132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Samningurinn um líffræðilegan fjölbreytileika.

[10:50]
Hlusta

Kjartan Ólafsson (S):

Frú forseti. Eins og umhverfisráðherra rakti áðan er ljóst að á margan hátt stendur Ísland vel þegar horft er til líffræðilegrar fjölbreytni. Margt hefur verið vel gert.

Eitt langar mig að gera að sérstöku umfjöllunarefni hér og það er rannsóknarverkefnið Botndýr við Íslandsmið, eða BIOICE, sem er eitt stærsta dæmið um öflugt starf að rannsókn um líffræðilega fjölbreytni hér við land. Þótt þess sé ekki mikið getið í skýrslu Ríkisendurskoðunar er ástæða til að fara sérstaklega yfir það.

Verkefnið hófst árið 1992 og nú styttist í að því ljúki. Eins og fram kemur í nýlegri skýrslu um verkefnið eru helstu markmið þess að rannsaka hvaða botndýrategundir lifa innan íslenskrar efnahagslögsögu og skrá útbreiðslu þeirra, magn og tengsl þeirra við aðrar lífverur sjávar. Sýnatökum vegna rannsóknarverkefnisins lauk árið 2004 eftir 19 leiðangra á þremur rannsóknaskipum. Tekin voru alls 1.390 sýni á tæplega 600 stöðum innan efnahagslögsögunnar á 20–3.000 metra dýpi. Yfir 90% sýnanna hafa verið flokkuð, alls 4,2 milljónir dýra í um 50 hópa og fylkingar og hafa sýnin farið í alls um 60 þús. ílát. Um 2,7 milljónir dýra hafa verið sendar til um 150 sérfróðra innlendra og erlendra dýrafræðinga til rannsóknar, en að verkefninu kemur fjöldi einstaklinga og stofnana, bæði innlendra og erlendra.

Verkefnið er unnið á vegum umhverfisráðuneytisins, en framkvæmdir annast Hafrannsóknastofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands, Líffræðistofnun Háskólans, Sjávarútvegsstofnun Háskóla Íslands og Sandgerðisbær, en þess má geta að framlag Sandgerðisbæjar í þessu sambandi hefur verið mikilvægt. Bærinn útvegaði m.a. húsnæði og hefur sýnt verkefninu mikinn áhuga (Forseti hringir.) og stuðning. Er það vel.