132. löggjafarþing — 55. fundur,  31. jan. 2006.

Tóbaksvarnir.

388. mál
[20:49]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir 1. umr. um málið áður en það gengur til heilbrigðis- og trygginganefndar og taka undir að hún hefur verið málefnaleg og verður málinu vonandi til framdráttar. Það eru nokkur atriði sem hafa komið fram í umræðunni sem ég vil fara yfir.

Í fyrsta lagi komu fram alvarlegar ásakanir á hendur ráðuneytinu og Lýðheilsustöð um að þar hafi ýmsu verið leynt og annað dregið fram. Ég vísa þessum ásökunum á bug. Í greinargerð frumvarpsins er frumvarpið rökstutt og það er eðlilegt að greinargerð Lýðheilsustöðvar sé fylgiskjal frumvarpsins af því að hún er ekki unnin í ráðuneytinu, hún er unnin í Lýðheilsustöð. Það er því eðlileg uppsetning. Þar eru einnig dregin fram rök fyrir málinu og lögð fram hér til vinnu í hv. Alþingi eins og venja er.

Einnig hafa komið alvarlegar ásakanir á hendur vísindamönnum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, að þeir hafi stungið undan niðurstöðum rannsóknar af því að þeim líkuðu þær ekki. Ég vil taka það fram að Alþjóðaheilbrigðisstofnunin gaf út fréttatilkynningu um viðkomandi rannsókn. Rannsóknin bendir í sömu átt og aðrar rannsóknir í þessu efni en hún þótti ekki nógu marktæk tölfræðilega til þess að nota hana og það sýnir auðvitað að Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur mikinn metnað í þessu efni og lætur ekki frá sér niðurstöður nema það sé búið að fara yfir þær, hún var send til yfirferðar á venjulegan hátt hjá vísindatímariti og bendir í sömu átt og fjölmargar og flestar aðrar rannsóknir í þessu efni. Ég vil því einnig vísa þessum fullyrðingum á bug.

Það hefur verið rætt um eftirfylgni laganna sem gilda núna. Það er alveg ljóst að það hafa verið vandkvæði á að fylgja þeim eftir eins og fram hefur komið. Það hafa verið vandkvæði vegna þess m.a. að litlir veitingastaðir eiga í vanda með að fylgja því eftir að hafa reyklaus svæði. Þeir eru í meiri vanda en stórir veitingastaðir og m.a. þess vegna hafa þessi vandkvæði komið upp. Þróunin hefur alls staðar verið sú að þó að það hafi verið byrjað að halda frá reyklausum svæðum þá hafa reykingar verið bannaðar á öllum svæðum síðar.

Varðandi starf heilbrigðis- og trygginganefndar vinnur heilbrigðis- og trygginganefnd að sjálfsögðu að yfirferð á frumvarpinu á samviskusamlegan hátt eins og nefndin er vön að gera. Nefndin hefur sjálfsögðu algjörlega frjálsar hendur í því að fara yfir þær rannsóknir sem frumvarpið byggist m.a. á. Ég hef nú ekki trú á því að heilbrigðis- og trygginganefnd muni sanna með því skaðleysi óbeinna reykinga, en nóg um það.

Hér var spurt: Hver var að kalla eftir fortakslausu banni? Í sambandi við það vil ég segja og undirstrika það sem reyndar kom fram í andsvari hv. 4. þm. Reykv. s., að innan heilbrigðisgeirans er algjör samstaða um þetta mál. Það er ekki samstaða um allt þar, það er alveg rétt, en menn hafa ekki deilt um skaðsemi reykinga þó að hér hafi komið fram mismunandi sjónarmið og mismunandi tilvitnanir í rannsóknir um skaðsemi óbeinna reykinga.

Hér er spurt: Er málamiðlun möguleg? Málamiðlun var reynd síðast og tekin frá reyksvæði á veitingahúsum en það hefur ekki reynst vel, eins og hér hefur fram komið. Frumvarpið er byggt á vinnuvernd, ég hef rakið það áður, til að efla vinnuvernd, og auðvitað eru í frumvarpinu skilaboð um skaðsemi reykinga og skaðsemi óbeinna reykinga, ég ætla ekki að draga fjöður yfir það. Reykingar hafa farið minnkandi hér á landi og vonandi stuðla þau skilaboð sem felast í þessu frumvarpi að því að reykingar minnki enn. Reykingar eru bannaðar hér á fjölmörgum stöðum, m.a. á flestum stöðum eða öllum í þessu húsi og ég held að engar raddir heyrist um að taka þann sið upp aftur hér.

Varðandi skert réttindi finnst mér 11. þm. Reykv., Birgir Ármannsson, sem hélt hér ágæta og málefnalega ræðu, vera kominn nokkuð langt í rökstuðningi ef hann telur að þetta frumvarp banni mönnum að safnast saman í einkahúsnæði til þess að prófa vindla. Ég sé ekki að þetta frumvarp taki nokkuð á því og menn geti gert það — ef það er ekki veitingastaður. Ef klúbburinn kemur saman á veitingastað þá tekur þetta frumvarp á því en (BÁ: Mega þeir borga fyrir kaffið?) að sjálfsögðu bannar frumvarpið ekki reykingamönnum að safnast saman í einkahúsnæði til þess að prófa vindla.

Frumvarpið fer nú til vinnslu hér og ég endurtek að ég á von á því að heilbrigðis- og trygginganefnd afli þeirra upplýsinga sem nefndarmönnum þykir þurfa í því sambandi. Frumvarpið liggur fyrir og ég veit að það verður unnið af mikilli samviskusemi hér í hv. Alþingi. Til þess eru frumvörp lögð fyrir þingið að fá þar yfirferð og vinnu og krítík og ég veit að svo verður einnig nú. En ég vona að málið verði afgreitt og komi fyrir þingið aftur áður en við skiljum í vor.