132. löggjafarþing — 54. fundur,  30. jan. 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[18:51]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég veit ekki hvað maður á að halda lengi áfram með þetta sama svar að við erum á innri markaðnum og þetta er tilskipun sem kemur frá Brussel. Það vill bara svo til að það er í Brussel sem hlutirnir gerast hjá Evrópusambandinu. Við áttum engan annan kost en að innleiða þessa tilskipun. Enda var allt í góðu lagi með það. Að einhverjir ábyrgir aðilar hafi talað um að rafmagnsverð mundi lækka eitthvað sérstaklega við Kárahnjúkavirkjun er eitthvað sem ég kannast ekki við. (ÖJ: Noh!) Rafmagnsverð almennt er óháð Kárahnjúkavirkjun vegna þess að hún selur raforkuverð til álvers í Reyðarfirði. (Gripið fram í.)

Varðandi samkeppnina og að við séum á þessum einangraða markaði er það vissulega rétt að raforkumarkaður okkar er ekki tengdur við Evrópu. Við erum hins vegar í mikilli samkeppni engu að síður vegna þess að við seljum meiri hlutann af rafmagni okkar til stóriðjunnar í samkeppni við sölu til stóriðju annars staðar í heiminum. (KolH: Og það er verið að bjóða það á Afríkuverði.) Við þurfum að taka það líka með í reikninginn í þessu sambandi, að við erum í samkeppni með það raforkuverð sem við seljum til stóriðjunnar. Vegna þess að við getum boðið upp á samkeppnishæft verð til stóriðju er m.a. verið að byggja stóriðjuver á Íslandi sem fólkið í landinu er mjög ánægt með. Yfir helmingur þjóðarinnar er mjög ánægður með þá stóriðju sem er til staðar í dag og meira en helmingur þjóðarinnar vill halda áfram á þeirri braut. (Gripið fram í.) Það eru um 10%, u.þ.b. fylgið við Vinstri græna, (Forseti hringir.) sem eru á móti, ákveðið á móti. (Gripið fram í: Flott.)