132. löggjafarþing — 54. fundur,  30. jan. 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[18:46]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ekki rétt sem hv. þingmaður segir að við hefðum getað sótt um undanþágu frá tilskipuninni. Þetta veit ég. Ég fór sérstaka ferð til Brussel þegar umræðan var sem heitust hérlendis og átti fundi með embættismönnum þar. Þar kom ljóslega fram að ekki var um það að ræða að komast undan því að innleiða tilskipunina. Af hverju skyldum við líka gera það? Sumir eru náttúrlega hræddir við allar breytingar en ég er það ekki. Ég er sannfærð um að það var rétt að gera þessar breytingar og ekkert um annað að ræða heldur. Þetta er búið að vera viðloðandi í fleiri ár að þurfa að svara þessum spurningum og eiginlega ekki að svara spurningum heldur fær maður bara fullyrðinguna: Þetta þurfti ekki. Það er hins vegar ekki rétt. (Gripið fram í.)