132. löggjafarþing — 55. fundur,  31. jan. 2006.

Tóbaksvarnir.

388. mál
[17:03]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Sá er kjarni málsins, virðulegi heilbrigðisráðherra, að hlífa þeim sem ekki reykja eða vilja vera innan um reyk við óbeinum reykingum og hvers konar reykingum. Það er samt hægt að ná því markmiði með öðrum og mildari hætti en þessum. Ég tel að hið fortakslausa bann sem hér er lagt til brjóti gegn eignar- og atvinnuréttarfrelsi og brjóti að mörgu leyti í bága við friðhelgi einkalífsins. Ef hópur manna vill t.d. halda fund eða snæða saman þar sem enginn viðstaddra gerir athugasemd við að sé reykt og allir eru upplýstir um skaðsemi óbeinna reykinga er það að mínu mati löggjafanum óviðkomandi.

Það er einkamál þeirra sem í hlut eiga og á ekki að vera lögreglumál eins og gert er verði þetta frumvarp að lögum þar sem allt of hart er gengið fram að mínu mati.