132. löggjafarþing — 54. fundur,  30. jan. 2006.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[15:30]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Við erum að fjalla um mál sem er mjög umdeilt. Það er staðreynd að ábyrgðarmaður þessa frumvarps, hæstv. iðnaðarráðherra, fór með rangt mál þegar 2. umr. um það fór fram í þinginu. Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs óskuðu eftir því að hlé yrði gert á umræðu um málið og því skotið fram yfir helgina. Á það var ekki fallist og ég verð að segja að það var dapurleg stund þegar ég sá ríkisstjórnarflokkana, Framsóknarflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn, fallast í faðma við Samfylkinguna og Frjálslynda hér á þingi og sameinast um að styðja tillögu ríkisstjórnarinnar um að málið fengi flýtiafgreiðslu hér fyrir helgina (Forseti hringir.) þvert á óskir okkar og vilja og, að því er ég tel, samkomulag sem við höfðum gert okkar í milli. Það var ekki undirritað (Forseti hringir.) en það var engu að síður samkomulag sem stundum er kennt við drengskap.