132. löggjafarþing — 54. fundur,  30. jan. 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[19:16]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Kjartan Ólafsson talar tæpitungulaust fyrir hönd flokks síns og ég get tekið undir að það sé hægt að meta það. Hins vegar finnast mér tíðindin afar váleg og mér finnst þau geta gefið það til kynna að það sé mun styttra í það en margan grunar að Rafmagnsveitur ríkisins hf. verði settar á sölulista. Við þekkjum, eins og ég sagði í ræðu minni, sporin og þau hræða og ég sé ekki betur en hæstv. ráðherra sé í sjálfu sér að gefa því undir fótinn í grein sinni í Morgunblaðinu 1. desember að það sé svo sem hægt að selja þetta hlutafélag Rarik þegar það er talið henta, því að það þarf bara einfalda meirihlutasamþykkt Alþingis fyrir því að gera slíkt, segir hæstv. ráðherra í grein sinni.

Varðandi það sem hv. þingmaður sagði að við gætum verið svo stolt af, þ.e. að Stoltenberg forsætisráðherra Noregs skyldi hafa talað um íslenska efnahagsundrið í ræðu í Ósló fyrr í vikunni þá er það rétt, við vorum þar stödd saman á vettvangi Norðurlandaráðs. Jens Stoltenberg flutti þarna ræðu þar sem hann var að lesa í mælistikurnar sem hv. þm. Kjartan Ólafsson gerir að umtalsefni í ræðu sinni. Skömmu seinna sama dag fór í mínum flokkahópi fram mikil umræða um einmitt þessar mælistikur sem eru taldar vera afar gagnslitlar því að við getum sjálf skoðað mælistiku OECD sem er að mæla Ísland í efstu sætunum í einhverjum efnahagsvexti á sama tíma og fyrirtæki eru að flýja land. Ferðaþjónustan kvartar undan hágengisstefnunni, stóriðjustefnunni er kennt um. Iðnfyrirtækin kvarta undan háu rafmagnsverði, 50% hækkun upp á síðkastið.

Herra forseti. Það er alveg ljóst hvað veldur þessum ruðningsáhrifum, (Forseti hringir.) sökin er hjá stóriðjunni sem hv. þingmaður er svona hrifinn af.