132. löggjafarþing — 55. fundur,  31. jan. 2006.

Tóbaksvarnir.

388. mál
[20:23]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég heyri að hv. þingmaður er alveg sammála okkur sem höfum talað með þessu máli. Hann vill vinnuverndina. Hann er sammála því að aðrir eigi ekki að þurfa að anda að sér reyk frá öðrum. En honum finnst of langt gengið og spyr hver kalli eftir þessu fortakslausa banni. Mig langar að benda hv. þingmanni á að allur heilbrigðisgeirinn eins og hann leggur sig — hann er nú ekki alltaf sammála — kallar eftir þessu fortakslausa banni og sömuleiðis allir hagsmunaaðilar, t.d. veitingamenn og þeir sem reka ferðaþjónustu. Þeir hafa ályktað um að þeir vilji fara þessa leið sem lögð er til í þessu máli. Þar sem hv. þingmaður er alveg sammála í raun grundvallaratriðum þessa máls, vinnuverndinni og því að aðrir þurfi ekki að anda að sér reyknum, sé ég því ekki annað en að hann geti orðið sammála þessu máli þegar upp er staðið og samþykki það þegar það kemur frá heilbrigðis- og trygginganefnd.