132. löggjafarþing — 55. fundur,  31. jan. 2006.

Tóbaksvarnir.

388. mál
[18:21]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það má lengi teygja þennan lopa. Það brýtur enginn rúðu í tóbaksæði, eins og ritstjóri nokkur sagði um árið þegar menn rökræddu um skaðsemi einstakra vímuefna. Það má lengi deila um það.

Að sjálfsögðu eru það engin rök gegn skaðsemi áfengis að það skaði ekki með sama hætti og tóbak. Auðvitað rústar það mörgum fjölskyldum og mörgum mannslífum. Allir vita ef hægt væri að færa heilsufræðileg rök fyrir einhverju fíkniefnabanni þá ætti það við um áfengið. Það vita allir. Þannig láta margir lífið á hverju ári og væri hægt að fara á bólakaf í bullandi sentímentalisma og nafnatalningar ef menn kærðu sig um það eða hefðu smekk fyrir því.

En ég kalla eftir því að ekki verði farin svo stíf stjórnlyndis- og forsjárhyggjuleið þar sem fortakslaust bann er lagt til. Mér þætti betra að fara leið sem ná mundi sama markmiði, þ.e. að þeir sem ekki reykja og ekki vilja vera í tóbaksreyk séu verndaðir fyrir honum. En um leið mundu menn virða eigna- og atvinnufrelsi manna til að koma saman og bjóða upp á slíkt ef allir þar eru upplýstir um skaðsemi reykinga og enginn þjónusta á sér stað í rýminu. Af hverju má ekki veitingamaður sem á húsið bjóða gestum sem það kjósa upp á að koma þar saman og reykja og gera hvað sem er annað, ef það skaðar ekki nokkurn annan mann eða enginn þjónusta er veitt á svæðinu, svo dæmi sé tekið? Það er hægt að fara miklu mildari leiðir til að ná markmiðinu fullkomlega. Það er ég alveg sannfærður um.

Auðvitað er sjálfsagt að banna reykingar í opnu rými þar t.d. tónlistarmenn spila, eins og vísað var mjög sterklega til áðan. Ég er undrandi að heyra hv. þm. Ástu Möller tala fyrir svo ákafri forsjárhyggju sem hér um ræðir. Trú hennar á markaðinn virðist engin í þessu máli.