunin er svo pottþétt. Getur þetta verið tilfellið? Andstaða við stórvirkjanir og meiri stóriðju fer vaxandi, fáir ef nokkur vill álver í hvern fjörð á Íslandi en valdamenn grúfa sig bara betur yfir sitt og keyra málin áfram“ — segir í þessari ágætu grein Önnu Dóru Antonsdóttur.

„Hið alvarlega í umræðunni um virkjunarmál í Skagafirði er þetta: Villinganesvirkjun er þegar búin að fara í gegnum umhverfismat. (Raunar er engin leið að sjá til hvers slíkar framkvæmdir fara í umhverfismat, þar sem ekki er hlustað eftir andstæðum rökum.) Ef Villinganes fer inn á skipulag Skagafjarðar þá er leiðin greið, Rarik og co. getur komið daginn eftir og byrjað að sprengja. Skatastaðavirkjun á lengra í land en kvörnin malar.

Ég skora á fólk að hugsa þessi mál og hugsa upphátt. Hugsa t.d. um hvort það vill uppistöðulón í Bugum, álver við Kolkuós, Austurdal með tveimur stöðvarhúsum svo eitthvað sé nefnt. Ég sendi boltann til Valgeirs Kárasonar á Sauðárkróki og skora á hann að láta í sér heyra og koma fram með sín sjónarmið í þessu máli.“

Frú forseti. Ég hygg að það sé býsna mikið til í þessum ábendinum Önnu Dóru Antonsdóttur að stjórnmálamenn, ráðherrar, séu hér í sínum fílabeinsturni, haldi að þjóðin, íbúarnir út um allt land, bíði eftir því að fá álver í hvern fjörð, bíði eftir því að árnar þeirra og fallvötnin séu virkjuð, stífluð, náttúruperlurnar eyðilagðar, það sé vilji fólksins — alla vega ef marka má þær áherslur sem hæstv. iðnaðarráðherra og ríkisstjórn þessa lands hefur uppi og við heyrum nú í síðustu tillögum hugmynda ríkisstjórnarinnar með þrjú ný álver, öll á sama áratugnum og fjarri því að álversframkvæmdirnar og virkjunarframkvæmdirnar á Austurlandi séu komnar í höfn, fjarri því. En samt á að skeiða áfram.

Ég ætla að halda áfram með Skagafjörð. Hann er dæmi um það hvaða hug íbúarnir bera til vatnanna sinna alveg eins og Anna Dóra Antonsdóttir sagði, og ég vitnaði til hér áðan með leyfi forseta:

„Hvaða Skagfirðing hittir þú yfirleitt, á heimaslóð eða fjarri heimkynnum, sem ekki talar um Vötnin. Hvernig er veiðin? Er lágt eða hátt í? Eru vötnin komin á, eru þau komin af? Hvernig er liturinn? Syngur hátt í þeim í dag? Vötnin eru Skagafjörður.“

Það skal ekki líðast að hæstv. iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins, sem ber það eitt fyrir brjósti að eyðileggja þessi vötn með stíflum og virkjunum, fái heimild til þess á Alþingi að veita rannsóknarleyfi á þessum vötnum. Skagfirðingar munu berjast gegn því.

Ég vil leyfa mér að vitna áfram. Anna Dóra Antonsdóttir sendi boltann áfram. Við höfum hér vitnað í skrif fleiri Skagfirðinga, sem vitna um hug þeirra til vatnanna sem hér á Alþingi er borin svo lítil virðing fyrir — svo lítil að hæstv. iðnaðarráðherra telur það lítið mál þó að hún fái einfalda heimild til að úthluta rannsóknar- og virkjunarleyfum í skagfirsku vötnunum, finnst það lítið mál og hefur helst sett út á hve seint gangi að afgreiða þá heimild. Skagfirðingar eru bara ekki á þeirri skoðun.

Frú forseti. Í fréttum í gær var greint frá því að sveitarfélagið Skagafjörður hefði látið gera skoðanakönnun meðal íbúa héraðsins og fyrstu niðurstöður voru birtar. Spurt var um hvernig fólki liði í Skagafirði. Ef ég man rétt voru yfir 90% af Skagfirðingum ánægð með að búa í Skagafirði eins og hann er nú og ánægjan var því sterkari þeim mun lengur sem fólk hafði búið þar. Svo heldur iðnaðarráðherra hér, og því miður e.t.v. meiri hluti Alþingis, að það sé ekkert mál að úthluta rannsóknarleyfum til virkjunar á Héraðsvötnunum í Skagafirði.

Áður en ég vík að fleiri þáttum ætla ég að lesa eina grein enn sem sýnir hug Skagfirðinga til Héraðsvatna sem mönnum finnst lítið mál að iðnaðarráðherra fái að úthluta rannsóknarleyfi til virkjunar á — og er, eins og áður hefur komið fram, einn aðalhvatinn að hinni hörðu umræðu sem hér á sér stað.

Valgeir Kárason skrifar, með leyfi forseta:

„Ég vil byrja á að þakka Önnu Dóru Antonsdóttur fyrir að hefja á opinberum vettvangi hér í Feyki umræðu til varnar skagfirskri náttúru fyrir skammsýnum mönnum og Sigríði Sigurðardóttur fyrir að fylgja því eftir.

Nú þegar mikil umræða er í Skagafirði um skipulagsmál tengd stórvirkjunum í skagfirsku jökulánum vakna ýmsar spurningar um umhverfismál og náttúruvernd. Ekki hvað síst tengjast þessar spurningar og hugleiðingar því hvernig við viljum sjá framtíð Skagafjarðar og íbúa hans, hvaða ímynd við viljum sem Skagfirðingar standa fyrir og hvaða framtíðarsýn við höfum. Hvernig framtíð viljum við búa börnum okkar hér í Skagafirði? Hvað viljum við Skagfirðingar hafa að segja um framtíð okkar og ákvarðanatöku? Viljum við sjálfir hafa eitthvað að segja um það hvaða utanaðkomandi aðilar róta til og eyðileggja fyrir framan augun á okkur án þess að geta nokkra rönd við reist? Eigum við bara að gefa út skotleyfi á umhverfi okkar án þess að hafa síðan nokkuð um það að segja hvort það komi okkur til góða í auknum lífsgæðum eður ei?“

Er að furða þó Valgeir Kárason segi þetta þegar hann horfir upp á þann yfirgang sem iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins vill beita í því að útvega rannsóknar- og virkjunarleyfi á þeim vötnum sem við erum hér að fjalla um?

Og áfram segir, með leyfi forseta:

„Í nýliðnum þætti Spaugstofunnar var okkur sýnd „spaugileg“ mynd af þjóð sem var afar aumkunarverð með skóför á bakinu af því að gengið hafði verið yfir hana á skítugum skónum, verið valtað yfir hana. Það er gott að fá svona áminningar af og til og því miður eru alltaf til á hverjum tíma hagsmunaaðilar sem hugsa aðeins um eigið skinn og svífast einskis.

Ætlum við Skagfirðingar að láta valta yfir okkur í virkjunarmálum og láta aðra hrifsa til sín þau auðæfi sem fólgin eru í náttúrulegum aðstæðum hér með því að virkja fallvötnin okkar, án þess að nokkur trygging sé fyrir því að við fáum nokkurn umráðarétt yfir, né ágóða af, að eyðileggja dýrmæta ímynd og framtíðarmöguleika sem eru okkar íbúanna hér í Skagafirði? Ég segi nei og ég veit að margir eru mér sammála.

Líklegt er að þessi auðlegð okkar í ósnortinni náttúru verði okkur margfalt verðmætari án stórvirkjana í framtíðinni. Ef við Skagfirðingar ætlum að markaðssetja okkur sem hérað íslenska hestsins með menningartengda ferðaþjónustu, frábæra matvælaframleiðslu úr sjávarfangi og landbúnaðarafurðum, hreinleika í matvælaiðnaði, sjálfbært samfélag, alþjóðlegt skólasamfélag með einstaka möguleika á heimsvísu í fljótareið (river rafting) og svo mætti lengi telja, þá er öruggt að við erum margfalt betur sett án þeirra skemmdarverka sem gætu falist í stórvirkjunum á borð við Skatastaðavirkjun og Villinganesvirkjun.“

Ég vil auglýsa eftir því hvort hæstv. iðnaðarráðherra er hér í húsinu, ég tel æskilegt að hún hlusti á sjónarmið Skagfirðinga en hugsi ekki bara um það með hvaða hætti hún geti krafist þess að pína upp á þá álver og stóriðjuver.

(Forseti (JóhS): Hæstv. iðnaðarráðherra er hér í húsi, samkvæmt þeirri skráningu sem ég hef hér fyrir framan mig, og forseti mun gera ráðstafanir til þess að kalla iðnaðarráðherra hingað í salinn.)

Áfram segir í þessari grein Valgeirs Kárasonar náttúruunnanda og Skagfirðings, með leyfi forseta:

„Það hefur sýnt sig að vegna dugnaðar fjölmargra einstaklinga á Skagafjörður mikla og góða framtíð fyrir sér án stórvirkjana. Bjartsýni ríkir og ekki hefur verið fólksfækkun hér undanfarið. Miklir möguleikar felast í því að virkja þann mannauð sem hér er og við erum á góðri leið með nú þegar.“

Frú forseti. Eftir að hafa hlustað á hæstv. iðnaðarráðherra og fleiri hef ég komist að því að sönn eru þau orð Önnu Dóru Antonsdóttur, sem ég vitnaði til áðan, að ráðherrar og margir þingmenn séu í eins konar fílabeinsturni — eða Babelsturni, eins og hún orðaði það — og fylgist ekkert með því sem er að gerast í samfélaginu, skoðunum og afstöðu fólks til áframhaldandi stóriðju og stórvirkjanamála. Alla vega er það með eindæmum hvernig komið hefur verið fram við Norðlendinga nú á seinni mánuðum þar sem iðnaðarráðherra hefur reynt að þvinga upp á þá álversdraumum sínum og krafið þá um að úthluta rannsóknar- og virkjunarleyfum á fallvötnum sínum.

Valgeir Kárason rekur það í grein sinni hversu vötnin, Héraðsvötnin, jökulárnar, eru mikið einkennistákn fyrir allt það góða sem verið er að gera þar á svæðinu. Í greininni segir síðan, með leyfi forseta:

„Það hefur sýnt sig að vegna dugnaðar fjölmargra einstaklinga á Skagafjörður mikla og góða framtíð fyrir sér án stórvirkjana. Bjartsýni ríkir ...“ — Þarna er einmitt vísað til skoðanakönnunar sem birt var nýverið. Þar kemur fram að mikil bjartsýni ríkir í Skagafirði og Skagfirðingar eru ánægðir með Skagafjörð og tilveruna. — „Bjartsýni ríkir og ekki hefur verið fólksfækkun ... Miklir möguleikar felast í því að virkja þann mannauð sem hér er og við erum á góðri leið með nú þegar.“

Einmitt! Náttúrufegurð, óspjölluð náttúra skagfirsku vatnanna hefur verið einkennistákn þess sem verið er að byggja upp, háskólasamfélagsins á Hólum og þeirri vinnu sem þar er, ferðaþjónustu sem hefur verið byggð upp í Skagafirði, fljótasiglinganna í Skagafirði. Myndir af skagfirsku gljúfrunum eru notaðar sem kynningarefni út um allan heim, ekki aðeins fyrir íslenska ferðaþjónustu heldur einnig fyrir hreinleika svo fjölmargra annarra afurða. Ég sá myndir á þingi um hátækniiðnað. Þar voru nýttar myndir af náttúruperlum í Skagafirði eða austur á Héraði til að undirstrika hvað það er sem gefur landinu ímynd. Enginn fer með mynd af túrbínu sem sett hefur verið niður í íslenska náttúru sem kynningarefni út í heim fyrir hreina náttúru Íslands eða til að efla ferðaþjónustu eða til að kynna hreinleika íslensks fisk, enginn. Mér þætti fróðlegt ef hæstv. iðnaðarráðherra gæti sagt mér hver hafi farið með túrbínur Framsóknarflokksins sem kynningarefni fyrir hreinleika og söluhæfni íslenskra náttúruafurða.

Áfram segir í grein Valgeirs Kárasonar, með leyfi forseta:

„Því miður hefur lítið verið reynt að meta verðmæti fólgin í einstæðri náttúru og heildstæðum og lítt snortnum víðernum okkar séu þau varðveitt og geymd, eða hversu mikið þau verðmæti aukast með hverju árinu, sem þrengist að þessum víðernum og þau verða sjaldgæfari, ekki aðeins á landsvísu heldur heimsvísu.

Ómar Ragnarsson hefur bent á það að viðhorf fólks til náttúruverðmæta hefur breyst mjög mikið á síðustu 50 árum og miklar líkur séu á að sú þróun verði áfram.

Við höfum haft fyrir okkur reynslu Austur-Húnvetninga varðandi Blönduvirkjun og m.a. horft upp á það, að í stað þess að nýta tiltölulega ódýra orku frá þeirri virkjun til atvinnuuppbyggingar hér á Norðurlandi vestra, hefur orkan verið að mestu flutt suður yfir heiðar með gífurlegum flutningstöpum til stóriðjukaupenda, eins og eigenda Járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga, sem fá orku frá okkur Íslendingum á um þrefalt lægra verði en þeim býðst í heimalandinu Noregi.

Hvers konar barnaskapur er það að halda því fram að við Skagfirðingar getum eitthvað haft með það að gera hvar sú orka, er framleidd yrði hér í Skagafirði, verði endilega nýtt. Til þess að það gæti orðið þyrfti margt að breytast.“

Síðan þetta var skrifað hefur hæstv. iðnaðarráðherra markaðsvætt rafmagnið og þess vegna skiptir ekki miklu máli endilega hvar orkan er framleidd.

„Eins og við Íslendingar ættum að vera farnir að átta okkur á það deginum ljósara að fjármagnið og eigendur þess munu ávallt leita hámarksávöxtunar fyrir sig og sína. Þannig ætti það að vera ljóst að ef við gefum „skotleyfi“ á Jökulsárnar okkar með því að setja þær á aðalskipulag Skagafjarðar erum við þar með búnir að afsala okkur því frelsi sem felst í því að hafa umráðarétt yfir auðlindum okkar.“

Hér vitnar greinarhöfundur til deilna um að setja Skatastaðavirkjun inn á skipulag sem er mjög umdeilt og ég sé ekki að Skagfirðingar samþykki nokkurn tíma. En hann veit ekki af því þegar þessi grein er skrifuð að hæstv. iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins er að sækjast eftir lagaheimildum á Alþingi til að geta einhliða úthlutað rannsóknarleyfum til virkjana á jökulsánum gegn og án vilja eða vitundar heimamanna.

Áfram heldur þessi ágæti greinarhöfundur í grein sinni sem er skrifuð í Feyki í fertugasta tölublað árið 2004:

„Afskaplega mikil áhætta og fórn til frambúðar væri tekin með virkjun Jökulsánna, eins og meðal annars Umhverfissamtök Skagafjarðar hafa bent á í athugasemdum sínum um mat á umhverfisáhrifum, vegna Villinganesvirkjunar. Þar er bent á að ekki var lagt mat á áhrif virkjunarinnar á land og lífríki neðan virkjunar eða sjávarins, sem ekkert hefur verið rannsakað. Við höfum hið friðlýsta svæði Miklavatn og Skógana og svo Austur-Eylendið, sem lagt hefur verið til að friðlýst verði, vegna mikilla náttúrulegra verðmæta. Uppi á hálendinu eru svæði eins og Orravatnsrústir á náttúruminjaskrá og fleiri verðmæt svæði.

Árið 1997 var sett á stofn nefnd á vegum Sauðárkróksbæjar, Framtíðarnefnd, sem hafði það verkefni að setja fram í skýrslu framtíðarsýn fyrir Sauðárkrók og Skagafjörð.

Í nefndinni sátu níu Skagfirðingar af hinum ýmsu starfssviðum og með mismunandi menntun og reynslu, ásamt starfsmanni. Nefndin skilaði skýrslu sinni í júlí sama ár og þar segir m.a. í kaflanum um umhverfis- og ferðamál:

„Það er mat nefndarinnar, að í Skagafirði eigi ekki að stefna að efnaiðnaði eða annarri mengandi stóriðju. Setja beri stefnuna á „hreina“ atvinnustarfsemi og nota umhverfið sem aðdráttarafl á fólk til búsetu.“ — Og spurt er: — „Hver er þá tíðarandinn? Hornsteinar hans eru að minnsta kosti þrír; gæði, innihald og umhverfissátt. Stefnan er á sjálfbært þekkingarsamfélag.““

Svo segir í þessari tilvitnun til nefndarálits nefndar níu Skagfirðinga sem voru til þess kvaddir að gera tillögur að framtíðarímynd Skagafjarðar.

„Nefndin hafði þannig ákveðna ímynd í huga og taldi að gæta þyrfti samræmis í framtíðarstefnumótun.“

Ég er ekki viss um að þessi nefnd hefði viljað að hæstv. iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins væri veitt heimild á Alþingi til að úthluta rannsóknarleyfum til virkjana á Skagafjarðarvötnunum. Ég er ekki viss um það. Eins og hæstv. iðnaðarráðherra hefur sagt í umræðunni fyrr þá mundu þessi rannsóknarleyfi síðan leiða til virkjunarleyfa. Hún hefur einmitt rakið hér að áhugamenn um virkjanir í Skagafirði keyra hvað mest á þetta virkjanafrumvarp sem hún er hér með.

Afskaplega mikil áhætta og fórn til frambúðar væri tekin með virkjun Jökulsánna, eins og ég hef rakið og segir í þessari grein. Lokaorð Valgeirs Kárasonar eru, með leyfi forseta:

„Í guðanna bænum, þið sem hafið með ákvarðanir í skipulagsmálum okkar Skagfirðinga að gera, látið náttúruna njóta vafans og leyfið börnum okkar að hafa eitthvert frelsi til ákvarðanatöku um umhverfi sitt í framtíðinni. Forðið okkur frá því að virkjanir í skagfirsku Jökulsánum fari á aðalskipulag núna og gefið okkur Skagfirðingum þannig einhverja möguleika á ákvarðanatöku í þessum umhverfis- og atvinnumálum í nútíð og framtíð.

Við erum stoltir Skagfirðingar og viljum ekki láta vaða yfir okkur á skítugum skónum.“

Frú forseti. Ég tel að hæstv. iðnaðarráðherra ætti að hlusta á þessi lokaorð ágætrar greinar Valgeirs Kárasonar sem ég hef verið að vitna í.

Ég hef vitnað í greinar sem Skagfirðingar hafa skrifað á síðari árum í þessum deilum sem hafa staðið um virkjunaráform í Skagafirði og ég held að túlki mjög vel sjónarmið mikils meginþorra Skagfirðinga til vatnanna sinna. Við deilum á Alþingi um hvort veita eigi iðnaðarráðherra heimild til að gefa út rannsóknar- og í framhaldi af því virkjunarleyfi, eins og ég hef rækilega rakið. Og þegar ég lýk þessum kafla ræðu minnar leyfi ég mér enn að vitna í skrif heimamanna um vötnin sín, til síðustu ljóðlína kvæðisins Minni Skagafjarðar eftir Stefán Vagnsson frá Hjaltastöðum:

Meðan „Vötnin“ ólgandi‘ að ósum sínum renna,

iðgrænn breiðist gróður um sléttur, hæð og laut,

geislar árdagssólar á bröttum tindum brenna,

blessun Drottins ríkulega falli þér í skaut.

Meðan vötnin fá að renna ólgandi að ósum sínum, vötnin sem eru þungamiðja skagfirska lífkerfisins, menningarlífs, mun blessun drottins ríkulega falla þér í skaut og þess vegna vilja Skagfirðingar ekki að Alþingi veiti iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins sem hefur eitt markmið, þ.e. álbræðslur í hvern fjörð, heimild til að úthluta rannsóknar- eða virkjunarleyfum á skagfirsku vötnunum. Svo einfalt er það.

Frú forseti. Ég get síðar í ræðu minni flutt fleiri kvæði Skagfirðinga sem undirstrika að vötnin eru þungamiðja alls lífs og menningarstarfs þar og að þau eiga ekki að vera undirorpin duttlungsákvörðunum ráðherra sem hefur það eitt að markmiði að sökkva sem mestu landi undir vatn vegna virkjana og stóriðju eins og hér hefur verið greint frá.

Frú forseti. Þá ætla ég að að víkja betur að þeim þáttum sem við erum að takast á um, þ.e. rétt náttúrunnar. Lögin sem lúta að veitingu rannsóknar- og virkjunarleyfa eru í raun einu lögin sem kveða á um rannsóknarheimildir á þessum svæðum, á þessum náttúruperlum. En svo er það rétturinn til að rannsaka þau til annarra hluta. Ef ég eða eitthvert félag eða hópur vildi sækja um rannsóknarleyfi á Héraðsvötnum eða öðru vatnasvæði, til að rannsaka mikilvægi þeirra fyrir líffræðilegan fjölbreytileika eða rannsaka þau með tilliti til ferðaþjónustumöguleika eða rannsaka þau með tilliti til hvaða sess þau skipa í menningarlífi viðkomandi byggðarlags, ef ég sækti um rannsóknarleyfi þá fengi ég neitun. Samkvæmt þessu frumvarpi er veittur forgangsréttur til rannsókna vegna til virkjunarframkvæmda. Sjónarmið Skagfirðinga sem ég hef rakið — ég er viss um að í hverju byggðarlaginu á fætur öðru sé sjónarmiðið hliðstætt sjónarmiði þeirra — á engan rétt í þeim lögum sem hér er verið að setja. Nei, rétturinn til virkjana er algjör.

Frú forseti. Það er af mörgum talið nóg komið af virkjunum og stóriðjuframkvæmdum í bili. Við höfum orðið vitni að því hvaða áhrif stóriðjuframkvæmdirnar á undanförnum missirum hafa haft á íslenskt efnahags- og atvinnulíf. Einn mælikvarðinn á það er gengi íslensku krónunnar. Gert var ráð fyrir því að mig minnir þegar við gerðum fjárlög fyrir árið 2004 að gengisvísitalan þá, í árslok 2003, yrði í kringum 130. Reyndin var sú að hún fór niður fyrir 120. Gert var ráð fyrir að gengisvísitalan fyrir árið 2005 væri 120–122. Hún fór niður undir 110 eða 112 og gengisvísitalan nú síðustu mánuðina hefur nálgast það að vera niður undir 100 en gengisvísitalan er mælikvarði á styrkleika íslensku krónunnar gagnvart erlendri mynt og er það oft mælikvarði á útflutningshæfni og samkeppnishæfni íslensks iðnaðar.

Þegar farið var út í stórvirkjanirnar fyrir austan, Kárahnjúkavirkjun, byggingu Reyðaráls og framkvæmdir á svæðinu við Grundartanga var ljóst að það mundi hafa gríðarleg efnahagsleg áhrif. Efnahagslífið mundi þurfa að taka á öllu sínu til að koma í veg fyrir alvarlegar kollsteypur, óðaverðbólgu o.s.frv. Því var samt stöðugt lofað að þetta væri tímabundið ástand. Þetta tæki 3–4 ár sem framkvæmdalotan gengi yfir fyrir austan og þá gæfist svigrúm til að efnahagslífið gæti jafnað sig á ný.

Samkvæmt nýjustu fregnum virðist það aldeilis ekki vera svo. Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa lagt til hér á Alþingi, ekki hvað síst af efnahagsástæðum, að gefin væri yfirlýsing af hálfu ríkisstjórnarinnar um að ekki yrði ráðist í frekari stóriðjuframkvæmdir á næsta tíu ára tímabili, yfirlýsing yrði gefin um að ekki yrði hafinn undirbúningur að eða ráðist í nýjar stóriðjuframkvæmdir og reynt yrði að ljúka þeim framkvæmdum sem nú eru í gangi þannig að varanleg áhrif þeirra á íslenskt atvinnulíf eða samsetningu íslensks atvinnulífs yrðu sem minnst. Slík yfirlýsing mundi slá á væntingar eða gefa öðrum atvinnugreinum fullvissu um að það væri markmið ríkisstjórnarinnar að svo væri. Lengi vel héldum við að það yrði. En með þeim fréttum sem hafa verið að berast og hafa komið yfir okkur á síðustu dögum er allt annað upp á teningnum. Síðast í dag var Seðlabankinn enn að hækka stýrivexti sína. Stýrivextir Seðlabankans eru nú komnir upp í 10,75% sem er með því alhæsta sem verið hefur hér á landi. Mér finnst með ólíkindum þegar hæstv. iðnaðarráðherra sem líka er ráðherra atvinnu- og byggðamála skellir skollaeyrum við varnaðarorðum atvinnulífsins um hvað er að gerast, kemur með yfirlýsingar um fleiri álver, auknar stóriðjuframkvæmdir sem auðvitað þýðir ekkert annað en framlenging á því ógnarjafnvægi sem nú er í efnahagsmálum, háu gengi og ruðningsáhrifum.

Ég held að það sé gott einmitt að byrja þennan kafla á því sem Seðlabankinn gaf út í dag þegar ákveðið var að hækka stýrivexti bankans um 0,25% eða í 10,75. Í Morgunblaðinu og í frétt BB er greint frá þessu. Þar segir, með leyfi forseta:

„Verðbólguhorfur eru enn óviðunandi. Seðlabankinn hefur endurmetið verðbólguhorfurnar í ljósi framvindu efnahagsmála undanfarna tvo mánuði og telur þær enn óviðunandi. Í desember og janúar reyndist verðbólga nokkru meiri en fólst í desemberspá bankans. Gengi krónunnar hefur einnig lengst af verið ívið lægra en reiknað var með í spánni. Þetta kom fram í máli Davíðs Oddssonar, formanns bankastjórnar, á fundi Seðlabanka Íslands með fréttamönnum. Í máli Davíðs kom fram að bankastjórn Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að hækka stýrivexti bankans um 0,25 prósentur, í 10,75%.

Þetta er tólfta vaxtahækkun Seðlabankans frá maí 2004 og kemur í kjölfar 0,75 prósentna hækkunar í lok september og 0,25 prósentna hækkunar í byrjun desember 2005.

„Í inngangi Peningamála 2005/4 sem gefin voru út 2. desember sl. var greint frá því að vaxtahækkunin í september hafi skilaði sér að fullu sem hækkun raunstýrivaxta. Í kjölfarið hafi áhrifa stýrivaxtahækkana bankans loks tekið að gæta í verðtryggðum vöxtum. Eigi að síður væri ótímabært að fagna sigri í baráttunni við verðbólguna.

Samkvæmt verðbólguspánni, sem birt var í Peningamálum í desember sl., yrði verðbólga töluvert yfir markmiði Seðlabankans á næstu tveimur árum. Sú spá byggðist á óbreyttum stýrivöxtum frá því fyrir vaxtahækkunina í byrjun desember og óbreyttu gengi. Fráviksspár með breytilegu gengi bentu til þess að stýrivaxtaþróun samkvæmt meðalspá greiningardeilda kynni að reynast ófullnægjandi til þess að ná markmiðinu. Horfur um verðbólguþrýsting til langs tíma voru einnig taldar neikvæðar.

Seðlabankinn hefur endurmetið verðbólguhorfurnar í ljósi framvindu efnahagsmála undanfarna tvo mánuði og telur þær enn óviðunandi. Í desember og janúar reyndist verðbólga nokkru meiri en fólst í desemberspá bankans. Gengi krónunnar hefur einnig lengst af verið ívið lægra en reiknað var með í spánni. Þjóðhagsreikningar fyrir þriðja ársfjórðung 2005 og vísbendingar um vöxt eftirspurnar á síðasta fjórðungi ársins sýna sem fyrr afar hraðan vöxt eftirspurnar og mun meiri en samrýmst getur jafnvægi í þjóðarbúskapnum. Þá hefur dregið hægar úr spennu á íbúðamarkaði en vonir stóðu til. Þótt áhrifa vaxtahækkana Seðlabankans sé tekið að gæta í ávöxtunarkröfu verðtryggðra langtímaskuldabréfa skortir töluvert á að hækkun kröfunnar komi fram í vöxtum fasteignaveðlána eins og tilefni er til. Vöxtur útlána lánastofnana, hvort heldur fasteignaveðlána eða annarra útlána, er enn mjög hraður. Þróun á vinnumarkaði undanfarna mánuði er einnig vaxandi áhyggjuefni. Undanfarna þrjá mánuði hafa komið fram skýrar vísbendingar um aukið launaskrið, eins og oftast gerist þegar atvinnuleysi verður jafn lítið og um þessar mundir. Horfur eru á að launakostnaður hækki töluvert meira á næstu árum en samrýmist verðbólgumarkmiði Seðlabankans, nema framleiðni aukist mun hraðar en gert er ráð fyrir í spám bankans, en það verður að telja ósennilegt,“ að sögn Davíðs.

Hæsta raungengi frá því á níunda áratugnum og meiri viðskiptahalli en áður hefur mælst benda til þess að umtalsverður verðbólguþrýstingur kunni að vera fram undan, jafnvel handan þess sjóndeildarhrings sem spár Seðlabankans ná jafnan til. Peningastefnan verður að bregðast tímanlega við þessum aðstæðum, því ella verður að beita enn harkalegra aðhaldi síðar. Eins og nú horfir kann Seðlabankinn því að þurfa að hækka vexti enn frekar síðar á þessu ári, að sögn Davíðs Oddssonar.

Næsta ákvörðun bankastjórnar Seðlabanka Íslands um vexti verður að óbreyttu birt fimmtudaginn 30. mars nk. um leið og næsta hefti Peningamála verður gefið út.“

Frú forseti. Þessar fregnir eru mikil ógn fyrir annað atvinnulíf í landinu. Sú staða hefur ekki farið neitt dult að einmitt þetta háa gengi íslensku krónunnar og háir stýrivextir Seðlabankans hafa leitt til mjög versnandi samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs. Seðlabankinn með stýrivöxtum sínum er einungis að bregðast við því ástandi sem ríkisstjórnin hefur skapað. Það væri ágætt, frú forseti, í umræðunni áður en lengra er haldið að vitna til fréttagreinar sem skrifuð er í Viðskiptablaðið 8. desember 2004 af Herði Kristjánssyni. Fyrirsögnin er: Ofurgengi á krónunni — áhyggjur hjá útflutningsgreinum og seðlabankastjóri segir að búast megi við háu gengi næstu tvö árin.

Í greininni segir einmitt, með leyfi forseta, 8. desember 2004, fyrir rúmlega ári:

„Staða íslensku krónunnar hefur sjaldan verið sterkari en um þessar mundir og styrktist enn við þær aðgerðir Seðlabanka Íslands á fimmtudag í síðustu viku að hækka stýrivexti um heilt prósent, eða úr 7,25% í 8,25%. Áhrifin leiddu til enn hærra gengis krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum. Á miðvikudag var miðgengi dollars t.d. skráð á 64 krónur, en fór í 63,39 krónur við lokun á föstudag. Hélt krónan áfram að hækka á mánudag og um miðjan dag í gær var gengi dollars komið í 61,20 krónur. Gengi krónunnar hafði þá hækkað um 4,64% frá því að Seðlabankinn hækkaði vexti síðastliðinn fimmtudag. Bandaríkjadollar hefur hins vegar fallið um 13,5% frá því í byrjun október.

Um þessar aðgerðir Seðlabanka og stöðu krónunnar eru mjög skiptar skoðanir og kom það glögglega fram í umræðum á Alþingi á föstudag.“ — Þ.e. í desember fyrir rúmlega ári. — „Beinist gagnrýnin einkum að versnandi hag útflutningsgreina. Engar líkur virðast hins vegar á að krónan veikist á næstu mánuðum og jafnvel missirum ef tekið er mið af þenslu og því lögboðna markmiði Seðlabankans að halda verðbólgu niðri, en gengislækkun hefur jafnan verið talin ávísun á verðbólgu.

Einar Oddur Kristjánsson, varaformaður fjárlaganefndar Alþingis, sagði í umræðum um fjárlagafrumvarpið á Alþingi að honum væri ómögulegt að skilja hvernig Seðlabankanum dytti í hug að hækka stýrivexti um hundrað punkta. Með því að hækka gengi krónunnar væri verið að grafa undan atvinnulífinu. Seðlabankanum bæri að sjá um hagstjórnina og gæti notað allt önnur tæki eins og bindiskylduna.“

Áfram er vitnað í Einar Odd Kristjánsson, fjármálasérfræðing Sjálfstæðisflokksins:

„Ég hef verið á undanförnum missirum og mánuðum ákaflega uggandi varðandi íslenskan gjaldmiðil og í hvaða hæðir hann er að fara. Og þegar Seðlabankinn kemur núna í gær og ætlar enn þá að bæta um betur og keyra gengisvísitöluna niður, ég veit ekki hvert, í 112, 110, þá er mér öllum lokið.“

Frú forseti. Gengisvísitalan hefur rokkað milli 100 og 104. Ekki ber mikið á hræðslu hjá varaformanni fjárlaganefndar ef hann ætlar að samþykkja stóriðjuáformin sem ríkisstjórnin hefur á prjónunum. Þá er hann ekki hræddur. En hann sagði að hann yrði hræddur. „Þá gerist ég mjög hræddur,“ sagði hann. Það reynir á þanþolið svo harkalega að atvinnulífið í heild sinni, framleiðslan, útflutningur og samkeppnismarkaðir, er í verulegri hættu. Það hlýtur að vera ámælisvert og ástæða til að tala til þessara manna í fullri alvöru, sagði Einar Oddur Kristjánsson. Ég auglýsi eftir því hvað hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson hefði talað til stjórnenda Seðlabankans sem eru ekki að hækka stýrivexti upp í 8,25%, eins og var þegar þessi orð vöru töluð, heldur upp í 10,75% og áfram er búist við hækkun stýrivaxta. Ætlar hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson ekki að veita þeim tiltal? Eða var það blaður og blástur, fyllir hann munninn af hveiti, blæs svo út úr sér og heldur að þar með sé málið leyst?

Í sama tölublaði Viðskiptablaðsins er rætt við Birgi Ísleif Gunnarsson, þáverandi seðlabankastjóra, sem sagði í símaviðtali við Viðskiptablaðið að hátt gengi væri í samræmi við það sem við mætti búast. Menn mega búast við háu gengi næstu tvö árin, þegar svo gríðarlegar framkvæmdir koma inn í hagkerfið á svo stuttum tíma, sem nema einum þriðja af landsframleiðslu. Allt er það fjármagnað ýmist erlendu eigin fé eða lánsfé frá útlöndum. Við slíkar aðstæður geta menn ekki búist við öðru en háu gengi. Virðulegi forseti, þáverandi seðlabankastjóri dró ekki dul á að þessar stóriðjuframkvæmdir hefðu þetta í för með sér, keyrðu upp væntingar og gengi og kölluðu afleita þróun yfir íslenskan fjármálamarkað. Hitt er annað mál, hvort það er nákvæmlega eins í dag. Við sjáum markaðinn sveiflast upp og niður.

Seðlabankastjóri er spurður: Hvað með áhyggjur manna af útflutningsgreinunum? Við deilum þeim áhyggjum, segir þáverandi seðlabankastjóri, með þeim sem í viðskiptum eru. Hann telur að enginn vafi leiki á því að menn verði að búa sig undir að gengið verði hátt. Hann segir að þeir haldi að þetta sé tímabundið. Árið 2004, þegar viðtalið er tekið, eru þær væntingar gefnar að þetta sé aðeins til tveggja ára, meðan stóriðjuframkvæmdirnar standa yfir.

Hæstv. viðskiptaráðherra ætti gera sér grein fyrir ástandinu. Ég hef margar upplýsingar sem sýna hvert stefnir, verði þetta óbreytt. Það þýðir ekkert að kenna Seðlabankanum um þótt hann verði að hækka stýrivexti. Einu viðbrögðin sem hann getur sýnt, eins og honum ber skylda til samkvæmt lögum, eru að standa gegn verðbólgunni og halda verðbólgunni innan ákveðinna marka. En ríkisstjórnin keyrir áfram efnahagsstefnu sem reynir svo á þanþol atvinnugreinanna vítt og breitt um landið, annarra atvinnugreina sem ég mun fjalla ítarlega um á eftir, að allt er að springa undan.

Ég get, frú forseti, t.d. vitnað í ályktanir aðalfundar Samtaka fiskvinnslustöðva, sem haldinn var 7. október árið 2005, með leyfi forseta:

„Á aðalfundi Samtaka fiskvinnslustöðva sem haldinn var í dag voru lagðar fram upplýsingar og útreikningar um þróun heildarafla, afurðaverðs, gengis, hráefniskostnaðar og annarra liða er ráða miklu um afkomu í sjávarútvegi.

Allir þessir útreikningar staðfesta versnandi afkomu vinnslugreina og sjávarútvegsins í heild og er orsaka að mestu að leita í hækkandi gengi krónunnar. Þetta er að gerast á sama tíma og verðlag á íslenskum sjávarafurðum í erlendri mynt er yfirleitt hagstætt að frátöldum afurðum rækjuvinnslunnar.

Aðalfundur Samtaka fiskvinnslustöðva lýsir furðu sinni á þeim aðgerðum í efnahags- og peningamálum sem beinlínis leiða af sér gengishækkun krónunnar, en slíkar aðgerðir grafa um leið undan rekstri útflutningsfyrirtækja í landinu.

Á síðustu 12 mánuðum hefur gengi krónunnar hækkað um 15% gagnvart erlendum gjaldmiðlum og mun það að óbreyttu geta haft í för með sér um 18 milljarða samdrátt í útflutningsverðmæti sjávarafurða á einu ári.

Við þessar aðstæður er afkoma fyrirtækja í sjávarútvegi óviðunandi og eigið fé fyrirtækjanna mun brenna upp verði haldið áfram á þessari braut. Þetta mun leiða að sér samdrátt og stöðvun fyrirtækja í sjávarútvegi um land allt á næstu mánuðum.

Þetta er að gerast á sama tíma og kjarasamningar á almennum vinnumarkaði eru í uppnámi vegna þess að verðbólgumarkmið samninganna halda ekki og verðbólga stefnir í 4% á þessu ári. …

Útilokað er að fiskvinnslan taki á sig á aukinn launakostnað um næstu áramót sem orsakast af þensluástandi undanfarinna mánaða, á sama tíma og þrengt er að rekstri fyrirtækjanna.

Aðalfundur Samtaka fiskvinnslustöðva hvetur til opinnar umræðu um stöðu og framtíð útflutnings- og samkeppnisgreina á Íslandi á tímum hágengis og skorar á stjórnvöld að takast á við þann vanda sem við blasir.“

Frú forseti. Síðan vil ég lesa upp ályktun frá Útvegsmannafélagi Norðurlands frá 5. október árið 2005, með leyfi forseta:

„Þær aðstæður sem nú eru í efnahagsmálum skapa útflutningsatvinnuvegunum mikla erfiðleika. Gengi krónunnar er allt of hátt og mun hærra en þessar greinar geti búið við. Þessi þróun leiðir til þess að afkoma fyrirtækja í sjávarútvegi er óviðunandi, fyrirtækin í taprekstri og eigið fé þeirra glatast verði haldið áfram á sömu braut. Á sama tíma og hátt gengi er að sliga útflutningsgreinarnar hefur olíuverð hækkað gríðarlega milli ára sem hefur gert veiðar á sumum tegundum óhagkvæmar. Nauðsynlegt er að rjúfa þessa óheillaþróun þegar í stað svo komist verði hjá kollsteypum í íslenskum sjávarútvegi.“

Fleiri aðila úr íslenskum sjávarútvegi mætti nefna. Ég tel nauðsynlegt, frú forseti, að við förum í gegnum svo tillitslausar yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um áframhaldandi stóriðjuframkvæmdir, áframhaldandi framkvæmdir sem beinlínis leiða til hás gengis krónunnar með ruðningsáhrifum á annað atvinnulíf í landinu.

Frú forseti. Ég er betur og betur sannfærður um lýsingu Önnu Dóru Antonsdóttur, sem ég las upp áðan á ráðherrum, þingmönnum og öðrum sem fylgja þeim að málum í þessum efnum, að þeir séu í fílabeinsturni og viti ekki hvað er að gerast, loki augunum, setji bómull í eyrun og hlusti ekki á íslenskt atvinnulíf, íslenskan almenning þegar hann talar. Ég ætla því að rekja frekar umsagnir íslensks atvinnulífs um stöðuna eins og hún er í dag. Í Ríkisútvarpinu 6. október 2005 segir, í fréttaskýringarþætti, með leyfi forseta:

„Útflutningsgreinar berjast í bökkum vegna hás gengis krónunnar og gengishækkun gærdagsins upp á 3% hjálpar ekki til, segja fulltrúar þeirra. Gengi krónunnar hefur aldrei verið hærra. Samtök ýmissa útflutningsgreina vilja sértækar aðgerðir hins opinbera til að vega upp á móti hárri gengisskráningu.

Í kvöldfréttum útvarps í gær sagði Björgólfur Jóhannsson, formaður Landssambands íslenskra útvegsmanna, að eina ráð sjávarútvegsins við lækkandi tekjum vegna hás gengis væri að taka til í rekstrinum. Það hafi verið gert en í sumum fyrirtækjum væri það ekki nóg, sagði Björgúlfur og benti á uppsagnir starfsfólks í rækjuvinnslu á Akureyri og Húsavík. Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, vill að hið opinbera leggi hönd á plóginn með því að nota veiðigjaldið til að niðurgreiða kostnaðarliði haldi þessu fram en þar er vitnað beint í Örn Pálsson, framkvæmdastjóra Landssambands smábátaeigenda: „Við höfum af þessu miklar áhyggjur og ég hef verið að funda með mínum mönnum nú undanfarið og það hafa streymt inn ályktanir þar sem þess er jafnvel krafist að stjórnvöld geri allar mögulegar ráðstafanir til að hamla gegn gífurlegu háu gengi krónunnar.““

Vinna stjórnvöld að því, frú forseti? Nei, þau vinna þvert gegn þeirri beiðni, óskinni sem hér er lögð fram, með því að boða auknar stóriðjuframkvæmdir eftir að þeim framkvæmdum sem nú eru í gangi lýkur.

„Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, tekur undir að hið opinbera eigi að aðstoða útflutningsgreinarnar við þær aðstæður sem nú eru. Hún vill að hið opinbera auki framlag sitt til markaðsstarfs erlendis.“ — Var það gert við afgreiðslu síðustu fjárlaga? Nei, frú forseti. Það var meira að segja skorið niður fjármagn til markaðsstarfs ferðaþjónustunnar við afgreiðslu síðustu fjárlaga.

Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir í þessum fréttaskýringarþætti:

„Nú er svo sem ýmislegt hægt er að gera. Auðvitað þurfa stjórnvöld að setjast yfir það. Ferðaþjónustan og útflutningsgreinarnar eru núna í gríðarlega mikilli klípu. Það er auðvitað ekkert einkamál atvinnugreinanna. Ferðaþjónustan er í mikilli samkeppni á alþjóðamarkaði og það er alveg ljóst að við erum að missa frá okkur mikil viðskipti vegna gengisskráningar krónunnar eins og hún er í dag.“

Síðan er bent á að á þessu ári hafi dregið stórlega úr því sem hið opinbera hefur sett í markaðssetningu í samstarfi við greinina og ráðið hafi verið frá því að draga úr þeirri markaðssetningu, m.a. vegna hins háa gengisstigs.

Frú forseti. Flest samtök atvinnulífsins vara við og ákalla stjórnvöld um að falla frá áframhaldandi stóriðjustefnu. En stjórnvöld svara því með því að boða enn meiri álframleiðslu og enn fleiri stóriðjuframkvæmdir.

Pétur Sigurðsson, formaður verkalýðsfélags Vestfirðinga, segir 31. ágúst síðastliðinn, um sömu mál í Bæjarins besta, með leyfi forseta:

„Meginvandamál sjávarútvegsfyrirtækja er hin sterka staða krónunnar. Pétur Sigurðsson, formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga, segir það skelfileg tíðindi sem bárust í morgun að rækjuvinnslu hjá Frosta hf. í Súðavík verði hætt, um sinn að minnsta kosti, síðar í haust. Í kjölfarið hefur 18 manns verið sagt upp störfum hjá fyrirtækinu. Er þetta fjórða sjávarútvegsfyrirtækið á Vestfjörðum sem hættir vinnslu á stuttum tíma. Pétur segir ljóst að ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að leggja allt undir í efnahagslífinu með virkjunum og byggingu álvers á Austurlandi sé farin að hafa skelfilegar afleiðingar víða á landsbyggðinni.

„Það er öllum ljóst að meginvandamál sjávarútvegsfyrirtækja er hin sterka staða krónunnar um þessar mundir og afleiðingar þeirrar stefnu erum við að upplifa hér vestra þessa dagana. Það er ófært með öllu að atvinnuuppbygging á einum stað veiki með þessum hætti aðalatvinnuveg flestra byggðarlaga á landinu,“ segir Pétur.“

Þarna er fjallað um stöðuna eins og hún var á þeim tíma. Þarna er kallað eftir aðgerðum til að hjálpa atvinnugreinunum til að þreyja þær stóriðjuframkvæmdir sem þá voru í gangi. Ætli að Pétur Sigurðsson hafi órað fyrir því, þegar hann segir þetta 31. ágúst síðastliðinn, að í byrjun árs 2006 kæmi yfirlýsing frá ríkisstjórninni um stóraukna álvæðingu landsins, ný stóriðjuver sem muni halda genginu háu áfram og gera samkeppnisstöðu annarra atvinnugreina slæma áfram. Það mun leiða til þess að atvinnurekstur víða um land verður að stoppa.

Ruðningsáhrif stóriðjustefnunnar eru sýnileg og átakanleg. En vitund hæstv. iðnaðarráðherra gagnvart því sem er að gerast lýsti sér kannski best í því sem iðnaðarráðherra sagði við Vestfirðinga í júní síðastliðnum þegar fiskvinnslunni á Bíldudal var lokað vegna ruðningsáhrifa stóriðjuframkvæmdanna. Mig minnir að kveðja hennar til Vestfirðinga — þannig upplifði hæstv. iðnaðarráðherra tilveru sína sem atvinnu- og byggðamálaráðherra — væri að ruðningsáhrifin væru líka af hinu góða. Þegar fólk var að missa atvinnu sína og fyrirtæki að hverfa úr landi, þá sagði hæstv. iðnaðarráðherra að ruðningsáhrifin væru líka af því góða. Það voru þá kveðjur til Vestfirðinga.

Síðan hefur þetta verið ítrekað í fréttum nú í umræðunni um frekari stóriðjuver. Að ruðningsáhrifin, það að ryðja burt ferðaþjónustunni, að ryðja burt hátækniiðnaðinum, að ryðja burt fiskvinnslunni og að hefta þróun sprotafyrirtækjanna, öllu því sé fórnandi fyrir ný álver vegna þess að álver í hvern fjörð sé það sem koma skal.

Nú vil ég taka það fram að eitt og eitt álver eða álverksmiðja getur svo sem vel komið til greina til að auka fjölbreytni íslensks atvinnulífs. En þegar farið er út á þá braut að álver eigi að standa að meginþorra íslensks atvinnulífs þá erum við ekkert að tala um aukna fjölbreytni. Þá erum við að tala um aukna einhæfni í atvinnulífi eins og nú stefnir í.

Frú forseti. Nú nýverið bárust þær fréttir úr byggðarlagi hæstv. iðnaðarráðherra að fara ætti að loka laxeldinu í Mjóafirði, Sæsilfri, bæði vegna hás gengis krónunnar og hás raforkuverðs. Það er svo sem skiljanlegt því gengi krónunnar hefur breyst frá því sem áætlað var, frá því að vera áætlað milli 120 og 130 stig en hefur verið að leika fyrir neðan 110. Þá gefur augaleið að þetta háa gengi skerðir alla starfsmöguleika þeirra fyrirtækja sem hafa verið að selja vöru sína á erlendan markað. Þess utan hafa fiskeldisfyrirtæki verið að kvarta undan of háu raforkuverði sem er þá hinn hlutinn af stóriðjustefnunni þessarar ríkisstjórnar, hinn hlutinn af stefnu hæstv. iðnaðarráðherra í rafmagns- og orkumálum, þegar markaðsvæðing raforkukerfisins er sú að almennir notendur eru látnir greiða niður raforku til stóriðju, þá kemur það einhvers staðar niður. Því hefur verið lýst rækilega í umræðum á þinginu hvernig raforkuverð víða um land hefur hækkað vegna þessara breytinga. Ég minnist þess t.d. að bara rafmagnsbreytingin ein leiddi til þess að orkuverð í rækjuverksmiðjunni í Súðavík hækkaði um meira en milljón á ári. Reynslan af þessu er víða sú sama. Í Morgunblaðinu 25. janúar sl. er t.d. frétt um raforkukostnaðinn sem hæstv. ráðherra sagði á þingi á dögunum að hefði aðeins hækkað um 4%. Ráðherrann fullyrti hér á þingi að rafmagn til fiskeldis hefði alls ekki hækkað, nefndi töluna 4%. Ég vil leyfa mér hér, frú forseti, að lesa þessa frétt frá laxeldisstöðvunum um raforkuverðið. Í Morgunblaðinu frá 25. janúar sl. segir, með leyfi forseta:

„Raforkukostnaður við laxeldi Oddeyrar í Íslandslaxi á Stað við Grindavík hefur hækkað verulega á síðasta ári. Þar hefur raforkukostnaður verið um 13 krónur á kíló fram til ársins 2005. Það ár hækkaði raforkukostnaður í 20 krónur og stefnir að óbreyttu í að verða allt að 30 krónur á kíló eftir tæp tvö ár.“

Hvað segir hæstv. iðnaðarráðherra við þessu? Iðnaðarráðherra sem kom hér keik í umræður og sagði að rafmagnskostnaður hefði jafnvel lækkað. Ætlar hæstv. iðnaðarráðherra að segja að þessir aðilar fari með ósannindi? Ég treysti betur, frú forseti, að fulltrúar laxeldis Oddeyrar og Sæsilfurs fari með rétt mál en iðnaðarráðherra. En hér segir einmitt að árið 2005 hækki raforkukostnaður um 20 kr. og óbreytt verði verðið allt að 30 kr. á kíló eftir tæp tvö ár. Á sama tíma lækka aðrir liðir. Vegna hás gengis lækkar útflutningsverðmætið. Þetta segir Jón Kjartan Jónsson, framkvæmdastjóri fiskeldis Samherja, í samtali við Morgunblaðið.

Hann segir nauðsynlegt að taka af allan vafa um þær tölur sem birtast í fréttatilkynningu frá Sæsilfri sl. fimmtudag. Orka á kílóvattstund í tveimur stórum landsstöðvum sem Oddeyri, dótturfélag Samherja, á og rekur hafa hækkað, eins og fram hafði komið í umræddri tilkynningu.

Frú forseti. Hækkun á raforku er 45% í annarri af stóru stöðvum okkar og 21% í hinni milli áranna 2004 og 2005. Vill forseti rifja upp hvað hæstv. iðnaðarráðherra sagði hér í umræðunum um það mál sem hér er verið að ræða? Þá fullyrti hæstv. iðnaðarráðherra, að mig minnir, að verið væri að tala um kannski 4% hækkun og vildi þá meina að fiskeldisstöðvarnar nytu áfram lágs orkuverðs þannig að þetta væri ekki satt. Og lét fyllilega að því liggja, að mig minnir, að þessir aðilar væru að fara með ósatt mál. Hér stendur í frétt Morgunblaðsins 25. janúar 2005, með leyfi forseta:

„„Hækkunin á raforku er 45% í annarri af stóru stöðvunum okkar og 21% í hinni, milli áranna 2004 og 2005. Vegið meðaltal miðað við notkun beggja þessara stöðva er 31% hækkun. Samtals er hækkunin milli ára um tíu milljónir eins og fram hefur komið. Í lok samningstíma okkar vegna þessara landstöðva við Landsvirkjun, í árslok 2007, má að óbreyttu búast við verulegri verðhækkun raforku til sömu stöðva. Ég sem framkvæmdastjóri fiskeldis Samherja get einungis áréttað að þær tölur sem frá okkur bárust eru réttar. Áhrif raforku á kostnað við fiskeldi verður hver og einn að meta. Undanfarin ár hefur verið mikil framleiðniaukning í öllu fiskeldi Oddeyrar. Markmið okkar hefur verið að framleiða fisk í landstöðvum, hvort heldur er seiði til sjóeldis eða annan fisk til manneldis, á um 200 kr. kg óslægt. Það er ótvírætt að raforkukostnaðurinn hefur hækkað og það veldur okkur verulegum erfiðleikum. Hækkun gengis íslensku krónunnar hefur gert okkur enn erfiðara fyrir, en saman eru það þessir tveir þættir þeir stærstu, sem knýja okkur til að hætta laxeldinu,“ segir Jón Kjartan Jónsson.“

Hverjar voru meginástæður fyrir hækkuðu gengi íslensku krónunnar? Hverjar voru þær, frú forseti? Hvað sagði þáverandi seðlabankastjóri, Birgir Ísleifur Gunnarsson, í Viðskiptablaðinu 8. desember sl.? Jú, meginástæðan fyrir hækkun gengis krónunnar og hækkun stýrivaxtanna eru stóriðjuframkvæmdirnar. Ruðningsáhrif þeirra koma fram í fiskeldinu, í laxeldinu í Mjóafirði, í laxeldinu hjá Íslandslaxi og Stað í Grindavík. Þetta er verðið sem álæði iðnaðarráðherra kallar á, fórnirnar sem álæði iðnaðarráðherra heimtar. Svör iðnaðarráðherra í þinginu á dögunum hvað þetta mál varðaði voru með ólíkindum og ég vil gjarnan ef iðnaðarráðherra á eftir að taka til máls í þessu máli að hæstv. iðnaðarráðherra rifji upp hvað hún sagði þegar orkuverð til laxeldisstöðvanna var til umræðu. Ég man ekki betur en hún léti að því liggja að bæði þeir hv. þingmenn sem áttu orðastað við ráðherrann og einnig aðilar umrædds fyrirtækis sem vitnað var í, að þeir færu með ósannindi. Að ráðherrann væri með allt aðrar tölur sem væru réttar. Það væri fróðlegt að hæstv. iðnaðarráðherra rifjaði upp hvað hún sagði þegar samkeppnisstaða var rædd, raforkuverð til laxeldisstöðva í Mjóafirði. Frú forseti. Án þess að ég vilji gera lítið úr hæstv. iðnaðarráðherra, meira en nauðsyn er, þá trúi ég betur orðum þeirra manna sem ég vitna hér til en hæstv. iðnaðarráðherra sagði að færu ekki með rétt mál. Ég verð að segja það.

Við getum áfram, og ég held að það sé nauðsynlegt að við rifjum upp fleiri umsagnir atvinnulífsins hvað þetta ástand varðar. Í Morgunblaðinu 15. nóvember árið 2005, um sjávarútveginn, býsnast formaður Samtaka fiskvinnslu án útgerðar, yfir vaxtahækkunum Seðlabankans því að hækkun stýrivaxta Seðlabankans leiðir til hærra gengis og hærri vaxta á markaði. En í ræðu á aðalfundi samtakanna um helgina sagði Óskar Þór Karlsson, formaður Samtaka fiskvinnslu án útgerðar, með leyfi forseta:

„Sjávarútvegurinn býr nú við afleit rekstrarskilyrði vegna þess að gengi krónunnar er allt of hátt. Sama gildir auðvitað um önnur íslensk fyrirtæki sem fá tekjur sínar í erlendri mynt eða keppa við innfluttar vörur. Þrátt fyrir miklar framfarir og framlegðaraukningu í sjávarútvegi er alveg ljóst að núverandi gengi er algjörlega óbærilegt til lengdar fyrir bæði útgerð og fiskvinnslu ...“

Óskar ræddi síðan um vaxtahækkanir Seðlabankans og sagði svo:

„Ég kemst ekki hjá því að víkja aðeins að því sem mestu veldur, sem eru hinar miklu vaxtahækkanir Seðlabankans með tilheyrandi miklum vaxtamun gagnvart útlöndum og síðan aðgerðarleysi stjórnvalda gagnvart því að bregðast við.

Þessar vaxtahækkanir bankans eru umdeilanlegar svo ekki sé meira sagt. Að minnsta kosti eru þær gagnrýndar hart af öllum talsmönnum útflutningsfyrirtækja og þær sæta vaxandi gagnrýni málsmetandi manna víða í þjóðfélaginu.

Það verður að segjast eins og er að það er í rauninni erfitt að botna nokkuð í þeim ósköpum sem eiga sér nú stað í íslensku efnahagslífi og enginn virtist hafa séð fyrir.

Breytingar á stýrivöxtum Seðlabanka, m.a. til þess að slá á verðbólgu, eins og er yfirlýstur tilgangur bankans er að vísu viðurkennt hagstjórnartæki um allan heim.

En hér á Íslandi ríkja hins vegar aðstæður sem eru að mörgu leyti mjög frábrugðnar þeim sem gilda annars staðar í margfalt stærri hagkerfum. Aðstæður hér eru svo sérstakar að vaxtahækkanir Seðlabanka Íslands hafa hér öfug áhrif við það sem þeim er ætlað.

Þær hafa ekki minnkað eftirspurn heldur þvert á móti a.m.k. hingað til aukið hana. Gengið hefur hækkað upp úr öllu valdi, gjaldeyrisinnflæði er meira en nokkru sinni fyrr og við erum að slá met í viðskiptahalla og skuldasöfnun.

Og það er eðlilegt að á hugann leiti áleitnar spurningar. Þarf ekki að borga allt þetta fé til baka í erlendum gjaldeyri og það stórar fjárhæðir jafnvel fyrr en síðar?“

Er það nema von, frú forseti, að Óskar Þór Karlsson spyrji, þegar erlendar skuldir þjóðarbúsins á þessu ári verða einhvers staðar í kringum 150 milljarðar króna?

„Og verður þá allur sá gjaldeyrir til reiðu? Hvaðan á að taka hann eða á þá bara að halda áfram að slá erlend lán? Við Íslendingar erum nú þegar orðnir heimsmethafar í skuldasöfnun og svigrúmið til frekari skuldsetningar hlýtur að vera orðið þröngt.

Hvar endar þetta? Allt þetta fjármagn, stórfelldur viðskiptahalli og þensla, ásamt miklum hækkunum á húsnæði sem mælist til hækkunar í neysluvísitölunni veldur því síðan að hér mælist verðbólga þrátt fyrir að gengi krónunnar hafi styrkst um 16% á einu ári og var gengið þó of hátt áður! Það ætti þvert á móti að ríkja hér verðhjöðnun ef allt væri með felldu og reyndar er hún að nokkru til staðar.“

Óskar hélt áfram að ræða gengismálin og sagði:

„En hvaða vit er í því að gera sjávarútveginn, útflutningsgreinar og raunar meira og minna alla landsbyggðina að fórnarlambi þessara aðstæðna sem ríkja hér, aðallega á suðvesturhorninu og rangra viðbragða Seðlabankans við þeim, sem bregst við þensluverðbólgu og eignahækkunum með því að handstýra genginu upp í hæstu hæðir með vaxtahækkunum.“

Frú forseti. Það er von að menn fárist yfir Seðlabankanum en hann er einungis að bregðast við þeim efnahagsaðgerðum sem ríkisstjórnin sjálf stendur fyrir og verður standa sína plikt við að halda verðbólgunni niðri. Það eina sem hann getur gert er að hækka vexti sem gerir það sýnilega gagnvart þessum atvinnuvegi og birtist í háu gengi og háum vöxtum.

„Þetta er ekkert annað en hreinræktuð falsgengisstefna,“ — segir Óskar — „sem bankinn rekur og hún ógnar fjármálalegum stöðugleika og þrengir svo mjög að fyrirtækjum, að mörg þeirra hafa nú þegar lagt upp laupana og þau fyrirtæki flýja úr landi sem það mögulega geta.

Og við spyrjum hvað um hlutverk stjórnvalda sem láta þetta ganga fram að því er virðist afskiptalaust.

Hafa þau enga stjórn á efnahagsmálum lengur? Bera þau ekki ábyrgð? Auðvitað er slíkri spurningu svarað játandi, auðvitað bera stjórnvöld mesta ábyrgð og þau hafa ýmsa möguleika til þess að bregðast við. Spurningin er sú til hvaða aðgerða þau hyggjast grípa og þeirri spurningu hljótum við að beina til hæstvirts sjávarútvegsráðherra.

Því eftir því sem þetta ástand varir lengur eykst stöðug hættan á því að allur almenningur þurfi að lokum að súpa harkalega seyðið af þessu í verulegu bakslagi og rýrnum kaupmáttar.

Auðvitað leiðréttist gengi krónunnar að lokum, en það hefur nú þegar orðið mikill skaði og hann verður miklu meiri, haldi fram sem horfir. Og það tekur sinn tíma að vinna upp slíkan skaða og hann verður aldrei að fullu bættur.

En það gæti tekið enn þá lengri tíma að byggja upp að nýju það nauðsynlega trúnaðartraust, sem brestur við slíkar aðstæður, en þarf auðvitað að ríkja milli stjórnvalda og atvinnufyrirtækjanna í landinu.

Við hljótum því að gera þá kröfu til stjórnvalda að þau taki á þessum málum af ábyrgð og festu, en fljóti ekki sofandi að feigðarósi,“ sagði Óskar Þór Karlsson sem er formaður Samtaka fiskvinnslu án útgerðar.

Við sem höfum heyrt yfirlýsingar hæstv. sjávarútvegsráðherra og hann var einmitt á þessum fundi og ég heyrði hann flytja ræðu. Þar taldi hann að ekkert annað væri í kortunum en að bíða þangað til yfirstandandi stóriðjuframkvæmdum lyki fyrir austan og við Grundartanga en þá yrði gefið svigrúm, þá yrði gert hlé. Þá fengi gengi krónunnar og samkeppnishæfni útflutningsatvinnugreinanna svigrúm. Hvað ætli hæstv. sjávarútvegsráðherra segi nú þegar verið er að boða stórauknar álversframkvæmdir sem viðhalda því ógnarástandi gagnvart atvinnulífinu sem nú er. Ráðherra keyrir hér inn af ósvífni og hörku frumvarp sem heimilar ráðherra að veita aukin leyfi til rannsókna og virkjunar á fallvötnum landsins til að standa undir þeirri álversstefnu sem hefur þessar gríðarlega slæmu afleiðingar sem ég hef hér rakið.

Frú forseti. Þetta er með ólíkindum. Ég staðfestist í þeirri trú að stjórnvöld séu í einhverjum fílabeinsturni og viti ekki hvað er að gerast í samfélaginu. Ég er hér t.d. með tölur frá Samtökum ferðaþjónustunnar sem hafa bent á hina erfiðu stöðu sína og áhrif gengisins á afkomumöguleika þeirrar þjónustu og ef við lítum á gengið og hvernig það hefur breyst vegna þessara stóriðjuframkvæmda þá var ferð sem kostaði 100 þús. ísl. kr. haustið 2002 verðlögð á 1.136 dollara. Ef hafa ætti sama krónugildi í íslenskum krónum í dag kostaði hún 1.627 dollara sem er 43,3% hækkun frá 2002–2005. Ferð sem aðili í Bandaríkjunum vildi kaupa til Íslands og kostaði 100 þús. kr. haustið 2002 stæði í sömu upphæð árið 2005. Nú er ekki svo að tilkostnaður í ferðaþjónustu á Íslandi hafi ekki breyst, hann hefur líka hækkað. Þannig að ferðaþjónustuaðilinn þyrfti frekar að fá meira fyrir ferðina nú en þá. En aðeins dollarahækkunin ein hefur látið þessa 100 þús. kr. ferð hækka um 43,3% fyrir þann erlenda aðila sem hingað vildi koma. Það er ekkert svigrúm innan ferðaþjónustunnar til að sækja þessa hækkun. Sama ferð hafði hækkað um 21,5% í pundum þegar þetta var gefið út í haust. Það getur hafa breyst eitthvað síðan en það hefur þá verið í aðra átt. Afleiðingar af stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar leika ferðaþjónustuna afar grátt. Ég hef ekki trú á því að ferðaþjónustan eigi gott með að standa undir slíku, enda sýna tölur þessa árs um ferðamenn til landsins að þær hafa nánast staðið í stað. Aukningin hafði verið mikil á undanförnum árum en virðist nú að mestu standa í stað. Tekjur af erlendum ferðamönnum virðast líka standa í stað eða aukast mjög lítið en höfðu aukist verulega á undanförnum árum. Hvernig ætti líka annað að vera þegar gengið hefur breyst um 20–30% á tveggja til þriggja ára tímabili? Það gefur augaleið að samkeppnisstaða ferðaþjónustunnar er alveg afleit. Á að fórna ferðaþjónustunni, einum stærsta atvinnuvegi þjóðarinnar, á altari stóriðju og álbræðslna hæstv. iðnaðarráðherra? Það er dapurt, frú forseti.

Samtök ferðaþjónustunnar, aðilar í ferðaþjónustu, komu einmitt á fund samgöngunefndar í haust við afgreiðslu fjárlaga þar sem fulltrúar samtakanna gerðu okkur grein fyrir hver staða þess atvinnuvegar væri. Þeir sögðu að nógu bölvað hafi það ár verið því að verð þurfi að gefa út a.m.k. með árs fyrirvara á erlendum mörkuðum og bættu svo við að þeir yrðu að vera búnir að gefa út verð fyrir ferðir á næsta ári, 2006 sem þá var fram undan og reyndar 2007, og yrði gengið óbreytt gætu þeir ekki hækkað innlent verð þrátt fyrir að tilkostnaður hafi í sjálfu sér vaxið. Laun hafa hækkað og ýmis annar kostnaður. Raforkan hefur hækkað, raforkukostnaður leikur ferðaþjónustuna mjög grátt, því að borga verður miklu hærra raforkuverð af húsum sem nýtt eru undir ferðaþjónustu en t.d. af íbúðarhúsum. Það er því ekki eitt, það er allt þegar iðnaðarráðherra níðist á ferðaþjónustunni. Fulltrúar Samtaka ferðaþjónustunnar lýstu því yfir að þetta væri stórhættulegt fyrir atvinnugreinina, ekki aðeins skammtímaáhrifin heldur líka langtímaáhrifin því að stórir markaðsaðilar, tengiaðilar sem hafa haft milligöngu um að útvega viðskipti í ferðamálum væru að segja upp samningum og hætta vegna þess að það ástand sem hér ríkti í gengismálum væri algjörlega út í hött. Það væri engin leið að stíla viðskipti sín upp á samstarf við svona aðila. Þeir lýstu verulegum áhyggjum. Ég man þegar ég spurði í nefndinni: Hvað ef ríkisstjórnin verður svo ógæfusöm að halda áfram á þessari stóriðjubraut? Þá voru þeir ekkert að draga dul á það, fulltrúarnir sem hingað komu frá Samtökum ferðaþjónustunnar, þeir báðu bara guð að hjálpa sér. Þessum atvinnuvegi væri hreinlega fórnað ef svo héldi áfram. Fórn sem hæstv. iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins virðist vera reiðubúin að færa með því að auglýsa enn fleiri álver hér. Viðhalda enn þessum ruðningsáhrifum, þessu háa gengi og skertu og alvarlegu samkeppnisstöðu sem ferðaþjónustunni stendur frammi fyrir.

Af því að ég sá einhvers staðar í tölvupósti að halda á ráðstefnu á morgun, svona gloríuráðstefnu um ágæti áliðnaðarins, þá vil ég þá segja, frú forseti, að álverksmiðja við þær kringumstæður þar sem rafmagn yrði selt á eðlilegu verði en almennir raforkunotendur ekki látnir greiða það niður getur vel komið til greina til að auka fjölbreytni atvinnulífsins en að ætla að steypa allt atvinnulífið í álver á niðurgreiddu rafmagni finnst mér alveg með ólíkindum. En Samtök atvinnulífsins eru einmitt aðilar að þessari álráðstefnu sem halda á á morgun, að ég held, eða einhvern tímann á næstunni og mér er spurn: Hvað munu þau segja? Hvernig munu Samtök atvinnulífsins flytja þann boðskap sem ég hef verið að lesa hér upp frá samtökum útgerðar, fiskvinnslu, verkalýðshreyfingarinnar, t.d. á Vestfjörðum, frá ferðaþjónustunni, inn á þennan fund? Ætla Samtök atvinnulífsins að hrópa áfram: Hallelúja, hósíanna fyrir aukinni álframleiðslu í landinu?

Frú forseti. Mig minnir að Samtök iðnaðarins hafi gengist fyrir einhverri ráðstefnu sem bar heitið „Framtíðin er í okkar höndum“, stefnumót stjórnmálamanna, starfsmanna hátæknifyrirtækja og háskólanema, sem haldin var mánudaginn 16. janúar sl. Ég er hér með eitt ágætt erindi sem þar var haldið af einum frummælandanum, Hilmari V. Péturssyni, forstjóra CCP, um möguleika í þeirri nýsköpun sem hann stóð í. Hann var ekki að veifa áltúrbínum þegar hann kynnti sitt mál. Nei, frú forseti, hann veifaði myndum af mestu náttúruperlum Íslands sem hann notaði til kynningar á starfsemi sinni úti um heim. Það voru myndirnar sem hann notaði til að kynna starfsemi sína þar. Náttúruperlur sem hæstv. iðnaðarráðherra vill sökkva. Það var kynningarefni á ráðstefnu Samtaka iðnaðarins sem hafði yfirskriftina „Framtíðin er í okkar höndum“, áskorun til ríkisstjórnarinnar. Frú forseti. Það eru þessar myndir af ósnortinni náttúru, af þeim stöðum sem hæstv. iðnaðarráðherra beitir nú öllu sínu afli til að sökkva sem notaðar voru sem kynningarefni á ráðstefnunni „Framtíðin er í okkar höndum“ áskorun til ríkisstjórnarinnar. Mér þætti gaman að vita hvernig Samtök iðnaðarins ætla sér á morgun eða hvenær sem ráðstefnan verður um álglýjuna að túlka skilaboð ráðstefnunnar sem haldin var um hátæknigreinar í iðnaði og möguleika þeirra. Ég man ekki betur en að einmitt þessi ágæti fyrirlesari hafi sagt að að hans mati vildi fólk ekki fleiri álver. Það vildi ekki vinnu í fleiri álverum og ekki gæti störfum í fjármálageiranum eða í bönkunum stöðugt fjölgað en í þeirri atvinnugrein sem hann væri að kynna þarna væri möguleiki á háum launum og líka atvinnugrein sem krefðist menntunar.

Hann notaði einmitt þessar myndir um íslenska náttúru sem kynningarefni þegar hann var að leggja áherslu á möguleika síns fyrirtækis. Mér þætti fróðlegt að vita hvernig þessum þætti verður gerð skil eða hvernig hæstv. iðnaðarráðherra ætlar að bregðast við þessu ákalli, áskorun til ríkisstjórnarinnar um að gefa þessum atvinnugreinum svigrúm. Samkvæmt síðustu yfirlýsingu hæstv. iðnaðarráðherra um fjölgun álvera er ekki að sjá að það eigi að gefa þessum atvinnugreinum svigrúm enda kom það rækilega fram á þessari ráðstefnu að aukinn áliðnaður og aukin stóriðja gerir ekkert annað en að skerða möguleika og jafnvel útiloka einstaka þætti í hátækniiðnaði hér á landi, enda hefur þetta allt komið fram áður, en hæstv. iðnaðarráðherra lokar eyrunum fyrir þessum þáttum.

Frú forseti. Ég er þeirrar skoðunar að hæstv. iðnaðarráðherra viti ekkert hvað er að gerast úti um land.

Mig langar til að lesa hér tölvupóst, bréf sem við fengum einmitt um stöðu þessara atvinnugreina.

Hér er grein sem birtist í Morgunbaðinu 10. nóvember 2005 eftir Ómar Garðarsson en þar er viðtal við Berg Elías Ágústsson, bæjarstjóra í Vestmannaeyjum. Yfirskriftin er: „Gagnrýnir stjórnvöld fyrir skilningsleysi á stöðu útflutningsgreina“ og „Keyra sjávarbyggðir í kaf“, með leyfi forseta:

„Hátt gengi íslensku krónunnar hefur smám saman verið að draga tennurnar úr íslenskum útflutningsgreinum og ferðaþjónustu án þess að nokkuð sé aðhafst. Bergur Elías Ágústsson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, segir að nú sé nóg komið og þetta sé enn eitt dæmið um skilningsleysi stjórnvalda á stöðu útflutningsgreina og aðför þeirra gegn landsbyggðinni sem aldrei ætli að linna.“ — Bergur segir þetta þegar nýkomin var hækkun á stýrivöxtum. — „Bergur segir þetta ekki aðeins koma niður á útgerð og fiskvinnslu í Vestmannaeyjum heldur allri þjónustu. Gæti svo farið að bæjarsjóður yrði að horfa upp á 5% til 7% lækkun útsvarstekna sinna.“

Undir millifyrirsögninni „Sjávarplássum blæðir út“ segir, með leyfi forseta:

„„Já, nú er nóg komið og miklu meira en það,“ sagði Bergur. „Á meðan okkur og öðrum sjávarplássum blæðir út eru önnur svæði að hala inn meira fjármagn en áður hefur sést í sögu íslenska lýðveldisins. Það er einfaldlega þannig að ef efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar helst óbreytt og gengismál verða eins á næstu missirum munu sjávarbyggðirnar bíða afhroð. Það er vegna þess að það gengur ekki upp að vinna fiskinn með því skilaverði sem við sjáum í dag. Þetta gerist þrátt fyrir sögulegt hámark í verði á fiskafurðum í erlendri mynt og m.a.s. Norðmenn græða á sinni fiskvinnslu. Við höfum séð það undanfarið að rækjuverksmiðjur eru að loka vegna þessa hver á fætur annarri og fyrirtæki í landvinnslu eru farin að draga saman í vinnslu. Og fyrr en síðar kemur að okkur hérna í Vestmannaeyjum,“ segir hann.“

Undir millifyrirsögninni „Ekkert bólar á aðgerðum“ segir, með leyfi forseta:

„Bergur sagði ljóst að stjórnvöld ætluðu að horfa framhjá vandanum og ekkert bólaði á aðgerðum til að koma til móts við fyrirtæki og sjávarbyggðir sem margar hverjar stæðu nú á tímamótum. „Ég nenni ekki að telja upp þau störf hjá hinu opinbera sem héðan hafa horfið og þann kvóta sem ríkisstjórnin hefur tekið af okkur. Það verður gaman að ræða þetta við þingmenn þegar og ef þeir koma,“ sagði Bergur og vísar til þess að þingmenn Suðurkjördæmis hafi enn ekki“ — þegar þetta er skrifað — „náð að heimsækja Vestmannaeyjar á þessu hausti þrátt fyrir góðan vilja.

„Sérðu eitthvað til ráða?“ — spyr blaðamaðurinn.

„Tvímælalaust. Það á að flytja stofnanir sem tengjast sjávarútvegi frá Reykjavík til staða eins og Vestmannaeyja,“ sagði Bergur og nefndi sem dæmi Hafrannsóknastofnun og Rannsóknarstofnun fiskiðnaðarins.“

Þessu næst spyr blaðamaður, með leyfi forseta:

„Er eitthvað hægt að gera til að breyta genginu?“

Og Bergur svarar, með leyfi forseta:

„Það er nú þannig að ekki verður bæði haldið og sleppt í gengismálum. Ríkisstjórnin hefur ekki sýnt nokkurn vilja til að draga úr útgjöldum ríkisins og beinir síðan þeim tilmælum til sveitarfélaga að draga úr framkvæmdum. Innflutningur hefur heldur aldrei verið meiri og það er kannski eitthvað sem allir eiga að lifa á? Annars má benda á álframleiðendur á Íslandi sem njóta sérstakra kjara þar sem raforkuverð miðast við heimsmarkaðsverð á áli. Ekki hafa sjávarbyggðirnar þessa vörn.“

Og greininni lýkur svo, með leyfi forseta:

„Bergur sagði að svo væru menn hissa á því að hér væru erfiðleikar og menn ekki hressir með stöðuna. Þetta vilja þeir ekki tala um og benda á hagsæld sem er fyrir suma en aðra ekki. Það hlýtur að vera hlutverk stjórnvalda að verja sjávarbyggðir eins og aðrar byggðir nema það sé markviss stefna að draga tennurnar hægt og rólega úr fólki sem þar býr. Að vísu er talað og talað og fyrirheitin yfirleitt góð en vandamálið er að ekkert gerist. Satt best að segja á ég erfitt með að trúa því að frá okkur hafi verið teknar varanlegar heimildir fyrir einn milljarð króna á síðasta ári, loftskeytastöðin lögð niður og um leið störf sem þar voru. Í staðinn fáum við reyndar nokkur fiskistofustörf sem við erum í raun að borga sjálf í gegnum auðlindagjaldið. Staðreyndin er sú að staðan hér væri í heildina mun betri ef við hefðum fengið að vera í friði til að bjarga okkur sjálf og verið laus við þessar endurteknu náttúruhamfarir af mannavöldum.

Bergur sagði að þetta hefði ekki aðeins áhrif á sjávarútveginn, þetta snerti alla þætti samfélagsins í Vestmannaeyjum. „Þetta kemur niður á öllu bæjarfélaginu, sjómönnum og öðru launafólki, þjónustu og verslun og líka bæjarsjóði því útsvarstekjur verða 5% til 7% lægri nú en í fyrra. Munar um minna fyrir bæjarfélag sem okkar. Ég veit ekki hvar við værum stödd ef við hefðum ekki þessi öflugu sjávarútvegsfyrirtæki sem er stjórnað af bæði djörfung og dug. Bæjaryfirvöld munu standa við bakið á þeim og þau við bakið á okkur því við erum samfélag sem mun ekki láta kveða sig í kútinn.““

Engu að síður bendir bæjarstjórinn í Vestmannaeyjum á að sú gengisþróun sem nú er geti orðið þessu bæjarfélagi afar, afar þung í skauti. Hann bendir á að álverksmiðjurnar og álbræðslurnar virðist njóta sérkjara, bæði hvað varðar raforkuverð, grunnverð, og síðan að það skuli vera tengt álverðinu, en sjávarútvegurinn verði að taka þetta á sig allt saman. Frú forseti. Þetta er því mjög alvarlegt mál.

Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum tekið á þessum málum af mikilli alvöru. Við höfum ítrekað sent frá okkur ályktanir um að nú verði sett stopp á stóriðjuframkvæmdir í bili og atvinnulífinu gefin tök á að jafna sig. Ég leyfi mér að minna á ályktun sem þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sendi frá sér 18. maí 2005 þegar veruleg ruðningsáhrif þessarar stóriðjustefnu voru að koma fram, þegar verið var að loka fyrirtækjum á Vestfjörðum, fyrir austan og á Norðurlandi vegna hás gengis krónunnar. Þá sendi þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs frá sér yfirlýsingu sem stjórnvöld hefðu betur tekið til greina.

Yfirskriftin er: „Öllum frekari stóriðjuskuldbindingum frestað fram yfir næstu alþingiskosningar.“ Þar leggjum við til að ákvörðun um að undirbúa frekari stóriðjuframkvæmdir en þá voru í gangi verði frestað, með leyfi forseta:

„Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs varar mjög alvarlega við því að áfram verði haldið á braut óheftrar stóriðju í landinu. Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra fullyrðir í fjölmiðlum að tekið verði jákvætt í beiðni Alcoa um að reisa álver á Norðurlandi þegar framkvæmdum lýkur fyrir austan. Undirrituð hefur verið yfirlýsing um undirbúning álvers í Helguvík auk þess sem Alcan hefur í hyggju að stækka enn álverið í Straumsvík. Hömlulaus útþensla stóriðju blasir því við og er kynt undir þessari þróun af hálfu ríkisstjórnarinnar. Verði framhald á stóriðjuframkvæmdum eins og nú er stefnt að munu ruðningsáhrifin gagnvart öðru atvinnulífi verða enn alvarlegri en þegar er orðið. Þingflokkur VG telur löngu tímabært að staldra við og spyrja grundvallarspurninga. Eru Íslendingar tilbúnir að færa ótakmarkaðar fórnir fyrir frekari uppbyggingu stóriðju í landinu? Ætla landsmenn að fórna enn fleiri náttúruperlum fyrir orkusölu til mengandi þungaiðnaðar? Hvar ætla landsmenn að fá orku fyrir vaxandi orkuþörf íslenskra heimila og almenns atvinnulífs á komandi árum? Hvað með vetnisvæðingu Íslands þegar búið verður að binda orku í samningum til áratuga við erlend stóriðjufyrirtæki? Er ekki eftirsóknarverðara að byggja íslenskt atvinnulíf upp á fjölbreytni í stað einsleitrar stóriðju með stórfelldum neikvæðum áhrifum á annað atvinnulíf eins og dæmin sanna? Eru Íslendingar tilbúnir að afhenda orkuauðlindir sínar áfram á útsöluverði? Vinstri hreyfingin – grænt framboð leggur til öflugan valkost í atvinnumálum þjóðarinnar, sem byggir á hugviti og þekkingu, þar sem sjálfbær þróun er höfð að leiðarljósi. Þingflokkur VG leggur til að öllum viðræðum vegna frekari stóriðjuframkvæmda verði frestað fram yfir næstu alþingiskosningar svo að þjóðinni gefist færi á almennri umræðu áður en frekari óafturkræf skref yrðu tekin.“

Þessa yfirlýsingu sendum við frá okkur í maí 2005 vegna þeirrar umræðu sem þá var. Sem dæmi um það hve lítil tengsl ríkisstjórnin hefur við íslenskt atvinnulíf, íslenskt samfélag, hefur hún haldið áfram á þeirri braut sem við þarna vörum við. Farið var í að þrýsta sveitarfélögunum á Norðurlandi og Alcoa og iðnaðarráðuneytinu saman til að finna val á stað fyrir álver á Norðurlandi. Ég er viss um að sveitarfélögin hefðu heldur viljað að þeim fjármunum sem ætlaðir eru í þá undirbúningsvinnu, þeim fjármunum sem ráðherra vill fá nú heimild til að ráðstafa eða binda í rannsóknum og virkjunarkostum í Skjálfandafljóti eða jökulvötnunum í Skagafirði yrði varið í annað. Ég er viss um að ef fólkið stæði frammi fyrir því vali mundi það velja að fá þessa peninga til að byggja upp annað atvinnulíf en að byggja upp stórvirkjanir fyrir álver. En þessi valkostur hefur aldrei verið í boði, samanber þvingunarráðstafanirnar gagnvart Austfirðingum sem ég greindi frá og vitnaði til — og komu svo rækilega fram í viðtali sem var tekið við ungan mann sem bjó fyrir austan á þessum tíma.

Það var ekki gefið neitt val. Það mætti halda að álverksmiðjurnar séu komnar með ríkisstjórnina í einhverja heljargreip, að ríkisstjórnin og einstakir ráðherrar geti ekki hugsað heila hugsun vegna þess að hinir erlendu álrisar séu komnir með slíkt kverkatak á ráðherra þessarar ríkisstjórnar að það eina sem komist að í þeirra hugskoti sé að þeir verði að beygja sig undir kröfur álrisanna.

Hvað um það, frú forseti. Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur ítrekað lagt til að þessu verði frestað.

Við fluttum, frú forseti, tillögu til þingsályktunar um aðgerðir til að endurheimta efnahagslegan stöðugleika, sem einmitt var talið svo brýnt vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar í stóriðjumálum, efnahagskerfið væri að fara yfir um vegna þess, eins og ég hef verið að lýsa í ályktunum. Við lögðum þá þingsályktunartillögu fram sem ég mun fara yfir, þær efnahagslegu forsendur sem þar eru. Áður en ég kem að því væri kannski rétt að rifja upp leiðara Morgunblaðsins. Það er nefnilega svo að áður hafa birst skynsamlegir leiðarar í Morgunblaðinu einmitt um stóriðjumálin og höfum við gjarnan viljað að yrði meira hlýtt á það blað en sennilega er það þannig að ríkisstjórnin í sínum fílabeinsturni les það ekki. Sunnudaginn 20. mars 2005 birtist ritstjórnargrein með yfirskriftinni Stóriðjustefna á tímamótum. Þar segir, með leyfi forseta:

„Morgunblaðið sagði frá því í gær að fimm alþjóðleg álfyrirtæki sýndu því áhuga að reisa álver á Norðurlandi. Jafnframt var frá því greint að nú væru uppi hugmyndir um að reisa ekki eitt stórt álver með 350–400 þúsund tonna framleiðslugetu, eins og hingað til hefur verið rætt, heldur tvö smærri með 150–200 þúsund tonna framleiðslugetu. Til skoðunar er að reisa annars vegar álver í Skagafirði eða á Skagaströnd og hins vegar við Húsavík.“

Hugsið ykkur hvaða umhverfi fólkið á þessum svæðum má búast við út frá geðþóttaákvörðunum eða geðþóttaumræðutillögum ríkisstjórnarinnar og frá hæstv. iðnaðarráðherra í þessum málum, að halda þessum samfélögum stöðugt í einhverri gíslingu. Og áfram segir í leiðaranum, með leyfi forseta:

„Fram kom í frétt Morgunblaðsins að rætt væri um að afla orku til álvers í Þingeyjarsýslum t.d. með virkjun Skjálfandafljóts og með gufuafli frá Þeistareykjum, Kröflu og Bjarnarflagi. Í Skagafirði væri hins vegar rætt um Skatastaða- og Villinganesvirkjanir, en þar vildu heimamenn nýta orkuna í héraði og væru andvígir því að senda hana austur yfir Tröllaskaga.

Á iðnþingi Samtaka iðnaðarins í fyrradag vék Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, að því hversu vel hefði gengið að laða stóriðjufyrirtæki til Íslands. Hún sagði m.a. í ræðu sinni: „Við Íslendingar stöndum á tímamótum í þróun orkufreks iðnaðar. Eftir áralangan aðdraganda og þrotlausa vinnu við að finna leiðir til að nýta orkulindir landsins til atvinnuuppbyggingar er nú svo komið að færri komast að en vilja. Umfangsmikil markaðsvinna á síðasta áratug við að vekja athygli erlendra fjárfesta á ágæti landsins til þess að reisa hér orkufrekan iðnað hefur skilað sér á undraverðan hátt, þannig að nú er talað um Ísland sem best varðveitta leyndarmálið í Evrópu meðal álframleiðenda og er þá vitnað til þess hve aðstaða hér á landi er góð fyrir þess háttar framleiðslu.““ — Segir hæstv. iðnaðarráðherra sem vitnað er til í leiðara Morgunblaðsins.

Já, frú forseti, það er nú svo. Best varðveitta leyndarmálið í Evrópu er hér. En staðreyndin er sú að álfyrirtækin eru að loka hverju álverinu á fætur öðru í Evrópu þannig að innan skamms má búast við því að þau verði sárafá eða ekkert, engin álver í Evrópu vegna þess að verið er að loka þeim. Og af hvaða ástæðum? Jú, m.a. af umhverfisástæðum. Einnig hefur markaðurinn fyrir ál dregist saman og nærvera markaðarins hefur gert hagkvæmni þeirra lélegri en jafnframt verða þau stöðugt óvinsælli í umhverfi þessara ríkja. Þá er Ísland einmitt best varðveitta leyndarmál og þar er iðnaðarráðherra sem á það sem sinn æðsta draum að álvæða Ísland. Áfram segir í leiðaranum:

„Ráðherra benti á að nú væru framleidd hér 268 þúsund tonn af áli í tveimur álverum. Fyrir lok þessa áratugar mundi sú framleiðsla þrefaldast og verða 760 þúsund tonn á ári. „Þetta er stórt stökk á stuttum tíma en verður að skoðast í ljósi þeirrar stefnu sem mörkuð var á sjötta áratugnum …“ — Sjötta áratugnum, já, það er svo langt síðan. Þessi stefna sem mörkuð var á sjötta áratugnum, einhver mundi nú segja að menn væru staddir í fortíðinni, að hér væri enn verið að framfylgja atvinnustefnu sem var mörkuð á sjötta áratugnum. Er það ekki rétt í lok Stalíntímans í Rússlandi? Stalín var einmitt með þá atvinnuuppbyggingu að vera með eina verksmiðju í hverju héraði, var það ekki? Stóra verksmiðju hér, aðra þar til að framleiða karporatora í bíla. Ein stór verksmiðja í hverju héraði, þetta var stalínísk atvinnuuppbygging sem framsóknarmenn virðast hafa aðhyllst. Hér er vitnað til að stefnan sem nú er verið að keyra hafi verið mörkuð á sjötta áratugnum.

Og áfram segir í leiðaranum, með leyfi forseta, um þá stefnu ríkisstjórnarinnar í atvinnumálum sem mörkuð var á sjötta áratugnum, stóriðjustefna sem við erum enn þá að súpa seyðið af: „… og var á stefnuskrá allra ríkisstjórna sem setið hafa síðan.“ — Ekki er ég viss um það. — „Það hefur tekið heil 50 ár að ná þessum árangri og endurspeglast hann hvað best í því að nú þegar hafa sex heimsþekkt álfyrirtæki sýnt áhuga á að fjárfesta í nýjum álverum á Íslandi á næstu árum,“ sagði iðnaðarráðherra.“ Og áfram segir í leiðaranum:

„Í þessum málum er að ýmsu að hyggja. Það er rétt hjá Valgerði Sverrisdóttur að við stöndum á tímamótum í þróun orkufreks iðnaðar.

Fullyrða má að tími stórvirkjana á hálendinu sé liðinn. Kárahnjúkavirkjun er væntanlega síðasta verkefnið af því tagi. Vaxandi andstaða er við að lengra verði gengið á Þjórsársvæðinu, eins og umræður þessa dagana um Norðlingaölduveitu og verndun Þjórsárvera sýna.

Hins vegar má hugsa sér að afla orku til stóriðju með smærri virkjunum og þá e.t.v. ekki síst jarðvarmavirkjunum, sem oft hafa minni umhverfisáhrif en vatnsaflsvirkjanirnar. Smávirkjanir geta hins vegar verið jafnumdeildar út frá umhverfissjónarmiðum og stórvirkjanir. Það er t.d. engin sátt um virkjunarkosti í Skagafirði, m.a. vegna áhrifa á náttúruna og ferðaþjónustu, sem hefur verið að byggjast upp þar í héraðinu.

Stóriðjustefnan, sem mótuð var hér á landi á sínum tíma, hafði það ekki síst að markmiði að nýta orkuna, sem býr í fallvötnunum, og skjóta fleiri stoðum undir atvinnulíf landsins. Nú er svo komið að frekari nýting vatnsorkunnar er orðin verulegum vandkvæðum bundin. Enn fremur má spyrja hvort brátt fari að verða komið nóg af álverum — hvort frekari fjölgun þeirra geti orðið til að gera íslenskt atvinnulíf einhæfara, fremur en fjölbreyttara, og að tekin sé óþörf áhætta með því að hafa þannig mörg egg í sömu körfu.“

Já. Þessi varnaðarorð í ritstjórnargrein Morgunblaðsins finnst mér að hæstv. iðnaðarráðherra hefði átt að lesa áður en gefnar voru yfirlýsingar um frekari álversframkvæmdir. Þarna bendir ritstjórn Morgunblaðsins á og tekur undir stefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, áherslur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um að staldra við. Er ekki komið nóg af álverum? segir í forustugrein Morgunblaðsins. Er ekki komið nóg af álverum? Og ritstjórinn spyr sig hvort frekari fjölgun þeirra geti orðið til þess að gera íslenskt atvinnulíf einhæfara, fremur en fjölbreyttara og tekin sé óþörf áhætta með því að hafa mörg egg í sömu körfu. Þetta er nákvæmlega það sem við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum sagt.

Sú stefna sem hæstv. ríkisstjórn hefur markað og er nú að kynna og ítreka um enn aukna álframleiðslu jaðrar við að vera aðför að íslensku samfélagi, aðför að íslensku atvinnulífi, að við verðum hér ein álbræðsla með einhæfum störfum. Enda segir áfram í forustugrein Morgunblaðsins, með leyfi forseta:

„Allt þetta þarf að vega og meta áður en lengra er gengið í uppbyggingu stóriðju. Það þarf líka að meta áhrif stóriðju á aðrar atvinnugreinar, til dæmis ferðaþjónustu. Og við þurfum að velta fyrir okkur hvort möguleikarnir liggi fremur í hátækniframleiðslu og upplýsingatækni en í verksmiðjuframleiðslu, en þetta var til umræðu á iðnþingi. Þar kom fram það markmið Samtaka upplýsingatæknifyrirtækja að upplýsingatækni verði meginstoð í verðmætasköpun og gjaldeyristekjum Íslands eftir aðeins fimm ár. Upplýsingatæknigeirinn þarf auðvitað að sýna að hann geti staðið við stóru orðin — minna varð úr miklum áformum hans í lok síðustu aldar en til stóð. En það má líka velta því fyrir sér hvaða möguleika sú atvinnugrein ætti ef hún nyti sömu fyrirgreiðslu og stuðnings stjórnvalda og stóriðjan.“

Frú forseti. Þetta var sagt 20. mars 2005. Þessi ritstjórnargrein Morgunblaðsins er alveg eins og töluð úr stefnuskrá Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Og ég velti fyrir mér að á morgun, eða er það ekki á morgun sem verið er að boða einhverja álglýjuráðstefnu, að því er mér hefur virst, um dásemd álbræðslu? Ég velti fyrir mér hvernig Samtök atvinnulífsins ætla að fara að því ef sú verður raunin að á þeirri ráðstefnu verði sú framleiðsla dásömuð enn meir. Mér finnst það sem kemur fram í þessari forustugrein Morgunblaðsins frá 20. mars 2005 vera alveg hárrétt. Ég vil spyrja hæstv. iðnaðarráðherra hvort hún hafi lesið þá forustugrein þar sem ritstjóri spyr hvort brátt verði ekki komið nóg af álverum, „hvort frekari fjölgun þeirra geti orðið til að gera íslenskt atvinnulíf einhæfara, fremur en fjölbreyttara, og að tekin sé óþörf áhætta með því að hafa þannig mörg egg í sömu körfu.“ Allt þetta þarf að vega og meta áður en lengra er gengið í uppbyggingu á stóriðju.

Þá þarf líka að meta áhrif stóriðju á aðrar atvinnugreinar, t.d. ferðaþjónustu. Ég velti því fyrir mér þegar rætt verður nú um álglýjuna áfram, ef framhald verður á þeirri umræðu í ljósi yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um aukna álframleiðslu, ég velti því fyrir mér, hvað ætlar ferðaþjónustan að segja? Ætlar hún að sitja þegjandi undir því eða er hún orðin svo veik að hún getur ekki risið neitt upp til varnar ef hér á að fjölga álverksmiðjum og álbræðslum, gengisstaðan verður óbreytt og ruðningsáhrifin og stóriðjustefnan eiga að halda áfram? En frumvarpið sem ríkisstjórnin og iðnaðarráðherra er að þrælast á að koma í gegn, um heimildir til aukinna rannsóknarleyfa í virkjunum vatnsfalla, miðar að því. Ég minnist þess þegar hæstv. ráðherra mælti fyrir frumvarpinu sagði hún einmitt að eins og staðan væri nú tregðuðust orkufyrirtækin við að fara út í frekari rannsóknir til vatnsaflsvirkjana vegna þess að rýmri lagaheimildir vantaði og þetta væri farið að standa frekari þróun eða frekari vinnu til orkuöflunar til stóriðju fyrir þrifum. Þess vegna þyrfti að kýla þetta frumvarp áfram. Þetta kom efnislega fram, mig minnir, frú forseti, hjá ráðherranum við umræðuna í haust þegar frumvarpið var lagt fram. Það fer því ekkert á milli mála hvað vakir fyrir ráðherranum, fulltrúa ríkisstjórnarinnar, í þessum efnum og er ljóst að er að stefna atvinnulífi landsmanna í miklar ógöngur verði framhald á.

Frú forseti. Ég ætla aðeins að fara enn betur yfir marga af þeim efnahagslegu þáttum sem hafa áhrif á það hvað er að gerast. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum lagt fram tillögu til þingsályktunar einmitt til að endurheimta efnahagslegan stöðugleika þar sem seðlabankastjóri kallaði ógnarjafnvægi, sú staða sem uppi væri. Ég mun til að byrja með, frú forseti, skoða fylgiskjöl við þessa ágætu tillögu, tillögu til þingsályktunar um aðgerðir til að endurheimta efnahagslegan stöðugleika. Þar eru rakin ýmis atriði í þessu máli en þar leggjum við áherslu á að gefin verði yfirlýsing um að ekki verði ráðist í fleiri álver.

Og ég ætla að grípa af handahófi niður í ýmsar umsagnir sem er stuðst við. Hér er t.d. úr viðtali við Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóra Landssambands íslenskra útvegsmanna, sem Sigurður Már Jónsson tekur og er í fylgiskjali með þingsályktunartillögunni. Viðtalið birtist í Viðskiptablaðinu 10. júní 2005 og ber yfirskriftina: „Þýðir ekki að reisa fleiri álver án mótvægisaðgerða.“

Í viðtalinu hefur verið farið yfir almenn atriði sem lúta að veiðistjórnun, stöðu kvótamála og stöðu fiskstofnanna og fleiri þætti er lúta að fiskveiðunum en þá víkur Friðrik J. Arngrímsson sér að rekstrarumhverfinu og segir, með leyfi forseta:

„En frá skýrslunni yfir í hið almenna rekstrarumhverfi sjávarútvegsins. Til skamms tíma höfðum við mikið af sjávarútvegsfyrirtækjum í Kauphöllinni en nú hafa öll nema tvö horfið þaðan. Við sjáum að rekstur útgerðarinnar er góður þrátt fyrir miklar breytingar og erfiða ytri þætti, svo sem stöðu gengismála og stóriðjuframkvæmdir. „Verðum við ekki að segja að útgerðin sé vel á vegi stödd?“ spyr blaðamaðurinn og Friðrik J. Arngrímsson svarar:

„Við sáum fyrir okkur að geta farið í gegnum þetta tímabil“ — sem var búið að tala um að stæði bara til 2007 — „stóriðjuframkvæmda með gengisvísitöluna 120 og hefðum líklega lifað það af. Núverandi gengi gerir stöðu sjávarútvegsins hins vegar mjög erfiða. Við sjáum að það er þó nokkuð góður hagnaður í sumum greinum enda verða menn að átta sig á því að sjávarútvegurinn er ekki eitt.“ Friðrik sagði að með ákveðnum einföldunum mætti skipta sjávarútveginum í þrennt. Í fyrsta lagi væri það uppsjávarveiðin þar sem afkoman væri tiltölulega góð, ekki síst á fyrri hluta ársins þegar loðnuveiðar hefðu átt sér stað. Það hefði áhrif á uppgjör fyrirtækjanna á fyrsta ársfjórðungi. Þarna væri hægt að taka miklar tekjur á skömmum tíma. Síðan væri það þorskurinn sem oftast hefði verið sterkur. Í þriðja lagi eru það síðan aðrar tegundir þar sem hefði yfirleitt verið tap.

„Við höfum auðvitað gagnrýnt að farið sé í stóriðjuframkvæmdir án þess að það sé skipulagt. Þá þannig að það væri hægt að koma þeim fyrir án þess að það hefði þessi áhrif á annan atvinnurekstur. Það er stóra málið því auðvitað verðum við að nýta alla möguleika. Eins og þetta hefur æxlast höfum við ekki séð merki um góða hagstjórn. Og hverju er þetta að skila, um það hefur verið lítil umræða. Ef við töpum út öðrum atvinnurekstri, sem þess vegna gæfi meira, hverju erum við þá bættari? Þar sem þetta eru stjórnvaldsaðgerðir — það eru stjórnvöld sem ákveða að fara í þessar framkvæmdir þá finnst mér að það hafi skort mikið á að menn hafi skoðað áhrif þessara framkvæmda á annað atvinnulíf.“

Friðrik sagðist hugsa með hryllingi til þess ef þetta ástand verður framlengt með tilkomu nýrra álvera.“ Frú forseti. Ég vek athygli á þessum orðum Friðriks J. Arngrímssonar 10. júní árið 2005.

„Menn eru að segja að þessi álver séu að koma af sjálfu sér og stjórnvöld hafi þar lítil áhrif. Ég er nú ekki viss um að það sé rétt. Það er hins vegar á hreinu að það þýðir ekki að reisa fleiri álver hér án þess að grípa til mótvægisaðgerða. Ef við erum að setja út meiri verðmæti en við erum að fá inn er það að sjálfsögðu óskynsamlegt. Menn eru að tala um þetta sem ruðningsáhrif. Ég sé þetta sem markvissar aðgerðir sem fela í sér eignaupptöku!“ — Takið eftir, frú forseti. Þetta segir Friðrik J. Arngrímsson. Þessar aðgerðir, þessar stóriðjuframkvæmdir með þessum hætti fela í sér eignaupptöku. — „Ég velti því fyrir mér hvað er heimilt að ganga langt í þessu þegar ljóst er að þetta eru meðvitaðar og markvissar aðgerðir. Þarna er verið að gera upp eignir fólks og fyrirtækja. Það er fjöldi fyrirtækja, sem menn hafa verið að byggja upp áratugum saman, sem stefna í gjaldþrot. Menn verða að finna lausn á því hvernig sé hægt að koma fyrir þessum miklu framkvæmdum án þess að þessi áhrif verði.“

Frú forseti. Friðrik leggur áherslu á að reynt hafi verið að þrauka í gegnum það tímabil meðan stjórnvöld höfðu ákveðið framkvæmdir við Kárahnjúkavirkjun, Reyðarál og álverksmiðjuna á Reyðarfirði og álverksmiðjuna við Grundartanga færu fram, meðan það gengi yfir. En þá gæfist líka svigrúm. En Friðrik undirstrikar að verði stóriðjuframkvæmdum haldið áfram þá væri spurning hvert málið gæti leitt. Og það er þetta sem við erum að takast á um. Þetta er undirrótin að því frumvarpi sem hér er verið að flytja. Það frumvarp sem styður þessi stóriðjuáform ríkisstjórnarinnar. Áform um byggingu tveggja nýrra álvera og stækkun eins. Að gera okkur að mestu álbræðslu í heiminum og langt umfram í fólksfjölda, 5–6% ef öll álframleiðsla yrði brædd hér. Og ekki síst af því, eins og ég kem hér aftur að seinna í ræðu minni, að þjóðhagslegur ábati álframleiðslunnar er lítill. Auðvitað hafa álverksmiðjurnar staðbundin áhrif þar sem þær eru settar. En á þjóðarbúskapinn í heild eru áhrifin mjög lítil. Menn velta því fyrir sér, eins og ég hef verið að lýsa í tilvitnunum mínum, hvort aðrar greinar sem nú er verið að ryðja út eða er ekki gefið tækifæri til að vaxa hefðu skilað meiri arði og gefið meiri þjóðhagslegan ábata en stóriðjan, t.d. eins og hátækniiðnaðurinn. Ég fer nánar út í það á eftir hverju hinar ýmsu atvinnugreinar skila í þjóðhagslegum ábata nettó til þjóðarinnar. Við heyrum í fréttum og umtölum að talað er um brúttógjaldeyristekjur. Þær vaxi svo og svo mikið með álútflutningnum. Það er til gömul saga um mann sem var að versla með þorskhausa. Hann keypti þorskhausana á krónu og seldi þá aftur á 90 aura. Hann var spurður hvernig hann færi að þessu. Hann sagði: Ég ætla að reyna að græða á umsetningunni. Það er umsetningin sem gefur þetta en gróðinn er að vísu enginn. Og sama er í gangi með áliðnaðinum. Nákvæmlega sama þorskhausaefnahagsstefnan. Að kaupa hausinn á krónu og selja hann á 90 aura og vonast til að græða á umsetningunni.

Ég kem að þessu seinna. Að nettóábati af álútflutningi sem verður eftir í þjóðarbúinu er kannski innan við 30% og þá á að miða við að þeir sem vinna við álbræðslurnar búi á Íslandi og greiði skatta og skyldur og séu fullgildir þátttakendur í íslensku samfélagi. Þá getur það orðið kannski upp undir 30%. 70% af útflutningsverðmætunum sé bara innfluttur hrámálmur og innflutt vara til áliðnaðarins. En ef við færum hins vegar í ferðaþjónustuna, hátæknigeirann, í þær atvinnugreinar þar sem hugvitið er virkjað og hér hefur ákaft verið kallað eftir, þá er við að tala um stærri hlut af útflutningsverðmætunum, 70–80% kannski upp undir 90% í sumum tilfellum, sem verða þá eftir og skila sér inn í þjóðarbúið. Þannig að þjóðhagslegur ábati af hverri einstakri einingu í útflutningi er þar miklu meiri. En þetta fer ég nánar yfir á eftir.

Í tillögu okkar til þingsályktunar um aðgerðir til að bæta efnahagslegan stöðugleika, og ég fer nánar í í einstökum þáttum, vil ég hér vitna til greinar í Viðskiptablaðinu 8. desember 2004 sem ég hef aðeins minnst á. Ég vil fara yfir hana í heild sinni til að undirstrika að öllum aðilum hefði átt að vera ljóst hver áhrif stóriðjustefnunnar væru. Menn hafa kallað eftir að reynt yrði að milda þau áhrif eins og kostur væri meðan hún gengi fyrir. En þegar framkvæmdum sem nú eru í gangi, þ.e. við álverksmiðjuna fyrir austan, Kárahnjúkavirkjun og álverksmiðjuna á Grundartanga, þegar þeim væri lokið þá yrði gefið hlé. Þetta hefur alltaf verið sagt við atvinnugreinarnar og þær beðnar um að sýna biðlund. Þess vegna er verið að svíkjast aftan að greinunum með óforskömmuðum hætti af hálfu hæstv. iðnaðarráðherra og ríkisstjórnarinnar með því að boða nú auknar stóriðjuframkvæmdir þvert ofan í yfirlýsingar og beiðni til þessara atvinnugreina að þreyja af þær framkvæmdir sem nú eru í gangi. Það er verið að koma aftan að þeim með ófyrirleitnum hætti, að mínu mati, frú forseti, með því að boða nýjar álversframkvæmdir, nýja framlengingu á því ástandi sem nú er, háu gengi og ruðningsáhrifum. Það er verið að koma aftan að þeim yfirlýsingum sem hafa verið gefnar og vilyrðum. Hvað með t.d. rökin fyrir því að vegaframkvæmdum var frestað? Man hæstv. forseti eftir því? Rökin þegar vegaáætlun var skorin niður um 2 milljarða á ári á þessu tímabili meðan stóriðjuframkvæmdirnar dundu yfir. Það var afar brýnt að skera niður vegaframkvæmdir, vegaframkvæmdir á Vestfjörðum, á Norðausturlandi og á Norðurlandi, til að draga úr þenslu meðan stóriðjuframkvæmdirnar stæðu yfir.

En hvað ætli að landsmenn segi? Hvað ætlar samgönguráðherra að segja þegar hann stendur frammi fyrir því að tveimur árum liðnum, þá er bara framhald á þessu. Þannig að ekki verði neitt um að ræða að spýta í í vegaframkvæmdum. Það verður að fresta þeim um önnur fjögur ár. Hvað ætla menn að kalla það? Ég mundi kalla það svik. En þetta er það sem landsmenn standa frammi fyrir. Þetta er ekkert að gerast akkúrat núna. Ég leyfi mér að vitna til greinar eða umfjöllunar sem birtist í Viðskiptablaðinu 8. desember 2004, þar sem fjallað er um ofurgengi krónunnar og áhyggjur útflutningsgreina. Birgir Ísleifur Gunnarsson seðlabankastjóri segist búast við háu gengi næstu tvö árin, með leyfi forseta:

„Staða íslensku krónunnar hefur sjaldan verið sterkari en um þessar mundir og styrktist enn við þær aðgerðir Seðlabanka Íslands á fimmtudag í síðustu viku“ — þetta er fyrir um ári síðan — „að hækka stýrivexti um heilt prósent, eða úr 7,25% í 8,25%. … Á miðvikudag var miðgengi dollars t.d. skráð á 64 krónur, en fór í 63,39 krónur við lokun á föstudag.“

En síðan er þetta rakið aftur og ég hef hér áður vitnað í einstaka þætti þess. En ég vil leyfa mér áfram að vitna í Birgi Ísleif Gunnarsson, seðlabankastjóra, sem sagði í samtali við Viðskiptablaðið:

„… að hátt gengi væri í samræmi við það sem við mátti búast … þegar svona gríðarlegar framkvæmdir koma inn í hagkerfið á svona stuttum tíma.“ Þá segir Birgir Ísleifur: „„Þið eruð tilbúnir að hækka stýrivexti enn frekar ef ekkert lát verður á, verður spurt. Já okkar verkefni er að halda verðbólgunni sem næst 2,5% og við erum auðvitað staðráðnir í að gera það sem þeim tækjum sem við höfum.“ — Það er okkar hlutverk. — Birgir Ísleifur segir vextina þó eina og sér ekki valda háu gengi, það sé fyrst og fremst mikið innstreymi fjármagns. Gegn þessu dugi ekkert annað en mikið aðhald í opinberum fjármálum.““

Hann lýsir því að Seðlabankinn sé tilneyddur til að gera þetta til að bregðast við þeirri þenslu og innstreymi fjármagns sem tengist stóriðjuframkvæmdunum.

Hörður Arnarson, forstjóri Marels, segir í sama viðtali:

„… að hátt gengi krónunnar hafi sömu áhrif á hans fyrirtæki eins og öll önnur útflutningsfyrirtæki. „Mér finnst ótrúlegt skilningsleysi vera á þörfum útflutningsgreina, ef menn ætla að sætta sig það“ sagði Hörður Arnarson og vísar til orða seðlabankastjóra um að búast mætti við langvarandi háu gengi krónunnar.

„Tekjur minnka og þetta er mjög slæm staða. Þetta er sérstaklega slæmt varðandi sölu inn á Bandaríkin vegna þess hversu veikur dollarinn er. Þá er líka ljóst að staðan er mjög óþægileg fyrir allar útflutningsgreinar líka gagnvart öðrum gjaldmiðlum þar sem krónan er mjög sterk.“

„Er hætta að á fyrirtæki flykkist úr landi í auknu mæli?“ Er Hörður Arnarson forstjóri Marels spurður og svarar:

„Fyrirtæki hafa verið að fara úr landi undanfarin misseri. Þar má nefna sem dæmi, Hampiðjuna, Plastprent og 66°Norður. Þetta hamlar uppbyggingu hér.““

„Hvað með ykkur?“ — er þá spurt.

„Við erum eingöngu með þriðjung starfsemi okkar á Íslandi og það er spurning hvað gerist. Ég tel engar efnahagslegar forsendur fyrir því að krónan haldist svona sterk. Ef hún gerir það verða menn bara að skoða hvaða leiðir menn hafa til að minnka íslenska kostnaðinn.“

„Varla er framför útflutningsfyrirtækja ótakmörkuð?“ — er þá Hörður spurður.

„Nei, Það er það ekki en það er þó mjög mismunandi eftir stöðu fyrirtækja. Þá hefur kostnaður hækkað hér innan lands meira en erlendis.“

Frú forseti, ýmsir aðilar hafa varað við þeirri stefnu sem hefur verið keyrð hér áfram, að útflutningsgreinarnar þoli hana ekki. Ég get rakið mörg önnur dæmi um að fyrirtæki hafa orðið að flytja úr landi vegna þeirrar stöðu sem hér er.

Ég ætla aðeins að fara í önnur atriði núna í bili sem hafa hér áhrif. Eins og ég sagði er þetta ofurgengi íslensku krónunnar með þeim hætti að það er alveg með ólíkindum og varúðarorð íslenskra aðila hafa hvað eftir annað komið fram.

Í öðru fylgiskjali með þessu frumvarpi okkar er grein eftir Gústaf Steingrímsson úr Viðskiptablaðinu 9. febrúar 2005. Þar er fjallað um hve sterk króna hefur vegið gífurlega að mörgum fyrirtækjum í útflutnings- og samkeppnisgreinum og eru mörg fyrirtæki rekin með tapi. Þetta kallar á fleiri gjaldþrot hjá útflutningsfyrirtækjunum eins og segir í fyrirsögn greinarinnar.

Þar segir, með leyfi forseta:

„Gengi krónunnar er gríðarlega sterkt um þessar mundir og hefur mikil styrking hennar að undanförnu þrengt mjög að flestum útflutnings- og samkeppnisgreinum sem reka sig margar hverjar með tapi nú um stundir. Krónan hefur ekki verið jafnsterk síðan fyrri hluta ársins 2000 og hefur hún svo styrkst síðan og þarf að leita mörg ár aftur í tímann til að finna viðlíka styrk á raungengisgenginu eins og það er um þessar mundir.

Landsbankinn sendi frá sér skýrslu í síðustu viku þar sem fram kemur að bankinn telur margt benda til þess að jafnvægisraungengi hafi hliðrast upp á við vegna breytinga á efnahagslífinu á Íslandi og að sú hliðrun muni kalla á sársaukafulla aðlögun frá mörgum útflutnings- og samkeppnisfyrirtækjum næstu árin. Björn Rúnar Guðmundsson hjá Greiningardeild bankanna sagði í kjölfarið í samtali við Viðskiptablaðið að sársaukinn væri mestur hjá þeim fyrirtækjum sem eru með minnstu framlegðina og þola þannig minnstu tekjuskerðinguna. Það getur hugsanlega verið fiskvinnsla eða greinar sem bera mikinn kostnað í hlutfalli við tekjur. Þetta geta einnig verið ýmis fyrirtæki í ferðaþjónustu svo dæmi séu tekin.“

Frú forseti. Þarna er varað við þessu. Áfram segir í greininni að gjaldþrot í fiskvinnslu séu yfirvofandi, með leyfi forseta:

„Fiskvinnslan hefur farið illa út úr þeirri gengisstyrkingu sem orðið hefur. Mikið hefur þrengt að greininni upp á síðkastið og eru nýjustu dæmin uppsagnir starfsmanna í fiskvinnslu í Þorlákshöfn og uppsagnir hjá Samherja fyrir austan. Margt bendir til þess að þetta sé aðeins forsmekkurinn af því sem koma skal. „Haldi þessi sterka króna áfram svona eins og útlit er fyrir, a.m.k. til skemmri tíma, munu menn draga frekar saman í starfseminni, en þau sem hafa ekki kost á því munu hreinlega leggja upp laupana. Þetta er það mikið framlegðarfall og mörg fyrirtæki eru að keyra það langt undir núllinu að þau þola ekki sterka krónu nema í stuttan tíma í viðbót. Það verði því framhald á þeim uppsögnum sem þegar hafa orðið,“ segir Arnar Sigmundsson formaður Samtaka fiskvinnslustöðva.

Arnar segir fyrirtæki bera sig langflest mjög illa. „Auðvitað er þetta eitthvað misjafnt eftir vinnslugreinum. Höggið kemur út af fyrir sig jafnt á alla en menn eru misjafnlega sterkir fyrir. Afleiðingarnar hafa verið að birtast í því að menn hafa verið að draga saman sína starfsemi. Hækkanir í erlendri mynt á síðasta ári náðu alls ekki til allra á síðasta ári þannig að sumar greinar og einstök fyrirtæki innan þeirra standa afar illa“.

Á sama tíma og krónan er svona sterk hafa kostnaðarliðir í fiskvinnslu verið að hækka. „Við sömdum fyrir ári síðan um að launakostnaðurinn mundi hækka núna um 4%. Ég hefði nú ekki boðið í það að ljúka samningum á þeim nótum ef við hefðum séð fyrir að gengið mundi styrkjast svona mikið.““

Ég rek þetta hér, frú forseti, vegna þess að allt er þetta fyrirséð, aðdragandinn að því sem við nú stöndum frammi fyrir, á það er bent að stefna ríkisstjórnarinnar í stóriðjumálum er að ganga af mörgum atvinnugreinum dauðum og gera öðrum erfitt fyrir. Þetta er sagt fyrir ári og síðan þá hefur staðan einungis versnað.

Áfram segir í þessari grein, með leyfi forseta:

„Það sem er kannski einna bagalegast við styrkingu krónunnar að undanförnu er að svo virðist sem enginn hafi séð fyrir að krónan mundi styrkjast svona mikið. Flestar spár gengu út á að gengi krónunnar mundi hugsanlega vera hvað sterkast í kringum 120 á þessu ári.“

Það er árið 2005, eins og ég hef áður bent á, að spár fjármálaráðuneytisins gengu út á það að gengisvísitalan fyrir árið 2004 væri um 130 og á árinu 2005 yrði hún yfir 120, en staðreyndin er allt önnur. Það hefur verið 20–30% munur á ári á milli þess sem lagt er upp af hálfu stjórnvalda við gerð efnahagsáætlunar og við gerð fjárlaga og þess sem raunin hefur síðan orðið. Hvernig eiga fyrirtæki að skipuleggja starfsemi sína þegar gengisvísitalan breytist svo? Það er hörð krafa á fyrirtækjunum um hagræðingu í öllu en að öll önnur starfsemi í landinu, allir aðrir atvinnuvegir í landinu, eigi að taka á sig ruðningsáhrif stóriðjustefnunnar, það er að mínu viti glæpur gagnvart íslensku atvinnulífi og íslensku samfélagi. Allt þetta var þó fyrirséð.

Ég er að rifja þetta upp af því að það eina sem hefur gerst er að ástandið hefur versnað hvað þetta varðar, spárnar hafa eflaust gefið mörgum fyrirtækjum falska öryggiskennd, þessar spár um gengi þar sem opinberir aðilar, íslensk stjórnvöld, hafa lagt upp með og spáð miklu hagstæðara gengi en raunin hefur síðan orðið.

Þetta segir hér, með leyfi forseta:

„Spárnar hafa eflaust gefið mörgum fyrirtækjum falska öryggiskennd og leitt til þess að einhver þeirra hafa látið það vera að verja sig gagnvart styrkingu og súpa þau nú seyðið af þeirri ákvörðun. Arnar sagði þessa styrkingu krónunnar að undanförnu hafa komið óþægilega á óvart. „Vísitalan nú“ — þegar þetta var sagt 9. febrúar 2005 — „er í kringum 112 stig,“ — núna er hún 104 stig — „en flestir sérfræðingar höfðu verið að gera ráð fyrir því að hún yrði yfir 120 stigum á þessu ári. Framlegð í öllum greinum fiskvinnslu hefur snarlækkað og hefur komið einna harðast niður á henni sé tekið mið af öðrum útflutnings- og samkeppnisgreinum,“ sagði Arnar.

Varðandi hugsanlegar hagræðingaraðgerðir sagði Arnar að fiskvinnslan hefði verið að hagræða síðustu 10 til 15 árin. „Fyrst var farið í sameiningu fyrirtækja en við sjáum að aukin sérhæfing í vinnslu hefur hjálpað fyrirtækjunum. Við sjáum að fyrirtækjum sem einbeita sér að þorskvinnslu hefur farið fjölgandi sem þýðir að menn eru að ná betri árangri þar.“ Arnar bætti þó við að með aukinni hagræðingu hefði möguleikum til hagræðingar farið fækkandi.“

Endalaust er náttúrlega ekki hægt að hagræða til að standa af sér svo óheppileg viðskiptaskilyrði.

Arnar segir síðan, með leyfi forseta:

„Við trúum ekki öðru en að krónan taki að veikjast umtalsvert á næstu missirum. Það verður einfaldlega farið að kreppa það mikið að og ekki bara í sjávarútvegsfyrirtækjum heldur öðrum útflutnings- og samkeppnisgreinum að þetta ástand getur ekki varað nema nokkra mánuði í viðbót.“

Þetta segir Arnar Sigmundsson í viðtali við Viðskiptablaðið fyrir ári síðan, þann 9. febrúar 2005.

Í samtali við Ernu Hauksdóttur hjá Samtökum ferðaþjónustunnar í sama blaði kom fram að staða ferðaþjónustunnar væri einnig mjög erfið. Þar undirstrikar hún að við þetta gengisstig verði Ísland mun dýrara ferðamannaland en áður. Þau fyrirtæki sem eru jú með skuldir sínar í erlendum gjaldeyri fara náttúrlega betur út úr slíkri þróun en þau félög sem eru með allar sínar skuldir í krónum. „Stærri og oft og tíðum fjárhagslega sterkari fyrirtæki eiga auðveldara með að mæta svona sveiflum í gengi,“ sagði Erna. Aðspurð hvort ferðaþjónustan væri rekin með tapi við svona aðstæður sagði Erna mjög mismunandi hvernig fyrirtæki gengju, ferðaþjónustan væri mjög fjölbreytt atvinnugrein.

Engu að síður undirstrikar hún þá erfiðu stöðu sem ferðaþjónustan sé í. Þetta er fyrir ári, frú forseti. Síðan þá hefur ástandið enn versnað. Mér er spurn: Erum við reiðubúin að fórna íslenskri ferðaþjónustu, erum við reiðubúin að fórna íslenskri hátækni á altari stóriðjunnar eins og verið er að fara fram á í frumvarpinu, að iðnaðarráðherra fái auknar heimildir til þess að veita rannsóknarleyfi til að afla orku fyrir stóriðju? Hæstv. ráðherra sagði það hér fyrr í vetur, þegar þetta var til umfjöllunar, að tilgangur þessa frumvarps væri einmitt að opna á frekari orkuvinnslu, virkjanir, m.a. í vatnsföllum, og bar sig illa undan því að orkufyrirtækin héldu að sér höndum við að fara út í rannsóknir á vatnasvæðum til orkuvinnslu og því þyrfti að gefa þeim þann hvata að þau hefðu þar einhvern forgang, og af þeim ástæðum er þetta frumvarp hjá hæstv. ráðherra flutt.

Frú forseti. Kannski ættum við að fara aðeins betur ofan í þá efnahagslegu þætti sem hér er um að tefla. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum flutt tillögu til þingsályktunar um endurheimt á efnahagslegum stöðugleika. Það væri fróðlegt að vita hvort forseti telji að hæstv. iðnaðarráðherra hafi lesið þá þingsályktunartillögu þar sem rætt er um ástandið. Í tillögunni, þar sem við tökum mjög ábyrgt á hlutunum, er lögð áhersla á að verðbólgan nái sem fyrst niður fyrir viðmiðunarmörk Seðlabankans, að stöðugleiki haldist á vinnumarkaði og kaupmáttur launa verði varðveittur, að sjálfbær þróun verði leiðarljós í orku- og atvinnumálum og þróun þjóðlífsins almennt, að tryggja útflutnings- og samkeppnisgreinunum viðunandi starfsskilyrði, að bæta skilyrði til nýsköpunar í atvinnulífinu og til uppbyggingar sprotafyrirtækja og draga úr viðskiptahalla á erlendri skuldasöfnun.

Ekki er nú vanþörf á því, frú forseti, því að stóriðjustefnan, sem hefur verið rekin á undanförnum árum, er að keyra íslenskt efnahagslíf eða íslenskt þjóðlíf, íslenskan þjóðarbúskap, í virkilega alvarlega stöðu. Samkvæmt spá Seðlabankans frá því í desember er gert ráð fyrir því að viðskiptahallinn á árinu 2005 — skuldir þjóðarbúsins mundu aukast um 150–160 milljarða kr. Ef menn halda að álver greiði það upp þá er það mesti misskilningur því að nettóútflutningstekjur af áli eru sáralitlar. Stór hluti af gjaldeyristekjum í áli eru bara innfluttar vörur.

Þessar tillögur miða líka að því að viðhalda stöðugleika í fjármálakerfinu og halda aftur af skuldasöfnun heimilanna. Væri nú ekki betra ef tekið hefði verið tillit til þessa? Ég minnist þess að hafa lesið nýverið að skuldir heimilanna í yfirdráttarheimildum, sem lækkuðu þó nokkuð fyrir einu eða tveimur árum, væru nú að nálgast að mig minnir 70 milljarða kr. sem er þá orðin hærri tala en jafnvel nokkru sinni áður, bara í yfirdráttarskuldum. Og allir vita hversu alvarlegt það er og hvað það segir okkur. Það segir okkur að þegar þenslan í samfélaginu er orðin svona mikil og þegar heimilin eru rekin að svona stórum hluta á yfirdráttarskuldum hlýtur það að vera merki um mjög erfiða og hættulega fjármálastöðu í landinu. Við vöruðum við þessu. Við lögðum ríka áherslu á að jafnvægi þyrfti að nást á nýjan leik í þjóðarbúskapnum. Stefna ríkisstjórnarinnar um aukin álver mun þýða áframhaldandi skuldasöfnun erlendis, hún mun þýða áframhaldandi aukna skuldasöfnun. Ég held að það hljóti að vera okkur öllum áhyggjuefni að þá verður áfram kynt undir neyslu, mikla einkaneyslu langt umfram aukningu þjóðartekna og skuldir þjóðarbúsins vaxa og verða síðan stöðugt hættulegri efnahagslífinu þegar eitthvað bjátar á. Það sem við lögðum til lýtur einmitt að stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar. Þessi tillaga er til meðferðar í þinginu og væri æskilegt að hún kæmi sem fyrst hér til síðari umr. en þar er ályktun Alþingis að fela ríkisstjórninni að grípa til eftirfarandi aðgerða:

Í fyrsta lagi að gefa út formlega yfirlýsingu um að hvorki verði af hálfu opinberra aðila stuðlað að né veitt leyfi fyrir frekari stórvirkjunum né uppbyggingu meiri orkufrekrar stóriðju en þegar er í byggingu, a.m.k. til ársloka 2010. Áhersla verði þess í stað lögð á fjölbreytta smáa og meðalstóra iðnaðarkosti af viðráðanlegri stærð fyrir hagkerfið og aðstæður viðkomandi byggðarlaga.

Frú forseti. Ef þessi yfirlýsing væri gefin mundi þetta kannski breyta hvað mestu. Bara þessi einfalda yfirlýsing að staldra hérna við. Þetta er þveröfugt við það sem ríkisstjórnin er að gera. Hún ætlar einmitt að setja sér að vera búin að byggja þrjú álver til viðbótar fyrir árið 2012, eða tvö ný og stækka eitt. Það er alveg með ólíkindum hvernig stefna núverandi ríkisstjórnar og skemmdarstarfsemi gagnvart íslensku efnahags- og atvinnulífi hefur fengið fram að ganga. Það sem við leggjum áherslu á er einmitt í samræmi við þær ályktanir, yfirlýsingar, viðtöl og greinar sem ég hef verið að lesa hér og vitna til frá fulltrúum samtaka úr atvinnulífinu vítt og breitt, hvort heldur þeir eru frá sjávarútveginum, hátækni- og hugbúnaðargeiranum eða ferðaþjónustunni, er það einmitt þetta sem þeir kalla á.

Síðan koma atriði sem lúta að öðrum þáttum í fjármálastjórninni, að Fjármálaeftirlitið hugi vandlega að áhættumati í bankakerfinu og eiginfjárlágmörkum fjármálastofnana. Það hefur svo komið á daginn að þegar Fjármálaeftirlitið ætlar loksins að fara að reka af sér slyðruorðið varðandi eftirlit með fjármálastofnunum telur það sig ekki hafa nægilegar lagalegar heimildir eða bakgrunn eða stuðning viðskiptaráðherra og löggjafans. Fjármálaeftirlitið hefur hingað til verið eins og bara hluti af liðssveit viðskiptaráðherra í fjármálalífinu og þegar það ætlar að fara að gera eitthvað virðist það vera stoppað af.

Þá er rætt um aukna bindiskyldu og að hún gæti komið til. Vissulega getur hún komið til en í alþjóðlegu samhengi eins og fjármálaheimurinn er núna orðinn er sagt að það sé mjög örðugt.

Við drögum líka fram skattalækkanirnar sem ríkisstjórnin hefur verið að keyra áfram núna sem eru náttúrlega það alvitlausasta í þeirri stöðu sem nú er í efnahagslífinu. Hefur áður verið bent á það og ekki aðeins af okkur heldur m.a. af Seðlabankanum, af þáverandi seðlabankastjóra, Birgi Ísleifi Gunnarssyni, sem benti einmitt á að ríkisfjármálastefna sem felur í sér skattalækkanir sé ekki það heppilegasta þegar um slíka þenslu í tengslum við stóriðjuframkvæmdir er um að ræða.

Síðast en ekki síst viljum við efna til víðtæks samstarfs við aðila vinnumarkaðarins, samtök bænda, neytenda, öryrkja og aldraðra og aðra þá aðila sem efni standa til um að aðgerðir þessar og þátttaka tryggi á ný efnahagslegan og félagslegan stöðugleika.

Þetta gerist ekki, frú forseti, nema það sem við leggjum til í fyrstu töluliðum tillögunnar verði gert því hitt eru bara afleiddar stærðir af því. En númer eitt er að gefa út yfirlýsingu af hálfu opinberra aðila um að hvorki verði stuðlað að né veitt leyfi til frekari stórvirkjana eða uppbyggingu á meiri orkufrekri stóriðju en nú þegar eru í byggingu. Það er sú yfirlýsing, sú stefnumörkun sem nú verður að koma. Allar aðrar aðgerðir til að koma á jafnvægi í efnahagsmálum eða til að styrkja samkeppnisstöðu annarra atvinnugreina eru vonlausar fyrr en þessi yfirlýsing hefur verið gefin. Þetta stendur og fellur með því.

Við ræddum skattamál í utandagskrárumræðu í dag, um það hvernig aukin misskipting er að verða í tekjum og kjörum í samfélaginu. Þessi óráðsía, þessi þróun í íslensku fjármála- og efnahagslífi kom einmitt inn sem hluti af stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar ásamt einkavæðingaráráttunni, sem er hluti af sama meiði, og til þess að ná utan um þetta á ný verðum við að staldra hér við. Þetta eru hinar efnahagslegu forsendur en þær umhverfislegu forsendur sem ég vék að í upphafi eru enn stærri og ekkert síður stór þáttur. Það verður engin sátt í samfélaginu ef ríkisstjórnin ætlar að ganga enn fram í því að efna til nýrra stórvirkjana, til nýrra álbræðslna. Látið er að því liggja, og gott og vel, að Þjórsárver séu sett á ís. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar — græns framboðs höfum einmitt barist fyrir því að Þjórsárver verði friðlýst, að þau verði verndarsvæði og komist á heimsminjaskrá og að svæðið verði mun stærra en nú er verið að tala um. Við hefðum viljað að stjórnvöld gæfu þá yfirlýsingu. Það var alveg hárrétt hjá stjórnarformanni Landsvirkjunar sem sagði: Við hlýðum bara tilmælum eigenda okkar sem eru íslenska ríkið, Reykjavíkurborg og Akureyrarbær. Það ber að skilja svo að ef ríkissjóður, sem er meirihlutaaðili í Landsvirkjun, og Reykjavíkurborg gefa út þá yfirlýsingu að Landsvirkjun hafi gefið frá sér allar hugmyndir um virkjun Þjórsárvera þá mundu þau vafalaust verða að hlýða því og gefa út þá yfirlýsingu. Landsvirkjun hlýðir bara fyrirmælum eigenda sinna.

Það sem við viljum, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar — græns framboðs, er að það komi afdráttarlausar yfirlýsingar frá eigendum Landsvirkjunar um að Landsvirkjun gefi frá sér fyrir fullt og fast væntingar um virkjun Þjórsárvera. Ekki að setja það á ís um ótiltekinn tíma heldur gefa það frá sér þannig að hægt sé að fara að vinna og búa sig undir að styrkja framtíðarstöðu Þjórsárvera sem eru mestu og dýrmætustu náttúruperlur sem þjóðin á og ekki bara þjóðin heldur heimsbyggðin. En með þeirri ógn sem nú hefur verið sköpuð gagnvart náttúru landsins, gagnvart Þjórsárverum þess vegna, með stækkun álversins í Straumsvík, með nýju álveri í Helguvík, með álveri fyrir norðan, þá er ekkert fyrirséð þegar þar að kemur, þegar til kastanna kemur, hvort Þjórsárverum verði hlíft þó að menn friðmælist í augnablikinu með því að segja að þau verði látin á ís. Við fögnum því en sennilega verður staðið gegn því að þetta komist á dagskrá. En hvers vegna gefa eigendur Landsvirkjunar ekki út þá yfirlýsingu, bara nú þegar tilskipun um að Landsvirkjun gefi frá sér allar væntingar um frekari virkjanir í Þjórsárverum? Auðvitað gleðjumst við yfir þeim áfangasigri sem við höfum barist fyrir ásamt heimamönnum ekki hvað síst, heimamönnum sem eiga hlutdeild að máli hvað varðar virkjun Þjórsárvera og hafa náttúrlega staðið sig eins og einstakar hetjur. Ef einhver ætti að fá orðu, ef það þætti merkilegt að fá orðu íslenska lýðveldisins fyrir baráttu fyrir íslenskri náttúru, þá er það fólkið, heimamenn sem hafa barist fyrir verndun Þjórsárvera. Það fólk ætti að fá orðu frekar en einhverjir ráðherrar sem hafa það sem aðalmarkmið og hafa haft að sökkva Þjórsárverum.

Frú forseti. Það er svo einkennilegt þegar verið er að heiðra menn og veita orðu lýðveldisins, sem ég ber fulla virðingu fyrir, að þá veltir maður stundum fyrir sér hvar borið er niður. Hvar er verið að sýna fólkið sem með óeigingjarnri baráttu tekur afstöðu með íslensku náttúru, með landi sínu og þjóð, eins og í baráttunni fyrir Þjórsárverum? Það fólk sem stóð þá hörðu og erfiðu vakt ætti að sæma riddarakrossi hins íslenska lýðveldis. Ættu einhverjir skilið að fá æðstu orðu íslenska lýðveldisins þá eru það heimamenn sem stóðu vaktina þar, lögðu við líf sitt til að berjast fyrir varanlegri verndun Þjórsárvera og uppskera nú að þetta er sett á ís. En baráttan heldur áfram. Það var alveg sérstök lýsingin, frú forseti, á því hvernig forustumenn Landsvirkjunar höfðu níðst á fólkinu þarna fyrir austan, hringjandi í oddvitann í tíma og ótíma og stöðugt með kröfur eða eins og oddvitinn sagði þá var eins og þessir menn skyldu aldrei orðið nei, heldur var áfram níðst á því. Barátta þessa fólks fyrir verndun Þjórsárvera er alveg einstök og þjóðin á eftir að standa í mikilli þakkarskuld fyrir þá einurð, djörfung, seiglu, dugnað, úthald og sýn sem þetta fólk hefur sýnt við að vernda Þjórsárver fyrir þjóðina og framtíðarkynslóðir en fyrst og fremst fyrir náttúruna sjálfa, því það er náttúran sem á réttinn til Þjórsárvera en ekki við. Við erum gestir í náttúruperlum eins og Þjórsárverum.

Sama hug bera Skagfirðingar til Héraðsvatnanna sinna eins og ég hef lýst hér og lesið greinar sem Skagfirðingar hafa skrifað til varnar Jökulsánum sínum, Héraðsvötnunum. Vötnin eru Skagafjörður, sagði Anna Dóra Antonsdóttir. Það er nákvæmlega sami hugur sem Skagfirðingar bera til þessara vatna. Þetta eru náttúruperlur, þetta eru náttúruauðlindir, þetta eru svo dýrmætar perlur sem við höfum engan rétt til að ganga á.

Mín skoðun er sú að Skagfirðingar muni aldrei fela framtíð Héraðsvatna í hendur iðnaðarráðherra Valgerðar Sverrisdóttur. Aldrei. Gegn því munum við berjast. Við berjumst gegn frumvarpinu sem hér er lagt fram, sem felur það í sér, eins og hæstv. ráðherra hefur ítrekað lýst, að gefa rannsóknarleyfi og undirbúa virkjanaleyfi á vötnum Skagafjarðar. Hún lýsti því í umræðum fyrr í vetur, að þetta væri fyrsta skrefið til þess og þeir væru í biðröð sem vildu fá að virkja.

Frú forseti. Ég er sömu skoðunar og við umræðuna fyrr í vetur þegar átti að þröngva þessu máli í gegn fyrir jól, gegnum 2. umr. Hæstv. forseti þingsins tók þá af skarið og frestaði umræðunni. Síðan fór rafmagnið af þinghúsinu til að árétta hve lítil við erum og bara gestir hér á Hótel Jörð. Rafmagnið getur farið þótt við teljum okkur hafa alla mögulega tækni, frú forseti. Þess vegna ber okkur að sýna náttúrunni virðingu. Við höfum engan rétt til að ganga á hana á svo hrokafullan hátt sem hæstv. iðnaðarráðherra ætlar með frumvarpi sínu.

Hér er kvæðið Skagafjörður, forseti, sem ég vil leyfa mér að fara með. Kvæðið Skagafjörður er ort af Guðlaugi J. Lárussyni frá Miðhúsum í Óslandshlíð. Hann fæddist árið 1912 og dó árið 1929. Hann var ekki gamall þegar hann dó. Hann var 15 ára þegar hann orti þetta kvæði og er það eini kveðskapurinn sem hefur varðveist eftir hann svo vitað sé en hann lést 17 ára gamall.

Hann segir í kvæði sínu Skagafjörður, með leyfi forseta:

Skagafjörður, sólbjarta sveitin mín kæra!

Sonarins kveðjuljóð vil ég þér færa,

líta í anda á allt er þig prýðir,

allt það er fegurstu sveitina skrýðir.

Orðin með hjáróma hrynjanda falla.

Hugur minn reynir á svip þinn að kalla

en ljóðin, þau eru svo lélegar sögur –

þegar litið er á hversu myndin er fögur.

Fjölbreytt er landslagið, fljót dynja undir,

fjallshringar, afdalir, rennsléttar grundir,

kviksyndi, valllendi, melar og móar,

mýrafen, háklettar, vatnslindir nógar.

Fossamergð syngur í flugstöllum háum

fram renna lækir í straumiðum smáum.

Suðrænir fuglar þar sumarsins njóta,

svanirnir áfram í loftinu þjóta.

Héraðsvötn fram eftir firðinum líða

fögur og ljómandi héraðið prýða.

Hólminn þar inn frá og Hegranes mynda

uns við hyldýpi sævarins faðmlög þau binda.

Bakkarnir sveipaðir blikandi rósum,

baðast í himinsins skærustu ljósum.

Bæirnir standa í brekkunum fríðum,

búsmalinn unir í grösugum hlíðum.

Skín á iðgræna velli um vorlanga daga,

vefur könguló net sitt í skrúðgrænum haga.

Ráfa hestar og sauðfé um hlíðar og dali.

Heim að stekk rekur kvíærnar léttstígur smali.

Fjallatindar und himinsins heiðbláum feldi

halda vörð fyrir sveit — þegar líður að kveldi,

ljúft, í þögulli hátign, þó heimurinn vaki,

hnígur sólin til viðar að fjallanna baki.

Hversu fagurt er ekki úr fjallshlíðum grænum

fram eftir líta og niður að sænum!

Sólblikur eygja á svífandi bárum,

sæför þar renna und þéttknúðum árum.

Strandfuglar leika í lognboða róti,

lemja þar öldur á sjófægðu grjóti.

Dreymandi vindarnir dreifðum í skýjum

dvelja, uns birtast í stormkviðum nýjum.

Lifðu vel, sveitin mín! Lánið þér fagni.

Láti þér hamingjan allt verða að gagni.

Hylli þig allt það sem efling má veita

ystu frá ströndum til fjarlægstu sveita.

Lítill ég undi við blómfaðm þinn bjarta

brennandi ást vakti það mér í hjarta.

Bernskunnar endurskin í þér má finna

ástmögur fegurstu draumanna minna.

Þetta var óður Guðlaugs J. Lárussonar til Skagafjarðar og vatna Skagafjarðar.

Það fer vel á að ljúka þessari fyrri ræðu minni með vísu Stefáns Vagnssonar sem undirstrikar vötnin, jökulárnar og vötnin í Skagafirði, þýðingu þeirra fyrir lífríki, fyrir lífæðar Skagafjarðar, hvort sem litið er til lífríkisins, menningar eða daglegs lífs. Héraðsvötnin eru ekki eitthvað sem á að vera leiksoppur iðnaðarráðherra á Alþingi, sem hefur það eitt að markmiði að virkja og sökkva til þjónustu við álæði sitt. Þetta eru Þjórsárver okkar fyrir norðan og ég hygg að sama muni Þingeyingar segja um Skjálfandafljót og vatnasvæði Skjálfandafljóts. Þeir vilja varla fela það í hendur hæstv. iðnaðarráðherra sem hefur það helsta metnaðarmál að virkja vatnsföll landsins til þess að byggja þrjár nýjar álbræðslur og koma Íslandi á það kort að verða langstærsta álframleiðsluland í heiminum. Héraðsvötnin eiga ekki að vera leiksoppur í því tafli.

Ég lýk fyrri ræðu minni með vísu Stefáns Vagnssonar frá Hjaltastöðum, sem ég hef áður farið með sem hefst á setningunni „Meðan „Vötnin““ — „Vötnin“ með stórum staf, frú forseti. „Vötnin“ eru það sem við Skagfirðingar köllum Héraðsvötn.

Meðan „Vötnin“ ólgandi' að ósum sínum renna,

iðgrænn breiðist gróður um sléttur, hæð og laut,

geislar árdagssólar á bröttum tindum brenna,

blessun Drottins ríkulega falli þér í skaut.

Meðan þetta gerist, meðan „Vötnin“ fá að renna að ósum sínum, ólgandi, mun blessun Drottins ríkulega falla þér í skaut. Þetta eru orð Stefáns Vagnssonar frá Hjaltastöðum til Héraðsvatna, til okkar allra sem erum gestir á þessari jörð. Lýk ég þar með fyrri ræðu minni um þetta mál, frú forseti.