132. löggjafarþing — 55. fundur,  31. jan. 2006.

Tóbaksvarnir.

388. mál
[17:07]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, hæstv. heilbrigðisráðherra er sanngjarn maður. Það er þannig að Samtök ferðaþjónustunnar báðu í ályktun sinni einmitt um aðlögunartíma til 2007. Ráðherra hefur orðið við því og það er auðvitað mjög gott. Hinu má samt ekki gleyma, að þrýstingur kemur frá samtökum eins og Eflingu þar sem fjöldi starfsmanna á veitingastöðum er innan Eflingar og Matvíss, og bæði þessi félög hafa ályktað með frumvarpinu og vilja sjálfsagt fá það fram sem fyrst vegna hagsmuna þeirra sem vinna þar innan dyra. Maður þarf líka að vera sanngjarn gagnvart þeim.

Ég geri svo sem engar athugasemdir við þennan aðlögunartíma en mér finnst samt koma til greina að stytta hann af því að ég tel málið svo gott.

Ég vil nýta tækifærið í þessu seinna andsvari til að spyrja hvort það sé ekki rétt skilið, vegna orða sem fallið hafa hér um þessi reykherbergi sem einungis Svíar hafa notast við, ekki hinar þjóðirnar almennt sem hafa tekið upp reykbann, að Samtök ferðaþjónustunnar vilji ekki slík reykherbergi af því að þau telji þau samkeppnishamlandi.